Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Frá stofnfundi ASETT hugveitunnar á þingi Alþjóðasambands samvinnufélaga í Nýju-Delí á Indlandi 25. nóvember síðastliðinn.
Frá stofnfundi ASETT hugveitunnar á þingi Alþjóðasambands samvinnufélaga í Nýju-Delí á Indlandi 25. nóvember síðastliðinn.
Mynd / Aðsend
Lesendarýni 30. apríl 2025

Samvinnufélögin og félagshagkerfið 2025

Höfundur: Sigurjón R. Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga

Sú ákvörðun Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna að helga 2025 sem alþjóðaár samvinnufélaga, í annað sinn á þessari öld, á rætur sínar í mikilvægi samvinnufélaga í fátækum ríkjum á þróunarbraut.

Sigurjón R. Rafnsson.

Crameen banki fátæka fólksins, sem upprunninn er í Bangladesh og veitti í byrjun fyrst og fremst samvinnufélögum kvenna fjárfestingarlán, er gott dæmi um áhrifamátt samvinnu hugsjónarinnar. Enda hlaut bankinn og stofnandi hans Friðarverðlaun Nóbels árið 2006.

Antóníó Guterres, framkvæmdastjóri SÞ, segir í yfirlýsingu að ástæðu þess að kastljósinu sé aftur beint að samvinnufélögum megi rekja til mikilvægis samvinnumódelsins við að virkja fólk úr fátækt, stuðla að þrautseigju og velmegun samfélaga og styðja við sjálfbærnimarkmið Sameinðu þjóðanna. Kaupfélögin og samvinnuhugsjónin áttu á sama hátt ríkan þátt í að skapa hér nútímasamfélag á síðustu öld og hefja Ísland úr fátækt til fullveldis og framfara.

Spennandi valkostur

En það fer heldur ekki fram hjá þeim sem fylgjast með að nýjar kynslóðir horfa með áhuga til samvinnuformsins. Þannig sagði Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, í hugleiðingu árið 2022: „Upplýst ung kynslóð nýrrar aldar er i öllum álfum að ganga í smiðju samvinnuformsins. Sér það sem spennandi valkost. Í betri takti við breytta tíma en gamlar venjur auðhyggjunnar.“

Þing Alþjóðasambands samvinnufélaga (ICA) var haldið í NýjuDelí á Indlandi í lok síðasta árs. Það sóttu um 3.000 fulltrúar samvinnuhreyfinga í rúmlega 100 löndum. Þar stjórnaði Ana Aguirre, forseti Ungliðanefndar ICA, samvinnumaraþoni þar sem 40 ungmenni nýttu sér gervigreind til þess að skapa framtíðarlausnir.

Greina má einnig mikinn áhuga meðal listafólks og höfundarréttarhafa að verja hagsmuni sína sameiginlega gegn heimsveitum í eigu ofurríkra tæknimeistara úr Kísildalnum. Og samvinnulausnir í húsnæðismálum eru víða upp á teningnum, m.a. á Íslandi hjá húsnæðis- og leigufélögum á vegum verkalýðsfélaga.

ASETT – ný klakstöð

Nýrri hugveitu og klakstöð félagslegra fyrirtækja, ASETT, var sömuleiðis hleypt af stokkunum á þinginu í Nýju- Delí. Það eru ríkisstjórn Spánar, heimastjórn Baska, Mondragon háskóli og samvinnufélög sem standa að veitunni. Saman leggja stjórnirnar 1,5 milljónir evra til þess að koma ASETT af stað.

Mondragon tækni- og viðskiptaháskólinn mun halda utan um rekstur veitunnar.

Háskólinn hefur starfað síðan 1997 og í honum eru 7 þúsund nemar á ári hverju á ýmsum skólastigum. Mondragon er samvinnurisi í eigu starfsfólks og dæmi um velheppnað samvinnustarf í stórum skala. ASETT – (Arizmendiarrieta Social Economy Think Tank) – er nefnd eftir frumkvöðlinum José Maria Arizmendiarrieta, sem kom á fót tækniog samvinnuskóla fyrir framhaldsnema í Escuela árið 1943.

Talsmaður Mondragon sagði við athöfnina á þinginu að eiginlega ætti ASETT að nefnast athafnaveita. Henni er ætlað að koma hugmyndum til framkvæmda. Í því felst að lyfta fram þætti félagslegra fyrirtækja í því að minnka ójöfnuð og stuðla að hluttöku launafólks í efnahagslífi, tengja saman háskóla og stofnanir á Spáni og annars staðar og ýta undir nýsköpun í samvinnustarfi og félagslegum fyrirtækjarekstri.

Ráðuneyti félagshagkerfis

Í þessu sambandi er eftirtektarvert að í atvinnuráðuneyti Spánar er sérstök stjórnardeild sem fer með félagshagkerfið. Prófessor Amparo Merino, sem veitir henni forstöðu, sagði í Nýju-Delí, að ASETT athafnaveitan myndi setja Spán í forystusæti á heimsvísu hvað snertir þróun samvinnureksturs og félagsdrifinna fyrirtækja. Þegar talað er um félagshagkerfið er vísað til þeirrar flóru fyrirtækja, samtaka og félaga sem nær meðal annars yfir samvinnufélög, félagsdrifin fyrirtæki, sjálfseignarstofnanir, gagnkvæm tryggingarfélög og lánastofnanir sem og sparisjóði og húsnæðisfélög.

Félagsdrifin fyrirtæki

Sameiginlegt þessum fyrirtækjum er að þau reka atvinnustarfsemi í tilteknu samfélagi og selja vöru og þjónustu á markaði til þess að ná markmiðum í félags- og framfaramálum á sínu svæði. Gróði og tekjur slíkra fyrirtækja eru alltaf tengd samfélagslegu hlutverki starfseminnar. Sums staðar eru íþróttafélög, áhugafélög, klúbbar og almannaheillafélög af ýmsu tagi einnig flokkuð til félagshagkerfisins. Samanlagt er þá um stórt mengi að ræða í efnahagslífinu sem getur staðið fyrir 10–20% af landsframleiðslu. Rétt er að geta þess að í Belgíu, Frakklandi, Ítalíu og Kanada eru einnig sérstök ráðuneyti sem fjalla um og styðja við félagshagkerfið og félagslegu fyrirtækin. Það sýnir hve félagshagkerfið er mikils metið í þessum löndum. Gæti þetta verið til fyrirmyndar hér á landi?

Rannsóknarsetur um samvinnu

Það er ánægjulegt til þess að vita að Háskólinn á Bifröst, sem á rætur að rekja til Samvinnuskólans, hefur skapað góð tengsl við Mondragon háskólann sem í ráði er að rækta á komandi misserum. Þá er áhugi á því að koma á fót rannsóknarsetri við Háskólann á Bifröst um samvinnurekstur og félagsdrifin fyrirtæki. Þar er sáð í frjóan jarðveg eins og hér hefur verið rakið.

Margir líta í dag til samvinnuhugsjónarinnar. Í nýútkominni bók sinni, Vegferð til farsældar, talar Vilhjálmur Egilsson, fyrrum alþingismaður og rektor á Bifröst með meiru, um félagslega einkavæðingu. Ýmsir skólar eru í dag reknir á vegum félagasamtaka en stórtækasta dæmið um félagslega einkavæðingu er náttúrlega lífeyrissjóðakerfið. Vilhjálmur nefnir í bókinni að samvinnufélagsformið sé vannýtt þegar kemur að rekstri í margvíslegri starfsemi sem sé á vegum hins opinbera. „Þetta rekstrarform gæti hentað vel t.d. í grunnskólum, heilsugæslu og víðar þar sem hægt er að sjá að margir einstaklingar geti komið að fjármögnun með tiltölulega lága fjárhæð hver.“

Liðka þarf til fyrir samvinnurekstri

Þetta eru athyglisverð viðhorf og í samræmi við þá gerjun sem víða er fyrir hendi. Ekki er því ósennilegt að fólk muni taka sig saman í auknum mæli og reyna fyrir sér með samvinnurekstur,

Á Alþingi Íslendinga þyrfti að liðka enn frekar fyrir samvinnurekstri en gert hefur verið. Samvinnufélög hafa ævinlega starfað sem mótvægi og viðbót við annan atvinnurekstur í opinberri eigu og einkaeigu. Samvinnufélögin eru sjálfstæð samtök fólks sem taka höndum saman til að mæta sameiginlegum efnahagslegum, félagslegum eða menningarlegum þörfum og væntingum, með rekstri í sameiginlegri eigu og undir lýðræðislegri stjórn allra sem að honum koma. Samvinnuhugsjónin er lifandi afl um allan heim eins og alþjóðaár samvinnufélaga á vegum Sameinuðu þjóðanna ber órækt vitni um.

Skylt efni: ASETT

Að fara í stríð við sjálfan sig
Lesendarýni 3. nóvember 2025

Að fara í stríð við sjálfan sig

„Hvern dag sem þú lifir, hefur þú áhrif á veröldina. Þú hefur val um það, hver þ...

Ísland fulltengt
Lesendarýni 31. október 2025

Ísland fulltengt

Síðsumars ferðaðist ég um landið og var með opna íbúafundi í öllum landshlutum, ...

Mislitt fé í hávegum haft
Lesendarýni 30. október 2025

Mislitt fé í hávegum haft

Sú var tíð að víðast hvar var heldur amast við mislitu fé, það helst ekki sett á...

Af vettvangi Landbúnaðarháskóla Íslands
Lesendarýni 17. október 2025

Af vettvangi Landbúnaðarháskóla Íslands

Undanfarin misseri hefur Landbúnaðarháskóli Íslands lagt áherslu á að efla bæði ...

Norðurslóðir skipta máli fyrir fæðuöryggi
Lesendarýni 16. október 2025

Norðurslóðir skipta máli fyrir fæðuöryggi

Matvælaframleiðsla á norðurslóðum, uppbygging virðiskeðja fyrir matvæli og seigl...

Skógarferð um Fljótshlíðina
Lesendarýni 15. október 2025

Skógarferð um Fljótshlíðina

Á degi íslenskrar náttúru þann 16. september síðastliðinn tók starfsmaður Skóg-B...

Stærri og öflugri sveitarfélög
Lesendarýni 14. október 2025

Stærri og öflugri sveitarfélög

Við viljum öll búa í samfélagi þar sem grunnstoðirnar eru sterkar, þar sem börni...

Meginmarkmiðið að styrkja stöðu bænda og auka verðmætasköpun
Lesendarýni 13. október 2025

Meginmarkmiðið að styrkja stöðu bænda og auka verðmætasköpun

Nú í byrjun október birtust í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi mínu um ...