Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Að auka lífræna ræktun – getum við lært eitthvað frá Þýskalandi?
Á faglegum nótum 19. janúar 2024

Að auka lífræna ræktun – getum við lært eitthvað frá Þýskalandi?

Höfundur: Christina Stadler. Höfundur er lektor hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Annað hvert ár fer fram sérstök vísindaráðstefna um lífræna ræktun í Þýskalandi, Sviss eða í Austurríki. Þessi ráðstefna er þekkt sem miðlægur vettvangur fyrir vísindamenn aðallega, en einnig taka þátt ráðgjafar í lífrænni ræktun, hagsmunaaðilar og embættismenn.

Christina Stadler.

Á þessum ráðstefnum er rætt um nýjustu rannsóknarniðurstöður í lífrænni ræktun á öllum sviðum. Að venju er þarna viðstatt mikið af fólki frá háskólanum Kassel- Witzenhausen. Á ráðstefnunum er kjörið tækifæri til að uppfæra þekkingu, mennta sig meira í lífrænni ræktun og viðhalda og stækka tengslanetið.

Markmið þýsku ríkisstjórnarinnar og Evrópusambandsins

Vorið 2023 var á þessari ráðstefnu sérstaklega rætt um hvaða rannsóknarverkefni skipta máli og hvernig ætti að hanna rannsóknir í framtíðinni sem styðja við útbreiðslu lífræns landbúnaðar. Þýsk stjórnvöld stefna að því að 30% landbúnaðarlands verði lífrænt vottað árið 2030. Stefna Evrópusambandsins er 25%.

Markmiðið er metnaðarfullt, því árið 2022 var hlutfall lífræns ræktunarlands í Þýskalandi aðeins 11,3%. Þetta þýðir að stefnt er að 12% árlegum vexti í aðlögun þýskra bænda frá hefðbundinni ræktun yfir í lífræna ræktun.

Í ljósi loftslagsbreytinga, taps á líffræðilegum fjölbreytileika, sífellds vaxandi fólksfjölda í heiminum og takmarkaðra auðlinda verður að sameina alla krafta í því skyni að umbreyta landbúnaði og matvælaframleiðslu með nýrri hugsun og nýjum aðgerðum. Þetta snýst um sjálfbærari nýtingu auðlinda, aðlögun að breyttu veðurfari og að hægja á loftslagsbeytingum, styrkja líffræðilegan fjölbreytileika og hollustu matvæla. Lífræn ræktun er kerfismiðuð nálgun, sérlega auðlindasparandi, umhverfisvænt og sjálfbært framleiðslukerfi. Framtíðarrannsóknir verða því að stuðla að möguleikum lífrænnar ræktunar og matvæla eftir allri virðiskeðjunni og þróa hagnýtar lausnir fyrir núverandi spurningar til að bæta kerfið enn frekar. Auk þess er mikilvægt að skoða betur snertifleti við neytendur með tilliti til væntinga þeirra um „lífrænt“.

Til að ná 30% markmiðinu er mikilvægt að bæta alla virðiskeðjuna í lífrænum landbúnaði allt frá frumframleiðendum til neytenda. Ryðja þarf úr vegi hindrunum. Auðvelda þarf bændum skiptingu yfir í lífræna ræktun, styðja þarf við markaðsþróun og mikilvægar hagnýtar rannsóknir og koma markvissar að þekkingarmiðlun til notenda. Til þess að ná þessum markmiðum þarf áþreifanlegar aðgerðir, þar sem allir í virðiskeðjunni eru með. Markmiðið er að leggja til áætlun fyrir stjórnvöld sem á að efla lífrænan landbúnað og matvælaframleiðslu í Þýskalandi.

Nauðsynlegar rannsóknir til að auka lífræna ræktun í Þýskalandi

Haldin var vinnustofa undir heitinu „Hvaða rannsóknir þurfum við til að ná 25% markmiðinu í lífrænni ræktun?“ Vinnustofan var vettvangur til að kynna hagsmunaaðilum þörfina á rannsóknarskipulagi, telja upp forgangsrannsóknir og aðferðir við þekkingarmiðlun. Áður en vinnustofan var haldin fór fram forvinna til að móta rannsóknartillögur á öllum fræðasviðum lífræns landbúnaðar.

Rannsóknir hafa grundvallarþýðingu fyrir framtíðartækifæri samfélaga og eru sérstaklega nauðsynlegar til að auka lífræna ræktun og lífræna matvælaframleiðslu. Það á að reyna að ná eftirfarandi markmiðum:

  1. þróa áfram lífræn framleiðslukerfi og auka framlag þessara kerfa til samfélagsins þegar kemur að loftslagsvernd, líffræðilegum fjölbreytileika, auðlindavernd, vatnsvernd, heilbrigði og frjósemi jarðvegs, heilbrigði og velferð dýra, gæði matvæla og matvælaöryggi,
  2. minnka hindranir og erfiðleika, sem tengjast aðlögun í lífrænni ræktun,
  3. tilgreina nánar hugmyndir við gerð rammaskilyrða og mælikvarða í vistvænum framleiðslukerfum eftir allri virðiskeðjunni.

Í ljósi aukinnar útbreiðslu lífrænnar ræktunar og matvæla- framleiðslu er brýn þörf fyrir vexti innviða, mannauðs með þekkingu í lífrænni ræktun og fjármagns til nýliða í greininni auk eflingar tengslanets.

Í málstofum var fjallað nánar um rannsóknarviðfangsefni og rannsóknarinnviði fyrir mismunandi greinar tengdar lífrænni ræktun:

  • Með fjárhagslegum stuðningi verður að auka dýra- og plöntukynbætur þannig að vistvænni afbrigði öflugra tegunda séu í boði fyrir lífræna ræktun.
  • Þróa þarf fjölbreytt sáðskiptakerfi sem eru aðlöguð hverjum stað og þar sem belgjurtir, blönduð ræktun með tveimur eða fleiri tegundum samtímis og túnrækt gegna lykilhlutverki.
  • Þróa þarf auðlindasparandi ræktunaraðferðir.
  • Heildræn nálgun þar sem jarð- og búfjárrækt er samtvinnuð og óaðskiljanlegir hlutar í sjálfbærum lífrænum kerfum.
  • Hagræða í dýrahaldi en jafnframt bæta heilsu og velferð dýra.
  • Stækkun lífræns landbúnaðar og matvælaframleiðslu getur aðeins tekist ef mataræði og þar með landbúnaðar- og matvælakerfið í heild er endurskoðað.
  • Lífræn matvælavinnsla og lífrænt mataræði þarf að styrkja með rannsóknum og miðla þarf þekkingu um lífræna næringu og grænkerafæði til neytenda.
  • Setja sér markmið að fólk borði svæðisbundin hágæða lífræn matvæli sem eru unnar með miklum vinnslugæðum á vistvænan hátt og sem byggjast á plöntum í auknum mæli.
  • Mikilvægt er að auka hlut lífrænna rétta á veitingastöðum og mötuneytum.
  • Endurskoða ímyndina af „dýrum“ lífrænum vörum og skapa stærri sölumarkað.
  • Nauðsynlegt er að hafa fastráðna starfsmenn með menntun í þverfaglegum rannsóknum til að byggja upp hæfni, stuðla að og styrkja miðlun yfir venjulegan verkáætlunartíma (3-5 ára).
  • Styðja þarf unga fræðimenn til starfs og menntunar í lífrænni ræktun og matvælaframleiðslu.
  • Athuga þarf hvort eigi að búa til viðeigandi fjármögnunaráætlanir fyrir aðstoðarfólk í rannsóknum.
  • Miðla þarf sérstökum eiginleikum lífræna geirans í þjálfunarstarfi og á námsbrautum.
  • Styrkja þarf verkefni hraðar og efla þarf þverfagleg og langtíma rannsóknarverkefni með þátttöku frá ráðunautum og bændum.
  • Viðhald af rannsóknarinnviðum sem byggjast upp í verkefnum er mikilvægt og mun hafa ávinning umfram þessi tiltekin verkefni.
  • Rannsóknarniðurstöðurnýtast aðeins ef þær ná til réttra markhópa. Til að efla þekkingarmiðlun eftir virðiskeðjunni þarf „verkfærakassa“ með árangursríkum leiðbeiningum sem rannsakendur og ráðunautar hafa útbúið fyrir framleiðendur.
  • Mikilvægt er að nýta upp reynsluþekkingu fyrir hagnýtar lausnir.
Hvað þarf að gera á Íslandi til að efla lífræna ræktun?

Vafalaust geta íslensk stjórnvöld nýtt sér einhverjar hugmyndir frá Þýskalandi varðandi eflingu á rannsóknum tengt lífrænni ræktun, stækkun rannsóknarinnviða og þekkingarmiðlun.

Þar ætti að miða við að sjónarhorn lífrænnar matvælaframleiðslu á Íslandi sé til fyrirmyndar og efla þannig lífræna matvælaframleiðslu á Íslandi.

Það er óumdeilt að gera þarf umfangsmikið átak til þess að lífræn ræktun geti nýtt möguleika sína til að leysa áskoranir í greininni. Hlutfall landbúnaðarlands með lífræna vottun er mjög lítið og hefur heldur ekki hækkað í mörg ár.

Að auki, samanborið við önnur Norðurlönd, er tiltölulega lítil þekking og reynsla til um lífræna ræktun meðfram allri virðiskeðjunni á Íslandi og er því brýn þörf á að efla þekkingu í heild sinni á öllum sviðum. Það vantar því mannauð erlendis frá í nánast öllum starfsgreinum.

Þó að drög að fyrstu áætlun um eflingu lífrænnar ræktunar sem unnin hefur verið á vegum stjórnvalda séu komin út, eru hér nokkrar tillögur til að efla lífræna ræktun sem tengjast fyrst og fremst rannsóknum og kennslu á einhvern hátt:

  • Umtalsverð aukning á opinberu fjármagni er nauðsynleg, meðal annars til rannsókna og tilrauna í lífrænni ræktun fyrir íslenskar aðstæður og til að miðla þekkingu til nemenda, ráðunauta, bænda og fleiri hagsmunaaðila. Þar sem það tekur tíma að þróa nýja þekkingu og innleiða núverandi þekkingu, er mjög brýnt að skapa nauðsynlega umgjörð svo hægt sé að ná fram hagnýtum niðurstöðum fljótt og hrinda í framkvæmd til að leysa núverandi hindranir.

    T.d. ætti að hefjast handa strax við að hanna langtímatilraunir í jarð- og ylrækt eins og finnast í öðrum löndum og eru nú þegar búin að vera mörg ár í gangi. Óskandi væri ef stjórnvöld mundu veita ákveðnu fjármagni ár hvert til háskóla – óháð rannsóknarefni – til að geta rannsakað hvað brennir á hverju sinni í lífrænni ræktun. Til þess væri ráðlegt að tilnefna hóp sem samanstendur af vísindamönnum, ráðunautum, bændum, hagsmunaaðilum og stjórnvöldum til að ákveða rannsóknartillögur til framtíðar sem nauðsynlegt er að takast á við. Þannig væri hægt að hefja rannsóknir með frekar stuttum fyrirvara og spara verðmætan tíma sem fer í að skrifa umsóknir. Fyrir minna brýn verkefni ætti áfram að sækja um í samkeppnissjóði.
  • Það er staðreynd að Ísland er lítið land og allt sem er gert erlendis er einfaldlega ekki hægt að gera hérlendis. Í dag er ekki hægt að bjóða upp á sérstaka námsbraut um lífræna framleiðslu á háskólastigi á Íslandi, þar sem flesta innviði og mannauð skortir. Valnámskeið í lífrænni ræktun hefur verið í boðið hjá LbhÍ, sem hingað til hefur ekki verið mikið eftirsótt. Þess vegna er í dag ekki mögulegt að bjóða upp á heila námsbraut á háskólastigi í lífrænni ræktun hér á landi. Hins vegar væri það metnaðarfullt framtíðarmarkmið. En þakið verður ekki byggt áður en húsið sjálft er byggt. Fyrst þarf að hugsa um sökkulinn af húsinu (grunnþekking). Svo væri hægt að bjóða upp á grunnnámskeið í lífrænni ræktun sem skyldunámskeið, þó ekki við upphaf háskólanáms, þar sem nemendur þurfa fyrst að nálgast grunnþekkingu á nokkrum sviðum. Það er enn meira áríðandi í lífrænni ræktun, þar sem er miklu meiri tenging milli mismunandi fagsviða en það er í hefðbundinni ræktun. Því mun grunnnámskeið í lífrænni ræktun skila sér meira seinna í náminu, sem jafnvel getur verið grunnur fyrir því að vekja áhuga nemandans til að skrifa ritgerð um þessi efni og auka þannig t.d. framboð á lífrænum tilraunum.
  • Almennt vantar sérfræðinga með menntun í lífrænni ræktun og matvælaframleiðslu til starfa. Það þarf að skoða hvaða sérfræðingar/ mannauður eru nú þegar búsettir á Íslandi með menntun eða þekkingu í lífrænni ræktun. Það er ávinningur af fólki sem hefur reynslu í lífrænni ræktun erlendis frá og þekkir því mun milli lífrænnar ræktunar hérlendis og erlendis. Hins vegar hefur mjög lítil eftirspurn verið eftir þeirra reynslu hingað til. Það þarf að gefa þeim tækifæri, spyrja og kynnast þeirra reynslu.
  • Það þarf að auðvelda aðlögunarferli í lífrænni ræktun og efla markaðssetningu til að auka eftirspurn og framboð. Til að ná árangri á nú þegar starfandi lífrænum bæjum og til að auka vilja til aðlögunar, er miðlun sérfræðiþekkingar, frekari þróun lífrænna ræktunaraðferða ásamt fjölbreytileika ræktunartilrauna nauðsynlegt.
  • Rannsóknarniðurstöðum þarf svo að miðla til bænda t.d. í formi verkfærakassa og getur ráðunautur verið tengiliður milli vísindamanna og bænda. Hins vegar er enginn starfandi ráðunautur sem starfar eingöngu við lífræna ræktun á Íslandi.

Stækkun lífrænnar framleiðslu á Íslandi er ferli sem stjórnvöld þurfa betur að koma á framfæri við efnahagslífið og vísindin en nú er gert.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...