Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hampfélagið og Samtök smáframleiðenda matvæla skora á ráðherra að bregðast við úrskurði Evrópudómstólsins
Lesendarýni 12. maí 2021

Hampfélagið og Samtök smáframleiðenda matvæla skora á ráðherra að bregðast við úrskurði Evrópudómstólsins

Höfundur: Oddný Anna Björnsdóttir og Sigurður Hólmar Jóhannesson

Mikil verðmæti eru fólgin í ræktun og úrvinnslu iðnaðarhamps á Íslandi. Vinnsla kannabínóðans CBD af blómum og laufum plöntunnar til að nýta í fæðubótarefni, matvæli, húð- og snyrtivörur skapar mestu verðmætin. Samkvæmt Grand View Research var heimsmarkaður með CBD árið 2020 metinn á 2,8 milljarða Bandaríkjadala sem eru rúmir 350 milljarðar íslenskra króna og búist við að hann vaxi um 20% á ári frá 2021 til 2028, þ.e. verði um 1.500 milljarðar árið 2028.

Fyrir þá tugi bænda og framleiðenda sem hyggja á ræktun iðnaðarhamps á samtals a.m.k. 150 hekturum í sumar – og vafalaust á ört stækkandi landsvæði með hverju árinu sem líður – er leyfi til fullrar nýtingar allrar plöntunnar mikið hagsmunamál. Af þeim sökum er brýnt að niðurstaða komist í það mál á allra næstu vikum svo þeir geti gert sín plön tengd ræktuninni í sumar og úrvinnslunni í haust.

Rétt er að rifja upp að ein af 15 aðgerðum ríkisstjórnarinnar á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs til að bregðast við áhrifum COVID-19 veirunnar á þessar greinar voru „ráðstafanir til að stuðla að ræktun iðnaðarhamps hér á landi“. Sú aðgerð er til lítils á meðan ekki er skýrt hvort bændur megi nýta verðmætasta hluta uppskeru sinnar – kannabínóðann CBD sem er á blómum og laufum plöntunnar – í fæðubótarefni, matvæli, húð- og snyrtivörur. Samtök iðnaðarins líta raunar svo á að lagalega séð sé ekkert því til fyrirstöðu – og rétt er að geta þess að CBD húð- og snyrtivörur má flytja inn og selja, en þær eru á forræði Umhverfisstofnunar.

Fyrir þær þúsundir – og þá ekki síst úr röðum eldra fólks – sem bíða þess í ofvæni að viðskipti með CBD fæðubótarefni á Íslandi verði heimiluð, er aðgengi að þeim einnig afar mikilvægt.

Ástæður eftirspurnarinnar

Ástæður mikillar sóknar í CBD fæðubótarefni eru margvíslegar. Fólk notar það meðal annars sem náttúrulega lausn við kvíða, streitu, þunglyndi og svefnvandamálum. Eins til að lina alls kyns verki, t.d. mígreni/höfuðverk og verki í stoðkerfinu, m.a. vegna gigtarsjúkdóma og annarra bólguvandamála. CBD er einnig notað við taugasjúkdómum, flogaveiki og til að draga úr vanlíðan í krabbameinsmeðferðum, þá samhliða hefðbundnum lyfjum í samráði við lækna.

Því til viðbótar njóta CBD krem/húðvörur – sem eru m.a. seldar í apótekum – mikilla vinsælda hér á landi. Þær eru einkum notaðar við alls kyns húðvandamálum, eins og exemi, psóríasis og unglingabólum, en einnig til að meðhöndla bólgur og verki.

Óheimilt að hindra viðskipti með CBD  

Flækjustigið tengt CBD er að ekki hefur verið til samræmd löggjöf, skilgreiningar eða reglur um það milli landa, t.d. innan ESB, en nýverið hafa orðið mikilvægar vendingar á því sviði.

Í nóvember 2020 úrskurðaði Evrópudómstóllinn í Lúxemborg að ríkjum innan ESB væri óheimilt að hindra viðskipti með CBD þar sem það flokkaðist sem matvæli og væri hvorki vímugefandi né skaðlegt fólki. Ef eitthvert ríki vildi takmarka viðskiptafrelsi með CBD vegna skaðlegra áhrifa yrði það að færa haldbærar sönnur á hina meintu skaðsemi.

Í bréfi framkvæmdastjórnar ESB eftir dóminn segir: „In light of the comments received from applicants and of the recent Court’s judgment in case C-663/184, the Commission has reviewed its preliminary assessment and concludes that cannabidiol should not be considered as drug within the meaning of the United Nations Single Convention on Narcotic Drugs of 1961 in so far as it does not have psychotropic effect. As a consequence, cannabidiol can be qualified as food, provided that also the other conditions of Article 2 of Regulation (EC) No178/2002 are met.“

Í fyrravor var gerð reglugerðarbreyting sem heimilaði ræktun iðnaðarhamps, en það var tímabundin ráðstöfun. Nú liggur fyrir Alþingi stjórnarfrumvarp um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni (iðnaðarhampur) sem færir stjórnsýslu og verkefni í tengslum við málefnið, þ.e. leyfi til innflutnings á fræjum tegundarinnar Cannabis Sativa, frá Lyfjastofnun til Matvælastofnunar sem er skynsamleg breyting og gott að ráðstöfunin sé orðin endanleg. 

Leyft sem fæðubótarefni fram til 2018

Innflutningur og sala á CBD til inntöku, s.s. í formi hylkja og olíu eða sem innihaldsefni í matvælum, er hins vegar ekki leyfð á grundvelli afstöðu Lyfjastofnunar, þ.e. ekki á grundvelli neinna laga eða reglugerðar.

Þess má geta að innflutningur á CBD fæðubótarefnum var heimill og á forræði Matvælastofnunar fram til ársins 2018, þegar Lyfjastofnun ákveður að flokka CBD sem lyfjaefni á  þeim forsendum að á markað væri komið lyf sem innihéldi CBD og þar með væri CBD orðið lyfjaefni. Sú afstaða er einkennileg.

Þýðir það að ef lyfja­fram­leiðandi ákveður sem dæmi að setja D-vítamín í lyf, yrði D-vítamín þá endurskilgreint sem lyfjaefni og bannað sem fæðubótarefni?

Gríðarstór grár markaður

Á meðan þessi afstaða Lyfja­stofnunar ræður för hér á landi leita þúsundir krókaleiða til að nálgast efnið í örvæntingu sinni til að lina alls kyns þjáningar. Af þeim sökum þrífst hér gríðarstór grár markaður með CBD, að stórum hluta á opnum síðum og hópum á samfélagsmiðlum og jafnvel í fjölmiðlum.

Brýnt er að þau lög og reglur sem við förum eftir í samfélaginu endurspegli raunveruleikann og að stjórnvöld bregðist við ákalli almennings þegar þær gera það ekki.

Með því að færa viðskipti með CBD af gráa markaðinum yfir á hinn löglega aukast ekki aðeins tekjur íslenskra bænda, framleiðenda og ríkissjóðs, heldur færist hann undir eftirlit opinberra aðila sem um leið geta gert eðlilegar kröfur um gæði og áreiðanleika, neytendum til hagsbóta.

Núverandi flokkun Lyfja­stofn­unar á CBD er augljóslega í andstöðu við úrskurð Evrópu­dómstólsins og ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB. Því gerum við þá kröfu að ráðherrar heilbrigðismála (Lyfjastofnun) og landbúnaðar (Matvælastofnun) ráðist í þá vinnu að skýra þær reglur sem gilda um framleiðslu, innflutning, sölu og markaðs­setningu á vörum sem innihalda CBD, án tafar. Íslenskir bændur, framleiðendur, neytendur og ríkissjóður eiga heimtingu á því.

 

Sigurður Hólmar Jóhannesson
Formaður Hampfélagsins


Oddný Anna Björnsdóttir
Framkvæmdastjóri Samtaka
smáframleiðenda matvæla og stjórnarmaður í Hampfélaginu

Skylt efni: Hamfélagið | CBD | iðnaðarhampur

Kínverskur víkingur á Íslandi
Lesendarýni 24. janúar 2023

Kínverskur víkingur á Íslandi

Þjóðháttafræðingur skammast út í Þjóðminjasafnið fyrir að gefa rangri ímynd víki...

Erfðafræði útlitseinkenna sauðfjár
Lesendarýni 23. janúar 2023

Erfðafræði útlitseinkenna sauðfjár

Ég hef allan minn starfsferil, sem spannar orðið nær fimm áratugi, starfað á ein...

Þankar um kolefnislosun/bindingu í sauðfjárrækt
Lesendarýni 20. janúar 2023

Þankar um kolefnislosun/bindingu í sauðfjárrækt

Sífellt fleiri jarðarbúar gera sér grein fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda, e...

Lægri raforkukostnaður bænda
Lesendarýni 18. janúar 2023

Lægri raforkukostnaður bænda

Verulegar verðhækkanir á ýmsum aðföngum undanfarna mánuði hefur sett búskap í la...

Hvar eru Bændasamtökin?
Lesendarýni 17. janúar 2023

Hvar eru Bændasamtökin?

„Hvar eru Bændasamtökin?“ er algeng spurning sem heyrist oft á meðal bænda og í ...

Ástæðulaus ótti við upprunaábyrgðir
Lesendarýni 13. janúar 2023

Ástæðulaus ótti við upprunaábyrgðir

Kjósi raforkusali að bjóða viðskiptavinum sínum upprunavottaða raforku – og það ...

Út í veður og vind
Lesendarýni 12. janúar 2023

Út í veður og vind

Líkt og frægur maður sagði eitt sinn, þá sækjum við Íslendingar styrkleika okkar...

Endurkynni þjóðar og bænda
Lesendarýni 11. janúar 2023

Endurkynni þjóðar og bænda

Það eru til atvinnugreinar hér á landi sem eru svo lokaðar að þú þarft að þekkja...