Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Dagbjört Diljá Einþórsdóttir og Ólafur Rúnar Ólafsson í tómum fjárhúsunum heima á Urriðaá. Þau standa í erfiðum samningaviðræðum við ríkið um réttlátar bætur fyrir verðmætan bústofn sinn.
Dagbjört Diljá Einþórsdóttir og Ólafur Rúnar Ólafsson í tómum fjárhúsunum heima á Urriðaá. Þau standa í erfiðum samningaviðræðum við ríkið um réttlátar bætur fyrir verðmætan bústofn sinn.
Mynd / smh
Í deiglunni 13. júní 2023

Eftirmál riðuveiki: Ungu bændurnir á Urriðaá með sjálfbæran rekstur

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Bærinn Urriðaá í Miðfirði er í landi Syðri-Urriðaár. Þessi bæjarheiti hafa borið á góma að undanförnu í umræðu um nýlegt riðutilfelli í hjörðinni á bænum og niðurskurð í kjölfarið. Á Urriðaá búa þau Ólafur Rúnar Ólafsson og Dagbjört Diljá Einþórsdóttir en þau keyptu jörðina árið 2015.

Þau höfðu á fremur stuttum tíma náð mjög góðum árangri í sinni ræktun, fjölgað fé um rúmlega tvö hundruð á vetrarfóðrum og komin í þá stöðu að þurfa í raun ekki að vinna utan bús. Að hafa fengið þennan úrskurð um staðfest riðusmit í hjörðinni var því sérstaklega erfitt, þar sem þau voru loksins komin í þá stöðu að vera með stöðugan og sjálfbæran búrekstur.

Urðunarmálin erfið

„Þetta var allt mjög sorglegt, líka þegar blandaðist inn í niðurskurðar- og bótaferlið þetta fát varðandi urðunina. Reynt var að fá okkur til að samþykkja urðun á jörðinni okkar, en við vildum að gripirnir yrðu urðaðir fjarri okkur, helst á „opnum“ urðunarstað,“ segir Ólafur þegar þau eru spurð um líðanina eftir niðurskurðinn og urðunina.

„Við urðum vitni að því, þegar allt varð stopp með urðunarstaði og hræin voru búin að vera um sólarhring við sláturhúsið á Hvammstanga, að allt í einu sjáum við að það er verið að flytja rollurnar okkar í gámum að flugvellinum á Króksstöðum í Miðfirði. Sá bær blasir við okkur út um stofugluggann. Þá hafði verið ákveðið í skyndi að urða hræin þar án þess að skoða aðstæður almennilega. Sem betur fer gekk það þó ekki eftir, enda hefði það verið óþægileg tilhugsun að hafa þetta í næsta nágrenni við okkur ef við næðum að hefja búskap aftur,“ bætir Dagbjört við.

„Við náðum einhvern veginn aldrei að syrgja rollurnar fyrr en nokkru seinna. Við vorum undir miklu álagi og áreiti vegna þessara urðunarmála af hendi Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar. Á ákveðnum tímapunkti hætti ég að svara símtölunum og vísaði öllum erindum á lögfræðinginn okkar, en við höfum fengið góðan andlegan stuðning bæði frá sveitarfélaginu okkar og eins frá Bændasamtökunum. Sveitarstjórinn okkar, Unnur Valborg Hilmarsdóttir, á sérstakar þakkir skildar fyrir hjálpsemina,“ segir Ólafur.

Hálfgerð tilviljun að enda á Urriðaá

Dagbjört er búfræðingur frá Hvanneyri en Ólafur vélvirki að mennt. Ólafur er alinn upp á sauðfjár- og kúabúinu Þaravöllum í Hvalfjarðarsveit en Dagbjört er frá Egilsstöðum og ekki sveitastelpa að upplagi. Hálfgerð tilviljun réði því að þau enduðu á Urriðaá, þar sem fyrir var fyrirmyndar búrekstur. „Við komum reyndar hér við á ferðalagi okkar eftir að ég útskrifaðist frá Hvanneyri um vorið 2014, sem endar með að við erum hér allt sumarið og haustið 2014 með fyrri ábúendum,“ segir Dagbjört um forsöguna.„Jörðin var í raun ekki til sölu en tengdapabbi hafði keypt folöld hér af bæ í sveitinni og fór að spyrjast fyrir um lausar jarðir, bara um það leyti sem útskrift er á Hvanneyri.

Honum var bent á að hringja í Sigvalda Sigurjónsson og Þóru F. Ólafsdóttur, sem höfðu búið hér í áratugi, og það endaði með að þau buðu okkur að koma og vera þetta sumar hjá sér til að vega þetta og meta. Enda tók fjármögnunarferlið sinn tíma,“ segir Ólafur.

Sigvaldi hjálpaði mikið í byrjun

Dagbjört segir að þetta hafi verið mjög skemmtileg ábúendaskipti. „Þetta gekk svo vel upp þrátt fyrir að við þekktum þau ekkert fyrir. Við fluttum í raun inn til þeirra í október og svo bjuggum við með þeim alveg að jólum – þegar þau flytja suður,“ segir hún.

Sigvaldi hjálpaði þeim mjög mikið í byrjun, alveg fyrstu árin, og svo kom hann til þeirra á hverjum sauðburði og líka á haustin í smalamennsku. „Við tökum við allri hjörðinni og auðvitað alveg toppbúi. Það voru ekki allir bjartsýnir á að við næðum að halda ræktuninni jafn góðri, en held við getum alveg sagt að við höfum náð því og jafnvel náð að bæta það þó nokkuð með góðri hjálp Sigvalda. Við höfum til dæmis náð frjóseminni vel upp og hækkað gerð og þyngd og í raun allt saman – auk þess að fjölga úr 470 fjár í yfir 700,“ segir Ólafur. „Sigvaldi var hins vegar alltaf með okkur, sérstaklega í byrjun, í allri ákvörðunartöku um ásetning og slíkt,“ bætir Dagbjört við.

Dagbjört og Ólafur keyptu Urriðaá árið 2015, en þar var fyrirmyndarbúskapur.

Úrvals hrútar

„Síðasta ár var algjört toppár hjá okkur,“ segir Dagbjört. „Gerðin rauk upp og við vorum svakalega ánægð með ganginn í þessu hjá okkur.“ Ólafur segir að þau hafi verið einstaklega heppin með hrúta, fengið alveg sértaklega góða einstaklinga. „Sigvaldi átti góðan hrút sem hét Runni undan Laufa og í grunninn er eiginlega megnið af fénu undan honum. Svo vorum við komin með svaka góða línu undan hrútnum Dracula sem var undan Dreka frá Hriflu og Gaursdóttir, og einnig syni Dracula, Demant. Þetta er ræktunarlína sem við sjáum sérstaklega mikið eftir.“

Þau segja að þetta hafi verið alveg einstök ræktun og mjög erfitt að sjá á eftir henni. „Þetta var eitthvað sem við vorum búin að rækta og kom svona svakalega vel út, gripir sem báru af og allt undan þeim,“ segir Ólafur.

Voru lömuð í nokkra daga

„Við vorum svo á kafi í þessu ræktunarstarfi að það er erfitt að útskýra hvað það hafði mikil áhrif á okkur að lenda í þessu – höfðum legið yfir skýrsluhaldinu í Fjárvís til að móta okkar eigin línur í ræktuninni sem hefur tekið allan okkar tíma hér þótt stuttur sé,“ segir Ólafur. „Svo áttu krakkarnir okkar, Ingunn Bára, 5 ára og Einþór Logi, 3 ára, líka kindur sem hefur verið mjög erfitt fyrir okkur öll að takast á við að þau hafi misst.

Áfallið var mikið þegar fréttirnar berast frá Bergsstöðum um að staðfest smit væri þar. Við vorum í raun alveg lömuð í nokkra daga á eftir en ætluðum svo að fara að bólusetja og hugsa ekkert um möguleikann á því að það gæti verið smit hjá okkur, þegar það er svo staðfest í kindinni frá Bergsstöðum. Við fórum auðvitað strax að hugsa um stöðuna og framtíðina og ekki síst um allt söluféð á undanförnum árum sem er býsna margt,“ segir Ólafur. Þau segja að þessar undanfarnar vikur hafi verið sérstaklega erfiðar, líka í því ljósi að þau væru búin að vera frekar stuttan tíma á Urriðaá – og höfðu skuldsett sig nokkuð í byrjun við kaupin á jörðinni. „Við tókum svo síðar allt í gegn í gömlu fjárhúsunum og réðumst síðan í að byggja ný fjárhús, auk þess að hafa nýlega keypt nýjan traktor. Þetta var auðvitað allt saman mjög kostnaðarsamt,“ segir Ólafur.

Góður búrekstur

Búið gekk vel og það rak sig. Allt útlit var fyrir að fjárfestingarnar myndu ganga vel upp. „Við höfum áhyggjur af því hvernig muni ganga að reka búið á þessum bótum sem við fáum – og líka þegar og ef við tökum aftur fé, því miðað við þær forsendur sem eru uppi núna í samningum við ríkið um bætur þá getum við aldrei keypt nema brot af þeim bústofni sem við vorum með,“ segir Dagbjört.

„Það segja okkur allir að fyrstu árin eftir fjárskiptin séu erfiðust – því þá þarf að taka gemlinga og það þarf alltaf að setja þá á – og það skilar miklu minna. Maður verður nokkuð lengi að byggja upp fulla framleiðslu – jafnvel alveg fimm ár,“ bætir hún við.

Langt í frá að vera fullar bætur

Ólafur segir með áhersluþunga að staða bænda sem lenda í þessu sé mjög veik. „Þetta eru auðvitað langt í frá að vera fullar bætur. Þegar við létum féð af hendi til slátrunar þá datt okkur aldrei í hug annað en við fengjum bætur til að kaupa sama fjárfjölda í lok fjárleysistímabilsins. Við vissum að okkar góðu hjörð fengjum við aldrei aftur en hitt að okkur standi ekki til boða að fá aftur sama fjárfjölda er bara fáránlegt – að við þurfum aftur að fara að fjárfesta til að komast í full afköst.“

Dagbjört tekur undir og segir að ýmislegt vanti í reglugerðina um bætur til að hún geti talist réttlát. „Til dæmis að ekki sé gert ráð fyrir greiðslum fyrir hreinsunarstarf sem við þurfum sjálf að fara í, rífa þetta allt niður og svo að byggja aftur upp. Þetta eru mikil hús og innréttingar. Afurðatjónsgreiðslurnar geta heldur aldrei staðið undir launakostnaði, rekstrarkostnaði af húsum og heimili og afborgunum af lánum. Þarna vantar margar milljónir upp á svo þetta geti gengið upp,“ segir hún.

Ótrúlega tímafrek yfirferð

Þau segja bæði að þau hefðu viljað sjá drög að samningi áður en þau létu féð af hendi, það væri eðlilegra ferli. „Það er heldur vonlítið fyrir okkur núna að standa í einhverju stríði um að fá sómasamlegan samning um réttlátar greiðslur fyrir okkar bústofn. Þetta tekur virkilega á, bæði andlega og svo fer alveg ótrúlegur tími í það líka að yfirfara öll smáatriðin í okkar stöðu,“ segir Dagbjört.

Þau vilji hins vegar helst af öllu byrja aftur upp á nýtt, en til þess að það geti gengið eftir þurfi þau að sjá betri samning en núna er á borðinu. Ekki sé raunhæft að taka fleiri lán til þess að koma sér aftur af stað.

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...