Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Ylrækt í gróðurhúsum á Íslandi hefur vakið athygli víða um heim. Hún byggir á nýtingu á raforku sem framleidd er með vatnsafli og jarðhita.
Ylrækt í gróðurhúsum á Íslandi hefur vakið athygli víða um heim. Hún byggir á nýtingu á raforku sem framleidd er með vatnsafli og jarðhita.
Mynd / HKr.
Fréttaskýring 28. október 2019

Garðyrkja á Íslandi er fjöregg sem pólitískar ákvarðanir gætu eyðilagt hratt og örugglega

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Fyrir skemmstu kom út skýrsla um  landfræðilegt og efnahagslegt litróf garðyrkju á Íslandi. Skýrslan sýnir að markaðshlutdeild nær allra tegunda íslensks grænmetis hefur verið að minnka á undan­förnum árum samhliða auknum innflutningi. Það er þrátt fyrir að kolefnisfótspor og heilnæmi framleiðslunnar sé afar hag­fellt í samanburði við garðyrkju erlendis. 
 
Hagstætt kolefnisfótspor ætti að ríma vel við þær áherslur sem stjórnvöld hafa uppi varðandi aðgerðir í loftslags- og umhverfismálum, sem og þau lýðheilsumarkmið sem sett hafa verið fram. Þar virðast aðgerðir stjórnvalda í öðrum málum, eins og tolla- og orkumálum, hins vegar vera að hafa þveröfug áhrif á greinina.  
 
 
Garðyrkjan hefur skilað góðri afkomu en margir óvissuþættir liggja í loftinu
 
Skýrslan var unnin fyrir Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi en byggir á samstarfi atvinnuþróunarfélaganna, Byggðastofnunar og landshluta­samtakanna sem gefa út ritröðina Deigla og Vífill Karlsson stýrir. Hún sýnir að garðyrkja á Íslandi hefur skilað góðri afkomu til lengri tíma litið og ætti að öllu eðlilegu að hafa gríðarlega vaxtar- og hagnaðarmöguleika. Nokkrir pólitískir óvissuþættir liggja þó í loftinu er varða ákvarðanir sem snerta samkeppni frá útlöndum og samkeppnisstöðu greinarinnar sem eru m.a. að leiða til hækkandi kostnaðar á innlendri orku.
 
Markmið og viðfangsefni skýrslunnar er reyndar að veita yfirlit yfir umfang garðyrkju í einstaka landshlutum á Íslandi en þó með áherslu á hlut Suðurlands. Aukinn innflutningur, áskoranir í umhverfismálum, umræða um orkumál og samningar á starfs­skilyrðum ýmissa búgreina voru meðal ástæðna þess að ráðist var í þessa skýrslugerð.
 
 
 
Tekjur garðyrkjunnar 8,3% af heildartekjum landbúnaðarins
 
Skýrslan sýnir að rekstrartekjur garðyrkjunnar í landinu námu um 8,3% af heildartekjum allra greina landbúnaðarins á árinu 2017, eða 6,1 milljarði af 73,2 milljörðum króna. Tekjurnar í garðyrkju jukust um 800 milljónir króna á tímabilinu 2008–2017, eða 13%.
 
Um 200 fyrirtæki eru í garðyrkju á Íslandi en hefur fækkað um 5,3% á milli tímabilanna 2008–2012 og 2013–2017. Þegar horft var til 55 atvinnu­greina á Íslandi eftir flokkun Hagstofunnar þá voru 23 þeirra með færri fyrirtæki. 
 
Sé horft til skiptingar rekstrartekna eftir landshlutum er garðyrkja stærst á Suðurlandi, eða um 67%, og næststærst á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum ef þeim var slegið saman, eða 14%. Á Norðurlandi eystra var hún 9%. Minnst er hún 1% á Norðurlandi vestra. 
 
Atvinnugreinin er víða vel fjár­mögnuð þar sem eiginfjár­hlut­fallið er einna hæst og nokkuð góð á landsvæðunum þar sem hún er stærst, eða 39,2% á Norðurlandi eystra og 21,4% á Suðurlandi samkvæmt meðaltali árin 2013–2017.  
 
Þegar garðyrkja var brotin upp í sex mismunandi undirgreinar kom í ljós að Sunnlendingar voru með meira en helming allrar veltu í fjórum þeirra. Það eru blómarækt, ræktun á aldingrænmeti og papriku, kartöflurækt og ræktun á öðru ótöldu grænmeti, rótum og hnýði. Í hinum þeirra voru þeir með 44% og 45% veltunnar.
 
Garðyrkjan er mikilvægust á Suðurlandi þar sem hún er 1,46% af vinnsluvirði landshlutans, síðan Norðurlandi eystra þar sem hann er 0,20% og Norðurland vestra 0,18%. Suðurland hefur því mikla sérstöðu í þessari atvinnugrein á þennan hátt. Efnahagsreikningur sunnlenskra garðyrkju­bænda var 56% hærri en annars staðar á landinu árið 2017. Það er athyglisvert hvað hún er lítil í sumum landshlutum sem búa ríkulega að orkulindum eins og t.d. heitu vatni.
 
Veltan eykst í öllum undirgreinum garðyrkjunnar á Suðurlandi þegar borin eru saman tímabilin 2008–2012 og 2013–2017. Það sama verður ekki sagt um aðra landshluta þar sem hún dróst saman í blómarækt og stóð í stað í kartöflurækt.
 
Aukin neysla og margir jákvæðir punktar en samt fækkar framleiðendum
 
Af skýrslunni má draga þá ályktun að hagnaðar- og vaxtarmöguleikar í greininni geta verið gríðarlegir ef rétt er á málum haldið. Því til sönnunar má sjá í skýrslunni að meðalneysla grænmetis á Íslandi var um 110 kíló á mann hérlendis árið 2018 sem er um 30 kílóum meira á mann en kjötneysla var rúmlega 84 kíló á mann árið 2015 samkvæmt tölum sem sóttar voru á heima­síðu Hagstofu Íslands. Markaðurinn stækkar en að mestu leyti vegna þess að íbúum og ferðamönnum fjölgar hérlendis. Þess vegna má búast við að þessi markaður fari stækkandi og vegna aukinnar meðvitundar í umhverfismálum muni neysla aukast enn meira á hvern íbúa, líka þegar fram líða stundir. Þegar það er haft í huga ásamt markaðshlutdeildar íslensks grænmetis sem og afkomu í grein­inni verður útlit að teljast bjart í garðyrkju á Íslandi.
 
Það vekur því athygli að þrátt fyrir þessa afar hagstæðu þætti  hefur framleiðendum fækkað um 5% á undanförnum árum, en þeir eru nú um 200 talsins og fer enn fækkandi. Það er því augljóslega eitthvað að í rekstrarumhverfinu sem byggt er á regluverki sem unnið er á pólitískum forsendum í ráðuneytum og á Alþingi Íslendinga. 
 
Landbúnaður á Íslandi er mikilvægur fyrir fæðuöryggið 
 
Í skýrslunni kemur fram að fæðu­öryggi er samofið umræðunni um landbúnað, hérlendis sem erlendis. Fæðuöryggi snýst um aðgang að fæðu og að lágmarka hættu á fæðuskorti og hungri við ófyrirséðar aðstæður. Bent hefur verið á að það þurfi að gera ráð fyrir þeim möguleika að landið lokaðist fyrir innflutningi og þá þyrftu lands­menn að lifa á þeim matvælum sem framleidd væru innanlands. Af skýrsl­unni að dæma gegnir garð­yrkja þar ekki síður mikilvægu hlutverki en aðrar greinar landbúnaðarins. 
 
Útiræktun grænmetis er mjög háð veðurfari og hefur gengið einna best á Suðurlandi, þótt slík ræktun sé stunduð um allt land og hafi víða gengið ágætlega. 
 
Hreinleiki íslenskra landbúnaðarafurða eykur matvælaöryggi
 
Einnig er bent á þátt matvælaöryggis sem snýst um hvort matvæli séu örugg og heilnæm til neyslu. Sú staða geti komið upp að erlend matvæli séu ekki örugg af ýmsum ástæðum. Skemmst sé að minnast nýrrar rannsóknar um fjölónæmar bakteríur sem fundust í inn­fluttu grænmeti en ekki íslensku (Guðný Klara Bjarnadóttir, 2018). Faraldsfræðingar eins og Karl G. Kristinsson hafa haft áhyggjur af mikilli lyfjanotkun í landbúnaði sem gæti stuðlað að aukinni tíðni fjöl­ónæmra baktería með auknu álagi og kostnaði á heilbrigðiskerfi landsmanna. Þar skiptir miklu máli að lyfjanotkun í landbúnaði er í alþjóðlegum samanburði hvergi minni en í Noregi og á Íslandi. Það dregur úr hættu á myndun sýklaónæmra baktería sem viðurkennt er að sé ein mesta ógnin við lýðheilsu mannkyns á komandi árum. Reynslan sýnir að þegar fólk fær í sig bakteríur sem myndað hafa ónæmi gegn sýklalyfjum hafa jafnvel minni háttar sár reynst illviðráðanleg og banvæn. Á hverju ári látast tugir þúsunda manna af þessum sökum í Bandaríkjunum og Evrópu og fer sá fjöldi ört vaxandi. 
 

9 myndir:

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...