Stjörnur varða vegi heim um HAFIÐ
Haustið 2024 boðaði Framkvæmdasýsla ríkiseigna til lokaðrar samkeppni listskreytingar á húsnæði Skúlagötu 4, Sjávarútvegshúsinu – þar sem yfir stóðu endurbætur, en samkvæmt lögum Listskreytingasjóðs ríkisins verður að áætla að 1% kostnaðar fari í að borga fyrir verk í opinberu rými.
Samkeppnin var unnin í samstarfi við Samband íslenskra myndlistarmanna og segir m.a. í lýsingu hennar; ,,Viðfangsefni samkeppninnar er loft undir skyggni yfir aðkomuhæð Skúlagötu 4. Nokkuð hefur fallið á loftið og rýmið sem það stendur í tímanna rás sem annars hefur alla burði til að vera glæsilegt borgarrými og er markmiðið með tilkomu listaverks að lyfta því upp og fanga athygli og hughrif þeirra sem þangað koma.“ Einnig var gerð krafa um að listaverkið þekti að lágmarki 50 m2 loftsins við aðalinnganginn og væri fest upp í loftið.

List er lífsgæði
Listakonan Jóna Hlíf Halldórsdóttir, sem þekktust er fyrir textaverk sín, bar sigur úr býtum með verkinu ,,Ár er alda“ en titillinn er vísun í eitt upphafserinda Völuspár. Kemur meðal annars fram í umsögn dómnefndar: „Verkið hefur einstaklega góða rýmistengingu, bæði við innganginn og bygginguna í heild, og upphefur fordyri þess og aðkomu. Verkið samræmist vel byggingunni í efnisvali, litum og formi, vekur forvitni úr fjarlægð og afhjúpar óvæntan vinkil.“
„Það er svo frábært að þegar ríkið stendur í að reisa ný- eða viðbyggingar, þá, samkvæmt lögum verður hluti kostnaðaráætlunarinnar að innihalda fjárveitingu til listskreytingar, verks í opinberu rými. Örlítill hluti,“ segir Jóna brosandi, „en nauðsynlegur engu að síður, enda list ótrúlega mikilvæg mannlegri heilsu og lífsgæðum almennt.“
Djúpblár himinn og dansandi stjörnur
„Auðvitað var stærð verksins og staðsetning svolítil áskorun í hugmyndavinnunni, en þetta er ótrúlega falleg bygging eftir arkitektinn Halldór Hauk Jónsson sem meðal annars hannaði Bændahöllina. Bogadregnar línur, hringhurð úr messing, stórar súlur og útskornir skrautveggir bjóða gesti Skúlagötu 4 velkomna og mér fannst ég verða að láta þetta dansa allt saman.
Þegar ég fór af stað með verkefnið „Ár er alda“ var ég svo heppin að fá að vinna með arkitektinum Sóleyju Lilju Brynjarsdóttur sem er alveg geggjuð ... og við horfðum saman á súlurnar og öll þessi mjúku form sem við vildum endurspegla í verkinu auk þess að tengja það sem húsið sjálft, Sjávarútvegshúsið, stendur fyrir. Verkið teiknaðist einhvern veginn upp af sjálfu sér þegar ég fór að vinna með hafið og stjörnurnar,“ segir Jóna, „en útkoman varð útskorið textaverk í messing og djúpblár himinn með innfelldri lýsingu sem endurspeglar stöðu stjarnanna yfir Reykjavík, 1. janúar 2061, þegar húsið verður 100 ára. Tengi þannig fortíð og framtíð.
Ég hafði samband við Stjörnu-Sævar sem útvegaði mér mynd af himninum eins og hann mun líta út þegar að aldarafmælinu kemur og stjörnur verksins teiknaðar út frá því. Frá Skúlagötunni sér út á hafið sem bæði aðskilur okkur þjóðina frá umheiminum og sameinar, með skin stjarnanna að næturlagi sem vísa veginn. Einhvern veginn tengist þetta allt. Innblásturinn að línunum í loftplötum verksins kemur svo úr bókinni Siglingafræði eftir Einar Ásmundsson í Nesi.“
Vegur að heiman er vegurinn heim
„Þegar kom að því að vinna textann í verkinu velti ég fyrir mér hvar tengingin lægi, en vissi að mér fyndist mikilvægt að orðið „hafið“ kæmi við sögu og fallegast ef það væri fyrir miðju en sameinaði tvær annars sjálfstæðar setningar. Annarri setningunni lyki þannig á orðinu „hafið“ á meðan hin hæfist á sama orði, þannig að þegar gengið er út úr byggingunni þá myndi orðið „hafið“ blasa við. Saman mynduðu þannig setningarnar þráð í hálfboga fyrir ofan innganginn að húsinu með þessum orðum: Stjörnur varða vegi heim um HAFIÐ tengir saman lönd heimsins.
Báðar setningar eru annars valdar með tilliti til þess að þær tengist bæði sögu þjóðar og hússins. Fyrri setningin, „Stjörnur varða vegi heim um HAFIГ, vísar til fortíðar, þegar siglt var yfir hafið til að nema land og síðar meir ferðast og stuðst við svokallaðar leiðarstjörnur, sem notaðar eru fyrir staðarákvarðanir í stjarnsiglingafræði við að reikna út siglingastefnu og legu skipa á hnettinum. Hvert orð í setningunni er valið út frá hugmyndum um stuðlun, hrynjanda og að orðaval sé alþýðlegt.
Með sama hætti mótaðist seinni setningin, „HAFIÐ tengir saman lönd heimsins“, út frá hugmyndinni um að hafið sé ekki bara aðgreiningartól jarðarinnar heldur þráður sem tengir saman hvert land, samskipti um árþúsundir.“
Jóna bendir á fegurðina og mikilvægið í líkindum orðanna heim og heimur og hvernig litla eyjan okkar í miðju hafinu sameinar þetta tvennt. „Þarna kemur önnur tenging í raun, þegar kemur að tungumálinu okkar, íslenskunni, sem á undir högg að sækja – þá er svo nauðsynlegt að halda henni við þó heimurinn sé allt í kring.
Við eigum svo ótrúlega fallegt tungumál sem skiptir gríðarmiklu máli að sé sett á stall, þá ekki síst í listinni. Þetta var rosa útpælt allt saman hjá mér,“ segir Jóna hlæjandi og bætir við að hún hafi verið afar þakklát þegar úrslit dómnefndar komu í ljós. „Þetta var svo stórt. Svo viðamikið í raun, ekki síst vegna þess hve ég ber mikla virðingu fyrir arkitekt hússins.“
Með virðingu
„Á tímabili, þegar var verið að vinna við uppsetningu verksins, var ég alveg viss um að hann Halldór Haukur Jónsson arkitekt væri þarna á Skúlagötunni, heldur brúnaþungur vegna alls þessa róts og umstangs sem átti sér stað. Draugurinn sem sé! Ég ákvað því að ræða við hann, segja honum að útkoman yrði falleg og til sóma, hvort við gætum ekki unnið verkið svolítið saman. Ég skildi að hann væri ekki alveg til í þetta, en bað hann að gefa mér séns. Eftir það fór allt að ganga miklu betur auðvitað!“
Í kjölfar þessara glimrandi góðu samræðna fór Jóna í nokkra rannsóknarvinnu og kynnti sér sögu Halldórs betur. „Fyrir utan það að fangamarkið okkar speglast (HHJ og JHH) þá er skemmtilegt að segja frá því að ég á lítinn bústað í Borgarfirði, og þar sem ég sit vanalega með kaffibollann minn og horfi yfir náttúruna og umhverfið, stendur bærinn Bær þar sem Halldór er fæddur og uppalinn! Þannig ég varð handviss um að samvinna okkar væri skrifuð í skýin og og stjörnurnar og steinhætti að halda nokkuð annað en að þetta færi allt vel.“
Jóna segir verkið komið upp, nær fullklárað, en enn á eftir að setja loftklæðningu í kringum verkið og klæða hluta hússins sjálfs. Stefnt sé á að vígja það í lok apríl.
Tunglið er okkar leiðarljós
Verkið, sem er kvöldverk, er undir súð og á þessum tíma árs því mjög gaman að ganga fram hjá Skúlagötunni og njóta fegurðar þess. „Mér þótti vænt um að uppsetningin fór fram á þessum tíma árs, vetri, því kvöldverk njóta sín allra best þegar rökkur er eða myrkur. Það er svolítið „þungt“ þarna í kring, umhverfið, en verkið lýsir upp innganginn og gefur gestum svolitla gleði í hjartað.
Stjarnan í verkinu er svolítið tunglið, sem er þarna á besta stað, en ég hef alltaf haft ríka trú á því að tunglið sé sól okkar Íslendinga. Tunglsljósið hefur verið okkar leiðarljós yfir fönn og hjarn auk þess sem það togar þéttar í okkur með gangi sínum frekar en sólin.“
Jóna segist ótrúlega ánægð með útkomuna og hafi verið einstaklega heppin með fólkið í kringum sig. „Algjört draumateymi sem samanstóð af þeim Ískvistfeðgum, rosa flottir innanhússhönnuðir sem komu að uppsetningunni, Andri og Fannar hjá Héðni voru ekkert minna en ofurhetjur og Snjallrásir, algjörir töffarar sem leystu alls kyns vandamál, ekki síst þegar kom að því að setja boga á gamalt hús, enda gömul hús löngu hætt að vera hornrétt.
Skrautveggurinn er til dæmis langt frá því að vera beinn,“ segir Jóna glottandi og bætir við að það hafi þurft að skera loftplöturnar á ýmsa vegu öfugt við þegar unnið er við nýbyggingar þar sem allt er hornrétt og loftplötum vanalegast bara skellt upp. Með það í huga má sjá að hringform verksins hafi ekki alltaf verið auðveld. „Ég spurði arkitektana oftar en einu sinni hvað við hefðum verið að pæla að gera hringform – en á móti kemur að fólki líður víst best í þess háttar rými, bæði bogadregnu og ósymmitrísku. Þetta verk er klárlega það. Boginn með textaverkinu er til dæmis ekki 180 ° en opnar því sjálfsagt hið notalegasta rými. Að auki gerir sér örugglega enginn grein fyrir þessu þars em það munar nú rosalega litlu.“
Framtíð íslenskunnar út í geim
Hluti verksins sem ekki hefur verið kynntur almenningi, lítur nú dagsins ljós á síðum Bændablaðsins, örlítið textabrot úr hvoru bréfi er varðar íslenska tungu. „Það er gaman að segja frá því að þessi tenging milli hafsins og stjarnanna felur svo í sér lokahluta verksins, gjörning sem mun eiga sér stað þann 1. janúar 2061. Þá er fyrirhugað að senda út í geim sitthvort bréfið um stöðu íslenskrar tungu og íslenskt samfélag, annars vegar bjartsýnisbréf og hins vegar svartsýnisbréf. Planið hjá mér er sem sé að láta skjóta því upp í geim þarna á aldarafmælinu. Í dag kostar geimferð víst um átta milljónir,“ segir Jóna íhugul, „en þetta verður vonandi orðið ódýrara eftir 36 ár. Annars er spurning um að festa þau við rakettu og vona það besta. Nú eða bara flösku- eða hugskeyti ef því er að skipta.
Um er að ræða skeyti, með tvenns konar skilaboðum, tveimur möguleikum að því er varðar framtíðina. Þessi hluti verksins er órofa tengdur því að tíminn er flæði í átt að breytingum, í átt að óvissu sem við þekkjum ekki, en tekur mið af því að verið er að vinna breytingar á húsinu til framtíðarnotkunar. Í því samhengi myndar hundrað ára afmæli hússins ákveðinn fyrirsjáanlegan fasta sé litið til framtíðar, og slíkan fasta mun verkið taka þátt í að heiðra.“
Úr bjartsýnisbréfinu: „... Nótt er ljósinu það sem pappír er textanum. Skilningur þrífst á myndum, á því að greina línur eða mörk.“
Úr svartsýnisbréfinu: „... Það er hægt að skapa óendanlega margar setningar; meðal annars á íslensku. Ein þessara setninga ætti, og mun, snúast um síðasta ákallið um frið á deyjandi tungu.“
Bréfin verða hengd upp í anddyri Sjávarútvegshússins við Skúlagötuna þegar vígsla verksins fer fram og verða þar gestum og gangandi til umhugsunar þar til að fyrirhugaðri geimferð kemur.
„Þetta fjallar nefnilega ekki síst um tungumálið okkar, stöðu þess og hvað framtíðin ber í skauti sér,“ lýkur Jóna máli sínu og ítrekar þakklæti sitt til draumateymisins auk sérstakra þakka til eiginmannsins síns heittelskaða, Hjálmars Stefáns Brynjólfssonar.
Þau hjón hafa átt nánar stundir yfir verkum Jónu gegnum tíðina og notið samvinnu, enda Hjálmar, má segja, vinstra heilahvel Jó
