Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Blálanga er af lönguættkvísl þorskfiskaættar. Mynd / Wikipedia.
Blálanga er af lönguættkvísl þorskfiskaættar. Mynd / Wikipedia.
Fréttaskýring 17. desember 2021

Blekkingarleikur á blálöngumiðum

Höfundur: Guðjón Einarsson

Frönskum togaraskipstjóra, sem fann gjöful blálöngumið við landhelgislínuna á Reykjanes­hrygg árið 1991, tókst að halda því leyndu og sitja einn að gullkistunni í rúm tvö ár. Eftir að þetta uppgötvaðist leið ekki á löngu þar til frönsk og íslensk veiðiskip voru í sameiningu búin að þurrka þessar gjöfulu hrygningarstöðvar upp.

Veiðar á blálöngu við Ísland hafa verið æði sveiflukenndar síðustu áratugina. Ársaflinn hefur verið frá rúmlega 8 þúsund tonnum niður í nokkur hundruð tonn. Blálanga, rétt eins og langa og keila, var lengst af eingöngu veidd sem aukaafli á öðrum veiðiskap, einkum karfaveiðum. Áhugi á því að veiða hana sérstaklega vaknaði skyndilega árið 1979 þegar hrygningarstöðvar hennar suður af Vestmannaeyjum fundust. Í hönd fór mokveiði togara á blálöngu á þessum miðum. Afli Íslendinga jókst úr röskum 1.200 tonnum árið 1978 í kringum 8.000 tonn árin 1980 og 1981. Næstu tvö árin dalaði aflinn svo í 5.000-6.000 tonn og á árunum þar á eftir fór hann sjaldnast yfir 2.000 tonn.

Hrygningarstöð finnst fyrir tilviljun

Víkur nú sögunni suðvestur á Reykja­neshrygg um það bil 10 árum síðar eða árið 1991. Það sem hér fer á eftir er byggt á grein sem Sigurður Steinar Ketilsson, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, ritaði í Gæslutíðindi árið 1994.
Eitt þeirra erlendu skipa sem Landhelgisgæslan var vör við á siglingu við 200 sjómílna fiskveiðilögsöguna á Reykjanes­hrygg var franski togarinn Cote del la Vierge. Þau frönsku fiskiskip sem sáust á þessum slóðum voru yfirleitt á siglingu til og frá Dohrnbanka austur af Grænlandi, en þar höfðu Frakkar heimild til veiða á vegum Evrópusambandsins. Árið 1991 fann franski skipstjórinn, Bellamy Paul, fyrir hreina tilviljun fiskimið á hól við 200 mílna fiskveiðimörkin á Reykjaneshrygg, þar sem reyndist vera mikið af blálöngu á hrygningartíma. Skipstjórinn var ekki alveg klár á því hvar íslensku fiskveiðimörkin lágu en taldi eðlilegast að miða línuna 200 sjómílur frá Reykjanesi og samkvæmt því var hóllinn utan markanna. Þar skjátlaðist honum því línan er miðuð við Geirfugladrang sem er rúmar 17 mílur vestsuðvestur af Reykjanesi.

Sat einn að miðunum

Þetta árið sat Bellamy Paul einn að þessum nýfundnu fiskimiðum og fiskaði vel. Togarinn sást einu sinni úr flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, á siglingu á þessum slóðum og var ekki ástæða til að ætla annað en að hann væri á ferðalagi vegna veiða á Dohrnbanka. Árið eftir, 1992, sást þrisvar til ferða togarans úr landhelgisgæsluflugvélinni, tvisvar á siglingu og í þriðja sinn var þoka og þá var talið að hann væri á veiðum en erfitt að færa sönnur á það vegna lélegs skyggnis. Togarinn var þá tvær sjómílur utan við 200 mílna mörkin.

Landhelgisgæslan kom þessari vitneskju á framfæri við íslenska útgerðarmenn en þeir töldu líklegast að franski skipstjórinn væri á höttunum eftir búra á þessum slóðum og myndi lítið vera upp úr því að hafa. Síðan fréttist frá Frakklandi að franski togarinn hefði landað um 400 tonnum af blálönguflökum. Það þótti mönnum hér heima hæpið í meira lagi og lögðu ekki trúnað á að togarinn hefði fengið um 1.000 tonn af blálöngu upp úr sjó. Þó var íslenskur togari sem var á leið á úthafskarfamiðin látinn reyna fyrir sér á þessum slóðum en það bar engan árangur og tapaði hann hluta af veiðarfærum sínum.

Feluleikur

Þegar íslenski togarinn kom á svæðið sást til franska togarans á siglingu, en sá franski hafði híft inn veiðarfærin og lónaði í nágrenninu til þess að aðrir kæmust ekki að því hvar hann hefði verið að fiska. Um svipað leyti kom annar franskur togari á svæðið en sá hafði heyrt fiskisöguna heima í Frakklandi. Hann fór einnig erindisleysu því Bellamy Paul hífði og sigldi burt þegar hann sá skip nálgast hólinn sinn. Frakkinn sat einn að hólnum þetta árið og mun hafa aflað vel, segir í grein Sigurðar Steinars í Gæslutíðindum.

Þann 8. mars 1993 sást franski togarinn enn á ný úr gæsluflugvélinni en í þetta sinn var hann að veiðum 2 sjómílur innan við íslensku fiskveiðimörkin og var að hífa inn 30-35 tonn af blálöngu. Nú var ekki lengur neinn vafi á því hvað væri að gerast. Þessum upplýsingum var komið á framfæri við íslenska útgerðarmenn. Voru tveir íslenskir togarar sendir á svæðið og reyndist mikinn afla að fá. Þá voru einnig komnir á hólinn þrír franskir togarar og fiskuðu þeir einnig vel.

Hóllinn að hluta innan íslenskrar lögsögu

Þegar nánar var að gáð kom í ljós að frönsku togararnir toguðu inn fyrir 200 mílna mörkin. Veiðisvæðið á hólnum var mjög takmarkað, eða um 1,8 sjómílur í þvermál og af því voru um 0,5 sjómílur fyrir innan íslensku lögsögumörkin, eða aðeins um fjórðungur. Þrír fjórðu hólsins voru sem sagt í alþjóðlegri lögsögu og öllum skipum opinn. Togarar þyrptust nú á þessi nýju fiskimið og þegar mest var voru tólf skip á svæðinu samtímis, 6 frönsk og 6 íslensk. Þetta samspil gekk ekki vandræðalaust fyrir sig, veiðiaðferðir þjóðanna voru ólíkar og togararnir flæktu saman veiðarfærum. Varðskip var sent á staðinn til að stilla til friðar og tókst því að koma samskiptunum í lag auk þess að verja lögsöguna. Talið er að þetta ár hafi veiðst um 5 þúsund tonn af blálöngu á hólnum.

Fljótlega fengu þessi nýju fiskimið nafnið Franshóll og var Sólmundur Einarsson fiskifræðingur sagður höfundur þeirrar nafngiftar.

Varnaðarorð fiskifræðings

Þessi mikla veiði á hrygningar­slóð blálöngunnar á Franshól var fiskifræðingum verulegt áhyggju­­efni. Vilhelmína Vilhelmsdóttir fiskifræðingur ritaði grein í Fiskifréttir í janúar 1994. Hún benti á að blálangan þjappaði sig saman á tiltölulega takmörkuðum svæðum til hrygningar. Hún vitnaði til þess að fyrsta slíka svæðið hefði fundist suður af Vestmannaeyjum árið 1979 og hefði verið góður afli þar í fjögur ár en síðan ekki söguna meir.

„Við höfum áhyggjur af fram­vindunni því líkur eru á að eins fari með Franshól og svæðið við Vestmannaeyjar. Það er því best að fiskimenn geri sér grein fyrir því strax hvert stefnir og við aðra er þá ekki að sakast ef illa fer,“ skrifaði Vilhelmína.

Það fór svo að veiðin á hólnum varð endaslepp og hafa blálöngu­svæðin á Franshól og sunnan Vestmannaeyja verið friðuð á hrygningartíma frá 15. febrúar til 30. apríl um áratugaskeið og eru enn.

Línuveiðar hefjast af krafti

Strax árið 1994, árið eftir atganginn á Franshól, var heildarblálönguaflinn á Íslandsmiðum kominn niður í 1.000 tonn og hélst hann innan við 2.000 tonn allt til ársins 2008. Fram að því hafði blálangan að mestu verið veidd í botnvörpu en nú bættust kröftugar línuveiðar við (sjá línurit). Hámarki náðu veiðarnar árið 2010 þegar yfir 6.000 tonn veiddust alls, þar af tveir þriðju aflans á línu. Þessi mikli áhugi á línuveiðunum stafaði ekki síst af því að grunur lék á að til stæði að setja blálönguna í kvóta og vildu margir skapa sér veiðireynslu áður en til þess kæmi.

Eftir að blálangan var svo kvótasett fiskveiðiárið 2013/14 brá svo við að aðeins helmingur eða þriðjungur kvótans var nýttur árin á eftir og allt til þessa dags.

Línuútgerðin Vísir hf. gerði út á blálöngu á þessum árum. Að sögn Péturs Hafsteins Pálssonar framkvæmdastjóra fóru veiðarnar fram á erfiðu svæði á miklu dýpi vestur af Látrabjargi og var veiðarfæratjón mikið. Gott verð fékkst fyrir blálönguna þegar framboðið var lítið og þá fór fiskurinn aðallega á neytendamarkað hér innanlands, en þegar framboðið jókst var erfitt að selja blálönguna á viðunandi verði miðað við tilkostnað.

„Það hefur bara ekki borgað sig að sækja blálönguna, við reyndum það lengur en skynsamlegt var,“ segir Pétur.

Hrun í nýliðun

Samkvæmt upplýsingum Guð­mundar Þórðarsonar, sviðsstjóra á Hafrannsóknastofnun, var blálöngustofninn sterkur frá síðustu aldamótum og allt til ársins 2016. Mjög góð nýliðun hélst allt til ársins 2007 en þá varð algjört hrun í nýliðuninni. Síðustu 3-4 árin vottar aðeins fyrir nýliðun en ekkert í líkingu við það sem áður var. Ekki er ljóst hvað veldur. Tillögur Hafrannsóknastofnunar um hámarksafla endurspegla þessa þróun. Tillagan fyrir yfirstandandi fiskveiðiár hljóðaði upp á 334 tonn. Blálangan er því að mestu orðin meðafli á öðrum botnfiskveiðum á ný og bein sókn í hana að heita má úr sögunni í bili.

Skylt efni: Blálanga afli

Veðurfarið hefur úrslitaáhrif
Fréttaskýring 16. maí 2022

Veðurfarið hefur úrslitaáhrif

Kartöflumygla náði talsverðri útbreiðslu á Suðurlandi síðastliðið sumar, ekki sí...

Fjölbreytt fiskeldi til hliðar við laxinn
Fréttaskýring 13. maí 2022

Fjölbreytt fiskeldi til hliðar við laxinn

Styrjuhrogn, lúsétandi hrognkelsi, græn sæeyru, sushi-lostætið gullinrafi og góm...

Dönskum vindorkuframleiðendum er borgað fyrir að stöðva vindmyllurnar
Fréttaskýring 2. maí 2022

Dönskum vindorkuframleiðendum er borgað fyrir að stöðva vindmyllurnar

Mitt í tali um orkuskort í Evrópu og svimandi verð á raforku þykir Dönum sérkenn...

Langtímalosun kolefnis úr framræstu ræktarlandi er líklega margfalt minni en fullyrt hefur verið
Fréttaskýring 11. apríl 2022

Langtímalosun kolefnis úr framræstu ræktarlandi er líklega margfalt minni en fullyrt hefur verið

Fullyrðingar, sem haldið hefur verið á lofti á Íslandi árum saman um losun koltv...

Lífræna byltingin sem er að éta börnin sín
Fréttaskýring 10. apríl 2022

Lífræna byltingin sem er að éta börnin sín

Um ár er síðan Gotabaya Raja­paksa, forseti eyríkisins Sri Lanka, bannaði innflu...

Fiskur með frostlög í blóðinu
Fréttaskýring 8. apríl 2022

Fiskur með frostlög í blóðinu

Ískóð er merkilegur fiskur. Þetta er hánorræn þorskfiskategund sem hefur aðlagas...

Ísland og Noregur eru einu Evrópuríkin sem geta framleitt yfir 100% af raforkuþörf sinni með endurnýjanlegri orku
Fréttaskýring 5. apríl 2022

Ísland og Noregur eru einu Evrópuríkin sem geta framleitt yfir 100% af raforkuþörf sinni með endurnýjanlegri orku

Hlutfall raforku í heiminum sem framleitt er með kolum hefur aldrei verið hærra ...

Samþjöppunin í fiskvinnslunni
Fréttaskýring 1. apríl 2022

Samþjöppunin í fiskvinnslunni

Umræðan um samþjöppun og hagræðingu í íslenskum sjávar­útvegi á síðustu árum og ...