Húsnæði grunnskólans til leigu
Sveitarfélagið Skagafjörður auglýsir nú til leigu Grunnskólann á Hólum í Hjaltadal, auk íbúðar við skólann.
Skólinn sjálfur er 409 fermetrar að stærð og íbúðin er 135 fermetrar. Boðið er upp á að leigja skólann sér og íbúðina sér sé þess óskað. Skólahald í skólanum lagðist af vorið 2024 og fluttist þá alfarið í grunnskólann á Hofsósi. „Frá því að skólahald grunnskólans á Hólum lagðist af hefur húsnæðið verið notað í ýmis tilfallandi verkefni, m.a. verið notað til aðstöðu vegna leikjanámskeiða, sem aðstöðurými vegna upptöku sjónvarpsþátta, nýtt af kvenfélaginu og svo framvegis. Í hluta byggingarinnar er starfsstöð leikskólans Tröllaborgar á Hólum. Skólahaldið var flutt á Hofsós í ljósi fækkunar nemenda á Hólum en erfitt er að veita fámennum nemendahópi sömu tækifæri og tryggja þeim þá greinabundnu menntun sem þeir eiga rétt á eins og í stærri einingum. Þá þarf jafnframt að líta til kennslufræðilegra sjónarmiða, skólaþróunar og þróunar á stoðþjónustu,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri.
En hafa margir sýnt leigunni áhuga? „Nei, það hafa ekki verið margar fyrirspurnir enn sem komið er en við erum bjartsýn á að einhverjir sjái tækifæri í húsnæðinu því hér er um að ræða gott húsnæði í fallegu umhverfi, sem getur nýst á margvíslegan hátt,“ segir Sigfús.
