Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Danmörk - Lífrænar gulrætur svo langt sem augað eygir.
Danmörk - Lífrænar gulrætur svo langt sem augað eygir.
Lesendarýni 2. desember 2021

Danir hafa háleit markmið í lífrænni ræktun

Höfundur: Eygló Björk Ólafsdóttir, formaður Verndun og ræktun – VOR, félag framleiðenda í lífrænum búskap

Nýafstaðið er málþing sem bar yfirskriftina „Lífræn ræktun í framkvæmd“ en undanfari þess var að RML fékk nýverið ráðunaut í garðyrkju, Richard de Visser frá Danmörku, til að skoða aðstæður hér á landi í samstarfi við VOR. Richard de Visser miðlaði í framhaldi þekkingu sinni á málþingi á Selfossi en hann hefur um árabil starfað hjá ráðgjafarfyrirtækinu Horti Advice DK. 

Jafnframt töluðu þau Eiríkur Loftsson, ráðunautur RML, um nýtingu búfjáráburðar og Þórey Gylfadóttir, sömuleiðis ráðunautur hjá RML, um nýtingu belgjurta í akuryrkju.

Ekki verða praktísk atriði rakin hér í löngu máli en koma ráðgjafa líkt og de Visser er viss speglun á íslenskar aðstæður, stöðu ræktunar hér á landi og þá þróun sem er að eiga sér stað í lífrænni matjurtaræktun í heiminum. Um það langar mig að fjalla í þessari grein.

Nákvæmnisbúskapur – sjálfvirkur, sólarrafhlöðuknúinn róbóti sér um að reyta illgresi samkvæmt gps tækni.

Nýjasta tækni og vísindi

De Visser var með fróðlega yfirferð yfir nýjustu tækni sem ræktendur þar í landi nýta sér í viðhaldi ræktunarlands s.s. illgresiseyðingu. Sá nákvæmnisbúskapur sem þar er nú stundaður í lífrænni ræktun með aðstoð háþróaðra tæknilausna er að því er virðist að færa lífræna matjurtaræktun í Danmörku upp á annað stig. Nú eru t.a.m. komin fram tæki sem vinna skv gps staðsetningartækni, s.s. sjálfvirkir róbótar knúðir áfram af sólarrafhlöðum. Slík tæki sá fræinu og skrá staðsetningu þess, viðhalda síðan ræktunarsvæðinu reglulega með því að fjarlægja illgresi í allt að 1 cm fjarlægð frá plöntunni skv minni.

Um þessar mundir eru Danir að ná þeirri stöðu að verða útflytjandi til landa hvaðan þeir hafa hingað til flutt inn afurðir. Danir hafa náð miklum slagkrafti í lífrænum landbúnaði en nú eru rúm 11% af öllu ræktarlandi þeirra vottað lífrænt og 35% af útiræktuðu grænmeti er lífrænt vottað og eru þau gæði nú að verða ráðandi í mörgum vöruflokkum. Nær 60% af öllum dönskum rauðrófum eru nú lífrænar og nær helmingur af öllum gulrótum, nær 50% af spergilkáli, 70% af sellerí og rúm 80% af öllum næpum framleiddar í DK eru nú lífrænar. Lífræn framleiðsla stefnir því í mörgum flokkum að vera meginstraums gæði þegar kemur að grænmeti.

Aðföng og þjónusta við lífræna framleiðendur 

Mikil þróun er auk þess að eiga sér stað í framleiðslu á lífrænum áburði og standa framleiðendur í Danmörku frammi fyrir vali um kornaáburð, perlur, fljótandi áburð, hálffljótandi og slóg s.s. frá lífeldsneytisverksmiðjum. Fjöldi valkosta af áburði sem getur hvort sem er verið úr jurta- eða dýraríkinu.

Auk þess er mikil áhersla lögð á ræktun belgjurta sem draga á úr áburðarþörf og þá sér í lagi köfnunarefni. Danir stefna að markmiði langt undir viðmiðum sem núverandi reglur í lífrænum landbúnaði miða við (100 kg af N á ha í stað 170 kg) á næstu árum.  Þessi þróun er studd með miklu rannsóknarstarfi og ráðgjöf undanfarna áratugi.

Frá því að fyrsta aðgerðaáætlunin fyrir lífræna framleiðslu var sett í Danmörku árið 1995 hafa ræktendur notið stuðnings í formi ýmissar sérþekkingar s.s. við nýsköpun og vöruþróun. Í aðgerðaráætlun hefur sérstök áhersla verið lögð á að auka framleiðslugetu ræktenda eftir því sem eftirspurn hefur aukist.

Stuðningsumhverfið

Formlegt stuðningsumhverfi framleiðenda í Danmörku er byggt upp á rausnarlegum jarðræktarstyrkjum fyrir hvern ha vottaðs lands. Alfarið hefur verið horfið frá framleiðslustyrkjum sem binda stuðninginn við ákveðnar fæðutegundir. Lífrænir framleiðendur fá 20-25% meiri jarðræktarstuðning á ha frá Evrópu­sambandinu, um 33.000 kr. á ha á núverandi gengi, auk þess sem danska ríkið bætir við viðbótarstuðningi fyrir lífrænt vottað land sem nemur 18.000 íslenskum krónum á ha.

Vottunarkerfið er rekið af hinu opinbera og framleiðendur greiða ekki fyrir vottunina líkt og raunin er hér á landi. Tækjastuðningur er auk þess 45% af skilgreindum tækjakaupum sem eru á óskalista yfirvalda á hverjum tíma.

Stefnumótun – rannsóknir og þróun

De Visser fjallaði vissulega um Organic Denmark verkefnið sem er margþætt, opinbert verkefni sem hefur haft það hlutverk að byggja upp markað fyrir lífræna framleiðslu þar í landi. Á vegum Organic Denmark fer fram margvíslegt kynningar- og fræðslustarf fyrir lífrænar afurðir, á þeirra vegum eru keyrð útflutningsverkefni og danskar, vottaðar vörur (ferskar sem unnar) eru áberandi á vörusýningum erlendis undir hatti Organic Denmark.

Danir hafa sett lífrænan landbúnað á dagskrá sem sérstakt markmið í landbúnaðarstefnu sinni og gegnir geirinn þar mikilvægu hlutverki í að bæta framlag landbúnaðarins til umhverfis- og loftslagsmála. Um þessar mundir eru 300.000 ha lands í lífrænni ræktun en stefnan er tekin á 500.000 ha árið 2030. Talið er að sú aukning muni draga úr losun CO2 frá dönskum landbúnaði um 500.000 tonn á ári. 

Ísland 1 – Danmörk 11

Hér á landi er hlutfall ræktaðs lands í lífrænni ræktun 1-2% en í Danmörku er það rúm 11%. Upphafsstef beggja landa var í raun það sama þótt Danir hafi byrjað um 10 árum fyrr með sitt regluverk. Í báðum löndum settust nokkrir framleiðendur að borði (sjö í tilfelli Íslands, 15 í tilfelli Danmerkur) og bjuggu til félagsskap (á Íslandi heitir það VOR) sem knúðu á um mótun reglna og tilurð vottunarkerfis. Danir hafa með opnu hugarfari og samtali, opinberu vottunarkerfi, þróunarstarfi og samstarfi ýmissa ólíkra aðila, tekist að búa til atvinnugrein sem fyrir löngu er komin með slagkraft og skapar landbúnaðinum efnahagsleg tækifæri um leið og hún leggur eitthvað til bætts umhverfis og betra loftslags.

Fullt tilefni er til aðgerðaráætlunar á þessu sviði hér á landi, líkt og nú er kveðið á um í nýjum stjórnarsáttmála. Tækifærin í lífrænni ræktun matjurta liggja víða, í landnæði sem nýta þarf betur, köldum gróðurhúsum sem öðrum, í allri akuryrkju og í hvers kyns fullvinnslu. Aukin útbreiðsla lífræns landbúnaðar og aukin framleiðsla blasir því við sem viðfangsefni sem stuðla beri að.

 

Eygló Björk Ólafsdóttir,
formaður Verndun og ræktun

– VOR, félag framleiðenda
í lífrænum búskap

Skylt efni: Danmörk | Lífræn ræktun

Frá aðalfundum skógarbænda
Lesendarýni 20. maí 2024

Frá aðalfundum skógarbænda

Aðalfundur Félags skógarbænda á Suðurlandi (FsS) var haldinn á Hótel Stracta lau...

Undanþágur búvörulaga og staða bænda
Lesendarýni 16. maí 2024

Undanþágur búvörulaga og staða bænda

Ágætu bændur. Rétt fyrir páska voru samþykktar á Alþingi breytingar á búvörulögu...

Endurheimt vistkerfi á landi og ferskvatnslíf
Lesendarýni 10. maí 2024

Endurheimt vistkerfi á landi og ferskvatnslíf

Með vorinu vaknar náttúran til lífs enn á ný og fólk flykkist út til að njóta he...

Kjósum forseta með þekkingu á landbúnaði
Lesendarýni 9. maí 2024

Kjósum forseta með þekkingu á landbúnaði

Þann 1. júní nk. fara fram forsetakosningar og ljóst að kjósendur geta valið á m...

Skattaívilnanir í skógrækt
Lesendarýni 8. maí 2024

Skattaívilnanir í skógrækt

Í marsmánuði var hin árlega fagráðstefna Skógræktar á Íslandi haldin.

Dásamlega íslenska sveitin
Lesendarýni 6. maí 2024

Dásamlega íslenska sveitin

Þegar maður kemst á miðjan aldur, þá staldrar maður aðeins við og veltir fyrir s...

Hafa skal það sem sannara reynist
Lesendarýni 1. maí 2024

Hafa skal það sem sannara reynist

Í Bændablaðinu 11. apríl sl. er heilsíðuviðtal við hjónin á Syðri-Fljótum í Meða...

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?
Lesendarýni 29. apríl 2024

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?

Undanfarna mánuði hafa bændur í Evrópu efnt til mikilla mótmæla um alla heimsálf...