Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Vistvæn framleiðsla úr blómum Rauðu kamellíunnar: Ný lína lífrænna húð- og förðunarvara
Fréttir 24. febrúar 2022

Vistvæn framleiðsla úr blómum Rauðu kamellíunnar: Ný lína lífrænna húð- og förðunarvara

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Í áðursögðum fréttum hér á síðum Bændablaðsins var farið aðeins yfir stöðu tískurisanna, Chanel, Dior og annarra varðandi sjálfbærni, sóun og stöðu er kemur að umhverfisvernd. Gleðilegt er að segja frá því að nú gyrti franska stórveldið Chanel sig í brók er kom að húð-og förðunarvörum og hóf árið með lífræna línu sem byggir á vistvænum og heildrænum stöðlum. Umbúðir varanna eru að sama skapi undir þeim formerkjum, en nýlega sendu höfuðstöðvar tískunnar frá sér tilkynningu þar sem kom fram að þetta skref væri umhverfisvænt átak, liður fyrirtækisins í að vinna með lífrænar afurðir. Um ræðir hágæða vörur, gerðar úr sem náttúrulegustum hráefnum auk þess sem kynntar voru á markaðinn umhverfisvænni umbúðir. Meðal þess sem má finna í þessari nýju vörulínu er serum, húðkrem, nokkur andlits- og augnkrem, ilmúði, hreinsiefni og ýmislegt annað.

N°1 de Chanel

N°1 de Chanel, eins og línan kallast, státar af því að í þeim eru allt að 97% innihaldsefna af náttúrulegum uppruna. (Samkvæmt ISO 16128 staðlinum sem skilgreinir hvernig á að ákvarða tölulegt magn náttúrulegs og lífræns uppruna auk þess að gera það auðvelt að bera saman einstök hráefni og fullunnar vörur). Ákveðið var að aðalsmerki N°1 de Chanel yrði blómið Rauða kamellían (Camellia japonica) en það var eftirlætisblóm Gabrielle Chanel.

Rauða kamellían hefur þann kost að vera rík af andoxunarefnum og dregur úr öldrunareinkennum húðarinnar auk þess að örva náttúrulega endurnýjun hennar. Sem dæmi, í húðkreminu Revitalizing Cream undir merki N°1 má finna allt að 76% efnis unnu úr Rauðu kamellíunni, meðal annars úr krónublöðum og fræjum, en reynt er að nýta plöntuna til hins ýtrasta svo sem minnst fari til spillis.

Léttar og umhverfisvænar umbúðir

Mikið hefur verið lagt í umbúðirnar – ekki síður en innihald þeirra. Notkun plasts var takmörkuð, sérstaklega einnota. Sellófan utan um pakkningar hefur verið fjarlægt, auk upplýsinga á pappír skipt út fyrir QR kóða. Aðeins er lífrænt blek notað til að skreyta glerflöskurnar og nöfn snyrtivaranna frekar grafin í umbúðir heldur en prentuð á með bleki. Að auki eru öll lok á krukkum eða túbum gerð úr endurunnu eða lífrænu efni.

Glerkrukkur eru áberandi, allt að 80% umbúða í stað plasts áður, þyngd þeirra hefur minnkað um 30% að meðaltali með straumlínulagaðri hönnun auk þess sem hugmyndin er að áfyllingar séu í boði. Ef tekið er dæmi – með því að endurfylla Revitalizing Cream krukkuna tvisvar, getur losun gróðurhúsalofttegunda þess minnk­að um helming.

Að lokum...

Að auki innihalda lok á krukkum kremsins Revitalizing Cream meðal annars hismi fræja Rauðu kamellíunnar. Þessi nýjung er afrakstur samstarfs Chanel og finnska sprotafyrirtækisins Sulapac en lokin eru samsett úr 90% lífrænum efnum sem koma frá endurnýjanlegum auðlindum, þar á meðal hismi kamellíufræjanna. Áhugavert er annars að við framleiðslu lokanna var hvert smáatriði í ferlinu íhugað vandlega. Allt frá viðnámi efnisins gegn hitabreytingum, hljóðið sem heyrist er krukkunni er lokað, hvernig krukkan fer í hendi ... en svo var kórónan sett á toppinn er hið táknræna tvöfalda C var grafið á lokið með mattri satínáferð.

N°1 de Chanel er nú fáanlegt í rafrænni verslun Chanel (www.chanel.com) og verður væntanlega komið í hendur íslenskra neytenda áður en langt um líður.

Skylt efni: lífrænt vottað | chanel

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...