Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Laxeldi í Þorlákshöfn
Laxeldi í Þorlákshöfn
Leiðari 15. maí 2025

Landeldi vex fiskur um hrygg

Höfundur: Þröstur Helgason, ritstjóri

Gríðarleg uppbygging á sér nú stað hjá íslenskum landeldisfyrirtækjum. Fram kemur í umfjöllun í blaðinu í dag að innan nokkurra ára verði ársframleiðsla um 150 til 200 þúsund tonn af laxi. Útflutningsverðmætið gæti numið allt að 150 til 220 milljörðum árlega. Til samanburðar má nefna að útflutningsverðmæti sjávarafurða árið 2023 var 353 milljarðar.

Ljóst má vera að hér er um að ræða einn mesta vaxtarsprota íslensks atvinnulífs á næstu árum ef rétt er á haldið og umhverfi starfseminnar verður henni hliðhollt.

Fyrirsjáanlegt er að helsta áskorunin sem greinin stendur frammi fyrir á næstu árum snýr að mikilli orkuþörf hennar. Um leið og það er styrkleiki atvinnugreinarinnar hérlendis að hafa aðgang að endurnýjanlegri orku, þá er ljóst að framboð á henni er ekki ótakmarkað.

Athyglisvert er að formaður búgreinadeildar landeldis segir í blaðinu í dag vel þess virði „að fara í skoðun á verðmætasköpun hverrar kílóvattstundar sem seld er í annars konar framleiðslu á Íslandi, bæði með tilliti til útflutningsverðmæta sem og starfa sem orkunýtingin skapar“. Hann bætir við að til að tryggja framtíð landeldis sé augljóst að setja þurfi þessi mál í forgang.

Nýting orkunnar er með öðrum orðum pólitískt úrlausnarefni, ekki bara spurning um það hver getur borgað mest.

Sama sjónarmið gildir auðvitað um það þjóðráð að tryggja í lögum orkuöryggi almennings, smærri fyrirtækja og meðalstórra, en bændur myndu langflestir falla undir þá skilgreiningu. Löggjafinn þarf að móta sér orkustefnu sem kemur þessum hluta markaðarins í skjól en spurningin er hvort hann þarf ekki einnig að móta sér stefnu um það hvernig atvinnustarfsemi hann vill veita orku sinni til yfirleitt.

Tækifærin sem felast í landeldinu eru þó miklu fleiri en áskoranirnar. Þau felast í vaxandi markaði fyrir heilbrigðan fisk sem framleiddur er á sjálfbæran hátt. Þarna standa íslensk landeldisfyrirtæki afar sterkt. Þau gætu orðið leiðandi í framleiðslu á hágæða landeldislaxi í heiminum ef rétt er á haldið og vel er búið að þeim.

Forvitnilegur greinaflokkur

Frá því í nóvember á síðasta ári hafa birst nokkrar greinar hér í Bændablaðinu um afleidd störf í landbúnaði. Ástvaldur Lárusson blaðamaður hefur rætt við fólk sem starfar við rúning á fé, klaufsnyrtingu kúa, járningu hesta og enn fremur við mjólkurbílstjóra og frjótækni. Í blaðinu í dag er rætt við bílstjóra sem unnið hefur við að flytja áburð til bænda í rétt tæp sextíu ár.

Greinaflokkur þessi er ákaflega forvitnilegur. Hann segir frá hluta íslenskrar atvinnusögu sem hefur kannski ekki fengið mikla athygli hingað til. Mörg þessara starfa eru afar sérhæfð en eiga það jafnframt sameiginlegt að það er stutt síðan fólk tók að sérhæfa sig í þeim. Lengst af sinntu bændur sjálfir til dæmis rúningi fjár og járningum hesta. Önnur eiga sér skemmri sögu og tilheyra tæknibyltingu síðustu aldar.

En greinaflokkurinn leiðir einnig í ljós að landbúnaður skapar störf fyrir fjölda fólks sem ekki beinlínis sinnir búskapnum sjálfum. Á næstunni verður haldið áfram að spjalla við fólk sem sinnir afleiddum störfum í landbúnaði, svo sem dýralækni, verktaka sem dreifa áburði eða sinna heyskap, flokkunarmann minka, ráðunaut hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, þjónustumann mjaltaþjóna, sláturbílstjóra og áfram mætti halda. Lesendur eru hvattir til að fylgjast með.

9. tölublað Bændablaðsins 2025

Skylt efni: landeldi

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 4. desember 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Stofnanir og fyrirtæki á þessu landi virðast mörg hver vera orðin þreytt á því a...

Fæðuöryggi og landbúnaður
Leiðari 4. desember 2025

Fæðuöryggi og landbúnaður

Umræðan um fæðuöryggi er alltaf að taka á sig skýrari mynd. Atvinnuvegaráðherra ...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 24. nóvember 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Tregðan til þess að seinka klukkunni hér á landi er sorglegt dæmi um íhaldssemi ...

Mikill vöxtur í landeldi
Leiðari 20. nóvember 2025

Mikill vöxtur í landeldi

Mikill vöxtur er fyrirsjáanlegur í íslensku landeldi á næstu árum, eins og fram ...

Vannýtt tækifæri
Leiðari 6. nóvember 2025

Vannýtt tækifæri

Hlutfall innlendrar búvöruframleiðslu á íslenskum matvörumarkaði hefur dregist s...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 24. október 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Varla hefur farið fram hjá mörgum að mikill þrýstingur á auknar virkjanaframkvæm...

Út í óvissuna
Leiðari 23. október 2025

Út í óvissuna

Ljóst er að það markmið frumvarps atvinnuvegaráðherra um breytingar á búvörulögu...

Kraftapólitík og undanbrögð
Leiðari 14. október 2025

Kraftapólitík og undanbrögð

Búvörulög mynda grundvöllinn að starfsskilyrðum bænda í landinu ásamt búvörusamn...