Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Friðrik Ingi Friðriksson, forstjóri Aflvéla og formaður Félags atvinnurekenda. Hann segir fákeppni vera eitur í beinum félagsins og alla græða í eðlilegri samkeppni.
Friðrik Ingi Friðriksson, forstjóri Aflvéla og formaður Félags atvinnurekenda. Hann segir fákeppni vera eitur í beinum félagsins og alla græða í eðlilegri samkeppni.
Mynd / ál
Viðtal 24. apríl 2025

Ber hag bænda fyrir brjósti

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Friðrik Ingi Friðriksson tók fyrir skemmstu við formannsembætti hjá Félagi atvinnurekenda (FA). Hann er eigandi fyrirtækjanna Aflvéla og Búvéla sem eru stórtæk í innflutningi og sölu á tækjabúnaði fyrir bændur. Bændur hafa oft verið gagnrýnir á orðræðu FA í fjölmiðlum, en Friðrik segir hagsmuni atvinnurekenda og bænda fara saman.

„Ég held að við hjá FA eigum ofboðslega mikla sameiginlega hagsmuni með bændum og getum unnið miklu meira með Bændasamtökunum,“ segir Friðrik. „Við viljum öll að það gangi vel hjá bændum og sveitir haldist í byggð. Félagið hefur oft fjallað um kerfið, það er að segja afurðastöðvarnar, Mjólkursamsöluna og þann hluta. Það er ómögulegt að bændur séu alltaf undir hælnum á afurðastöðvunum og að engin samkeppni sé í sölu á framleiðslu þeirra,“ segir Friðrik.

„Það er þessi fákeppni sem er eitur í okkar beinum. Bændur telja sig flesta búa við fákeppni eða ekki hafa val um það hvert þeir selja afurðir sínar. Við erum búin að berjast gegn þessum einokunaraðferðum Mjólkursamsölunnar sem er engin þörf á. Þegar búvörulögum er breytt þannig að einokun á kjötmarkaði er heimil þá erum við að sjálfsögðu ekki sammála því. Ef einn aðili kaupir öll sláturhús þá gerir það bændum erfiðara fyrir, en í samkeppni græða allir á endanum.“

Vilja ekki afnema alla tolla

„Bændur og Bændasamtökin leggja áherslu á höft og að stoppa innflutning á alls konar vörum sem væri hægt að selja og bjóða. Við viljum ekki fella tollana algjörlega niður, en fella þá út þar sem ekki er verið að vernda neina innlenda framleiðslu, eins og á frönskum kartöflum eða öðru slíku. Þá er eðlilegt að neytendur njóti þess og við erum búin að ná árangri í því til hagsbóta fyrir alla, eins og þegar háir tollar á kartöflusnakki eða ís úr jurtamjólk féllu niður.

Fólk vill fá aðrar vörur en bara það sem er framleitt á Íslandi. Við getum tekið sem dæmi þetta pitsuostamál sem hefur verið mikið í fréttum. Þetta er að miklu leyti mjólk, en fituhlutinn er jurtaolía og veitingamenn vilja þetta miklu frekar en ostinn sem hefur verið í boði innanlands. Mjólkursamsalan hefur ekki verið tilbúin til að þróa svona ost og hafa menn verið að deila um tollflokka. Þessi vara er ekki til á Íslandi og verður einfaldlega of dýr ef hún fer í sama tollflokk og mjólkurvörur,“ segir Friðrik.

Styrkir ótengdir afurðum

Friðrik, sem er að miklu leyti alinn upp á Skorrastað í Norðfirði og sinnti þar afleysingum á yngri árum, segist bera hag bænda fyrir brjósti. „Mér finnst ómögulegt að bændur geti ekki lifað af þessu kerfi eins og það er byggt upp í dag og eingöngu tengt afurðaverði. Ef þú horfir til Evrópu þá er styrkjakerfið ekki svona mikið tengt afurðunum, heldur er það tengt landinu, ræktun og nýtingu,“ segir Friðrik.

„Félag atvinnurekenda hefur haldið því fram í mörg ár að besta leiðin fyrir bændur séu beinir styrkir. Við erum ekki að tala um að breyta öllu kerfinu, heldur að breyta til hagsbóta fyrir bændur,“ segir Friðrik. Hann tekur fram að styrkirnir þyrftu að vera skilyrtir á þann hátt að á bak við þá stæði framleiðsla af ákveðnum gæðum. „Það þarf að viðhalda landinu og halda sveitunum í byggð og ræktun. Mjög mörg góð fordæmi eru til fyrir þessu í Evrópu.“

Persónuleg viðskipti við bændur

Friðrik, sem er fæddur árið 1963, hóf sinn feril í viðskiptalífinu fyrir tvítugt hjá Burstagerðinni, en hann er þriðja kynslóðin hjá því fyrirtæki. „Afi, Hróbjartur Árnason, stofnaði fyrirtækið. Hann byrjaði árið 1930 í öllum skortinum og það var erfitt að fá aðföng erlendis frá. Afi fór um allt land til að safna hrosshárum til að búa til bursta.“ Hróbjartur var frá Áshóli í Ásahreppi og kona hans, Ingibjörg Þorsteinsdóttir, frá Langholti í Flóa.

Viðskipti Burstagerðarinnar með tæki og vélar byrjuðu með sölu á flugbrautasópum árið 1987. Aflvélar voru fyrst deild innan Burstagerðarinnar en urðu síðan sjálfstætt fyrirtæki árið 2004 í kjölfar aukinna umsvifa. Fyrirtækið hefur í gegnum tíðina sérhæft sig í sölu á götusópum og snjóruðningstækjum fyrir flugvelli, sveitarfélög og verktaka. Nokkuð hefur verið um útflutning síðustu ár, en Aflvélar selur mikið af tækjabúnaði til flugvalla á Grænlandi.

Friðrik gerðist búvélasali í kjölfar gjaldþrots Jötun véla árið 2020, en Aflvélar tóku yfir sölu á vörumerkjum eins og Valtra og stofnuðu systurfyrirtækið Búvélar fyrir sölu á Massey Ferguson. Hann segir viðskipti við bændur vera mun persónulegri en það sem hann þekkti áður frá samskiptum við flugmálayfirvöld, verktaka og sveitarfélög. „Margir minni bændur líta frekar á sig sem einstaklinga en fyrirtækjarekendur og kemur allur peningurinn úr sama vasa, bæði til að kaupa mat fyrir fjölskylduna og dráttarvélar. Þar sem svo mikið er undir eru bændur mjög passasamir á sinn pening og með allt annað viðhorf en verktakar,“ segir Friðrik.

Viðskipti með búvélar hafa verið rysjótt undanfarin ár. Friðrik nefnir að á meðan heimsfaraldrinum stóð var skortur á öllum búvélum, en síðan hafi tekið við offramleiðsla. Þá hafa undanfarin ár einkennst af háum vöxtum sem geri söluaðilum og viðskiptavinum erfiðara fyrir. Friðrik segir samdrátt í sölu vera merkjanlegan en nokkuð hefur birt yfir í kjölfar vaxtalækkana. „Það verður að halda því til haga að því betur sem bændum gengur, þeim mun betri verður salan hjá okkur.“

Mikil tengsl við Lettland

Á tíunda áratugnum stofnaði Friðrik fyrirtækið Besta sem sá um sölu á ýmsum búnaði og efnum til þrifa. Rekstur Besta gekk vel og seldi hann fyrirtækið árið 2006 og keypti hann í kjölfarið fyrirtæki í Lettlandi sem heitir Spodriba. Það framleiðir snyrtivörur, sápur, hreinsiefni og plöntuáburð undir vörumerkinu Seal, en þær vörur þekkjast lítið hérlendis. Friðrik er giftur Baiba Megre frá Lettlandi og hefur hún starfað við hlið hans í verksmiðju Spodriba og eiga þau saman einn son. „Hún er miklu betri í fyrirtækjarekstri en ég,“ segir Friðrik. Hann seldi lettneska fyrirtækið fyrir nokkrum misserum, en er með mikil tengsl úti og ver miklum tíma þar.

Friðrik var búsettur í Lettlandi þegar þar var tekin upp evra árið 2013 og segir að það hafi haft ofboðsleg áhrif til batnaðar. „Vextir lækkuðu og allur kostnaður, þannig að þetta var lyftistöng fyrir fyrirtæki. Félag atvinnurekenda hefur ekki gefið það út að það sé hliðhollt aðild að Evrópusambandinu,“ segir Friðrik, en tekur fram að samkvæmt hans persónulegu skoðun ætti Ísland heima innan sambandsins og að upptöku evru myndi fylgja mikill sparnaður. „Við erum að taka upp allar reglugerðirnar, og það sem verra er þá erum við að gullhúða þær. Hverju munar það að fara í Evrópusambandið? Innan þess eru miklar heimildir fyrir bændur að fá styrki á stöðum þar sem er dýrt að framleiða. Ég held að fyrir flesta væri aðild að ESB jákvæð.“

Landbúnaður mikilvægari en burstar

Umsvif Burstagerðarinnar hafa minnkað talsvert, en í dag framleiðir fyrirtækið aðallega bílakústana, sem sjást víða á þvottaplönum, og anddyrismottur ásamt sérframleiðslu fyrir iðnað. „Þegar leyfður var óheftur innflutningur á ýmsum framleiðsluvörum Burstagerðarinnar, þá duttum við út af neytendamarkaðnum. Við erum alveg búin að upplifa það þegar höft eru tekin af,“ segir Friðrik og hlær. Hann segir að það kæmi sér illa fyrir landbúnaðinn að fella niður tolla í einu vetfangi.

„Það eru ekki mín skilaboð að fella niður öll höft og hafa ótakmarkaðan innflutning á landbúnaðarvörum og drepa íslenskan landbúnað. Við viljum frekar efla bændur með því að breyta fyrirkomulaginu. Landbúnaðurinn hérna býr við svo ójafna samkeppni við útlönd, en það verðum við að rétta af ef við ætlum að halda landbúnaðinum lifandi á Íslandi.

Ef við hefðum ætlað að halda Burstagerðinni lifandi þá hefðum við þurft einhvers konar höft. Það hafði enginn áhuga á að halda henni gangandi, en við höfum öll áhuga á að halda landbúnaðinum lifandi, meðala annars vegna fæðuöryggis. Svo er ég mikill talsmaður íslenskrar framleiðslu og vil að við styðjum okkar iðnað betur, en það gefur svo mörg afleidd störf og eykur sjálfbærni okkar. Það væri hægt að gera með bættu regluverki, styrkjum eða minni sköttum á þá sem eru að framleiða og skapa störf. Það á við í landbúnaði, eins og öllu öðru.“

Alltaf á ferð og flugi

Friðrik ætlaði sér að starfa sem flugmaður og fékk flugréttindi áður en hann fékk bílpróf. Samhliða því starfaði hann við sölu hjá Burstagerðinni og sautján ára gamall var hann farinn að taka að sér að heimsækja viðskiptavini um allt land. Á níunda áratugnum var margra ára bið eftir því að komast í vinnu sem flugmaður og mikið að gera í fjölskyldufyrirtækinu, þannig að hann leiddist út í rekstur.

Seinna kynntist Friðrik listflugi hjá Magnúsi Norðdahl og segir að þá hafi ekki verið aftur snúið. „Hann var líklega besti flugmaður allra tíma á Íslandi,“ segir Friðrik, en Magnús starfaði lengst af sem flugstjóri hjá Loftleiðum. Friðrik segir frjálsræðið og keppnisskapið draga hann að listfluginu, en hann hefur verið Íslandsmeistari í greininni. „Ég hef líka verið að keppa í skútusiglingum og var á sínum tíma Íslandsmeistari í því. Ég hef rosalega gaman af svona brasi,“ segir Friðrik. Hann er jafnframt hreindýraleiðsögumaður, er í veiðifélögum og ferðast víða til að veiða.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt