Þórhildur Ólafsdóttir, rithöfundur og doktor í frönskum bókmenntum og málvísindum, hefur búið í Strasbourg í Frakklandi í áratugi. Hún rifjar upp jólahald bernsku sinnar á Íslandi og gefur innsýn í franska siði.
Þórhildur Ólafsdóttir, rithöfundur og doktor í frönskum bókmenntum og málvísindum, hefur búið í Strasbourg í Frakklandi í áratugi. Hún rifjar upp jólahald bernsku sinnar á Íslandi og gefur innsýn í franska siði.
Mynd / aðsendar
Viðtal 19. desember 2025

Skínandi ljós í langri myrkurtíð

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Þórhildur Ólafsdóttir, rithöfundur og doktor í frönskum bókmenntum og málvísindum, hefur búið í Strasbourg frá árinu 1988. Hún rifjar upp jólahald bernsku sinnar á Íslandi og lýsir því hvernig fjölskyldan heldur hátíðina í Frakklandi, um leið og hún horfir yfir heimssviðið.

„Þegar ég var lítil fannst mér jólin vera dásamlegur tími, skínandi ljós í langri myrkurtíð vetrarins,“ segir Þórhildur Ólafsdóttir, aðspurð um hvað jólin merki fyrir henni. Jólaboðskapurinn tákni endurkomu ljóssins í fleiri en einum skilningi. „Fæðing Jesú er falleg saga sem verður til svo okkur mönnunum líði betur. Hún segir okkur að sólin og birta hennar munu koma aftur, við verðum ekki alltaf í myrkrinu, eins konar andleg hressing.“

Þórhildur rifjar upp að hennar kærustu jólaminningar lúti að öllu sem tengist aðfangadagskvöldi: „Ég get galdrað myndir, hreyfingar og orð fram úr hugskoti mínu, sennilega eru það mörg aðfangadagskvöld sett saman í eitt.

Fyrst kom allur undirbúningurinn. Ólöf amma reykti lambakjöt í litlum reykkofa niður í hallanum fram af húsinu og við borðuðum þetta hangikjöt á jólunum, með kartöflujafningi og grænum baunum, kannski einhverju fleira en ég er ekki viss. Held að oftast hafi maltöl verið drukkið með, malt og appelsín síðar. Rjúpur voru bannvara á heimilinu, engum hefði dottið í hug að borða þær, að skjóta og éta þennan fugl sem barðist við að lifa veturinn af fannst fólkinu jaðra við glæp. Ég hef aldrei borðað rjúpu og býst ekki við að gera það héðan af.“

Hún lýsir því hvernig jólatréð var skreytt á aðfangadag og móðir hennar setti upp „jólahúsið“ sitt. „Það var smíðuð kirkja með mörgum gluggum og lýst upp með peru sem sett var inn í kirkjuna. Skreytt að utan með snjóhvítri bómull og jólasveinum sem hún bjó líka til, sumir voru á skíðum man ég. Mamma var mikil föndurog hannyrðakona, fannst óskaplega gaman að gera eitthvað svona og þegar jólahúsið var komið upp þá voru jólin alveg að koma! Mamma hélt áfram að setja þetta jólahús upp eftir að þau pabbi voru flutt til Reykjavíkur og barnabörnin höfðu gaman af því líka,“ segir hún.

Allir jólafötin fyrir klukkan sex

Hátíðin byrjaði á mínútunni klukkan 18.00 þegar jólin voru hringd inn í útvarpinu. Þá urðu allir að vera búnir að klæða sig í jólaföt.

„Ég og systir mín, Þorbjörg, fylgdumst með hangikjötssuðunni og hátíðaklæddum litlu bræður okkar, Kristin og Berg, meðan amma og mamma voru í fjósinu því ekki var hægt að láta kýrnar bíða þar til jólahald var afstaðið. Þær reyndu alltaf að vera komnar inn fyrir sex til að heyra þegar jólin væru hringd inn og fyrsti sálmurinn í messunni sunginn, mig minnir að það hafi verið „Í dag er glatt í döprum hjörtum“. Kannski er það enn þá svo. Um daginn opnaði ég gömlu sálmabókina mína af handahófi og sá að það var einmitt þessi sálmur sem kom upp, það fannst mér nokkuð sérstakt, mér þykir vænt um þennan sálm,“ segir hún.

Að Þórhildar sögn finnst henni sem alltaf hafi verið mjög glatt hjá fjölskyldunni í aðdraganda jóla, á jólahátíðinni og fram yfir nýár. „Það er þessi gleði sem hefur fylgt mér í minningunni. Föðursystir mín, sem var einhleyp og bjó í Reykjavík, Imma, kom alltaf og hélt jólin með okkur og okkur fannst mjög gaman að hafa hana hjá okkur.“

Þórhildur segist ekki vera mikil jólaskrautsmanneskja. Í fórum hennar leynast þó jólalegir hlutir sem henni eru einkar kærir og hún stillir upp í aðdraganda jóla.

Bækur voru besta gjöfin

Þórhildur er fædd árið 1953 á Hvammstanga en ólst upp á Syðri-Ánastöðum á Vatnsnesi, í stórfjölskyldu, eins og það er nú kallað.

„Á heimilinu voru föðuramma mín, Ólöf, og föðurafinn, Þórhallur, langamma Ingibjörg (hún dó þegar ég var tíu ára), mamma, pabbi (Halldóra og Ólafur) og við systkinin sem vorum fimm alls, þrír strákar og tvær stelpur. Litla örverpið, Júlíus, fæddist þegar ég var tólf ára. Við systurnar vorum elstar, ég var barn númer tvö.

Við vorum alltaf mjög spennt af því að það biðu svo margir pakkar eftir að við opnuðum þá. Við fengum alltaf að opna einn pakka hvert fyrir matinn svo fullorðna fólkið gæti borðað í friði. Á eftir hangikjötinu var svo hrísgrjónagrautur með möndlu, sá sem fékk möndluna var oftast pabbi, hann var svo heppinn sögðum við. Möndluhafinn fékk verðlaun, mér finnst að það hafi verið sælgæti,“ lýsir hún.

Svo voru pakkarnir opnaðir. „Mér fannst óskaplega gaman að fá bækur. Ein jólin fékk ég níu bækur úr pökkunum, ég man að fólkið talaði um að ég hefði nú loksins nóg að lesa. Kristinn bróðir minn fékk mikið af litlum bílum, Matchboxbílum svokölluðum, mér fannst gaman að leika mér með honum og búa til alls konar heima með því að nota þessa litlu bíla. Ég erfði tvo eða þrjá eftir hann og hef einn á skrifborðinu mínu svo ég sjái hann á hverjum degi til að minnast Kristins, en hann dó 28 ára gamall.“

Ekkert mátti gera á jóladag

Hún tiltekur að alltaf hafi verið hlustað á jólamessuna síðar um kvöldið. „Þegar sjónvarpið kom (ég held að ég hafi verið 12 eða 13 ára) var horft og hlýtt með andakt á biskupinn og spáð í ræðu hans á eftir, hvort hún hefði verið góð, hvað hann hefði sagt. Síðan kom kakó með jólasmákökum, kannski appelsínur og epli og svo var farið í háttinn. Ég man að ég las lengi fram eftir í nýju bókunum mínum.

Á jóladag mátti helst ekkert gera, það var hinn heilagi dagur jólanna. En svo var farið að spila á spil, amma og afi voru mjög dugleg að spila við okkur krakkana, vist, manna, rommí, ólsen ólsen og fleira. Oftast var það vist og mikið fjör í spilunum, amma var sérstaklega skemmtileg og áköf spilakona og smitaði alla með því.“ Þórhildur bætir við að sjónvarpið hafi breytt hátíðinni dálítið því eftir tilkomu þess var minna spilað á kvöldin.

Búrgosinn og púkkið

„Milli jóla og nýárs var farið í jólaboð að Helguhvammi þar sem mamma var alin upp og stundum fórum við líka í jólaboð að YtriÁnastöðum, þar sem frændfólk okkar bjó.

Gamlárskvöldinu man ég minna eftir. Þá var held ég alltaf borðað lambalæri og svo var spilað púkk sem allir á heimilinu tóku þátt í, það var mjög spennandi því það var ekki spilað í annan tíma. Aðeins tvo daga á ári, á gamlárskvöld og svo á þrettándanum, 6. janúar. Kaffibaunir voru notaðar sem spilapeningar og svo litlir pappaferningar í stað seðla. Sjálft púkkborðið var búið til úr pappa og alltaf tekið fram fyrir gamlárskvöldið. Ég man hvað mér fannst orðið „búrgosi“ skrýtið, en það var notað um laufagosann. Líklega komið af orðinu franska bourgeois. Ég uppgötvaði löngu síðar að púkkið var áreiðanlega komið af spilinu franska Le Nain jaune (guli dvergurinn) en sjálfsagt búið að fara í gegnum önnur lönd áður en það kom til Íslands og taka einhverjum breytingum,“ útskýrir hún.

Svo var beðið eftir að klukkan yrði tólf og þá kysstust allir og óskuðu hver öðrum gleðilegs árs og þökkuðu fyrir það gamla. Þórhildur hnýtir við að einstöku sinnum hafi verið gestir hjá þeim á gamlárskvöld, einhverjir fjölskylduvinir eða frændfólk úr nágrenninu, t.d. frá Hvammstanga.

„Á þrettándanum reyndum við að hafa smá brennu ekki langt frá bænum, til að „brenna út jólin“ eins og amma kallaði það. Ég man að mér fannst brennan aldrei vera nógu stór,“ bætir hún við.

Bûche de Noël, hefðbundin jólakaka Frakka, sem nefna mætti lurk upp á íslensku. Mynd/Wikimedia
Myrkrið úti – ljósið inni

„Það sem er mér sérlega minnisstætt frá þessum tíma er myrkrið allt í kring um húsið, eða bæinn eins og það var kallað. Okkar bæ. Og svo birtuna inni, kertaljósin og rafmagnsljósin sem komu þegar ég var eitthvað svona fjögurra ára. Ég man örlítið eftir þessari breytingu, mönnunum sem voru að vinna við rafmagnið og þegar hægt var að kveikja ljósin. En myrkrið úti var svo alltumlykjandi á þessum tíma ársins, svo sterkt mótvægi við birtu sumarsins. Mér finnst eins og lífið í sveitinni á þessum tíma hafi algerlega skapast af árstíðunum.“

Eitt ljós átti að loga í húsinu á jólanótt. „Ég held að það hafi verið svo. Á gamlárskvöld fórum við út á tröppur til að gá hvort við sæjum ljósið frá gamlársbrennum hinum megin við Húnaflóann, til dæmis á Drangsnesi. En það var ekki hægt nema í mjög heiðskíru veðri,“ segir hún jafnframt.

Jól um víðan völl

Þórhildur fór í heimavistarskóla á Reykjum í Hrútafirði þegar hún var þrettán ára og svo í Menntaskólann við Hamrahlíð.

„Ég kom alltaf heim til að vera með fjölskyldunni um jólin og fannst það alltaf jafngott og gaman. Þegar ég var tvítug fór ég svo til Frakklands í nám og eftir það hef ég lítið verið á Íslandi, ef frá eru talin sex ár á níunda áratugnum þegar ég kenndi við Háskóla Íslands (1982–1987). Ég kynntist manninum mínum á námsárunum, hann heitir Necmi og er tyrkneskur Miðjarðarhafsstrákur frá borginni Antalya. Við bjuggum fyrst í Orléans, síðan þessi ár í Reykjavík en fluttum alfarin til Strasbourg í janúar 1988. Þá fór ég að vinna í Evrópuráðinu þar sem ég var í aldarfjórðung, fór svo á eftirlaun þaðan og fór eftir það að skrifa dálítið,“ lýsir hún.

Hún heldur upp á jólin heima í Strasbourg með litlu fjölskyldunni sinni, eiginmanni, dóttur (Özden Dóru) og dóttursyni (Edgar Tristan). „Við erum ekki sérstaklega mikið jólafólk en höfum alltaf haldið upp á aðfangadagskvöldið, sá siður er auðvitað kominn frá mér og mínum barnajólum. Góður matur og gjafir. Við borðum líka saman á jóladag.

Í fullorðinslífinu hef ég reynt að halda við ýmsum jólasiðum úr bernsku minni, finnst það vera skylda mín að halda áfram að koma þeim til skila til dóttur minnar og hún er ánægð með það, hefur líka fengið þessa siði beint frá ömmu sinni og afa á Íslandi,“ segir hún.

Jólahald Þórhildar hefur verið á ýmsum stöðum í gegnum árin. Í Orléans, í Reykjavík á níunda áratugnum og síðan í Strasbourg. „Stundum fórum við til Íslands og héldum jólin með mömmu og pabba. Við höfum líka haldið jól í London þegar dóttir okkar bjó þar, í Antalya í Tyrklandi fyrst maðurinn minn er ættaður frá þessari Miðjarðarhafsborg sem hefur, eins og Ísland, orðið túrismanum að bráð á síðustu þrjátíu árum.“

Ýmislegt birtist á aðventunni

Þórhildur kveðst ekki skreyta mikið fyrir jól. „Ég hef það þannig að smátt og smátt á aðventunni set ég upp ýmsa hluti sem ég hef eignast um ævina og tengjast jólunum, oftast þá sömu. Þeir eru eins og gamlir vinir þegar þeir birtast í húsinu, hafa sína staði. Bæði mamma og systir mín voru miklar föndur- og hannyrðakonur og frá þeim á ég ýmsa fallega hluti sem ég nota til jólaskreytinga. Sumt hef ég gert sjálf.

Einnig á ég fallegar, litlar styttur sem tákna Maríu, Jósef og Jesúbarnið, dýrin við jötuna og vitringana þrjá, sem koma frá Suður-Ameríku og Afríku, og mér finnst mjög gaman að stilla þeim upp í desember. Svo set ég upp jólaseríur og kveiki á kertum á kvöldin. Jólatréð er ekki skreytt fyrr en á Þorláksmessu eða jafnvel á aðfangadag. Mér finnst aðventan vera góður og hlýlegur tími.“

Jólum fylgir söknuður

Þórhildur segir að sér hafi oft liði illa á jólum. „Þá sakna ég fjölskyldunnar og sérstaklega þeirra sem fóru allt of fljótt, tveggja bræðra minna sem báðir létust fyrir þrítugt með nokkurra ára millibili, tengdasonar míns enska, hans Alex, sem dó þrjátíu og sex ára gamall.

Eftir að mamma og pabbi dóu árið 2013 langaði mig alls ekki til að halda jól en gerði það samt, ekki heldur eftir að systir mín dó fyrir nokkrum árum. Ég saknaði hennar mjög mikið og geri enn, við vorum duglegar við að spjalla saman í síma og minnast á ýmislegt gamalt. En maður verður að halda áfram, það er bara svo, fyrst að lífið heldur áfram og öll hjól snúast þá verður maður að fylgja með. Og áföllin venjast, þó að ekki sé hægt að gleyma þeim dánu sem betur fer.“ Hún sakni þó Íslands ekki lengur um jól.

Strasbourg í jólabúningi. Þessi franska borg er sögð vera einhver mesta jólaborg Evrópu, og þótt víðar væri leitað. Mynd/Wikimedia
Jólamarkaður í Strasbourg

Þórhildur segir orðið sjaldgæft að hún sæki einhverja viðburði á aðventunni. „Stundum fer ég í Norðurlandamessuna sem er haldin hér í gamalli fallegri kirkju á fyrsta sunnudegi í aðventu og jólakaffi á eftir. Af og til fer ég á einhverja tónleika eða í óperuna.

Svo skrepp ég alltaf á jólamarkaðinn í Strasbourg. Þessi markaður, sem er sá frægasti í Frakklandi, og þótt víðar væri leitað, er mjög gamalt fyrirbæri. Hann var settur upp í fyrsta sinn árið 1570. Þegar við fluttum hingað árið 1988 var hann langt frá því að vera eins tilkomumikill og í dag, var bara á einu torgi, en nú er hann dreifður um allan miðbæinn og trekkir að túrista frá allri Evrópu og víðar svo varla er hægt að komast áfram suma daga.

Strasbourg er skreytt upp í topp í tilefni jólanna og mjög falleg á aðventunni. En best er að komast út í einhver sveitaþorpanna í Elsass og á jólamarkaði þar, þeir eru miklu fallegri og skemmtilegri,“ bætir hún við.

Kræsingar í mat og drykk

Fjölskyldan hefur á síðari árum haft fastan matseðil á jólunum. Fyrst er það fordrykkur og gæsalifur og reyktur lax á sérstöku snittubrauði og kampavín. Síðan kemur forréttur, hörpudiskur í rjómasósu. Aðalrétturinn er svo ofnsteiktur geldhani (chapon á frönsku) með ýmiss konar meðlæti, svo sem kastaníuhnetum, sveppum, brokkolí og fleiru, ásamt sósu. Svo er það eftirrétturinn, sem er jólarúlluterta. Afgangarnir eru borðaðir á jóladag. Þau eru þó jafnvel að hugsa um að breyta til í ár og hafa lambalæri á jólunum.

Þau Necmi héldu gjarnan jólaboð milli jóla og nýárs fyrir vini en það er liðin tíð. „Núna hugsum við gamla settið bara um okkur sjálf, dóttur og dótturson, förum á milli heimila okkar, spilum samkvæmisspil og líka spilin frá í gamla daga. Við erum svo heppin að Özden Dóra og Edgar búa í Strasbourg.

Hjá okkur eru jólin fyrst og fremst rólegheit og svo tónlist. Mér finnst gott að hlusta á Bach fyrir og um jólin og geri það oft, jólaóratóríuna auðvitað en líka margt annað. Jólasálma og jólalög.“ Þórhildur bætir við að tónlist setji sig í samband við jólin. Sér finnist einnig gott að lesa góðar bækur um jólin en það sé hún alltaf að gera hvort sem er. Hún fái alltaf eina eða tvær bækur úr jólabókaflóðinu íslenska.

„Við horfum mikið á kvikmyndir í sjónvarpinu á kvöldin – þá er ég að prjóna að gömlum sið, verð að hafa eitthvað á milli handanna eins og gert var í sveitinni – stundum á sjónvarpsseríur. Við höfum gaman af tyrkneskum sjónvarpsseríum sem við horfum reyndar á allt árið. Þær eru prýðileg afþreying og góðar til afslöppunar,“ lýsir hún.

Horfir á áramótaskaupið

„Á gamlárskvöld borðum við sjávarrétti sem fisksalinn okkar útbýr á bakka, smökkum á ostrum, drekkum smá kampavín og bíðum eftir því að árinu ljúki og það nýja taki við. Ég verð fegin þegar skiptin eru afstaðin, þá er ég búin að fá nóg af hátíðahöldum og vil að hversdagslífið taki við. Rútínan er best. Ég horfi gjarnan á íslenska áramótaskaupið á nýársdag og hlæ mikið ef ég skil um hvað er verið að tala sem er ekki alltaf. Til þess þarf maður að búa á Íslandi og vita um allt sem hefur gerst á árinu.“ Hún segist ekki vera mikil áramótamanneskja, hún finni ekki neina breytingu við að halda inn í nýtt ár. „Ég hef stundum reynt að strengja áramótaheit en aldrei getað haldið þau til langframa. Mér finnst árið vera hringur sem lokast um áramótin og nýr hringur tekur við, þannig sé ég það í huganum.“

Ber kvíðboga fyrir afdrifum heimsins

Þórhildur vann í 25 ár í ýmsum deildum Evrópuráðsins. Hún var meðal annars stjórnandi skrifstofu jafnréttismála kvenna og karla (1993–2002). Frá 2003 vann hún við menntamálaskrifstofu Evrópuráðsins þar sem hún byggði upp sérstaka deild um mannréttindaog lýðræðiskennslu. Síðustu árin í starfi sínu þar var hún yfirmaður menntamála og æskulýðsmála. Í ljósi þessara starfa er freistandi að inna hana eftir hvernig henni lítist á heimsmálin nú um stundir.

„Ég er hrædd við framtíðina, hún virðist óörugg og uggvekjandi. Allt hefur breyst svo ótrúlega hratt til hins verra, á svo stuttum tíma. Ég vann í Evrópuráðinu við verkefni sem tengdust virðingu fyrir mannréttindum, jafnrétti kvenna og karla, mannréttindum minnihlutahópa, jöfnum réttindum allra til náms, kennslu í lýðræði og mannréttindum. Eftir að Berlínarmúrinn féll var hægt að trúa að heimurinn væri að verða betri og Evrópa væri loksins sameinuð.

En nú eru mannréttindi fótum troðin víðs vegar í heiminum án þess að það sé nokkurt mál fyrir marga, lýðræðið einskis virt og uppi veður hamslaus kapítalismi. Fólk dýrkar þá sem eiga sem mest af peningum, alveg sama hvernig þeir hafa aflað sér þeirra, það finn ég enn þá sterkar á Íslandi heldur en í Frakklandi. Svo margir vilja skara eld að sinni köku, enginn hugsar um afleiðingarnar. Við erum að verða búin að eyðileggja móður okkar, jörðina, fyrir stundargróða,“ segir Þórhildur af þunga og heldur áfram:

„Það sem hefur farið verst í mig eru fjöldamorðin sem Ísraelar hafa framið á Gaza á síðastliðnum árum vegna þess að svo skýrt hefur komið í ljós að þeim sem eru við stjórn í Ísrael finnst Palestínufólk vera réttdræpt, það er að segja að það sé ekki mennskt, og enginn stöðvar þá í þessari útrýmingarherferð. Fyrir mér er þetta óhugsandi eftir það sem gyðingar þurftu að þola í seinna stríðinu. Ég hugsa oft til bókar ítalska gyðingsins Primo Levi, Ef þetta er maður, sem fjallar um reynslu hans í Auschwitz þar sem hann var fangi á stríðsárunum. Hann segir frá setningu sem stendur á skilti í fangabúðunum: Eine Laus, deine Tod (ef það finnst á þér lús ertu réttdræpur). Þetta sést líka svo vel í umræðu um innflytjendur og flóttamenn um alla Evrópu, þar er svo mikil afmennskun í gangi.“

Ísland fylki sér með Norðurlöndum

Þórhildur segist vera hræddust af öllu við stríð. „Í Frakklandi er farið að tala um að taka aftur upp herskyldu. Alþjóðastofnanir, sem settar voru upp eftir síðari heimsstyrjöldina til að tryggja frið og samstarf milli þjóða, eru sífellt að verða veikari. Þetta er einstaklega uggvænleg þróun. Ef ríki geta ekki lengur talað saman og ráðið friðsamlega fram úr ágreiningi, hvað þá?“ spyr hún. Stundum horfi hún á Ísland á gervihnattarmynd, þessa litlu eyju, aleina í miðju NorðurAtlantshafi, eða skreppi niður á hana í Google Earth. „Til að muna hvað mér þykir vænt um þetta land og ræturnar sem ég á þar og mun eiga til enda. Hugsa um allar hætturnar sem steðja að landinu, til dæmis hvernig túrisminn fer illa með fallegu náttúruna okkar og hvernig virkjanir hafa skemmt hálendið. Ég viðurkenni að ég er líka hrædd um að við týnum niður íslenskunni, það fyndist mér hræðilegt. Mér finnst þetta allt fara svo hratt, en það er kannski af því að ég er farin að eldast og tíminn líður hraðar hjá fólki á mínum aldri.

Þegar ég var að vinna í Evrópuráðinu sá ég hversu gott það var fyrir Ísland að vera í félagi við hin Norðurlöndin. Ég vildi óska að íslensk stjórnvöld, hver svo sem þau eru og verða, gleymi því aldrei að við erum hluti af Norðurlöndum og þar eigum við heima, ekki með öðrum og stærri þjóðum. Og auðvitað eru Norðurlöndin hluti af Evrópu. Við þurfum að átta okkur á þessu sem fyrst,“ áréttar hún.

Skáldsaga og þýðing væntanleg

Þórhildur hefur sent frá sér bæði ljóðabækur og skáldsögur, auk þýðinga. Nú síðast bókina Með minnið á heilanum, frásagnir úr fjarlægum bernskuheimi.

„Ég er ekkert að skrifa núna, það getur ekki heitið. Er nýbúin að skila handriti að lítilli skáldsögu og svo einni þýðingu. Þessar bækur munu koma út á nýja árinu ef allt fer að óskum. En ég mun áreiðanlega halda eitthvað áfram að skrifa,“ segir hún að endingu

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt