Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Dauðir hafernir sem lent hafa í vindmylluspöðum í Noregi.
Dauðir hafernir sem lent hafa í vindmylluspöðum í Noregi.
Fréttir 2. febrúar 2021

Vindmyllur hafa drepið á annað hundrað hafarna í Noregi síðan 2006

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Frá árinu 2006 hafa 68 vindmyllur verið reistar á Nordmøre-svæðinu um miðbik Noregs og samkvæmt rannsókn á áhrifum þeirra á fuglalíf hefur komið í ljós að þær hafa drepið samtals 108 haferni og þrjá gulerni. Á árunum 2019 og 2020 hafa fimm ernir til viðbótar drepist í árekstri við vindmylluspaða í virkjunum Fosen Vind í Þrændalögum. Þetta eru þó einungis þeir ernir sem vitað er um með vissu að hafi drepist í árekstrum við vindmylluspaða.

Fuglasérfræðingurinn Torgeir Nygård segir skráningu á dauðum fuglum við vindmyllur ekki nægilega góða. Það eigi m.a. við vindorkuver Fosen í Þrændalögum (Storheia vindpark), sem samanstendur af 80 vindmyllum sem eru með 288 megawött í uppsettu afli. Fyrirtækið hefur lýst þessu orkuveri sem stærsta vindorkuveri Evrópu. Orkan þaðan getur dugað fyrir 400.000 rafmagnsbíla eða fyrir álverið á Karmøy.

Storheia vindpark, sem er í eigu Fosen Vind orkufyrirtækisins. Uppbygging hófst á svæðinu í ágúst 2016 en síðasta vindmyllan af 80 í þessum vindmyllugarði var sett upp í ágúst 2019. Þarna hefur verið fjárfest fyrir um þrjá milljarða norskra króna. Raforkuframleiðsla hófst á svæðinu í febrúar 2020. Mynd / Fosen Vind.

Yfirvöld hafa ekki krafist þess að Fosen Vind leiti að né skrái dauða fugla markvisst eftir að vindmyllurnar voru teknar í notkun.

Vill að skilyrði verði sett um eftirlit með fugladauða

„Það ætti að vera krafa og leyfis­skilyrði að markvisst sé leitað að fuglum, jafnvel eftir að vindmyllurnar hafa verið teknar í notkun. Þetta er til dæmis á Spáni og í Portúgal, sagði

Torgeir í samtali við Adresseavisen, en Nationen hefur líka fjallað um þessi mál.
Hann vill að sama aðferðafræði verði notuð þar varðandi eftirlit og talningu á dauðum fuglum og notuð er á Nordmøre-eyju. Þar hafa farið fram rannsóknir á áhrifum vindmyllanna á fuglalíf síðan 2006. Þá sé ekki nóg að skoða bara svæðið fast við vindmylluturnana. Leitarradíusinn verði að vera að minnsta kosti 110 til 120 metrar út frá áhrifasvæði vindmylluspaðanna. Þá þurfi að beita hundum við leit að dauðum fuglum. Án hunda finnist aðeins allra stærstu fuglarnir, eins og hafernir, en ekki rjúpur og aðrir fuglar þaðan af minni.

Þetta kort sýnir Storheia vindpark, vindmyllugarð Fosen í Þrændalögum.

Nýtt met í vindorkuframleiðslu í Noregi en er samt einungis 6,4% af heildar raforkuframleiðslunni

Nýtt met var sett í raforkuframleiðslu í Noregi á árinu 2020. Þá voru framleiddar 9,9 terawattstundir með vindmyllum, sem er 4,4, tera­watttstundum eða 79% meiri raforka en á árinu 2019. Vindorkan á árinu 2020 samsvaraði raforkunotkun um 62.000 heimila samkvæmt tölum Statistisk sentral­byrå (SSB).

Stöðug uppbygging hefur verið í vindorkugeiranum í Noregi á undanförnum árum. Sú raforku­framleiðsla er samt enn lítill hluti af heildarraforkuframleiðslu landsins, eða um 6,4% þegar mest framleiðsla hefur verið í Noregi, eins og á síðasta ári.

Þótt vindorkan í Noregi þyki ekki mikil þá er hún samt rúmlega tvöfalt meiri en heildarnotkun á raforku á Íslandi var á árinu 2019 sem var samtals 19,5 TWst. Heildar raforkuframleiðslan í Nor­­egi á árinu 2020 var 154,2 TWst, sem er 19,6 TWst, eða 15% meiri framleiðsla en á árinu 2019. Af þessari raforkuframleiðslu voru 91,8% framleidd með vatnsafli. Raforkunotkunin í Noregi dróst saman um 0,2% á síðasta ári en raforkuútflutningurinn jókst um 20,5 TWst sem er mesta aukning á einu ári sem skráð hefur verið. Þetta er samhliða mikilli framleiðslu og lágu raforkuverði.