Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Guðni Ágústsson.
Guðni Ágústsson.
Mynd / Aðsend
Lesendarýni 5. nóvember 2020

Opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur, Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar

Höfundur: Guðni Ágústsson

Sú ákvörðun ríkisstjórnar Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að sameina landbúnaðarráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið árið 2007 hefur reynst afdrifarík. Enn seig á ógæfuhliðina með stofnun atvinnuvegaráðuneytisins árið 2012, einn ráðuneytisstjóri, þjónn tveggja ráðherra. 

Í báðum tilfellum voru verkefni landbúnaðarins lítilsvirt, öllu sundrað og gengið á rétt landbúnaðarins. Jafnræðisregla brotin milli sjávarútvegs og landbúnaðar í stuðningi við rannsóknir og ráðgjöf.Rauði þráðurinn í báðum tilfellum snerist um að leggja línurnar til að ganga í Evrópusambandið. Enda steig ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar það skref til fulls og sótti um aðild að ESB. Sannarlega vona ég að núverandi ríkisstjórn sé ekki haldin ESBveirunni og að þess vegna vilji hún endurskoða landbúnaðarkerfið, og rétta hlut landbúnaðarins við á ný.

Ég vil vekja athygli á því að samhliða þessum breytingum voru margar stofnanir landbúnaðarins færðar undir önnur ráðuneyti og tekin frá fagráðuneyti sínu og atvinnuvegi. Landbúnaðurinn stendur nú mjög höllum fæti gagnvart stjórnkerfinu og innfluttum landbúnaðarvörum.

Hér rek ég sautján ástæður vandræðanna fyrir því að landbúnaðurinn er í skúffuráðuneyti, og með þeim afleiðingum að stöðugt hallar undan fæti.

  1. Landgræðslan og Skógrækt ríkisins færðar undir umhverfisráðuneytið. Hvort tveggja landbúnaðarverkefni.
  2. Landbúnaðarskólarnir á Hvanneyri/Garðyrkjuskólinn og Hólaskóli, sem verið höfðu atvinnuvegaháskólar, færðir undir menntamálaráðuneytið. Þar með fór Rannsóknarstofnun landbúnaðarins sömu leið ásamt stærstum hluta vísindamanna landbúnaðarins.
  3. Öll jarðamál voru færð undir fjármálaráðuneytið við stofnun atvinnuvegaráðuneytisins, sem var nýtt heljarstökk gagnvart landbúnaðarráðuneytinu árið 2012. Þar með tók við eitt stórt atvinnu og nýsköpunarráðuneyti. Landbúnaðurinn hefur síðan verið hornreka þar.
  4. Veiðimálastofnun, sem farið hafði með fiskiráðgjöf og rannsóknir í ám og vötnum í áratugi, var sameinuð Hafrannsóknastofnun.
  5. Búnaðarstofa hefur verið á flandri en var fyrst sett undir Matvælastofnun (MAST). Búnaðarstofa fer með mikil samskipti og annast beingreiðslur til bænda, framkvæmd búvörusamninga og greiðslumarksmál o.fl. Lögfræðingar töldu hana ólöglega setta undir MAST. Búnaðarstofa var nýlega flutt undir atvinnuvegaráðuneytið, þar er hún utandyra með sín verkefni og talin kolólögleg, og þessi ákvörðun stangist á við stjórnarskrána. Nú eru ákvarðanir Búnaðarstofu ekki kæranlegar til æðra stjórnvalds þar sem hún heyrir beint undir ráðherra. Réttindi þeirra sem ákvarðanirnar snerta, bændanna, eru því skertar. Búnaðarstofa ætti að vera sjálfstæð stofnun milli ríkisvaldsins og Bændasamtakanna og gæti farið með margvísleg verkefni sem slík.
  6. Bændur máttu ekki taka taka gjald af afurðum til að fjármagna starfsemi sína, þ.e. búnaðargjald, með hliðsjón af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu um iðnaðarmálagjald. Nú eiga bændur að greiða til Bændasamtakanna, eftir bústærð og af frjálsum vilja. Eftir stendur erfið innheimta og veikari samtök. Það eru einnig hagsmunir ríkisins að geta samið við einn aðila í umboði allra bænda, Bændasamtökin.
  7. Þrátt fyrir að sjávarútvegurinn væri í sama ráðuneyti og landbúnaðurinn heldur sjávarútvegurinn óskertum ríkisstuðningi til Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar. Bændum var uppálagt að stokka upp alla sína ráðunautaþjónustu, höggva og breyta. Stofnuð var Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML).  Bændur verða nú að greiða umtalsvert meira fyrir þjónustuna sem er ekki gott fyrir framþróun í landbúnaði, þegar afkoma bænda er slæm.
  8. Allir sérfróðir og menntaðir landbúnaðarmenn hafa verið úreltir í atvinnuvegaráðuneytinu . Hér er átt við háskólamenntun í búvísindum.
  9. Framleiðnisjóður hefur komið að mörgu verkefni í sveitunum í hagræðingu og nýsköpun. Staðið hefur til að hann verði lagður niður.
  10. Tollasamnigur sá, þar sem mest hallaði á íslenskan landbúnað, var afgreiddur í tengslum við búvörusamninga árið 2016. Samningarnir voru tengdir saman og urðu samtímis að lögum. Það út af fyrir sig er firra. Mikið tollasvindl í hafi er nú upplýst. Slíkt er lögbrot sem gengur seint að stöðva og hlýtur að færast til dómstóla. Forsendubrestur er orð sem stjórnmálamenn taka sér oft í munn. Nú er forsendubrestur vegna Brexit og gerir kröfu um að tollasamningar við ESB verði teknir upp og endurskoðaðir. Tvær milljónir ferðamanna horfnir og stjórnvöld brjóta alþjóðasamninga. Heildsalar með allar frystikistur fullar af erlendu kjöti en samt er tollkvóti boðinn út í miklu magni. Holdanautabúskap er sjálfhætt enda er verðið fáránlegt. Verð til bænda hefur undanfarið fallið um 10% en hækkað um 6,5% í smásölu.
  11. Um 300 tonn af svokölluðum jurtaostum voru flutt til landsins á síðasta ári, án tolla. Stóran hluta þessara osta ber að tolla, samkvæmt tollalögum og samningum og tollskrá. Af þessu meinta ostalíki og jurtarjóma sem svipað gildir um  voru samtals flutt inn 470 tonn árið 2019 (299+173 tonn). Bolludagurinn er stærsti dagur bakaríanna og um leið hátíð rjómans frá bændum. Nú er stærri hluti bollanna fylltur með innfluttum jurtarjóma sem inniheldur mikið af mjólkur og undanrennudufti, sem ætti að bera toll. Þetta er því flutt inn á röngu tollnúmeri, lögbrot.
  12. Um næstu áramót verður tollkvóti á innfluttu nautakjöti frá ESB búinn að sjöfaldast frá ársbyrjun 2018 og verður kominn í 700 tonn. Á sama tíma hefur orðið 75% verðlækkun á tollkvótun frá ESB. Samtímis hríðfellur verð til bóndans á íslensku nautakjöti og birgðir hlaðast upp í fjósum bænda í lifandi dýrum sem fá ekki slátrun.
  13. Nýjar úthlutunarreglur á tollkvótum sem ráðherra setti og beitt var í sumar hafa valdið því að verð fyrir nautakjöt lækkaði um 40% frá fyrri úthlutun ársins 2020 og er nú aðeins einn fjórði af því verði sem það var í upphafi ársins 2019. Verðið var 797 kr/kg fyrri hluta árs 2019, 570 kr/kg seinni hluta árs 2019, 331 kr/kg. fyrri hluta árs 2020, en 200 kr/kg seinni hluta árs 2020. Forsendubresturinn blasir við. Tollkvótinn er  orðinn alltof hátt hlutfall af innlendum markaði, á meðan hlaðast upp kjötfjöll, verðið fellur og kjötið er selt með miklum afslætti.
  14. Afurðaverð til sauðfjárbænda féll strax eftir síðasta samning árið 2016 um 3040% og hefur gengið hægt að þoka því upp. Verðið er núna það sama og haustið 2011 í krónum talið og er lægsta afurðaverð til bóndans í Evrópu samkvæmt rannsókn Landssambands sauðfjárbænda.
  15. Viss skilaréttur verslana á unnum kjöt og mjólkurvörum er  hér gagnvart íslenskri framleiðslu. Þess vegna setja verslanir innfluttar landbúnaðarvörur í forgang, komnar að síðasta söludegi, þeim verður ekki skilað til baka.
  16. Svína og kjúklingabúskapurinn og garðyrkjan eru á nákvæmlega sama stað, eða verri. Verði ekki hlúð að þessum greinum fara þær sömu leið. Garðyrkjan er nú töluð upp í öðru orðinu, en slegin niður með aðgerðaleysi, þó allir sjái að jarðhitinn, rafmagnið og  hrein móðir jörð og gróðurhús gefa okkur einstakt tækifæri.
  17. Fullyrt er að hráefni í innfluttum matvörum sé illa skilgreint og óljóst hvert sé upprunalandið. Hér þarf landbúnaðurinn og verslanir að tryggja að blá/hvít/rauð fánarönd sé á öllum íslenskum matvörum. Það er réttur neytandans.

Hvaða atvinnuvegur myndi sætta sig við svona meðferð af hálfu stjórnmálamanna? Ekkert er mikilvægara en þingmenn og ráðherrar taki kíkinn frá blinda auganu og gefi íslenskum landbúnaði lífvænleg skilyrði. Við blasir dauðans alvara verði ekki gripið í taumana.

Guðni Ágústsson

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...