Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Kortið sýnir Lónsbakkahverfið. Bleika svæðið lengst til vinstri er land gistiheimilisins Lónsár og tjaldsvæði sem þar hefur verið rekið, sem hjólhýsa- og húsbílafólk hefur nýtt sér mikið á undanförnum árum. Nú hyggst eigandinn hætta þeim rekstri og þar mun þá verða til byggingaland.
Kortið sýnir Lónsbakkahverfið. Bleika svæðið lengst til vinstri er land gistiheimilisins Lónsár og tjaldsvæði sem þar hefur verið rekið, sem hjólhýsa- og húsbílafólk hefur nýtt sér mikið á undanförnum árum. Nú hyggst eigandinn hætta þeim rekstri og þar mun þá verða til byggingaland.
Fréttir 20. janúar 2022

Skoða alla möguleika til að mæta mikilli eftirspurn eftir lóðum

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdótttir

„Við erum hvergi nærri hætt með okkar uppbyggingu, en stefnan er að íbúar í sveitarfélaginu verði um eitt þúsund talsins í upphafi ársins 2026, segir Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri í Hörgársveit. Nú í upphafi árs voru íbúar rétt yfir 700. Fjöldi nýrra íbúa hefur sest að í sveitarfélaginu í nýju hverfi á Lónsbakka undanfarin ár en þar er verið að bæta við lóðum undir íbúðir.

Lónsbakkahverfið, sem stendur við suðurmörk Hörgársveitar næst Akureyri, hefur verið að byggjast hratt upp síðastliðin tvö ár. Fyrir voru tvær götur, Skógarhlíð og Birkihlíð, þar sem búa um 100 manns, en frá því framkvæmdir hófust við tvær götur til viðbótar, Reynihlíð og Víðihlíð, á fyrrihluta ársins 2019, hefur íbúatalan nánast tvöfaldast. Byggðar hafa verið alls 37 íbúðir í hverfinu, sem þegar er flutt inn í, og eru íbúarnir 95 talsins.

Snorri segir að 32 íbúðir séu í byggingu nú og gert ráð fyrir að flutt verði inn í þær flestar á þessu ári.

„Við búumst svo við að hafin verði bygging á 28 íbúðum til viðbótar á þessu ári og næsta og inn í þær verði flutt á næsta og þarnæsta ári,“ segir hann. Þá hefur að auki verið úthlutað 4 lóðum fyrir 16 íbúðir sem gera má ráð fyrir að flutt verði í árið 2024.

„Það verða í allt um 112 nýjar íbúðir við þessar tvær nýju götur og við teljum að íbúar þar verði í allt um 300 talsins. Þeir bætast við þá 100 sem búa í eldra húsnæði við Lónsbakka.

Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri í Hörgársveit. Myndir / MÞÞ

Hugmyndir um uppbyggingu á gamla íþróttavellinum

Kynntar hafa verið hugmyndir um uppbyggingu á nýju svæði norðan við það sem fyrir er, á gamla Dags-brúnarvellinum.

„Við höfum verið að skoða hvaða möguleikar eru fyrir hendi með stækkun á Lónsbakkahverfinu á því landi sem sveitarfélagið hefur til umráða. Það skipulag er stutt á veg komið og margs konar óleyst úrlausnarefni fyrir hendi,“ segir Snorri og nefnir m.a. samtvinnun við leikskólann Álfastein og svæðið í kringum hann sem fléttar inn í svæðið við íþróttavöllinn. Hugsanleg breyting á legu Þjóðvegar 1 spilar líka inn í dæmið, en ýmsar hugmyndir um tilfærslu hans hafa verið viðraðar.

„Við erum nokkuð ákaft að ýta á Vegagerðina að koma fram með einhverjar opinberar tillögur varðandi framtíðarvegstæði á þessum slóðum.“ Að auki þarf að huga að fráveitumálum og aðgengi að íbúðabyggðinni, hvort sem  þjóðvegurinn verður færður til eða ekki.

„Þetta svæði á íþróttavellinum býður upp á möguleika til stækkunar, en staðan er enn svolítið óskýr á meðan við bíðum svara frá Vegagerðinni um þjóðveginn,“ segir Snorri.

Lónsbakkahverfið sem stendur við suðurmörk Hörgársveitar næst Akureyri hefur verið að byggjast hratt upp síðastliðin tvö ár. Gera má ráð fyrir að þar verði um 300 íbúar í allt innan fárra ára. Byggingaframkvæmdir standa yfir við 32 íbúðir um þessar mundir og 28 verður bætt við bráðlega.

Möguleiki að opnast á að byggja við Lónsá

Þá segir hann að eigandi gistiheimilisins Lónsár hafi ákveðið að hætta sinni starfsemi og óskað eftir að skipta landi sínu upp, þannig að þar gæti myndast svæði undir örfá íbúðarhús, auk svæðis fyrir verslun eða þjónustu. 

„Við erum líka með þetta í frumskoðun og ekki hægt að segja nú hvað verður,“ segir hann.

Allir möguleikar sé skoðaðir til að mæta mikilli eftirspurn eftir lóðum í sveitarfélaginu. Þá er einnig horft til þess að Húsasmiðjan muni senn flytja sína starfsemi frá Lónsbakka fljótlega. Ekki sé á þessari stundu vitað hvað um það húsnæði verður.

Auk þess sem myndarlegt íbúðahverfi er að rísa við Lónsbakka um þessar mundir standa yfir framkvæmdir við einbýlishúsahverfi í Hagabyggð við Glæsibæ. Þar eru nú þegar skipulagðar 17 lóðir og flestar þeirra seldar. Áhugi eigenda er á því að bæta þar við 13 lóðum og skipulagsvinna á því í frumvinnslu.  Snorri segir  að fullbyggt hverfi þarna verði með um 70 íbúum.

Mikil bjartsýni ríkir með þessa íbúafjölgun og margar áskoranir eru fram undan í uppbyggingu innviða til að taka sem best á móti nýjum íbúum sem við tökum öllum fagnandi, segir Snorri.

Á árinu 2022 er ráðgert að halda áfram með stækkun leikskólans Álfasteins sem og að hefja endurbyggingu í Þelamerkurskóla með það að markmiði að taka heimavistarálmu skólans í notkun sem kennsluhúsnæði.  Framkvæmdakostnaður þessa árs verður sá mesti í mjög langan tíma og er áætlaður vel á þriðja hundrað milljónir.

Í allri þessari uppbyggingu er nauðsynlegt að fjárhagurinn sé traustur og hefur reksturinn gengið vel þrátt fyrir heimsfaraldur og erfiða tíma. Góð afkoma hefur orðið til þess að hægt er að fara í krefjandi framkvæmdir og skuldir lágar sem hjálpar til þegar fjármagn þarf til framkvæmda án þess að setja sveitarfélagið í erfiða skuldastöðu.

 

Skylt efni: Hörgársveit

Svínaflensa í Rússlandi
Fréttir 27. september 2022

Svínaflensa í Rússlandi

Afríska svínaflensan greindist á stóru rússnesku svínabúi í lok sumars. ...

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið
Fréttir 30. ágúst 2022

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið

Uppfærslur á verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2022, halda áfr...

Fjár- og stóðréttir 2022
Fréttir 25. ágúst 2022

Fjár- og stóðréttir 2022

Fjár- og stóðréttir verða nú með hefðbundnum brag, en tvö síðustu haust hafa ver...

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...