Íslensk jólatré og ræktun þins
Flest okkar halda fast í jólahefðir. Ein þeirra er hvaða trjátegund við notum sem svokölluð lifandi jólatré. Á Íslandi er orðin rík hefð hjá mörgum að nota stafafuru sem er frábær íslensk jólavara, bæði þéttvaxin og barrheldin. Enn er þó innfluttur danskur nordmannsþinur algengasta jólatrjáategundin í stofum landsmanna. Sú staðreynd vekur ávallt upp spurninguna hvort við getum aukið hlutdeild íslenskra trjáa á jólatrjáamarkaði. Þar eru tvær leiðir helst nefndar. Önnur er öflugra markaðsstarf við að koma stafafuru og öðrum íslenskum jólatrjáategundum betur á framfæri og fá þannig fólk til að breyta hefðum og velja sígrænar tegundir sem eru ræktaðar á Íslandi. Hin leiðin væri að efla ræktun á þintegundum sem við getum ræktað hérlendis og eru þá líkari innfluttum nordmannsþin sem margir hafa vanist í sínu jólahaldi.
Fjallaþinur var prófaður í stórri norrænni kvæmarannsókn (gróðursett 1999) þar sem Ísland var meðal þátttakenda. Niðurstöður þeirrar rannsóknar var að 4 kvæmi þóttu vænleg til jólatrjáaræktar á Íslandi en þau voru White River frá Bresku-Kólumbíu, Arapaho frá Colorado, Apache frá Arizona, og Cibola frá Nýju-Mexíkó. Þau tvö síðastnefndu eru háfjallakvæmi af bláu afbrigði fjallaþins. Því miður hefur fræ af Cibola-kvæminu verið ófáanlegt en hin kvæmin hafa verið á markaði fyrir þá sem vilja spreyta sig á þessari ræktun. Gott skjól og gisinn skermur frá eldri trjám eru góðar aðstæður fyrir þin fyrstu ræktunarárin. Fjallaþinur er þéttvaxið, gullfallegt jólatré og barrheldið eins og þinur almennt. Fallegur fjallaþinur slær innfluttan nordmannsþin auðveldlega út í gæðum en vegna hægs vaxtar er erfitt að keppa í verði við núverandi innflutning.
Ýmsar þintegundir eru nýttar sem jólatré víðs vegar um heiminn og fæstar hafa verið prófaðar í markvissum tilraunum hérlendis. Því var ákveðið að leggja út litla tilraun með algengar þintegundir til jólatrjáaræktar og bera þær saman við bestu kvæmin af fjallaþin. Plönturnar voru gróðursettar á Hallormsstað, á Vöglum í Eyjafirði og í Hafnarfirði vorið 2019. Lifun eftir 5 vaxtarsumur má sjá í eftirfarandi töflu.
Lifunin í heild er fremur slök og breytileg milli svæða. Þarna eru þó einkum þrjár sortir sem bera af, síberíuþinur (kv. Novosibirsk), fjallaþinur (kv. White River) og glæsiþinur (frægarður K73463). Niðurstaðan í bili er því sú að leggja áherslu á ræktun vænlegra kvæma af fjallaþin, síberíuþin og glæsiþin þar til nýjar upplýsingar koma fram. Þintilraunir verða mældar áfram og samhliða unnið að útvegun besta fáanlega fræs til jólatrjáaræktunar á Íslandi.

