Ilmframleiðsla Fischersunds vindur upp á sig
Ilmgerðin Fischersund hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum. Hún spratt upphaflega upp úr miklum áhuga Jóns Þórs Birgissonar á því að blanda og þróa sína eigin ilmi, en hann er best þekktur sem Jónsi í Sigur Rós.
Árið 2017 stofnaði hann, ásamt systrum sínum, Lilju, Ingibjörgu og Sigurrós Birgisdætrum, fyrirtæki í kringum ilmgerðina. Nafnið Fischersund er fengið af götu í miðborg Reykjavíkur þar sem hjarta starfseminnar er.
Í haust fékk fyrirtækið hönnunarverðlaun Íslands í flokknum Verk ársins. Í umsögn segir að Fischersund tali til allra skilningarvita í gegnum ilm, tónlist og myndlist. Að auki við að framleiða ilmvötn framleiðir Fischersund kerti, reykelsi, textílverk, te og tónverk.
Sigurrós, sem er yngst systkinanna, ræddi við Bændablaðið um vinnuna sem liggur á bak við þróun og framleiðslu ilmvatna. Hún og bróðir hennar sjá um þróunarvinnu hvers ilms og sér Sigurrós um framleiðsluna. Lilja og Ingibjörg sjá um hönnun umbúða, grafík og listræna framsetningu.
Íslenskar ilmminningar
Innblástur hvers ilms er sóttur í lífið á Íslandi. „Íslenskur ilmheimur er algjörlega einstakur og ólíkur flestum öðrum,“ segir Sigurrós. „Hér vaxa ekki ávaxtatré eða exótísk blóm, heldur villtar jurtir, birki, mosi og kerfill og við viljum gera íslenskri náttúru hátt undir höfði. Ilmurinn sem heitir útilykt á að vera eins og að stinga nefinu ofan í mjúkt lyng á köldum vordegi. Nr. 101 ilmar eins og bakgarður í gömlu Þingholtunum og Nr. 8 ilmar eins og barnæska okkar í Mosó. Íslensku ilmolíurnar sem við vinnum með gefa þennan séríslenska og ferska blæ.“
Fyrsta ilmvatnið frá Fischersundi fékk nafnið Nr. 23 sem skýrist af því að þetta var 23. ilmblandan hans Jónsa. „Hún er meðal annars byggð á minningum af því að vera í slippnum, en pabbi var vélsmiður þar og var Jónsi mikið með honum í vinnunni. Í þeim ilmi er mikið af því sem einhverjir myndu kannski flokka sem dökkar lyktir, eins og birkitjara, píputóbak og lakkrís.“
Gera það sem þeim finnst gott
Aðspurð um ferlið sem liggi á bak við þróun ilmvatns segir Sigurrós að hún og Jónsi hendi á milli sín hugmyndum að ilm sem eru nákvæmlega skráðar í töflureikni. Jónsi er búsettur í Bandaríkjunum og blandar Sigurrós ilminn í aðstöðu fyrirtækisins í Súðarvogi í Reykjavík.
„Ef mér finnst uppskriftin ekki virka geri ég smávægilegar breytingar sem ég skrifa niður og sendi honum til baka,“ segir Sigurrós. Hann taki við þeirri uppskrift, blandi sjálfur og geri breytingatillögur „Þetta tekur langan tíma og er mikið dúllerí, því að ég er með pípettu og set einn dropa af ákveðinni olíu og skrifa niður grömmin.“ Við gerð prufuuppskrifta getur miklu munað um hvern dropa. Þegar uppskriftirnar eru tilbúnar sér Sigurrós um framleiðsluna.
„Ég byrja alltaf á því að blanda saman einhverju sem mér finnst gott. Leyfi svo öðrum að finna og tek við athugasemdum og breyti ef þess þarf. Yfirleitt erum við fjögur í því að þefa, ákveða og breyta. Stundum getur verið of mikið að spyrja alla álits, því að þetta er mjög persónubundið og hver ilmur breytist á húðinni á hverjum og einum. Við Jónsi erum alltaf að gera eitthvað sem okkur finnst gott og vonandi fíla aðrir það líka.“
Sparar nefið fyrir vinnuna
Eftir að hafa starfað við ilmgerð undanfarin ár segist Sigurrós vera komin með þjálfað þefskyn og geti vitað fyrir fram hvort það komi vel út að bæta við einum dropa af þessu eða hinu. „Í byrjun var ég bara að sulla einhverju saman og vissi ekkert af hverju það virkaði ekki, en ilmblandan getur mjög fljótlega farið til fjandans.“
Sigurrós segist oft fá þá spurningu hvort þefskynið þreytist ekki eftir langan dag við þróun nýs ilms. „Ég get alveg þefað endalaust og ég held að nefið mitt sé orðið það vel þjálfað að ég get enn þá greint allt sem ég þefa af. Mjög oft þegar ég er að þefa af lokablöndu stend ég aðeins upp frá borðinu, en mér finnst ég ekki þurfa að fara út úr húsi til að hvíla mig. Það að horfa á þetta Excel-skjal og setja inn tölur þreytir mig frekar á meðan nefið mitt er enn þá í góðu lagi.“ Sigurrós segist ekki endilega vera orðin lyktnæmari en áður og þessi þjálfun hafi ekki áhrif á hvernig hún upplifi hversdagslegt umhverfi. „Ég spara nefið fyrir vinnuna,“ segir hún glettin.
Hátíðlegur jólailmur á aðventunni
„Núna nálgast ég þetta þannig að í upphafi reyni ég að hafa einhverja hugmynd að ilm. Ég ákveð fyrst hvort hann eigi að vera dökkur eða léttur, ferskur eða sætur eða með viðarnótum. Persónulega finnst mér betra að skapa mér smá ramma í kringum ilminn, því að annars er allt í boði. Ég finn svo kannski tíu olíur til að byrja með sem passa við hugmyndina. Blanda þeim svo í einhverjum hlutföllum saman og kanna hvernig það kemur út. Annaðhvort heppnast það vel eða passar engan veginn saman.“
Við stofnun var Fischersund með sex ilmi og hefur aðeins bæst við síðan þá. „Í fyrra gerðum við fimm nýja ilmi fyrir listasýningu í Seattle. Þá erum við búin að gera ilmi í samstarfi við nokkur fyrirtæki, eins og Útilykt fyrir 66° Norður, sem er núna orðið eitt af okkar helstu ilmvötnum. Við erum einnig að þróa ilm í samstarfi við Bláa Lónið. Svo gerðum við ilm fyrir hljómsveitina Sigur Rós, sem var auðvitað mjög þægilegt samstarf, enda Jónsi lykilmaður á báðum stöðum,“ segir Sigurrós og skellir upp úr.
„Fyrir jólin seljum við alltaf jólalínu með ilmkerti, húsilm og reykelsi. Við höfum selt þessa lykt í tvö ár áður í kringum jólin. Þetta er mjög hlýr og notalegur ilmur með mandarínum, kanil, negul ásamt myrru sem vísar í vitringana þrjá. Eins er huggulegur viður og smá sæta.“
Vakning meðal fólks
„Við erum komin í rúmlega sjötíu verslanir í Bandaríkjunum og fjörutíu verslanir í öðrum löndum. Hægt og rólega erum við að dreifa okkur út um allt, en frá upphafi hefur bandaríski markaðurinn tekið vel á móti okkur.“ Til að byrja með hafi stærsti hluti sölunnar verið erlendis, en núna sé hlutdeild íslenska markaðarins stöðugt að stækka. „Mér líður eins og það hafi orðið ákveðin vakning meðal fólks að hafa gaman af ilmum, að þefa og prufa eitthvað nýtt.“ Sigurrós segir að allir séu velkomnir að þefa í Fischersundi 3, en þar hafa systkinin lagt mikið upp úr að gera óhefðbundna verslun þar sem hægt er að upplifa ilm og list.
Fischersund framleiðir ekki eingöngu ilmvötn, heldur er heil vörulína sem fylgir hverjum ilmi. Þar má nefna ilmkerti, reykelsi, húsilm, ilm á föstu formi og klúta. „Það hefur verið smá vesen hjá okkur að við erum með svo mikið af hugmyndum og okkur finnst svo gaman að framkvæma hitt og þetta. Þá erum við líka með ullarteppi, te og höfum verið með bolla.“
Ilmljóð og tónverk
„Hjá Fischersundi er líka tónlistardeild, en í henni eru Jónsi og eiginmenn systra minna. Við létum þá semja tónverk fyrir öll ilmvötnin, en með hverju ilmvatni fylgir ilmljóð og tónlist. Okkur finnst mjög skemmtilegt að gera upplifunina meiri heldur en þegar fólk kaupir ilmvatn í hefðbundinni verslun.“
Upphaflega var öll starfsemin í Fischersundi – bæði verslun og framleiðsla. Fljótlega þurftu þau að koma framleiðslunni í stærra rými og hafa þau í nokkur ár verið með starfsemi í Súðarvogi. „Hérna framleiðum við allar vörurnar okkar, nema teppin. Eins erum við reglulega með listasýningar hérna inni. Að jafnaði eru fimm starfsmenn sem koma að framleiðslunni. Í búðinni í Fischersundi eru fjórir til sex. Svo eru tveir starfsmenn sem sinna markaðnum í Bandaríkjunum.“ Að auki við áðurnefnda starfsmenn eru allar systurnar í fullu starfi fyrir Fischersund ásamt því sem foreldrar þeirra létta oft undir.

