Að bera kvíðboga fyrir óvissri framtíð
Loftslagsbreytingar og þeir erfiðleikar sem þær valda fylla marga streitu og kvíða og fólk fyllist, margt hvert, vonleysi gagnvart framtíðarhorfum.
Velta má fyrir sér hvernig fólk sem á allt sitt undir náttúrunni, t.d. bændur, sem og allir aðrir, fara að því að horfast í augu við aðsteðjandi loftslagsvanda og áskoranir honum tengdar, án þess að missa hugrekkið og drifkraftinn til góðra verka og uppbyggingar, og tiltrú á framtíðina.
Hvaða áhrif hafa loftslagsbreytingar á geðheilsu? Stephanie Collier, læknir og kennari við Harvard-háskóla, segir að til viðbótar við tilvistaráhyggjur og ótta um framtíðina geti loftslagsbreytingar haft bein áhrif á geðheilsu (eins og með náttúruhamförum eða hita) og óbein (með landflótta, fólksflutningum og fæðuóöryggi).
„Hækkandi hitastig hefur verið tengt fjölgun koma á bráðamóttöku af geðrænum ástæðum og getur skert vitsmunaþroska barna og unglinga. Enn fremur tengist fæðuóöryggi þunglyndi, kvíða og hegðunarvandamálum. Stöðugar fregnir af t.d. skógareldum, vaxandi illviðrum, þurrkum og bráðnun jökla, geta valdið auknu álagi í daglegu lífi fólks,“ segir Collier.
Óviss framtíð veldur kvíða
Loftslagskvíði, eða umhverfiskvíði, er vanlíðan sem tengist áhyggjum af áhrifum loftslagsbreytinga. Þetta er kvíði sem á rætur sínar að rekja til óvissu um framtíðina og varar okkur við hættunni af breyttu loftslagi. Loftslagsbreytingar eru ógn við velferð fólks og heilsu jarðar og því ekki óeðlilegt að upplifa áhyggjur og ótta við afleiðingarnar.
Loftslagsbreytingar geta meðal annars framkallað tilfinningar eins og sorg, reiði, skömm, missi, sektarkennd, vonleysi og þreytu. Þessar tilfinningar geta stafað af mörgum þáttum, þar á meðal beinum áhrifum (t.d. tapi á húsnæði eða lífsviðurværi), verið birtingarmynd reynslu annars fólks víða um heim eða vanlíðan sem tengist framtíðar- eða tilvistarógn.
Loftslagskvíði vaxandi vandamál
Vaxandi fjöldi fólks er beinlínis haldinn loftslagskvíða. Þó að allir geti upplifað hann virðast ákveðnir hópar vera sérstaklega útsettir, þar á meðal börn, ungt fólk, fólk í frumbyggjasamfélögum, fólk sem er annt um umhverfið og náttúruna, loftslagsaðgerðasinnar, þeir sem vinna að loftslagsmálum (eins og loftslagsvísindamenn), fólk sem hefur lífsviðurværi sitt af náttúrunni (til dæmis bændur), og allir sem hafa orðið fyrir tjóni vegna loftslagsbreytinga. Meiri loftslagskvíði tengist einnig skynjun á aðgerðarleysi stjórnvalda í loftslagsmálum, sérstaklega hjá yngra fólki. Þar að auki, fyrir mörg okkar, en kannski sérstaklega fyrir yngri kynslóðir, getur stöðugt áreiti neikvæðra loftslagsfrétta verið stressandi og niðurdrepandi.
Vilhjálmur Árnason heimspekingur telur að við þurfum öðru fremur að átta okkur á því hvað sé innan áhrifasviðs okkar og hvað ekki og temja okkur æðruleysi og hugarró gagnvart því sem við getum ekki haft áhrif á. Þeir sem huga að geðheilsu tengdri loftslagsvá virðast flestir sammála um mikilvægi þessa.
Meðal ráða sérfræðinga við loftslagskvíða eða tilfinningalegri vanlíðan vegna loftslagsbreytinga er að einbeita sér að því sem þú getur stjórnað. Loftslagsbreytingar eru flókið mál. Minntu sjálfa/n þig á að loftslagsbreytingar verða ekki leystar af einum einstaklingi, samtökum eða stjórnvöldum á eigin spýtur. Þó að þetta kunni að vera niðurdrepandi, þá er það líka góð áminning um að einbeita sér að því sem er í þínu valdi frekar en því sem er það ekki.

Sterk gildi og þrengri áherslur
Kristín Linda Jónsdóttir sálfræðingur segir sterk eigin gildi virka eins og áttavita. Þau hjálpi okkur að ákveða næstu skref, bæði í stóru myndinni og hversdagslegu amstri daganna. Sterk meðvituð gildi skapi skýra sýn, öfluga sjálfsmynd og dragi úr hugarvíli.
Því er ráðlegt að reyna að þrengja áherslu sína, orku og viðleitni í átt að verkefnum og málum tengdum loftslagsbreytingum sem skipta viðkomandi einstakling mestu máli. Velja mætti t.d. að einbeita sér að gróðurhúsalofttegundum, sjálfbærum landbúnaði eða vatnsvernd. Að einbeita sér að völdum fjölda mála getur dregið úr almennri streitu, hjálpað við að finna jafnvægi og viðhaldið lífsgleði, að sögn sérfræðinga við Boulder-háskóla.
Einnig er ráðlagt að taka sér hlé frá loftslagsfréttum. Að fylgjast með loftslagsspám eða fletta í gegnum samfélags- og fréttafærslur um loftslagsbreytingar sínkt og heilagt getur aukið á vanlíðan. Ef þú ert komin/n á bólakaf í fréttir af atburðum sem gerast um allan heim getur verið nauðsynlegt að fara tímabundið í frí frá þeim. Ef þú finnur fyrir þrýstingi um að vera upplýst/ur skaltu minna þig á að allar þessar fréttir, uppfærslur og upplýsingar verða til staðar þegar þú ert tilbúin/n til að taka þátt aftur. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að jafnvel þó að þú stígir til baka í nokkrar klukkustundir, daga eða vikur, mun það ekki breyta því sem gerist og þú þarft ekki að vera tengd/ur allan sólarhringinn.
Krefjandi fyrir sálarlífið
Það er eðlilegt að vera stressaður vegna loftslagsbreytinga. Loftslagskvíði er mjög raunveruleg reynsla og það er ekki eitthvað sem fólk þarf að burðast með einsamalt. Ef líðan þín fer að hafa áhrif á líf þitt eða getu til að takast á við daglegt líf getur verið gagnlegt að tala við einhvern um það.
Að sætta sig við loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á meðan lifað er í stöðugri óvissu um framtíð heimsins er krefjandi fyrir hverja manneskju. Ólafur Páll Jónsson heimspekingur telur lykilatriði að líta á landið sem samfélag og svið sem við tilheyrum, en ekki bara sem brunn sem við getum ausið úr. Hann telur einnig mikilvægt að þótt við getum ekki leyst málin, þá getum við tekið afstöðu.
Það virðist nokkuð samdóma álit sérfræðinga í sálgæslu að þó að nokkur kvíði vegna loftslagskreppunnar geti verið skynsamlegur og jafnvel aukið aðlögunarhæfni flestra, geti hann stundum orðið afar íþyngjandi og lamandi. Þessi íþyngjandi tegund loftslagskvíða geti leitt til vanmáttarkenndar og vonleysistilfinningar, valdið mikilli þjáningu og jafnvel fælt fólk frá því að grípa til aðgerða í leit að loftslagslausnum (það sem sumir hafa kallað „umhverfislömun“).
Það getur verið óþægilegt og stressandi að hugsa um loftslagskreppuna og þá óvissu sem henni fylgir. Nokkur kvíði vegna vandamálsins sýnir þó að viðkomandi stendur ekki á sama, heldur lýsir það umhyggju fyrir fólki um allan heim, ástandi vistkerfa og velferð annarra lífvera, og endurspeglar virðingu fyrir lífi og samtengingu. Sumir fræðimenn hafa jafnvel talið vægan loftslagskvíða uppbyggilegan, enda hvetji hann til umhugsunar og aðgerða.

Sérhver getur lagt sitt lóð á vogarskálina
„Spurt er hvernig fólk geti horfst í augu við aðsteðjandi loftslagsvanda og áskoranir honum tengdar, án þess að missa hugrekkið og drifkraftinn til góðra verka og uppbyggingar, og tiltrú á framtíðina. Við fyrstu sýn virðist þessi spurning kalla fremur á sálfræðileg og jafnvel guðfræðileg svör fremur en heimspekileg. Í fornaldarheimspeki voru sálfræði og siðfræði raunar samofin enda meginspurningin sem fengist var við sú hvernig lífi væri best að lifa. Sú spurning er sígild þótt hún hljóti að taka mið af aðstæðum.
Mér virðist að varðandi þetta mál sé frá heimspekilegu og/eða siðfræðilegu sjónarmiði nærtækast að líta til Stóuspekinnar. Í Handbók sinni, sem heitir á íslensku Hver er sinnar gæfu smiður, heldur stóuspekingurinn Epiktet því fram að lykillinn að listinni að lifa sé að kunna að greina á milli þess sem er undir okkur komið og hins sem er ekki á okkar valdi. Menn þurfi að átta sig á því að þeir ráða engu um ytri atburði nema viðbrögðum sínum við þeim. Við þurfum því öðru fremur að átta okkur á því hvað er innan áhrifasviðs okkar og hvað ekki og temja okkur æðruleysi og hugarró gagnvart því sem við getum ekki haft áhrif á. Allar skapraunir okkar stafi af því að við reynum að stjórna því sem við ráðum ekki við. Og með því að eyða orkunni í hið óviðráðanlega missum við stjórn á því eina sem við höfum vald á, en það er okkar eigin hugarafstaða og sálarró. Með því að temja sér æðruleysi gagnvart því sem maður fær ekki breytt myndast jafnframt rými fyrir hugrekki til að beina kröftum sínum að því sem er innan áhrifasviðs okkar. Við eyðum þá ekki hugarorkunni í gagnslausar áhyggjur heldur virkjum við krafta okkar í það sem við getum haft áhrif á.
Í loftslagsmálum virðist breytni okkar vera sem dropi í ómælishaf, en safnast þegar saman kemur og ef allir hugsa þannig að þeirra lífsmáti skipti ekki máli þá eykur það á vandann. Sérhver getur lagt sitt litla lóð á vogarskálina með lífsmáta sínum og ekki síður með afstöðu sinni. Þar er mikilvægast að leggja sig eftir traustum röksemdum, hafa það sem sannara reynist og það er sannarlega innan áhrifasviðs okkar, auk þess sem það getur haft áhrif á aðra. Þannig getum við virkjað vána sem drifkraft til góðra verka og lifað í voninni fremur en lamandi bölsýni eða hættulegri
blekkingu.“
Vilhjálmur Árnason, heimspekingur og prófessor emeritus.

Sterk eigin gildi eins og áttaviti
„Varðandi hugrænar og sálrænar áskoranir sem mæta okkur vegna aðsteðjandi loftslagsvanda og áskorana sem honum kunna að fylgja, má segja að fyrir dugandi fólk sem vill láta muna um sig skipti mestu, eins og ávallt, að hafa sterka sjálfsmynd. Þar með skýra sýn á eigið val, viðfang, verk og gildi. Að mæta deginum eins og hann kemur, í núinu eins og sagt er, af þeirri vakandi athygli, vissu og viti sem fylgir sjálfsþekkingu, æðruleysi og virðingu við heimili okkar jörðina.
Æðruleysið ber það í sér að við, hvert og eitt okkar, höfum það skýrt í huga hvað við getum gert, og viljum gera og hvað ekki og skiljum þar á milli. Hverjir eru okkar möguleikar og hvernig getum við látið muna um okkur, látið gott af okkur leiða, gengið sporin okkar dýrmætu jörð til góðs? Hvað er það svo sem er okkur fjarlægt, ómögulegt, er alls ekki á okkar borði hvort sem okkur líkar betur eða verr? Við látum það eiga sig, það er ekki okkar tebolli, og einbeitum okkur af því meiri krafti að því sem er okkur aðgengilegt, mögulegt og fært. Æðruleysið flokkar þannig hugsanir okkar og færir okkur frið og sátt í sál.
Sterk eigin gildi virka síðan eins og áttaviti, hjálpa okkur að ákveða næstu skref bæði í stóru myndinni og hversdagslegu amstri daganna. Sterk meðvituð gildi skapa skýra sýn og öfluga sjálfsmynd og draga úr hugarvíli. Sé það til dæmis þitt gildi að þú leggir jörðinni best lið gegn loftslagsvá með því að ...? Já, einmitt, hver er þín sýn, þín gildi, stefna, val og verk? Hvað er það svo sem þú ætlar ekki að velta þér upp úr, pæla í eða láta draga huga þinn niður? Leyfðu þér að sleppa því alveg úr huga þínum. Þannig hefur þú meiri einbeitingu, getu og betri líðan til að láta muna um þig á þann hátt sem er þér mögulegt, þar liggur galdurinn.“
Kristín Linda Jónsdóttir, sálfræðingur hjá Huglind.

Tilheyrum jörðinni og tökum afstöðu
Í erindi sem Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki, flutti í nóvember sl. fyrir sendiherra Norðurlandanna, og fjallar einkum um borgaramenntun og evrópsk gildi, segir hann m.a: „... Mál (Nussbaum) byggist á því að nánast allt sem við gerum hefur siðferðislegar afleiðingar. Það þýðir ekki aðeins að í öllu sem við gerum gætum við valdið skaða heldur einnig að með öllu sem við gerum getum við tekið afstöðu. Allt sem við gerum er tjáning sem hefur einhverja siðferðislega þýðingu og með því að lifa af yfirvegun getum við tekið afstöðu með mannkyninu, á heimsvísu og með plánetuna sem búsvæði.“
„Einn kaflinn í bók minni „Annáll um líf í annasömum heimi“, kaflinn
um maí sem heitir „Hugsað með fótunum“, fjallar m.a. um Aldo Leopold,“ lýsir Ólafur Páll og heldur áfram: „Hann var skógarvörður og í gegnum vinnu sína sem slíkur varð hann einn fyrsti umhverfisheimspekingur 20. aldar. Hann var maður sem nýtti landið og leit ekki svo á að umhyggja og verndun landsins væri endilega ósamrýmanleg nýtingu. En hann hafði samt áhyggjur af þeirri nýtingu sem hann varð vitni að á sínum tíma – og hefur aðeins versnað síðan þá. Í kaflanum er þessi tilvitnun:
„Þegar við lítum á land sem samfélag sem við tilheyrum, þá byrjum við ef til vill að nota það af væntumþykju og virðingu. Land mun ekki lifa af ágang hins vélvædda manns með öðrum hætti, né munum við uppskera þær fagurfræðilegu afurðir sem eru þess megnugar, með aðstoð vísindanna, að styðja við menninguna. Að land sé samfélag er grundvallarhugtak í vistfræði, en að það skuli elska og virða er framlenging af siðfræði.“
Þetta finnst mér mjög skynsamlegt. Hann fjallar líka um ýmislegt fleira í bók sinni A Sand County Almanac, m.a. um það sem hann kallar „husbandry“ og er mjög tengt starfi bóndans, þ.e. þess sem hefur umsjón með landinu. Sé talað við unga bændur, eins og þau sem búa á Burstarfelli í Vopnafirði, þá lýsa þau svona tengslum við landið og við ræktunina, hvort sem það er ræktun landsins eða sauðfjárins.
Lykilatriðið er held ég þetta: að líta á landið sem samfélag, svið sem við tilheyrum, en ekki bara sem brunn sem við getum ausið úr eins og okkur hentar (núna).
Annað sem skiptir máli er að þótt við getum ekki leyst málin, þá getum við tekið afstöðu. Mjög margir bændur leggja sig fram um að taka afstöðu með landinu, með náttúrunni, með dýrunum sem þeir ala. Þetta þýðir ekki að allt sem þeir gera hafi ekki áhrif á umhverfið eða sé kolefnishlutlaust. Nei, en þeir gera það sem þeir gera með ákveðnu hugarfari og þeir reyna að láta það hugarfar birtast í því sem þeir gera. Með því að vera í nánum tengslum við landið, skapast mjög mörg tækifæri til að taka afstöðu með því. En auðvitað virkar þetta líka í hina áttina, vegna hinna nánu tengsla og eðlis starfsins þá er þeirri hættu sífellt boðið heim að athafnir fólks hafi óþarflega neikvæðar afleiðingar.“
Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki.