Orka án næringar
Fæðan sem við borðum gæti orðið orkumeiri en næringarsnauð og jafnvel eitraðri vegna hækkandi koltvísýrings í andrúmslofti.
Efnasamsetning uppskeru er að breytast, samkvæmt nýrri rannsókn sem birt var í tímaritinu Global Change Biology seint á síðasta ári.
Sterre ter Haar, lektor við Leidenháskóla í Hollandi, segir niðurstöðurnar hafa komið vísindamönnum á óvart: „Við sjáum ekki einföld þynningaráhrif heldur algjöra breytingu á samsetningu fæðu okkar … Þetta vekur spurningar um hvort við þurfum að aðlaga mataræði eða framleiðslu- og ræktunaraðferðir,“ sagði hún í samtali við Guardian.
Rannsóknin byggir á samanburði tæplega 60.000 mælinga á 32 næringarefnum í 43 tegundum nytjaplantna, þar á meðal hrísgrjónum, kartöflum, tómötum og hveiti. Niðurstöðurnar sýna að flest næringarefni minnka með auknum CO₂-styrk, að meðaltali um 3,2%. Sérstaklega er bent á að sink í kjúklingabaunum gæti minnkað um allt að 37,5%, auk verulegrar lækkunar á próteini, sinki og járni í helstu korntegundum.
„Þetta getur haft hrikalegar heilsufarslegar afleiðingar, þar á meðal svokallað falið hungur, þar sem fólk fær næga orku en skortir nauðsynleg næringarefni,“ segir í rannsókninni. Núverandi styrkur CO₂ í andrúmslofti er 425,2 ppm, en samanburður var gerður við 350 ppm – síðasta „örugga“ viðmiðið – og 550 ppm, sem gæti náðst árið 2065.
Rannsóknin er hluti af vaxandi fjölda slíkra athugana á áhrifum niðurbrots loftslags á ræktun, ekki aðeins utandyra heldur einnig við tilbúnar aðstæður.
Sérfræðingar víða um heim telja niðurstöðurnar mikilvægar. Courtney Leisner hjá Virginia Tech sagði að rannsóknin „bjóði upp á lykilinnsýn í hvernig umhverfisaðstæður hafa áhrif á næringargæði uppskeru, sem er grundvallaratriði fyrir framtíðar fæðuöryggi“.
Jan Verhagen frá Wageningenháskóla bendir þó á að fleiri þættir, svo sem áburðarnotkun, skipti máli. Hann telur nauðsynlegt að gera frekari tilraunir til að þróa ræktunarleiðir sem tryggja næringarefni við breyttar aðstæður. Hanna þurfi ræktunaráætlanir fyrir ræktun með ákveðnu næringargildi undir mismunandi umhverfisálagi til að skilja betur áhrif landbúnaðarhátta.
„Markmiðið er ekki að hræða fólk,“ segir Ter Haar. „Fyrsta skrefið í lausn vandans er að viðurkenna hann – og við vonum að rannsóknin sé gagnlegur biti í púsluspilið.“
