Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Arður frá Brautarholti, Sleipnisbikarshafinn 2016.
Arður frá Brautarholti, Sleipnisbikarshafinn 2016.
Mynd / Kolbrún Grétarsdóttir
Á faglegum nótum 10. október 2016

Margir nýir stóðhestar og vel heppnað Landsmót

Höfundur: Þorvaldur Kristjánsson ábyrgðarmaður í hrossarækt hjá RML
Nú er kynbótasýningum lokið á Íslandi árið 2016. Þessa árs verður minnst meðal annars fyrir öfluga þátttöku í kynbótasýningum, marga nýja stóðhesta sem komu fram á sjónarsviðið með afkvæmi til dóms og vel heppnað Landsmót að Hólum í Hjaltadal. 
 
Alls voru kveðnir upp 1619 dómar á árinu og tæplega 1200 hross mættu til dóms. Þetta er því með öflugri árum hvað mætingu til dóms varðar. Haldnar voru 16 kynbótasýningar á árinu, að Landsmóti meðtöldu, sú minnsta var á Iðavöllum á Fljótsdalshéraði með 16 hrossum og sú stærsta var vorsýning á Hólum með 175 hrossum. Sýningar í Spretti í Kópavogi og á Gaddstaðaflötum spönnuðu tvær vikur, í Spretti voru sýnd alls 265 hross og 222 hross á Gaddstaðaflötum. 
 
Meðaltöl og dreifing einkunna má sjá í meðfylgjandi töflum fyrir eiginleika sköpulags og hæfileika.
Meðaltöl allra eiginleika í ár eru á afar svipuðu róli og þau voru í fyrra, þó má merkja hækkun í eiginleikunum: háls, herðar og bógar, bak og lend, skeið og hægt tölt en lækkun í   eiginleikunum prúðleiki og fet. Dreifing einkunna er nánast sú sama í ár og þau fyrri en þó er hún heldur meiri í nánast öllum eiginleikum samanborið við árið í fyrra. Dreifingu aðaleinkunnar má sjá á myndinni hér að neðan en um 54% sýndra hrossa fengu 8.00 eða hærra í aðaleinkunn en þetta hlutfall hefur aldrei verið hærra.
Skýrist þetta væntanlega af sífellt stærri hópi góðra hrossa sem koma til dóms vegna framfara í ræktun en einnig vegna aukins forvals á hrossum til dóms.
 
200 knapar og 19 dómarar
 
Tvö hundruð knapar sýndu hross á árinu, þar af voru 78 knapar sem sýndu 5 eða fleiri sýningar og 43 sem sýndu 10 sýningar eða fleiri.
 
Sífellt fleiri knapar eru að koma öflugir til leiks og er það afar verðmæt þróun. Þá komu 19 dómarar að dómum á Íslandi í ár en þeir dæmdu frá 50 hrossum upp í 677 hross en meðaltalið var um 250 hross. 
 
Merkt var við eistnagalla hjá 13 stóðhestum á árinu. Í lang flestum tilvikum var um að ræða að heildarbreidd eista var undir 8.0 cm sem er lágmarksviðmið. Einnig var um að ræða að bæði eistun snéru ekki rétt eða að meira en 50% munur væri á rúmmáli eistanna. Ef meðaltal og breytileiki er skoðaður kemur í ljós að meðalbreidd á báðum eistum (TSW) er 10 cm og eitt staðalfrávik er 1.0 cm. Stefnan er að setja leiðbeiningar inn í WorldFeng við hesta sem eru með eistnagalla og einnig spatt en þessir hestar eru að sjálfsögðu ekki æskilegir til ræktunar. 
 
Landsmót
 
Í ár var tekin upp ný aðferð við val á kynbótahrossum inn á Landsmót; horfið frá einkunnalágmörkum sem hafa ákvarðað þátttökurétt á mótinu en þess í stað var ákveðin fjöldi efstu hrossa í hverjum flokki valinn inn á mótið. 
 
Alls var stefnt að 165 hrossum. Þótti þessi nýbreytni takast vel í heildina. Mun auðveldara reyndist að skipuleggja mótið og átti sinn þátt í því hve vel allar tímasetningar í dagskrá stóðust. Einnig fékk hvert og eitt kynbótahross meiri athygli á mótinu og hægt að hafa alla nánast alla hápunkta í dagskrá sem snéru að kynbótahrossunum á ákjósanlegum tímum. 
 
Þetta fyrirkomulag er vonandi komið til með að vera þótt alltaf megi endurskoða ákveðna þætti, t.d. fjölda hrossa í hverjum flokki. 
 
Lágmarkseinkunnir sem þurfti til að komast inn á mótið, sérstaklega á meðal yngstu og elstu stóðhestana, voru afar háar. Einnig þurfum við áfram að velta fyrir okkur leiðum til að hygla okkar bestu klárhrossum með tölti. Í ár var bætt 10 stigum við aðaleinkunn þeirra til að auðvelda þeim þátttökurétt á mótinu en við viljum klárlega vekja athygli á þessum hrossum á Landsmótum enda verðmætir ræktunargripir.
 
Í heild voru í ár 23% sýndra hrossa klárhross með tölti (einkunn fyrir skeið = 5,0) og á landsmóti var þetta hlutfall 18%. Þegar tíðni endursýninga á hrossum innan vorsins 2016 var skoðuð kom í ljós að 13% þeirra var sýnt oftar en einu sinni, þetta er nákvæmlega sama hlutfall og á landsmótsárinu 2014 en þetta hlutfall var 9% innan vorsins 2015. 
 
Þegar skoðað var hversu oft hross á landsmóti 2016 höfðu verið sýnd um vorið kom í ljós að þau höfðu verið sýnd 1.2 sinnum að meðaltali en þetta er sama meðaltal og var á þeim hrossum sem voru sýnd á landsmóti 2014. Þannig má sjá að hið nýja fyrirkomulag við val á hrossum inn á Landsmót hafði ekki nein áhrif á tíðni endursýninga. 
 
Þá var eitt sýningaratriði á mótinu sem hægt er að þróa áfram en það var úrvalssýning á kynbótahrossum. Þangað máttu koma hross með einhverja afburðaeiginleika og höfðu hlotið 9.5-10 í einkunn fyrir tölt, brokk, skeið, stökk eða fegurð í reið á vorsýningum eða á Landsmótinu, óháð þátttökurétti í einstaklingssýningum á mótinu. Það náðist að hafa þetta sýningaratriði á afar góðum tíma í dagskránni og hvert og eitt hross hlaut góða athygli. Þetta atriði getum við þróað skemmtilega áfram, sýnt fram á fjölhæfni hestsins og skapað frábært tækifæri til að vekja athygli á mismunandi hestgerðum.
 
Efstu kynbótahross á árinu
 
Mörg afar góð hross voru sýnd á árinu og er fjöldi þeirra að aukast ár frá ári. Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart, enda er hryssustofn íslenskra ræktenda sífellt að magnast og eru um 1.400 fyrstu verðlauna hryssur í ræktun þessi misserin.
 
Ef litið er yfir þá stóðhesta sem sýndir voru í ár kemur í ljós hversu margar ólíkar, frambærilegar hestgerðir standa ræktendum til boða og er það afar jákvætt merki. Í ár voru sýndir 100 fjögurra vetra hestar og 99 hryssur.
 
Margir athyglisverðir fjögurra vetra hestar voru sýndir á árinu sem áhugavert verður að fylgjast með áfram. Efsti fjögurra vetra stóðhesturinn á Íslandi í ár var Sirkus frá Garðshorni á Þelamörk. Þetta er léttviljugur og skrefmikill rýmishestur, undan Fáfni frá Hvolsvelli og Sveiflu frá Lambanesi. Efsta fjögurra vetra hryssan var Stefna frá Torfunesi, undan Vita frá Kagaðarhóli og Bylgju frá Torfunesi, Baldursdóttur frá Bakka. Stefna er afar vel gerð hryssa að mörgu leyti með verðmæta hálsgerð, afar hátt settan háls, rétt lagaðan og aðskilinn frá bógum. Þá er hryssan náttúrubarn á skeiði, fádæma jafnvægisgóð og sniðföst. 
 
Í fimm vetra flokki voru sýndir 118 hestar og 202 hryssur. Draupnir frá Stuðlum var hæst dæmdi fimm vetra folinn í ár og hafa íslenskir hrossaræktendur nú eignast að nýju hátt dæmdan og efnilega kynbótahest, leirljósan að lit. Draupnir er undan Kiljan frá Steinnesi og góðhestamóðurinni Þernu frá Arnarhóli. Þetta er afar framfallegur og fótahár hestur, með hátt frambak, sterka yfirlínu og öflugar gangtegundir. Hann á eflaust eftir að eflast enn með auknum vöðvastyrk. Sá hestur sem stóð efstur í fimm vetra flokki á Landsmóti var aftur á móti Forkur frá Breiðabólsstað undan Fláka frá Blesastöðum og Orku frá Tungufelli, Kolfinnsdóttur. Forkur er glæsilegur hestur í byggingu, með mikinn léttleika í hreyfingum og er sérstakur útgeislunarhestur, enda með 9.5 fyrir fegurð í reið og vilja og geðslag. Þá varð efsta hryssan í þessum flokki Elja frá Sauðholti 2, undan Brimni frá Ketilsstöðum og Góu frá Leirulæk. Elja er jafnvíg alhliða hryssa, skeiðið best. Efsta hryssan í þessum flokki á Landsmóti varð aftur á móti Viðja frá Hvolsvelli, undan Frakk frá Langholti og Vordísi frá Hvolsvelli. Viðja er mjúkvaxinn og jafnbyggð hryssa, á afar auðvelt með að ganga í réttri líkamsbeitingu, með fallega hvelfingu í hálsi og er í raun hestagull.
 
Í sex vetra flokki voru 83 hestar og 217 hryssur. Organisti frá Horni var hæst dæmdi hesturinn í þessum flokki í ár og var einnig efstur á Landsmóti, undan Ágústínusi frá Melaleiti og Flautu Spunadóttur frá Horni. Organisti er afar vel gerður hestur; með hátt settan og mjúkan háls og sterka yfirlínu í baki, enda á hann auðvelt með burð og heldur vel á sér á öllum gangtegundum. Þetta er mikill fas- og viljahestur með 9.0 fyrir allar gangtegundir, nema fetið sem er síst. Efsta hryssan í þessum flokki og efst á Landsmóti var Jörð frá Kolturey. Þetta er afar fríð og vel gerð hryssa, með mikla skrokkmýkt, undan Óðni frá Eystra-Fróðholti og Flugu frá Sauðárkróki. Óðinn er byrjaður að skila afkvæmum til dóms og átti tvær dætur á Landsmóti, hann er undan Sæ frá Bakkakoti en hann er að verða einn af helstu ættfeðrum stofnsins og á líklega eftir að auka erfðahlutdeild sína á næstu árum, enda stóðhestafaðir.
 
Í flokki hrossa sjö vetra og eldri voru sýndir 84 hestar og 294 hryssur. Efsti hesturinn í ár varð Hrafn frá Efri-Rauðalæk á sýningu í Spretti í vor. Hrafn er afar fríður, framfallegur og jafnvígur, mjúkur, alhliða hestur, undan Markúsi frá Langholtsparti og Hind frá Vatnsleysu. Efstur á Landsmóti í þessum flokki var aftur á móti Ölnir frá Akranesi. Ölnir er einnig útaf Markúsi frá Langholtsparti en móðirin, Örk frá Akranesi, er undan Markúsi og faðirinn er Glotti frá Sveinatungu. Ölnir er jafnvígur á allar gangtegundir og einkennist af lipurð og léttleika og hefur eflst mikið á skeiði í seinni tíð. Efsta hryssan í þessum flokki í ár og einnig á Landsmóti varð Þota frá Prestsbæ, undan Orra frá Þúfu og Þoku frá Hólum. Hún lék því eftir árangur alsystur sinnar, Þóru frá Prestsbæ, sem varð efst í þessum flokki á Landsmóti 2011 á Vindheimamelum og einnig móður sinnar sem stóð efst á Landsmóti 2002. Þota er afar falleg og fínleg hryssa í byggingu og þá sópar að henni í reið með mikla skreflengd á öllum gangi og virkjamikla framgöngu.
 
Afkvæmahestar á Landsmóti
 
Alls voru sýndir sjö hestar á Landsmóti til afkvæmaverðlauna, tveir til heiðursverðlauna og 5 til fyrstu verðlauna. Tókust þessar sýningar afar vel. 
 
Arður frá Brautarholti stóð efstur til heiðursverðlauna og hlaut því Sleipnisbikarinn, enda afar farsæll kynbótagripur, undan Orra frá Þúfu og Öskju frá Miðsitju. Þá hlaut Gaumur frá Auðsholtshjáleigu einnig heiðursverðlaun fyrir afkvæmi, með hóp margra afrekshrossa með sér en hann er undan Orra frá Þúfu og Hildi frá Garðabæ. Þá hlaut Spuni frá Vesturkoti fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og efsta sætið. Hann er að gefa bráðger og mjúkgeng ganghross og er nú búið að sýna 24 afkvæmi undan honum, flest fjögurra vetra. Annar í röð til fyrstu verðlauna fyrir afkvæmi stóð Álffinnur frá Syðri-Gegnishólum með 123 stig og 23 dæmd afkvæmi. Álffinnur náði lágmörkum til fyrstu verðlauna fyrir afkvæmi í fyrra, þá einungis átta vetra gamall sem er einsdæmi og frábær árangur. Í þriðja sæti varð Grunur frá Oddhóli með 119 stig og 17 dæmd afkvæmi. Raðast Grunur ofar næsta hesti á aukastöfum en í fjórða sæti varð Seiður frá Flugumýri II, einnig með 119 stig og 17 dæmd afkvæmi. Í fimmta sæti er svo Kjerúlf frá Kollaleiru með 118 stig og 17 dæmd afkvæmi. Lýsingar dómnefndar Landsmóts á þessum afkvæmahestum eru komnar inní WorldFeng en þar er einnig að finna meðaleinkunnir afkvæmanna og kynbótamat hestanna fyrir alla eiginleika. 
 
Heilbrigðisskoðanir kynbótahrossa
 
Heilbrigði kynbótahrossa var skoðað einsog undanfarin ár, bæði fyrir og eftir dóm. Allir áverkar sem hrossin hlutu í dómi voru stigaðir í þrjá flokka og átti þetta við bæði særindi í munni og ágrip á fótum. 
Fyrsta stigs athugasemdir teljast ekki vera eiginlegir áverkar en eru t.d. særindi í munni sem ná ekki í gegnum slímhúð eða strokur á fótum sem ná ekki í gegnum húð og eru án eymsla eða bólgu. Annars stigs athugasemdir eru áverkar, s.s. lítil sár í munni eða á ágrip á fótum sem ná þó ekki einum cm. Þriðja stigs athugasemdir eru alvarlegir áverka og á þá lund að hrossið hlýtur ekki reiðdóm og getur ekki mætt til yfirlitssýningar. Nákvæmari lýsingu á þessari kvörðun má finna á heimasíðu RML. Skráð voru ágrip á fótum í 16% tilfella en 75% af þeim tilheyrðu 1. stigi. Var því um eiginleg ágrip (áverka) á fótum að ræða í 4% tilfella (athugasemdir 2 og 3) og ágrip sem tilheyra 3. stigi voru 7 eða um 0.5%. Þá voru skráð særindi eða blóð í munni í 3.5% tilfella og var í öllum tilfellum um 1. stigs særindi að ræða nema í tveimur tilfellum. 
 
Niðurstöðurnar segja að tíðni alvarlegra áverka fari lækkandi á milli ára en tíðni ágripa af fyrsta stigi er afar svipuð og hún var í fyrra. Skoðað var hvort tíðni áverka (ágrip og særindi í munni) væri mismunandi eftir því hvort um dóm eða yfirlit væri að ræða, reyndist svo ekki vera en um helmingur áverkanna var skráður í dómi og hinn helmingurinn á yfirliti. Tíðni ágripa er lægri í þeim hópi hrossa þar sem sýnandinn er einnig skráður þjálfari samanborið við heildargagnasafnið en í þeim hópi var heildartíðni ágripa um 12% og tíðni alvarlegra ágripa um 3.0%. Þetta segir væntanlega ákveðna sögu um verðmæti þess að knapinn þekki hrossin sem hann sýnir.  
 
Þróun dómstarfa
 
Góð þróun hefur verið í dómstörfum kynbótahrossa á undanförnum árum, þar sem meiri áhersla hefur verið lögð á gæði gangtegunda. Þættir eins og mýkt, jafnvægi og burður vega nú meira inn í einkunnagjöfina en t.d. hraði eða fótaburður. Gæði á hægu tölti og hægu stökki hafa nú meiri áhrif á lokaeinkunn fyrir þessar gangtegundir svo dæmi sé tekið og við erum sífellt að átta okkur betur á því hvernig líkamsbeitingu við viljum verðlauna og hvernig hún hefur áhrif á einkunn fyrir fegurð í reið. En þetta er þróun sem við verðum að halda áfram með.
 
Það er margt sem þarf að skilgreina betur og marka skýrari stefnu með. Við verðum einnig að vera vakandi fyrir þvi, dómarar og sýnendur, að auka enn á kröfuna um fágun í reiðmennsku og hestvænar sýningar. Mikið hefur þetta lagast á síðastliðnum árum og í heildina um að ræða hestvænar sýningar á vel undirbúnum hrossum. En betur má ef duga skal og ég er viss um að reiðmennska sem telst innan marka í dag hvað ásýnd varðar, telst það ekki innan fárra ára. Einsýnt er að við verðum að fara að gera mismunandi kröfur eftir aldri hestsins; létta kröfurnar á yngstu hrossin en jafnframt auka kröfurnar á eldri hrossin. Við erum að sumu leyti að gera of miklar kröfur til yngstu hrossanna, t.d. hvað varðar reisingu, burð á hægu, rými og lengd sprettfæris, og of litlar kröfur til elstu hrossanna.
 
Dæmi má nefna um dóma á tölti, þar sem gerð er til dæmis krafa um lágmarkseinkunnina 8.0 fyrir hægt tölt, eigi einkunnin 9.0 fyrir tölt að nást. Það er spurning hvernig við úrfærum sýningar á fjögurra vetra hrossum í framtíðinni og einnig spurning hvort þetta sé ekki sanngjörn krafa á 5 vetra hross en hvað varðar 6 vetra hross og ekki síst eldri hrossin þá eru þetta of litlar kröfur. Þannig verðum við að ætlast til þess að hrossin auki burð og fjaðurmagn á hægu tölti með aldri og að hæga töltið verðskuldi að lágmarki 8.5 í einkunn til að 9.0 fyrir tölt eigi að nást. Þannig verðum við að stuðla að því að gæði hægu gangtegundanna endurspeglist betur í aðaleinkunn hestsins í framtíðinni. Þetta er einnig ein leið til að tryggja betur að hrossin sem fara hæst í aðaleinkunn gefi okkar allar hinar verðmætu hestgerðir sem sóst er eftir. 
 
Til að bæta mat á gangtegundum er einboðið að setja upp hljóðnema við brautirnar til að fá mat á takti í öllum tilfellum. Þetta mun einnig bæta samræmi á milli dóma en sums staðar eru aðstæður þannig að dómarar sjá og heyra vel en sums staðar heyra þeir ekki neitt inn í dómsskúrum. Þetta var prófað á tveimur sýningum í ár, þannig að nokkur reynsla er komin á útfærslur og verður fundinn flötur á því að hafa þetta á öllum sýningum á næsta ári. 
 
Margt fleira væri hægt að nefna sem hugurinn stefnir til að bæta og þróa en læt staðar numið að sinni. Afar ánægjulegu sýningarári er lokið og þakka ég sýnendum, ræktendum og eigendum hrossa og staðarhöldurum á hverjum sýningarstað góð samskipti á árinu.

5 myndir:

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...