Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Anna María Trang Davíðsdóttir að störfum í vinnslusal fyrirtækisins á Grensásvegi. Meðal framleiðslutími frá blóðgjöf hryssu að lyfjaefni er um eitt ár. Lyfjaefnið er selt til erlendra lyfjafyrirtækja sem nota það í frjósemislyf fyrir spendýr.
Anna María Trang Davíðsdóttir að störfum í vinnslusal fyrirtækisins á Grensásvegi. Meðal framleiðslutími frá blóðgjöf hryssu að lyfjaefni er um eitt ár. Lyfjaefnið er selt til erlendra lyfjafyrirtækja sem nota það í frjósemislyf fyrir spendýr.
Mynd / ehg
Fréttir 8. desember 2020

Líftæknifyrirtækið Ísteka í örum vexti og hefur fjórfaldað húsnæðið á þremur árum

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir

Líftæknifyrirtækið Ísteka nýtir gjafablóð úr fylfullum hryssum til framleiðslu á frjósemislyfjum sem selt er til stórra lyfjafyrirtækja út um allan heim. Fyrirtækið hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár og jókst velta fyrirtækisins til muna á síðasta ári, eða um 80% á milli ára. Það óvenjustóra stökk má að miklu leyti þakka erlendu sérverkefni. Slagkraftinn sem þetta veitir fyrirtækinu hyggst það nýta til frekari vaxtar.

„Við höfum verið hér í þessu húsi í 20 ár og einbeitt okkur að því að vaxa og styrkjast sem framúrskarandi framleiðandi á mikilvægri prótínafurð til útflutnings. Við einangrum prótínið úr blóði fylfullra hryssa og höfum skapað atvinnutækifæri og orðspor sem við erum afar stolt af. Við byggjum jafnframt á gömlum merg, því frumkvöðullinn Einar Birnir hjá G. Ólafsson hf. lagði grunninn að þessari starfsemi fyrir um 35 árum,“ segir Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, en í dag eru um 40 starfsmenn hjá Ísteka. 

Fimm mínútna blóðgjöf

Starfsstöðvar fyrirtækisins eru tvær í Reykjavík. Annars vegar á Grensásvegi þar sem húsnæðið hefur á fáeinum árum verið fjórfaldað og hins vegar á Höfðanum þar sem fyrirtækið hefur undanfarin ár fært út kvíarnar. 

„Uppi á Höfða erum við með hráefnismóttöku og frumvinnum þar blóðið í blóðplasma sem er upphafsefni framleiðslunnar á Grensásvegi. Við höfum mest verið að fá blóð frá bændum á Suðurlandi, í Húnavatnssýslum og eins úr Skagafirði en einnig eru nokkrir bæir á Vesturlandi og Norð-Austurlandi. Svo höfum við hvatt bændur í öðrum landshlutum til að taka upp þessa búgrein. Í ár hófust blóðgjafir í fyrsta skipti austur á Héraði og því má segja að við höfum lokað hringnum, en hann má enn þétta. Dýralæknar á þessum stöðum sjá um blóðgjafirnar fyrir okkur,“ útskýrir Arnþór og segir jafnframt að „dýralæknarnir staðdeyfi hryssuna fyrir blóðgjöfina sem tekur um fimm til tíu mínútur þannig að á hverju ári er þetta um klukkutíma löng blóðgjöf hjá hryssunni. Hver hryssa gefur að meðaltali 5-6 sinnum og í mesta lagi átta sinnum á sumri og í hvert sinn aldrei meira en fimm lítra af blóði.“

Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka, heldur hér á frystu milliefni úr gjafablóði frá fylfullum, íslenskum hryssum. Mynd / ehg

Sérstaða íslenska hestsins

Framleiðsla fyrirtækisins og velta hefur vaxið jafnt og þétt hin síðustu ár og tók stökk á síðasta ári. Árið 2016 hagnaðist fyrirtækið um 68 milljónir og hefur afkoman ríflega sjöfaldast á fjórum árum.

„Við tókum að okkur erlent sérverkefni í fyrra sem skýrir þessa miklu veltuaukningu og mun það einnig hafa áhrif á niðurstöðu þessa árs. Vonast er til þess að veltutölur lækki ekki mikið þegar áhrifa þessa verkefnis dvína. Því hyggjumst við ná með áframhaldandi framleiðsluaukningu úr blóði frá íslenskum sveitum. Fyrir allmörgum árum var verksmiðjan skoðuð af Lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) og framleiðsla lyfjaefnisins samþykkt fyrir Bandaríkjamarkað sem var ákveðin viðurkenning fyrir okkur. Starfsemin er einnig undir eftirliti Lyfjastofnunar. Við erum ekki ein um framleiðslu á efninu og eigum í samkeppni við nokkra erlenda aðila. Sérstaða Ísteka felst meðal annars í miklum stöðugleika framleiðsluvörunnar, þökk sé áreiðanlegum framleiðsluferlum, stöðluðum vinnubrögðum, stífu gæðaeftirliti og góðum orðstír sem spannar áratugi.  Að auki má nefna að hér er lítið um smitsjúkdóma í hestum og staða og eftirfylgni með dýravelferð er hér mjög góð. Þetta er sem sagt framleitt víða í heiminum og við erum sérfræðingar á þessum sérhæfða markaði,“ segir Arnþór og bætir við:

„Við vinnum á breiðu sviði sem byrjar úti í sveit hjá bóndanum á blóðgjafartímabilinu sem er í ágúst og september ár hvert. Síðan fer blóðið í vinnslu hingað til Reykjavíkur og við vinnum efnið þá mánuði ársins sem blóðgjafir fara ekki fram. Að jafnaði líður um eitt ár frá því að hryssur gefa blóð uns lyfja-efnið er tilbúið til sölu til erlendra lyfjafyrirtækja. Fyrirtækin framleiða úr þessu frjósemislyf í lyfjaglösum sem seld eru til dýralækna um allan heim. Frjósemislyfið virkar í öllum spendýrum.“

Auka framleiðslugetuna

„Bændum í samstarfi við okkur hefur fjölgað ár frá ári undanfarin ár og við óskum eftir fleirum. Verðflokkar til bóndans eru nokkrir, frá rúmum 8 þús. krónum og upp í rúmar 11 þús. krónur á hverja blóðgjöf hryssu. Þetta útleggst því sem um 45-70 þús. krónur á hryssu á meðalbúi og einstaka hryssa getur skilað afurðum fyrir yfir 90 þús. krónur fyrir utan virðisaukaskatt, bara af blóðinu. Þá eru verðmæti folaldsins ekki talin með svo þetta er ágætis búbót. Faglega er að öllu staðið og gott eftirlit með skepnunum og blóðgjöfunum. Blóðgjöfin sjálf er framkvæmd af dýralæknum öfugt við það sem þekkst hefur víða annars staðar. Ísteka heldur jafnframt úti sérstöku dýravelferðareftirliti og að sjálfsögðu eru allir sem í þessu eru undir eftirliti Matvælastofnunar. Því segi ég alltaf að það eru vandfundin húsdýr sem hafa það betra en blóðgefandi hryssur. Þær lifa við óvenju mikið frelsi og tiltölulega lítið áreiti frá manninum. Við höfum aukið framleiðslugetu okkar og sjáum fram á áframhaldandi vöxt með enn meira samstarfi við landbúnaðinn við öflun hráefnis til framleiðslunnar. Við óskum því eftir auknu samstarfi við bændur landsins.“

Þess má að lokum geta að verðþróun á blóði til þessarar vinnslu hefur verið langt umfram aðrar landbúnaðarvörur. Verð hefur til langs tíma hækkað á hverju ári. Nýverið ákvað stjórn Ísteka að bjóða samstarfsbændum sínum eingreiðslu að verðmæti 6% af innlögðum afurðum ársins 2020, til að hjálpa þeim að kljást við áhrif kórónuveirufaraldursins sem nú geisar. Útgefin verðskrá með árlegum hækkunum gildir til ársins 2023. 

Skylt efni: Ísteka

Innlit í kjúklingabú
Fréttir 2. júní 2023

Innlit í kjúklingabú

Kjúklingabændurnir Eydís Rós Eyglóardóttir og Ingvar Guðni Ingimundarson á Vatns...

Vaxandi áhugi bænda og smáframleiðenda
Fréttir 2. júní 2023

Vaxandi áhugi bænda og smáframleiðenda

Sauðfjárbóndinn Jónas Þórólfsson og kjötiðnaðarmeistarinn Rúnar Ingi Guðjónsson ...

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum
Fréttir 1. júní 2023

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum

Nýstárleg tilraun var gerð við ósa Haffjarðarár síðasta sumar, þegar fuglavarnar...

Fjölgun nema í kjötiðn
Fréttir 1. júní 2023

Fjölgun nema í kjötiðn

Rúnar Ingi Guðjónsson segist finna fyrir mjög miklum áhuga hjá ungu fólki að lær...

Ferðamenn sækja í skóga
Fréttir 1. júní 2023

Ferðamenn sækja í skóga

Stjórn Félags skógarbænda á Suðurlandi harmar framkomnar órökstuddar fullyrðinga...

Ártangi til sölu
Fréttir 31. maí 2023

Ártangi til sölu

Hjónin Gunnar Þorgeirsson og Sigurdís Edda Jóhannesdóttir hafa sett garðyrkjustö...

Skýr afstaða í könnun
Fréttir 31. maí 2023

Skýr afstaða í könnun

Meirihluti þjóðarinnar er sammála því að íslenska ríkið eigi að leggja aukið fjá...

Glaðbeittur starfsmaður í þjálfun
Fréttir 31. maí 2023

Glaðbeittur starfsmaður í þjálfun

Ágúst Sigurðsson á Kirkjubæ á Rangárvöllum hefur nýlega tekið við starfi fagstjó...