Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var útnefndur Kjötmeistarinn árið 2022. Hann er hér með Guðráði Gunnari Sigurðssyni og Jóni Þorsteinssyni.
Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var útnefndur Kjötmeistarinn árið 2022. Hann er hér með Guðráði Gunnari Sigurðssyni og Jóni Þorsteinssyni.
Mynd / Björk Guðbrandsdóttir
Fréttir 12. mars 2024

Sterk iðngrein margra nýjunga

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Fagkeppni Meistarafélags kjötiðnaðarmanna (MFK) verður haldin 13.–16. mars. Hreiðar Örn Zoëga Stefánsson, formaður félagsins, segir iðngreinina vera sterka um þessar mundir með mörgum nýjungum og alls konar breytingar á kjötskurði, en töluvert vanti upp á nýliðun í henni.

Hreiðar Örn Zoëga Stefánsson.

„Hlutfall þeirra nema sem ljúka iðnnámi fer minnkandi. Þessi þróun er þó ekki séríslenskt fyrirbæri heldur er þetta þekkt víða í nágrannalöndum okkar,“ heldur Hreiðar áfram. „Áhyggjur okkar iðnaðarmanna eru þó nokkrar og mikið hefur verið rætt um að finna leiðir til að auka áhuga ungs fólks á iðnnámi. Eitt af markmiðum MFK er að kynna iðngreinina fyrir ungu fólki, að það sjái fjölbreytileikann í starfi kjötiðnaðarmannsins. Ein slík leið er í keppnum iðnaðarmanna eins og fagkeppni kjötiðnaðarmanna.“

Aukin menntun og verkkunnátta

MFK var stofnað 10. febrúar 1990. Að sögn Hreiðars var tilgangurinn með stofnun félagsins að safna kjötiðnaðarmeisturum um allt land saman í ein samtök. „Markmið félagsins er og hefur alltaf verið að vinna að aukinni menntun, verkkunnáttu og vöruvöndun þeirra sem í faginu vinna, svo og að standa fyrir kynningu og fræðslu á þeim sviðum sem varðar kjötiðnina.“

Fagkeppnin er eitt þeirra verkefna sem MFK hefur haldið úti frá öðru starfsári félagsins og fagkeppnin í ár er sú sextánda í röðinni, en hún er haldin annað hvert ár.

Kjötiðnaðarmenn ekki lengur sýnilegir

Að sögn Hreiðars starfa flestir íslenskir kjötiðnaðarmenn hjá stórum og millistórum kjötvinnslum, eins og til dæmis Sláturfélagi Suðurlands, Norðlenska og Kjarnafæði, Esju, Síld og fiski, Matfugli og Ísfugli. „Það er von okkar í MFK að keppnin og önnur verkefni félagsins verði góð kynning á starfi kjötiðnaðarmannsins og hvetji þannig ungt fólk til að læra iðngreinina. Starf kjötiðnaðarmannsins er ekki eins sýnilegt og mörg önnur störf innan matvælaiðnaðarins.

Í lok síðustu aldar var töluverð bið eftir því að komast í nám í kjötiðn, en með breytingum í okkar samfélagi hefur þetta breyst töluvert. Síðastliðin ár eru örfáar matvöruverslanir með kjötvinnslu og opið kjötborð, allt er innpakkað í kæliborðum stórmarkaða. Nú eru hins vegar vinsælar sérstakar sérvörubúðir með kjöt og þeim fer ört fjölgandi.“

Fortíð, nútíð og framtíð mætist í handbragði kjötiðnaðarmanns hvers tíma.

Kjötskurður, pylsur, kæfur og paté

Hreiðar metur framtíð kjötiðnar­ manna bjarta og segir að ef einhver iðn innan matvælageirans sé spennandi um þessar mundir þá sé það kjötiðn.
„Mikið er um nýjungar og alls konar breytingar á kjötskurði, pylsum, kæfum, paté, göngubitum og svo mætti lengi telja. Ásamt hefðbundnum vörum hvers tíma. Hið gamla handbragð er enn vinsælt og þær vörur sem framleiddar voru á síðustu öld eru enn vinsælar hjá þjóðinni. Má til dæmis minnast á sífellt vinsælli þorramat. Þá má segja að fortíð, nútíð og framtíð mætist í handbragði kjötiðnaðarmanns hvers tíma. Í nútíma og síbreytilegu fjölmenningarsamfélagi eru auknir möguleikar í fjölbreyttri ný­ sköpun í okkar iðn. Ungt fólk leitar stöðugt að sinni leið í lífinu. Það vill skapandi vinnuumhverfi, góð laun og góðan frítíma fyrir sig og fjölskylduna. Í kjötiðn fæst þetta allt. Skapandi vinnuumhverfi þar sem sköpunargleðin getur gefið tækifæri á nýjungum ásamt því að framleiða mikið magn af fjölbreyttri matvöru, laun kjötiðnaðarmannsins eru svipuð launum matreiðslumannsins.

Síðast en ekki síst má nefna vinnutímann, en hann er á allmörgum vinnustöðum frá 7–15. Með honum skapast aukinn frítími fyrir fjölskylduna til að njóta þess að vera saman.

Eins og staðan er í dag má segja að vanti nýliðun í iðnina. Stéttin er að eldast og okkur vantar skapandi ungt fólk til starfa í þessari iðn enda þörfin mikil.“

Örfáar matvöruverslanir eru eftir á Íslandi með kjötvinnslu og opið kjötborð.

Áhorfendur velkomnir á fagkeppnina

Fagkeppnin í ár verður haldin í hús­ næði Matvís við Stórhöfða, með stuðningi fyrirtækja og búgreina. Dæmt verður miðvikudag og fimmtudag, en verðlaunaafhending fer fram á laugardeginum þann 16. mars. Áhorfendur eru velkomnir á staðinn til að fylgjast með keppninni á meðan húsrúm leyfir.

Hreiðar segir að MFK vilji þakka öllum þeim sem hafa stutt og styrkt við starf félagsins sem og framkvæmd fagkeppnanna öll þessi ár. „Sérstaklega ber að þakka þeim fjölda kjötiðnaðarmanna sem komið hafa beint og óbeint að framkvæmdinni með undirbúningi og dómgæslu.

Einnig viljum við þakka Matvís fyrir hlýhug og fyrir aðstöðu við dómgæslu og aðra aðstoð við framkvæmd keppninnar í ár,“ segir Hreiðar að lokum.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f