Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Yfirvofandi eru hækkanir á raforkuverði til garðyrkjubænda og um leið hækkanir á vöruverði grænmetis og öðrum afurðum garðyrkjubænda.
Yfirvofandi eru hækkanir á raforkuverði til garðyrkjubænda og um leið hækkanir á vöruverði grænmetis og öðrum afurðum garðyrkjubænda.
Mynd / smh
Fréttir 12. desember 2024

Verðhækkun á grænmeti mun fylgja hækkun á raforkuverði

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Um áramót taka gildi umtalsverðar hækkanir á raforkuverði til garðyrkjubænda. Gert er ráð fyrir að um leið fylgi verðhækkanir á íslensku grænmeti og öðrum afurðum garðyrkjubænda.

Axel Sæland

„Við garðyrkjubændur erum komnir með fasta raforkutaxta sem munu taka gildi í byrjun næsta árs og gilda bara til eins árs. Orkusalar vita að aðrar eins hækkanir muni dynja yfir á næsta ári og vilja því ekki semja lengur nema þá með ákvæðum sem geta tengst mögulegum hækkunum. Þeir verða tvískiptir, þannig að dagtaxtinn verður mun dýrari en sá sem við höfðum áður en næturtaxtinn litlu hærri,“ segir Axel Sæland, formaður deildar garðyrkjubænda hjá Bændasamtökum Íslands.

Kostnaðurinn hækkar um 25 prósent að meðaltali

Í sumar sagði HS Orka upp raforkusamningum við garðyrkjubændur, með sex mánaða uppsagnarfresti sem rennur út núna um áramótin. Hafa bændur því leitað tilboða á hinum frjálsa markaði síðan, en rafmagn er stærsti einstaki kostnaðarliðurinn í rekstri ylræktarstöðva fyrir utan launakostnað. Íslensk stjórnvöld niðurgreiða að hluta til dreifingarkostnað raforkunnar til bænda, en ekki sjálfa raforkunotkunina.

„Við höfum áætlað að hækkunin sé á bilinu 15–18 prósent miðað við að raflýst sé á nóttinni. Einhverjir bændur hafa möguleika á því að breyta fyrirkomulagi á sinni ræktun, þannig að lýst sé að mestu leyti á nóttinni. En þeir sem ekki hafa möguleika á því sjá fram á um 31 prósents hækkun á raforkuverði. Við höfum áætlað að meðaltalshækkunin verði um 25 prósent, því það munu allir bændur reyna að aðlaga sína ræktun að einhverju leyti að næturlýsingu,“ segir Axel, sem áætlar að vöruverð á grænmeti muni um leið hækka um fimm til sex prósent.

Leggst þyngst á tómata-, jarðarberja- og paprikuræktendur

Að sögn Axels er í greinum eins og tómata-, jarðarberja- og paprikuræktun hins vegar ekki hægt að færa lýsingartímann yfir á nóttina, því þeir eru háðir býflugum í sinni ræktun. „Þessar hækkanir munu því leggjast mjög þungt á þessar tegundir ræktunar og þetta eru mjög stórar greinar í heildarsamhenginu,“ segir Axel, sem sjálfur er blómaræktandi á Espiflöt í Reykholti í Bláskógabyggð. „Ég get breytt minni rósaræktun frá daglýsingu yfir í næturlýsingu, en gerberur þola það ekki, svo dæmi sé tekið.“

Hann segir að garðyrkjustöðvar séu byrjaðar að fjárfesta í lýsingarbúnaði sem nýtir raforkuna betur, en það sé mikil fjárfesting og háir vextir hjálpi ekki. Garðyrkjubændur lýsi að meðaltali 16 tíma á dag, þannig að þeir verði alltaf að hafa hluta af sinni lýsingu á dagtaxta.

Verðmunur eykst

„Ég sé ekki hvernig garðyrkjan eigi að geta tekið þessar verðhækkanir á sig öðruvísi en að setja það inn í verðlagið,“ segir Axel um áhrifin af kostnaðarhækkunum á vöruverð.

Hann telur að beinn fjárfestingarstuðningur við greinina þar sem lýsingarbúnaður væri til dæmis styrktur um 40–60 prósent myndi breyta stöðunni verulega. „Fólk verður að hafa það í huga að grænmetisbændur í ylrækt eru að keppa á tollfrjálsum markaði, því gæti þetta leitt til þess að verðmunur á íslensku grænmeti og innfluttu aukist.“

Axel segir að grunnvandamálið sé að raforka er í raun á opnum uppboðsmarkaði. Þar þarf garðyrkjan að keppa um orkuna til að fá hana.„Í dag er gríðarleg eftirspurn eftir raforku og því er verðið á henni á fleygiferð upp á við. Þessi hækkun um áramótin er bara byrjunin ef stjórnvöld grípa ekki inn í. Við sjáum nýleg dæmi þess að stóriðjan er farin að keppa á almenna markaðnum um raforku. Það getur ekki gengið ef tryggja á raforkuöryggi í landinu og að almenningi séu tryggð ásættanleg kjör. Þess vegna verður að setja þak á það á almenna markaðnum hvað raforkan má kosta.“

Nýr hagfræðingur til Bændasamtakanna
Fréttir 16. janúar 2025

Nýr hagfræðingur til Bændasamtakanna

Harpa Ólafsdóttir hefur verið ráðin sem hagfræðingur Bændasamtaka Íslands og hóf...

Um hundrað stóð í blóðtöku árið 2024
Fréttir 16. janúar 2025

Um hundrað stóð í blóðtöku árið 2024

Meira blóði var safnað á árinu 2024 en á árinu áður. Fjöldi blóðtökuhryssna var ...

Fjögur áherslumál í landbúnaði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar
Fréttir 15. janúar 2025

Fjögur áherslumál í landbúnaði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar

Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar, sem gefin var út 21. desember, eru fjö...

Undanþágan beint til Hæstaréttar
Fréttir 15. janúar 2025

Undanþágan beint til Hæstaréttar

Hæstiréttur samþykkti að taka fyrir mál Samkeppniseftirlitsins og Innnes ehf. án...

MS heiðraði sjö starfsmenn
Fréttir 14. janúar 2025

MS heiðraði sjö starfsmenn

Sjö starfsmönnum MS á Selfossi var veitt starfsaldursviðurkenning á dögunum fyri...

Fálkaorða fyrir plöntukynbætur
Fréttir 14. janúar 2025

Fálkaorða fyrir plöntukynbætur

Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur hlaut riddarakross hinnar íslensku fálka...

Breytingin nær tvöföld losun landbúnaðarins
Fréttir 13. janúar 2025

Breytingin nær tvöföld losun landbúnaðarins

Skráð losun gróðurhúsa­lofttegunda frá votlendi lækkar um 1,3 milljónir tonna CO...

Bætur enn ógreiddar vegna kuldakastsins
Fréttir 13. janúar 2025

Bætur enn ógreiddar vegna kuldakastsins

Starfshópur ráðuneytisstjóra forsætis­, fjármála­ og matvæla­ráðuneyta fer yfir ...