Vernd landbúnaðarlands samkvæmt jarðalögum, ásamt skipulagningu þess, gegnir lykilhlutverki í því að tryggja fæðu- og matvælaöryggi og þjóðaröryggi á Íslandi.
Vernd landbúnaðarlands samkvæmt jarðalögum, ásamt skipulagningu þess, gegnir lykilhlutverki í því að tryggja fæðu- og matvælaöryggi og þjóðaröryggi á Íslandi.
Mynd / Joan Costa
Af vettvangi Bændasamtakana 17. september 2024

Vernd landbúnaðarlands

Höfundur: Katrín Pétursdóttir, lögfræðingur hjá BÍ.

Skipulag landbúnaðarlands, vernd þess samkvæmt jarðalögum og mikilvægi þess fyrir fæðuöryggi, matvælaöryggi og þjóðaröryggi á Íslandi eru grundvallaratriði fyrir sjálfbæra þróun og framtíðarhag þjóðarinnar.

Það er möguleiki að taka skipulagsmálin föstum tökum. Lagaskyldan er að minnsta kosti til staðar og þónokkrar stefnur og aðgerðaáætlanir sem er afrakstur vinnu nokkurra starfshópa. Hægt er að nýta þá þekkingu sem hefur aflast í gegnum árin til framkvæmdar. Meðal annars landsskipulagsstefnan, þjóðar- öryggisstefnan, landbúnaðarstefnan, loftslagsstefnan, leiðbeiningar um flokkun landbúnaðarlands, með tilliti til hæfni til ræktunar, landgræðsluáætlunin og landsáætlun í skógrækt og síðast en ekki síst hvítbók um skipulagsmál sem kom út í september síðastliðinn.

Skipulag landbúnaðarlands

Sveitarfélögunum ber lagaleg skylda til þess að skipuleggja land samkvæmt skipulagslögum. Markmið laganna eru m.a. að þróun byggðar og landnotkunar þvert yfir landið verði í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi er haft að leiðarljósi ásamt því að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands.

Skipulagsáætlun er áætlun um markmið og ákvarðanir viðkomandi stjórnvalda um framtíðarnotkun lands. Í skipulagsáætlunum er mörkuð stefna um m.a. landnotkun, þar sem sett eru fram stefnumið um einstaka þætti í samræmi við markmið skipulagslaga. Til landnotkunar telst meðal annars ráðstöfun lands til landbúnaðarnota.

Það má því segja að samkvæmt lögum ber sveitarfélögum skylda til að setja fram skipulagsáætlanir þar sem landbúnaðarland er skilgreint og verndað. Þetta gerir sveitarfélögum kleift að skipuleggja nýtingu lands til landbúnaðar með það að markmiði að tryggja að landbúnaðarland fari ekki undir aðra starfsemi nema brýna nauðsyn beri til.

Vernd landbúnaðarlands lögum samkvæmt

Samkvæmt jarðalögum er landbúnaðarlandi veitt sérstök vernd. Ákvæðið hefur þá þýðingu að allt land sem nú er í landbúnaðarnotum eða er nýtanlegt til landbúnaðar verður það áfram. Ef ráðgerðar eru breytingar sem fela í sér að land sé leyst úr landbúnaðarnotum þarf að gera grein fyrir og taka afstöðu til tveggja þátta.

Einn þátturinn er að meta hvort landið sé stærra en þörf krefur að teknu tilliti til þeirra nýtingaráforma sem skipulagstillagan felur í sér og hvort aðrir valkostir um staðsetningu komi til greina fyrir fyrirhugaða nýtingu á landi sem hentar síður til landbúnaðar og þá sérstaklega jarðræktar.

Annar þátturinn er að meta hver áhrif breyttrar landnotkunar eru á aðlæg landbúnaðarsvæði, meðal annars hvort hæfileg fjarlægð er milli lands með breyttri landnotkun og landbúnaðar sem fyrir er og hvort girt verði fyrir möguleg búrekstrarafnot af landinu í framtíðinni með nýtingaráformum. Sveitarstjórn tekur ákvörðun um breytingar á landnotkun á grundvelli heildstæðs mats samkvæmt skipulagsáætlun og þessara tveggja þátta.

Þetta ákvæði er sett til að tryggja að landbúnaðarland sé ekki nýtt í öðrum tilgangi, t.d. til bygginga, frístundabyggðar, iðnaðar eða ferðaþjónustu, nema slíkt þjóni brýnum samfélagslegum þörfum. Með þessu er markmiðið að vernda landbúnaðarland sem nauðsynlegt svæði fyrir landbúnaðarafnot.

Flokkun landbúnaðarlands

Að flokka gæði landbúnaðarlands og skipuleggja landið okkar með tilliti til hæfni til ræktunar mun það sjálfkrafa styrkja fæðuöryggi Íslendinga, ýta undir líffræðilegan fjölbreytileika og styrkja stoðir fæðukerfa með því að tryggja nýtingu landsins með sem bestum hætti. Landbúnaður snýst að stærstum hluta um matvælaframleiðslu og er þannig hluti af matvælakerfinu. Hluti af heilnæmri matvælaframleiðslu er að viðhalda gæðum þeirrar náttúru sem framleiðslan byggist á og þar gegnir landbúnaðarland mikilvægu hlutverki. Þegar teknar eru ákvarðanir um landnotkun þarf því að hafa fæðuöryggi þjóðarinnar að leiðarljósi.

Fæðu- og matvælaöryggi

Landbúnaðarland er mikilvæg auðlind fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar, sem snýst um að tryggja aðgengi að nægjanlegum, öruggum og næringarríkum mat. Ef landbúnaðarland er nýtt í öðrum tilgangi, getur það dregið úr möguleikum Íslands á matvælaframleiðslu og aukið háð þjóðarinnar á innflutningi. Mikilvægi fæðuöryggis hefur verið í brennidepli, sérstaklega í kjölfar heimsfaraldra og ófriðar, þar sem alþjóðleg framboðskeðja getur orðið fyrir röskun.

Íslenskur landbúnaður gegnir einnig lykilhlutverki við tryggingu matvælaöryggis, sem felur í sér að tryggja að matur sé heilnæmur og öruggur til neyslu. Með því að halda landbúnaðarlandi undir ströngu eftirliti og ábyrgri nýtingu, er hægt að tryggja betri gæði matvæla á Íslandi og draga úr hættu á að utanaðkomandi matvæli ógni heilbrigði almennings.

Þjóðaröryggi

Landbúnaðarland er ekki einungis mikilvægt fyrir fæðu- og matvælaöryggi, heldur einnig fyrir þjóðaröryggi. Með því að viðhalda innlendri matvælaframleiðslu er dregið úr háðinni á innfluttum vörum, sem gerir þjóðina óháðari á alþjóðavettvangi, sérstaklega á óvissutímum. Á krepputímum eða öðru ástandi sem getur truflað alþjóðlega markaði, t.d. vegna loftslagsvár eða ófriðar, getur innlend framleiðsla á matvælum reynst ómetanleg fyrir þjóðaröryggi.

Lykilhlutverk verndar landbúnaðarlands

Vernd landbúnaðarlands samkvæmt jarðalögum, ásamt skipulagningu þess, gegnir lykilhlutverki í því að tryggja fæðu- og matvælaöryggi og þjóðaröryggi á Íslandi. Án verndar og ábyrgðar gæti landbúnaðarland verið leyst úr landbúnaðarnotum með óafturkræfum afleiðingum, sem myndi draga úr möguleikum Íslands til að viðhalda innlendri matvælaframleiðslu.

Þegar teknar eru ákvarðanir um landnotkun þarf því að hafa þjóðaröryggi og fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar að leiðarljósi. Sama má segja þegar ekki eru teknar ákvarðanir.

Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Lesendarýni 9. október 2024

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Á meðan trén vaxa ræða skógarbændur framtíðina. „Það er víst lítið annað að gera...

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi
Lesendarýni 4. október 2024

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi

Öldungaráð Selfoss boðaði komu sína í MS-stöðina á Selfossi með fyrirspurnina á ...

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu
Lesendarýni 3. október 2024

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu

Haustið 2007 setti stjórn félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu saman nefnd ti...

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið
Lesendarýni 2. október 2024

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið

Íslenskur landbúnaður hefur gegnt lykilhlutverki í þróun samfélagsins frá landná...

Áhyggjur af samdrætti innan ESB
Lesendarýni 26. september 2024

Áhyggjur af samdrætti innan ESB

Þann 9. september 2024 kynnti Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu,...

Þá og nú
Lesendarýni 23. september 2024

Þá og nú

Hin hugljúfa ástarsaga Bergsveins Birgissonar um ástir þeirra Bjarna og Helgu he...

Áhrif beitar á uppskeru og kolefnisspor kindakjöts
Lesendarýni 19. september 2024

Áhrif beitar á uppskeru og kolefnisspor kindakjöts

Í Bændablaðinu 2.11. 2023 var fjallað um bindingu CO2 vegna framleiðslu kindakjö...

Skýrsla um raunveruleikann
Lesendarýni 18. september 2024

Skýrsla um raunveruleikann

Ástandið í íslenskum landbúnaði er víðs vegar þungt og mannskapurinn er þreyttur...