Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir
Lesendarýni 11. júlí 2022

Þess vegna aukum við kornrækt

Höfundur: Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra

Undanfarna mánuði hefur umræða um fæðuöryggi tekið stakkaskiptum á Íslandi eins og annars staðar. Ástæðan er einföld, vegna innrásar Rússa í Úkraínu er fæðuöryggi heimsins ógnað.

Hungurvofan mun gera vart við sig hjá tugum milljóna í ár og á næsta ári vegna þessa. Vegna þeirrar forréttinda sem við Íslendingar njótum í krafti ríkidæmis okkar og mikillar matvælaframleiðslu eru hverfandi líkur á því að aðgengi okkar að mat sé skert. Við flytjum út 98% af þeim fiski sem við veiðum og sá fiskur fæðir milljónir. Ísland er matvælaútflutningsland.

En áhrifin innanlands hafa falist í miklum verðhækkunum á aðföngum og því taldi ég nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að styðja bændur.

Til þess skipaði ég spretthóp sem vann hratt og örugglega, og lagði fram tillögur sem ég gerði að mínum. Í framhaldinu samþykkti ríkisstjórnin að veita 2,5 milljörðum í sérstakan stuðning við bændur sem greiddur verður út með haustinu. Ég mun standa með bændum í þessum þrengingum hér eftir sem hingað til.

Að sama skapi hefur ríkisstjórnin einnig gripið til aðgerða til að milda áhrif dýrtíðarinnar á þá hópa í samfélaginu sem veikast standa, með hækkunum á bótum almannatrygginga og sérstökum barnabótaauka.

Þá höfum við talað skýrt gegn útflutningshindrunum á matvælum á alþjóðavettvangi, en slíkar ráðstafanir eru til þess að auka á vanda fátækari þjóða.

Hagkvæmni á kostnað þanþols

Það sem blasir hins vegar við er að við höfum byggt upp okkar landbúnað á forsendum þess að við getum alltaf fengið kornvöru á skikkanlegu verði sem aðföng í framleiðslu á kjöti, mjólk, brauði og öðrum matvælum.

Þá stefnu má m.a. rekja til hagfræðikenninga sem komust í tísku upp úr 1980 og snúa m.a. að sérhæfingu og hagkvæmni. Með þessu móti höfum við byggt upp framleiðslu á kjöti og mjólk.

Það sem kemur nú í ljós er að þessi meinta hagkvæmni var ekki fengin ókeypis. Enda er hagfræðingum tíðrætt um að ekkert sé ókeypis í heimi hér. Kostnaðurinn sem í þessu felst er í formi þanþols og öryggis. Þetta eru margir að uppgötva sem birtist meðal annars í því að fyrirtæki sitja nú á meiri birgðum, til þess að freista þess að tryggja aðgengi að nauðsynlegum aðföngum.

Eins og margir þekkja nú er mjög lítill hluti kornvöru til sölu á alþjóðamörkuðum. Örfáar þjóðir framleiða megnið af því magni sem á annað borð er verslað með milli landa.

Ástæða þess að stríðið hefur haft svo mikil áhrif er að bæði Rússar og Úkraínumenn eru stórleikendur á alþjóðlegum mörkuðum með kornvöru. Sennilega eru fáar þjóðir í heiminum sem eru meira háðar alþjóðamörkuðum með korn en Ísland.

Það er ekki náttúrulögmál, því hér er vel hægt að rækta korn og var raunar gert um aldir. Ég tel það óskynsamlegt til lengri tíma að verð á mikilvægustu aðföngum til landbúnaðar séu með öllu háð duttlungum alþjóðamarkaða. M.a. vegna þess þurfum við að efla innlenda kornrækt.

Með réttri jarðvinnslu vex kornræktin sjálf

Margar skýrslur hafa verið skrifaðar um eflingu kornræktar á Íslandi, en nú er aðgerða þörf. Þess vegna hef ég falið sérfræðingum við Landbúnaðarháskóla Íslands að útbúa aðgerðaáætlun sem taki á þeim helstu hindrunum sem standa í vegi fyrir því að kornræktin dafni. Það sem máli skiptir er að vinna jarðveginn þannig að kornrækt geti vaxið af sjálfsdáðum.

Með því að innlendur markaður með korn verði til skapast möguleikar til að bændur geti gert áætlanir og vitað með nokkurri vissu hvað þeir fái fyrir uppskeruna.

Þá hef ég þá skoðun að fjárfestingar séu forsendur framfara og því þurfi meiri þungi að færast á fjárfestingarstuðning í búvörusamningum, m.a. til þess að stuðla að aukinni kornrækt.

Ég hef miklar væntingar til þessarar vinnu og að hún skili okkur góðu veganesti á leiðinni til aukins fæðuöryggis og fjölbreyttari landbúnaðarframleiðslu til sveita.

Skylt efni: kornrækt | fæðuöryggi

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi
Lesendarýni 11. nóvember 2024

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi

Landbúnaður hefur löngum verið ein af burðarstoðum atvinnulífs í Norðausturkjörd...

Hnignun ESB
Lesendarýni 8. nóvember 2024

Hnignun ESB

„Evrópusambandið líkist Sovétríkjunum í vestrænum fötum“, á Mikhail Gorbasjov að...

Gróska eða stöðnun?
Lesendarýni 7. nóvember 2024

Gróska eða stöðnun?

Árið 2018 vann KPMG skýrslu fyrir þáverandi landbúnaðar­ráðherra þar sem sviðsmy...

Þjóðarátak í samgöngumálum
Lesendarýni 6. nóvember 2024

Þjóðarátak í samgöngumálum

Íslenskt samfélag stendur á tímamótum þegar kemur að samgöngumálum. Vegakerfi la...

Ekkert fæðuöryggi án landbúnaðar
Lesendarýni 5. nóvember 2024

Ekkert fæðuöryggi án landbúnaðar

Íslendingar eru og hafa ætíð verið landbúnaðarþjóð. Ræktun lands og nytjar hafa ...

Kvenfélagið Freyja 90 ára
Lesendarýni 1. nóvember 2024

Kvenfélagið Freyja 90 ára

Það var í júní árið 1934 sem nokkrar konur komu saman að Krossi í Austur-Landeyj...

Leitum samstarfsaðila fyrir landsbyggðarverkefni
Lesendarýni 31. október 2024

Leitum samstarfsaðila fyrir landsbyggðarverkefni

Landsbyggðin lifi leitar eftir samstarfi við framfarafélög, þorp, bæjarfélög eða...

Íslandsmót í rúningi
Lesendarýni 18. október 2024

Íslandsmót í rúningi

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu (FSD) hyggst endurvekja Íslandsmeistaramótið í r...