Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Ullarævintýri á krossgötum
Lesendarýni 28. apríl 2025

Ullarævintýri á krossgötum

Höfundur: Margrét Jónsdóttir, verslunarstjóri

Þau tímamót urðu á dögunum að Flóahreppur seldi eitt af félagsheimilum sínum, það elsta í sinni eigu og sem heitir Þingborg, en er í daglegu tali nefnt Gamla Þingborg til aðgreiningar frá félagsheimilinu Þingborg sem stendur örlítið vestar.

Margrét Jónsdóttir

Vegagerð ríkisins keypti húsið, en það stendur á þjóðvegi 1 fyrir austan Selfoss og nær veghelgunar - svæði þjóðvegarins inn í miðjan salinn í húsinu.

Haustið 1990 var haldið í Gömlu Þingborg fyrsta námskeiðið af nokkrum í ullariðn á vegum Farskóla Suðurlands. Frumkvæðið áttu Hildur Hákonardóttir, veflistakona og baráttumaður í jafnréttismálum, og Helga Thoroddsen, sem var nýútskrifaður vefjarefnafræðingur frá Colorado-háskóla. Þær báðar höfðu mikinn metnað fyrir því að hefja íslensku ullina til vegs og virðingar að nýju, eftir nokkra lægð þar sem önnur vefjarefni virtust ætla að ýta ullinni út af markaði. Helga var kennarinn á þessum námskeiðum og strax ári eftir það fyrsta var stofnað samvinnufélag um rekstur Ullarverslunar og vinnslu, Þingborg svf. Ýmsir opinberir styrkir fengust til að koma þessu af stað, m.a. úr Jóhönnusjóði sem styrkti atvinnumál kvenna, Rannsóknastofnun landbúnaðarins styrkti verkefnið, Framleiðnisjóður landbúnaðarins og Búnaðarsamband Suðurlands einnig og Húsafriðunarsjóður styrkti lagfæringu á húsinu. Fyrstu árin skiptust Þingborgarkonur á um að afgreiða í versluninni sem eingöngu var opin á sumrin. Fljótlega tóku þó einstaka konur úr hópnum að sér reksturinn á búðinni í eigin reikning og svo gekk lengi vel, þó ekki væru greidd laun, hugsjón og þrautseigja réðu för. Fastur opnunartími allt árið var síðan festur í sessi fyrir um 15 árum síðan. Árið 2019 var stofnað einkahlutafélag um reksturinn og hefur undirrituð rekið búðina síðan þá á eigin ábyrgð. Eitt af markmiðum þessa verkefnis þeirra Hildar og Helgu var einmitt að skapa störf í handverki og að fyrir það fengist sem sanngjarnast verð. Þetta hefur ræst, verslunin skapar 2–3 heilsársstörf auk þess sem fjöldinn allur af handverksfólki selur sína framleiðslu í versluninni, eða samtals um 100 manns, mest eldri borgarar og öryrkjar sem þannig drýgja tekjur sínar.

Fljótlega eftir stofnun verslunarinnar var samið við Ístex um vinnslu á lopa. Þingborgarkonur fóru í Þvottastöð Ístex sem þá var staðsett í Hveragerði og sérvöldu ull sem svo var þvegin þar og loks kembd í lopaplötur hjá Ístex í Mosfellsbæ, auk þess sem fengið var einband og tvíband úr lopanum einnig. Þessari sérstöku vinnslu hefur verið haldið áfram og nánast á hverju ári fara Þingborgarkonur í Þvottastöðina sem nú er á Blönduósi og velja þá ull sem fer í Þingborgarlopann. Þetta hefur skapað Þingborg algjöra sérstöðu á markaði og þessi lopi er grunnur að öllu því handverki sem selt er í Ullarversluninni.

Mikil gróska hefur einkennt starfið í Gömlu Þingborg. Á hverjum fimmtudegi hittast Þingborgarkonur og eiga sitt samfélag. Þar spretta fram hugmyndir að nýju handverki, þar er vettvangurinn til að koma því á framfæri og fá gagnrýni og þar er hvatning til frekari dáða. Að auki hefur innan þessa hóps orðið til sterk og djúp vinátta og það er eitthvað sem ekki verður metið til fjár. Eitt af afkvæmum þessa hóps í samvinnu við Spunasystur í Rangárþingi og fleiri er Ullarvikan. Þrisvar sinnum hefur verið haldin Ullarvika á Suðurlandi þar sem ullin af íslensku sauðkindinni hefur verið í öndvegi og sú fjórða er þegar í undirbúningi og verður haldin árið 2026.

Sögu Þingborgar eru ekki gerð skil hér, hún er rík og merkileg og nær aftur til ársins 1927 þegar eldri hluti hússins var tekinn í notkun. Þingborgarhópurinn hefur verið í húsinu í meira en þriðjung þess tíma sem það hefur staðið og er því orðinn stór hluti af sögu þess. Það má segja fullum fetum að Þingborgarhópurinn hafi bjargað þessu húsi frá glötun með veru sinni þar. Það hafa margir sterkar taugar til Gömlu Þingborgar, það er enginn vandi að skilja. Húsið var jú bæði félagsheimili og skóli í áratugi. En það er samt ofur skiljanlegt að mati undirritaðrar að Flóahreppur hafi viljað selja Gömlu Þingborg. Húsið hefur ekki hlutverk fyrir íbúa sveitarfélagsins með beinum hætti og því ekki hagsmunir þeirra að sveitarfélagið eigi húsið áfram, það kostar sitt eigi það að njóta sín sem gamalt virðulegt hús. Gamla Þingborg hefur þurft mikið viðhald og töluverðum fjármunum verið varið til þess en það hefur því miður ekki alltaf skilað tilætluðum árangri.

Þingborgarhópurinn naut mikillar velvildar hjá Hraungerðishreppi hinum forna og sérstaklega skal hér nefndur Stefán Guðmundsson, oddviti í Túni. Hann var ætíð mjög hliðhollur þessu ,,brölti“ Þingborgarkvenna og fyrir hans tilstilli fékk hópurinn að vera í húsinu gegn því að halda því við. Þegar viðhald hússins var orðið hópnum ofviða var samið við Flóahrepp um leigu og hefur svo verið um 10 ára skeið. Fyrrnefnd velvild hefur ekkert breyst þótt sveitarfélagið heiti núna Flóahreppur og annað fólk komið í brúna. Fyrir þessa velvild er Þingborgarhópurinn afar þakklátur.

Það stóð öllum til boða að gera tilboð í húsið, en Vegagerðin bauð hæst og fékk. Það var vitaskuld rætt í Þingborgarhópnum að gera tilboð, en það er varla á færi venjulegs fólks að taka svona hús að sér og ætla að lagfæra það svo vel sé, það þarf svo miklu meira til. Hvort húsið verður rifið eða ekki verður svo að koma i ljós. Ullarverslunin verður rekin í Gömlu Þingborg meðan leigunni verður ekki sagt upp og heldur sínu striki og selur áfram sitt gæða handverk og breiðir út boðskapinn um þetta frábæra hráefni sem íslenska ullin er.

Skylt efni: Þingborg

Nauðsyn þín er tekjulind okkar
Lesendarýni 26. janúar 2026

Nauðsyn þín er tekjulind okkar

Einhvers konar skattheimta er óhjákvæmilegur hluti samfélags. Skattar eru ekki v...

Fornleifar og skógrækt
Lesendarýni 26. janúar 2026

Fornleifar og skógrækt

Fornleifar kunna að þykja áhugaverðar, enda oft gaman að horfa til baka um farin...

Sorpbrennsla á Íslandi – besta lausnin?
Lesendarýni 26. janúar 2026

Sorpbrennsla á Íslandi – besta lausnin?

Við Íslendingar framleiðum margvíslegan úrgang, allt frá heimilis- og iðnaðarúrg...

Tími íslenskrar náttúru er núna
Lesendarýni 16. janúar 2026

Tími íslenskrar náttúru er núna

Atvinnustefna Íslands, vaxtarplan ríkisstjórnarinnar til ársins 2035 liggur fyri...

Íslenskari en ...
Lesendarýni 6. janúar 2026

Íslenskari en ...

Algeng er sú rökvilla að nútíminn mínus öld eða tvær sé einhvers konar hápunktur...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2025

Við áramót

Árið 2025 var prýðisgott ár til lands og sjávar. Þess naut sannarlega við í blóð...

Vetrarbeit og válynd veður
Lesendarýni 22. desember 2025

Vetrarbeit og válynd veður

Er nokkuð jólalegra en maður, sauður og hundur á ferð í myrkri og kafaldsbyl á ö...

Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar
Lesendarýni 22. desember 2025

Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar

Þetta fyrsta ár mitt í embætti atvinnuvegaráðherra hefur verið allt í senn fjölb...