Kynntu sér lífgas- og áburðarver í Færeyjum
Sunnlenskir bændur heimsóttu á dögunum Förka, lífgas- og áburðarverið í Færeyjum. Til stendur að reisa sams konar ver í uppsveitum Árnessýslu, þar sem hráefnið verður garðyrkjuúrgangur og kúamykja og notað verður til að búa til orku og áburð.
Því samanstóð hópurinn af kúa- og garðyrkjubændum frá þessu svæði, auk fulltrúa frá Bláskógabyggð og Orkídeu, sem er samstarfsverkefni um nýsköpun í matvælaframleiðslu á Suðurlandi, en hópurinn stendur á bak við rekstrarfélagið Lífgas sem stofnað var í vor utan um verkefnið.
Fiskúrgangur viðbótarhráefni
Sigert Paturson, bóndi í Hoyvíksgarði í nágrenni Þórshafnar, var heimsóttur en hann býr þar með um 60 mjólkurkýr, auk geldneyta og sauðfjár og nýtir sér þjónustu Förka. Sagði hann hópnum að áburðurinn frá verinu væri góður á túnin en fiskúrgangur er viðbótarhráefni sem bætist við ferlið hjá Förka sem gerir áburðinn næringarríkari – einkum af köfnunarefni og fosfór.
Sagði Sigert að innkaup á tilbúnum áburði hefði minnkað verulega með tilheyrandi fjárhagslegum sparnaði. Í samtölum sem hópurinn átti við rekstrarstjóra Förka kom fram að færeyskir bændur ættu að geta sleppt nánast öllum kaupum á tilbúnum áburði á tún sín að undanskildum kalí-áburði. Einnig hafi komið fram að bændur sem nýta sér þjónustu Förka vilji minnka notkun á tilbúnum áburði í smáum skrefum.
Flutningabílar sækja kúamykju og skila áburði
Í umfjöllun á vef Orkídeu kemur fram að einnig sé tekið á móti lífrænum úrgangi frá veitingastöðum í nágrenni Förka. Tekjur fyrirtækisins komi einkum frá sölu á rafmagni og hita til samfélagsins.
„Flutningabílar Förka sækja kúamykju til bænda og afhenda um leið unninn lífáburð frá verinu, hvort tveggja er bændum að kostnaðarlausu. Sá hluti lífáburðar sem bændur nýta ekki er dreift á raskað land, t.d. í kringum vegi í Færeyjum. Um 14 kúabændur eru í Færeyjum og eru allir þeir bændur með samning við verið, að einum undanskildum, sem býr í talsverðri fjarlægð frá verinu. Rekstur versins hefur gengið nokkuð vel en verið nýtur ekki styrkja frá landstjórn Færeyja né fær það greiddar kolefniseiningar. Orkuverð til versins er tengt olíuverði en um helmingur raforku Færeyinga kemur frá dísilrafstöðvum, hinn helmingurinn kemur frá Förka og vindmyllum sem finna má víða á eyjunum,“ segir enn fremur á vefnum.
Fram kemur að viðbótarkostur við að fara með mykju í gegnum Förka, er að illgresisvandamál í túnum er nánast úr sögunni hjá færeysku bændunum miðað við dreifingu á ómeðhöndlaðri kúamykju, vegna þess að mykjan er sótthreinsuð í ferlinu.
