Vatnsaflsvirkjun áætluð í Gilsárdal
Orkusalan ehf. vinnur að gerð deiliskipulags fyrir 6,7 MW vatnsaflsvirkjun ofarlega í Gilsá í Eiðaþinghá. Virkjunin hefur fengið vinnuheitið Gilsárvirkjun og verður tengd við dreifikerfi RARIK.
Framkvæmdin felur í sér stíflu, miðlunarlón, stöðvarhús, lagningu vegslóða, lagningu aðrennslispípu og safnlagna. Fallhæð verður 277 metrar og rennslið þrír rúmmetrar á sekúndu. Opið var fyrir athugasemdir í skipulagsgátt til 13. janúar.
Útfærsla virkjunarinnar byggist á rennslismælingum Gilsár, sem hefur verið mæld frá árinu 2013. Samkvæmt niðurstöðum mælinga mun virkjunin taka mest allt rennsli árinnar frá því í október og fram í apríl. Frá maí og fram í september er áætlað að vatn renni um yfirfall virkjunarinnar og hinn hefðbundna farveg niður Gilsárdal.
Í athugasemdum um málið er ítrekað að virkjunin muni hafa neikvæð áhrif á rennsli Gilsár og þar með lífríki árinnar og takmarka nýtingu hennar til veiða. Fiskgeng svæði eru strax fyrir neðan skipulagssvæðið og kallar Veiðifélag Selfljóts eftir því að óskað verði eftir heimild frá Umhverfis- og orkustofnun vegna breytinga á vatnshlotum áður en málið verður tekið lengra.
