Hiti ógnar hrísgrjónarækt
Koshihikari, sem er vinsælasta hrísgrjónayrkið í Japan, hefur þrifist illa á heitum sumrum og birgðir í landinu eru litlar. Unnið er að kynbótum til að bregðast við hnattrænni hlýnun.
Í Japan eru háir verndartollar til þess að vernda innlenda hrísgrjónaframleiðslu. Erfitt reyndist að anna eftirspurn með uppskeru síðasta árs og bar á tómum hillum í verslunum. Stjórnvöld hafa sótt í neyðarbirgðir til að bregðast við skorti. Frá þessu er greint í New York Times.
Efnahagurinn í landbúnaðarhéraðinu Niigata byggist að mestu leyti á hrísgrjónarækt. Á síðasta ári voru eingöngu fimm prósent Koshihikari-uppskerunnar í hæsta gæðaflokknum, sem selst fyrir betra verð. Að jafnaði hafa meira en 80 prósent framleiðslunnar í Niigata verið af hæstu gæðum.
Rannsóknarmiðstöð landbúnaðarins í Niigata vinnur nú að þróun nýs yrkis sem getur komið í staðinn fyrir Koshihikari. Á það að þola það hitastig sem gera má ráð fyrir í lok aldarinnar, en síðasta sumar var meðalhitinn í Niigata rúmar 30 gráður, sem er tíu gráðum yfir kjörhita hrísgrjónaræktunar.
Shinnosuke nefnist eitt af þeim yrkjum sem hafa komið úr þeirri vinnu. Hefur það gefið góða raun og stóð það af sér hitabylgju síðasta sumars. Það er hins vegar ekki með eins mikið þol gagnvart sveppasýkingum og eru neytendur hrifnari af Koshihikari-grjónum.
Margir bændur eru ekki hrifnir af því að skipta Koshihikari út fyrir Shinnosuke þar sem bragðgæði þess síðarnefnda þykja ekki fullnægjandi. Er því unnið að því að þróa fyrrnefnda yrkið á þann hátt að það þoli meiri hita. Vísindamenn við Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins í Niigata segjast hafa náð að einangra gen sem gera hrísgrjón hitaþolin, en það tekur tíu til fimmtán ár að þróa yrki.
