Laxalús og villtir laxfiskar
Laxalús sem berst frá eldi laxfiska í sjókvíaeldi getur mögulega valdið afföllum og stofnstærðarminnkun hjá villtum laxi, sjóbirtingi og sjóbleikju.

Tíðni laxalúsar á eldisfiski í sjókvíum á síðustu árum hefur almennt verið hærri á Íslandi en í nágrannalöndum og framleiðsla laxalúsalirfa því verið tiltölulega mikil. Það hefur verið tilhneiging til að gera lítið úr neikvæðum áhrifum laxalúsar frá fiskeldi á villta laxfiskastofna en mælingar sýna þó að áhættan á auknum afföllum er stundum áætluð umtalsverð í þeim vöktunum sem framkvæmdar hafa verið fram að þessu.
Tillaga um vöktun
Höfundur kom að umhverfismati Háafells (áður Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf.) á árinu 2014 sem ráðgefandi aðili en þar var lagt til að stunda vöktun á villtum laxfiskum m.t.t. áhrifa laxalúsar frá eldinu. Höfundur ásamt fleiri aðilum höfðu frumkvæði að því að koma á vöktun villtra laxfiska í Ísafjarðardjúpi. Náttúrustofa Vestfjarða tók síðan að sér þessa vöktun og hefur reglulega frá árinu 2017 birt niðurstöður á tíðni laxalúsa á villtum silungi á Vestfjörðum.
Áliti Skipulagsstofnunar ekki fylgt eftir
Í áliti Skipulagsstofnunar frá 2016 í sameiginlegu umhverfismati Arnarlax og Arctic Sea Farm taldi stofnunin að við leyfisveitingar þurfi að setja skilyrði um m.a. eftirfarandi atriði til að draga úr hættu á að laxalús frá eldinu skaði villta laxfiskastofna í Patreksfirði og Tálknafirði:
,,Viðmið um heimilaðan fjölda laxalúsa á eldisfiski með hliðsjón af áætlaðri hættu á afföllum villtra laxfiska. [….] Viðbragðsáætlun um mótvægisaðgerðir í samræmi við niðurstöður um smitálag frá eldisfiski hverju sinni og áhættu fyrir villta fiskistofna“.
Um tíu árum eftir álit Skipulagsstofnunar er staðan sú að ekki er búið að fastsetja heimilaðan fjölda laxalúsa á eldisfiski, skilgreina eða koma á viðbragðsáætlun til að draga úr áhættu laxalúsar á villta laxfiskastofna sem gilda jafnt fyrir alla rekstraraðila.
Niðurstöður vöktunar
Það vekur athygli í nýlegu umhverfismati fyrir aukningu á framleiðsluheimildum í sjókvíaeldi í Arnarfirði að lítið er gert úr skaðsemi laxalúsar frá eldinu á villta laxfiskastofna þrátt fyrir að laxalús hafi fjölgað mikið á villtum laxfiskum í firðinum á síðustu árum (mynd 1). Laxalúsaálag á villtum laxfiskum hefur aukist samfara auknu sjókvíaeldi í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi. Meiri sveiflur eru í Tálknafirði og Patreksfirði sem má að einhverju leyti sjá í samhengi við hvíld fjarðanna eftir eldi á hverri kynslóð.

Þol laxfiska við laxalús
Í rannsóknum hefur verið lagt mat á hve mikið álag af laxalús villtir laxfiskastofnar þola. Fyrir laxaseiði, sjóbirting og sjóbleikju sem eru að ganga í sjó í fyrsta sinn (< 150 g) er miðað við að < 0,1 lús/ fiskþyngd (g) hafi engin áhrif á hættu á aukinni dánartíðni. Við > 0.3 lýs/g er áætluð dánartíðni 100%. Fyrir stærri fisk (> 150 g), sjóbirting og sjóbleikju, sem er að ganga til sjávar í annað sinn eða oftar er miðað við að undir 0,01 lús/ fiskþyngd (g) séu engin áætluð afföll og 100% við meira en 0,15 lýs/g. Í Noregi er stuðst við þessar viðmiðanir og hafa þær einnig verið hafðar til hliðsjónar á Íslandi.
Stofnstærðarminnkun af völdum laxalúsar
Áhrif laxalúsar á sjóbirting og sjóbleikju er önnur en fyrir lax. Annars vegar dvelur silungur í lengri tíma á strandsvæðum undir laxalúsasmiti og þá sérstaklega sjóbirtingur. Hins vegar getur silungur að einhverju leyti unnið gegn áhrifum laxalúsasmits með því að ganga aftur upp í ána til aflúsunar. Það er ekki til staðar nægileg þekking til að meta hvort laxalúsasmit á sjóbleikju og sjóbirtingi leiði til aukinnar áætlaðrar dánartíðni ef fiskurinn styttir sjávardvölina. Þó slík hegðun dragi úr dánartíðni vegna laxalúsasmits, eykur hún líkur á að sýking komi í sárið eftir laxalúsina á meðan fiskurinn dvelur í ferskvatni. Jafnframt eykur hún líkur á lakara aðgengi að fæðu og þar með skertum vexti og frjósemi sem getur orsakað stofnstærðarminnkun. Hversu umfangsmikil stofnstærðarminnkun á sér stað er talið geta verið mismunandi á milli stofna.
Rannsóknir á sjóbirtingi
Sjóbirtingur gengur til sjávar á vorin og langtímarannsóknir í VesturNoregi sýna að fiskurinn gengur fyrr og í meira mæli úr sjó í ferskvatn til aflúsunar eftir því sem hann smitast fyrr af laxalús. Það er áætlað að það taki um 3–4 vikur frá smiti þar til ótímabær uppganga á sér stað og að fiskurinn dvelji í u.þ.b. tvær vikur í ferskvatni til aflúsunar þar til hann leitar aftur í sjó. Því seinna sem sjóbirtingur smitast af laxalús því minni verða neikvæðu áhrifin og færri fiskar eru með ótímabæra uppgöngu í ferskvatn til aflúsunar. Á sumrin er fjöldi laxalúsalirfa í sjónum meiri og hefði því mátt búast við ótímabærri uppgöngu í ferskvatn þegar líða fer á sumarið, en það er ekki raunin og er ekki vitað um ástæðu þess.
Umferðarljósakerfi Norðmanna
Náttúrustofa Vestfjarða hefur stuðst við norska umferðarljósakerfið við að meta áhrif laxalúsar á afkomu villtra laxfiskastofna. Umferðarljósakerfið gefur vísbendingar um áætlaða stofnstærðarminnkun (%) og flokkast sem lítil áætluð afföll eða lítil áhætta (< 10%, grænt), meðal (10-30%, gult eða appelsínugult) eða mikil (> 30%, rautt). Niðurstöður vöktunar á villtum laxfiskum hafa áhrif á hvort framleiðsluheimildir á svæðum í Noregi verði minnkaðar eða auknar. Hjá Náttúrustofu Vestfjarða byggist matið eingöngu á áætlaðri áhættu á aukinni dánartíðni silungs út frá talningu laxalúsa á fiskinum. Í Noregi byggir matið einnig á fleiri rannsóknum, s.s. talningu laxalúsar á eldisfiski, og er framleiðsla laxalúsalirfa áætluð út frá fjölda kynþroska kvenlúsa. Stuðst er við líkön við að áætla dreifingu laxalúsalirfa í sjónum og við mat á líklegu smiti á villtum laxfiskum. Það má því draga þá ályktun að matið sé nákvæmara í Noregi en á Íslandi.
Verður breyting?
Í stefnumótun stjórnvalda, Uppbygging og umgjörð lagareldis frá 2023, er nefnt að komið verði á kerfi vöktunar gagnvart áhrifum lúsar á stofna villtra laxfiska. Í frumvarpi um lagareldi sem lagt var fram á árinu 2024 er gert ráð fyrir að sett sé viðmið fyrir hámarks fjölda laxalúsa á eldisfiski og jafnframt verði komið á refsikerfi að færeyskri fyrirmynd. Vissulega getur það dregið úr smiti frá sjókvíaeldisstöðvunum en ekki er tekið nægilega vel á málum í frumvarpinu er varðar villta laxfiskastofna. Það þarf að vinna málið út frá villta fiskinum eins og gert er í Noregi ef það er markmiðið að lágmarka afföll og draga úr stofnstærðarminnkun á villtum laxfiskum.