Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Hafberg Þórisson, garðyrkjubóndi í Lambhaga í Reykjavík, er afar ósáttur við áform Orkuveitu Reykjavíkur um að hækka til hans verð á heitu vatni um 97% um áramótin.
Hafberg Þórisson, garðyrkjubóndi í Lambhaga í Reykjavík, er afar ósáttur við áform Orkuveitu Reykjavíkur um að hækka til hans verð á heitu vatni um 97% um áramótin.
Mynd / HKr.
Fréttir 7. nóvember 2019

Íhugar að loka Lambhaga í Reykjavík vegna stórhækkana á heitu vatni

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Hafberg Þórisson, aðaleigandi gróðrarstöðvarinnar Lambhaga í Úlfarsárdal í Reykjavík, segir framtíðarstöðu fyrirtækisins í höfuðborginni ekki glæsilega. Ástæðan er gríðarleg hækkun á verði hitaveituvatns frá Orkuveitu Reykjavíkur sem fyrirhuguð er um næstu áramót.

Hafberg er stór á íslenskan mælikvarða í ræktun á salati og hefur stöðugt verið að efla starfsemina ofan við Vesturlandsveginn en fyrirtækið á fjörutíu ára afmæli á þessu ári. Er hann nú með 15.000 fermetra gróðurhús á svæðinu sem óvíst er um rekstur á vegna ört hækkandi orkuverðs. Þar eru að jafnaði um 25 starfsmenn.

Segir 97% hækkun fyrirhugaða um áramótin á heitu vatni

„Það á að hækka verð á heita vatninu til mín um 97% frá 1. janúar 2020. Hérna verður verðið eftir hækkun um 120 krónur fyrir rúmmetrann á vatni, en það er 37 krónur uppi í Mosfellsdal. Við erum að nota um og yfir 100 þúsund tonn af heitu vatni í Lambhaga. Við erum að borga um 6–800 þúsund krónur á mánuði fyrir heitt vatn. Ef þessi hækkun verður um áramótin, þá fer kostnaðurinn í um 1,4 milljónir króna á mánuði, eða nærri 16,8 milljónir á ári. Síðan erum við að nota yfir 60 milljónir kílówattstunda af raforku á ári.

Ef þessi hækkun á heitavatnsverði gengur eftir er aðeins tvennt í stöðunni. Annaðhvort að starfsemin hér leggist af og flytjist annað eða að sett verði upp kyndistöð við Lambhaga sem brenni þá plasti, timburkurli og kolum við háan hita líkt og gert er í Noregi og Danmörku. Mér finnst sorglegt að borgin sé að reyna að ýta okkur í burtu með þessum hætti.“

Kostnaður við að reisa kyndistöð gæti að mati Hafbergs numið á bilinu 15 til 20 milljónir króna, þannig að hún yrði mjög fljót að borga sig upp miðað við hækkað orkuverð. 

Hafberg lætur ekki deigan síga þótt hann þurfi mögulega að loka starfsemi sinni í Reykjavík og er þegar kominn af stað með gríðarmikla uppbyggingu í Mosfellsdal. 

Hagkvæmt að setja upp kyndistöð sem brennir kolum, kurli og plasti

Hafberg segir að trúlega þurfi leyfi fyrir slíkum brennsluofni en honum mun fylgja skorsteinn sem líklega þarf að vera 15 til 25 metra hár. Hann segir að það sé vissulega hálf ankannalegt að þurfa að reisa kyndistöð sem brennir kolum og timburkurli í landi sem stærir sig af hreinni raforku og jarðhita. Þetta sé nú samt sú staðreynd sem blasi við honum vegna gróðasjónarmiða þeirra sem stjórni Orkuveitu Reykjavíkur. Hann segist hafa kannað með eldsneyti fyrir stöðina og nóg sé t.d. til af kolum og trjákurli í Helguvík sem búið var að safna þar upp vegna fyrirhugaðs reksturs kísilmálmverksmiðjunnar. Bendir hann á að danskir bændur hafi einmitt farið þessa leið og séu hættir að nota gas til að kynda upp sínar stöðvar.

Hafberg er þegar búinn að gera kostnaðaráætlun og finna tvo líklega framleiðendur að kyndistöð sem hugsanlega yrði sett upp í Lambhaga. Reiknar hann með að stöðin hiti loft sem dælt yrði í gegnum stokk inn í garðyrkjustöðina og að auki um 70 tonn af vatni til hitamiðlunar. Miðað við fyrirhugaða hækkun á verði á heitu vatni frá Orkuveitu Reykjavíkur, þá myndi slík kyndistöð, að teknu tilliti til rekstrarkostnaðar, trúlega borga sig upp á einu og hálfu til þremur árum. Gerir Hafberg ráð fyrir að sækja um leyfi fyrir brennslustöðinni í vetur, eða um leið og teikningar liggja fyrir.

Raforkuverðið mun hærra en í Noregi, Danmörku og Hollandi

Hafberg segir að raforkuverðið hafi vissulega hækkað mikið þegar ákveðið var að skipta upp framleiðslu og flutningi á raforku að kröfu Evrópusambandsins. Þeir hafi þó sætt sig við það verð þótt það sé mun hærra en gróðrarstöðvar bæði í Noregi og Hollandi þurfi að greiða fyrir raforkuna.

Þrátt fyrir hátt orkuverð segist Hafberg vera með ódýrara salat heldur en t.d. kollegar hans í Noregi. Sýndi Hafberg blaðamanni gögn frá Noregi því til stuðnings. Segir hann að á meðan hann sé að borga um 10,40 krónur fyrir kílówattstund af raforku með flutningi séu kollegar hans í Noregi að borga ígildi um 6,30 íslenskra króna (m.v. verð í ágúst) fyrir kílówattstundina.

„Það kom til okkar í Lambhaga á dögunum viðskiptanefnd frá Hollandi þar sem m.a. var farið yfir rafmagnsverðið. Þá kom í ljós að gróðrarstöðvar í Hollandi eru að greiða örlítið lægra verð en sambærilegar stöðvar í Noregi. Í Danmörku er verðið aðeins hærra en í Noregi, eða sem svarar um 7 krónum á kílówattstund.

„Það er því algjört bull að raforkuverðið sé lágt á Íslandi. Það er athyglisvert að skoða hvar þetta háa orkuverð til okkar verður til. Það er að stórum hluta við flutning orkunnar,“  segir Hafberg Þórisson.

Hlutfall íslensks grænmetis á markaðnum er nú um 50%

Þegar skoðaðar eru tölur Hagstofu Íslands um grænmetisneysluna á Íslandi, þá var hún ríflega 22 þúsund tonn á árinu 2018. Af því voru íslenskir framleiðendur með um 52% eins og sjá má á bls. 2 í nýju Bændablaði.

Hlutdeild íslenskra framleiðenda hefur verið að dragast verulega saman á undanförnum árum, eða úr 75% árið 2010 í 52% árið 2018. Þá er garðyrkjubændum stöðugt að fækka, m.a. vegna hækkana á orkuverði.

Þetta þýðir að innflutningur á grænmeti sem hér væri hægt að rækta, mun aukast  hröðum skrefum.
Skýtur þetta mjög skökku við yfirlýsingar frá stjórnvöldum, falleg orð ráðherra í garð íslensks landbúnaðar og áætlanir við að sporna við losun kolefnis út í andrúmsloftið. /HKr.

– Sjá einnig frétt á bls. 10 í nýju Bændablaði um upp­­bygg­ingu garðyrkjustöðvar sem hafin er  í Mosfellsdal. 

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...