Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Sífellt stærri hluti Amazon-regnskógarins verður að beitilandi fyrir þá rúmlega 200 milljón nautgripi sem ræktaðir eru í Brasilíu.
Sífellt stærri hluti Amazon-regnskógarins verður að beitilandi fyrir þá rúmlega 200 milljón nautgripi sem ræktaðir eru í Brasilíu.
Mynd / Matheus Lara
Fréttir 19. ágúst 2025

Ofurkýr taka yfir Amazon-regnskóginn

Höfundur: Sturla Óskarsson

Í Brasilíu hafa bændur ræktað sérstakan nautgripastofn, brasilískar ofurkýr, undan indverska sebúanum. Nautgripirnir henta vel við loftslagsaðstæður í regnskógabelti Brasilíu. Vinsældir kjötsins og efnahagslegur þrýstingur hafa leitt til þess að sífellt stærri hluti Amazon-regnskógarins víkur fyrir beitilandi.

„Geta brasilískar ofurkýr fætt heiminn?“ spyr BBC-hlaðvarpið The Inquiry í umfjöllun um sebúnautgriparækt í Brasilíu. Sebúnautgripir voru fluttir inn til Brasilíu frá Indlandi snemma á 20. öld en þessa tegund nautgripa má þekkja af stórum hnúð yfir hálsinum. Sebúinn þótti heppilegri fyrir hitabeltisloftslag norðurhluta landsins en nautgripir af evrópskum uppruna sem þoldu illa við á því svæði. Kynbætur á brasilíska sebústofninum fram eftir 20. öld leiddu af sér talsvert stærri gripi en af þeirri tegund sem upphaflega var flutt inn frá Indlandi og má fá meira kjöt af hverjum nautgrip.

Kýr seld á hálfan milljarð

Í Brasilíu er árleg sýning á sebúanum sem nefnist ExpoZebu þar sem nautgriparæktendur keppast um að sýna sín bestu dýr sem eru dæmd af dómurum sýningarinnar. Þar er síðan haldið uppboð þar sem bestu gripirnir eru seldir til undaneldis. Á uppboði 2024 var sebúkýr að nafni Viatina-19 seld á 25 milljónir brasilískra ríala, sem gera rúmlega 500 milljónir íslenskra króna. Hún vegur 1.100 kíló og er dýrasta kýr af nokkrum nautgripastofni sem seld hefur verið í heiminum.

Í Brasilíu eru 225 milljón nautgripir, rétt rúmlega fleiri en íbúar landsins sem telja 212 milljónir. Stærsti hluti nautgripa landsins eru sebúar og bændur stefna að því að tvöfalda stofninn á næstu árum.

Nautgriparæktun aðlöguð að vistkerfi Brasilíu

Portúgalir hófu nautgriparækt í Brasilíu á nýlendutímabilinu. Til að byrja með var hún aðallega stunduð í suðurhluta landsins þar sem loftslag er svalara og hentugra fyrir landbúnað að evrópskri fyrirmynd. Ræktun evrópskra nautgripa gekk verr í norðurhluta landsins þar sem búfénaður þoldi illa hitann og var illa undirbúinn fyrir þá búfjársjúkdóma sem fylgdu regnskógabeltinu. Um aldamótin 1900 fóru Brasilíumenn því að flytja inn nautgripi af indverskum sebúastofni þar sem þeir höfðu aðlagast hitabeltisloftslagi á Indlandi sem þótti sambærilegt því sem er í Amazon-regnskóginum. Fram eftir 20. öld voru ræktaðir stærri nautgripir út frá þeim stofni sem gáfu meira kjötmagn af hverjum grip. Á seinni hluta tuttugustu aldar lagði brasilíska ríkið mikla áherslu á að aðlaga landsvæði í hitabelti landsins betur að landbúnaði. Vísindamenn á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðar í Brasilíu (Embrapa) unnu náið með bændum til þess að umbreyta landsvæðum með það að markmiði að gera þau hentugri nautgriparækt. Fluttar voru inn hitaþolnari grastegundir frá Afríku og unnið að því að breyta sýrustigi í jarðvegi til ræktunar sojabauna sem notaðar eru í fóður fyrir nautgriparækt í landinu. Með þessum breytingum færðist nautgriparækt sífellt norðar í landinu.

Þrátt fyrir að þessar umbreytingar á landslaginu geri íbúum norðurhluta landsins kleift að stunda nautgriparækt er ekki þar með sagt að svæðið sé hentugt undir slíkan landbúnað. Umhverfisáhrif af nautgriparækt eru talsvert minni sunnar í Brasilíu og loftslag hagstæðara. En vegna bágs efnahagsástands í norðurhluta landsins hefur skapast þrýstingur á að auka enn frekar við nautgriparækt í kringum Amazon-regnskóginn. Nautgriparækt er ein af fáum atvinnugreinum sem stendur íbúum svæðisins til boða. Pólítískt er því flókið fyrir stjórnmálamenn í Brasilíu að snúa þessari þróun við.

Útflutningur nautakjöts er sífellt stærri iðnaður í Brasilíu sem í dag er helsta útflutningsríki nautakjöts í heiminum. Áður fyrr voru það helst Evrópulönd sem fluttu inn brasilískt nautakjöt en eftir því sem þróunarlönd verða ríkari er eftirspurn þar sífellt meiri. Nú er Kína það ríki sem kaupir mest af brasilísku nautakjöti.

Regnskógurinn víkur fyrir landbúnaði

Nautgriparækt hefur mikil umhverfisáhrif í Brasilíu. Bændur höggva niður eða brenna árlega hluta af Amazon-regnskóginum til þess að nýta landið undir beit fyrir nautgriparækt. Fjölgun í stofninum krefst sífellt meira landrýmis, þá duga akrar aðeins í nokkur ár sem beitiland og þá þurfa bændur að færa sig um set og ganga enn frekar á skóginn. Eyðing regnskógarins hefur í för með sér losun mikils magns gróðurhúsalofttegunda og trén sem felld eru hætta að binda koldíoxíð. Einnig losa nautgripirnir sjálfir mikið magn metans í andrúmsloftið. Líffræðilegur fjölbreytileiki landsins bíður einnig mikinn skaða vegna eyðingar regnskógarins. Á móti benda ræktendur nautgripanna á að brasilískur stofn sebúa stækki hratt, hann gefi af sér fleiri kíló af kjöti á styttri tíma en annars og segja að þetta vegi upp á móti öðrum umhverfisáhrifum.

Kynbætur á indverska sebúanum hafa fært bændum í Brasilíu nautgrip sem er sérhannaður fyrir hitabeltisloftslag á regnskógabeltinu. Með hlýnandi loftslagi má ímynda sér að fleiri lönd nýti sér þennan hitabeltisþolna stofn nautgripa. Vegna velgengni brasilískra bænda í kynbótum á sebúastofninum og ákalls um atvinnutækifæri í norðurhluta Brasilíu er þó hætta á því að eyðing Amazon-skógarins haldi áfram og vegna aukinnar eftirspurnar á brasilísku nautakjöti lítur út fyrir að það hraði frekar á þeirri þróun.

Skylt efni: Brasilía | Amazon

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...

Úthlutun í fyrsta sinn
Fréttir 28. nóvember 2025

Úthlutun í fyrsta sinn

Fyrsta úthlutun úr frumkvæðissjóðnum Fjársjóði fjalla og fjarða fór fram á dögun...