Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Kartöflumygla stafar af svepp, Phytophthora infestans, sem leggst á kartöflur og veldur rotnun á grösum og hnýðum.
Kartöflumygla stafar af svepp, Phytophthora infestans, sem leggst á kartöflur og veldur rotnun á grösum og hnýðum.
Fréttaskýring 16. maí 2022

Veðurfarið hefur úrslitaáhrif

Höfundur: Vilmundur Hansen

Kartöflumygla náði talsverðri útbreiðslu á Suðurlandi síðastliðið sumar, ekki síst í Þykkvabæ. Myglan breiddist hratt út og hennar varð vart í Flóanum, í uppsveitum Árnessýslu, í Landeyjum og víðar á þeim slóðum. Bændur á svæðum þar sem mygla var algeng í fyrra óttast margir að mygla muni koma upp aftur í sumar og spilla uppskeru.

Sigurgeir Ólafsson plöntusjúk- dómafræðingur segir að myglusmit hér á landi hafi komið og farið. „Hún var landlæg á fyrri hluta síðustu aldar alveg til 1960. Þá hvarf myglan í 30 ár vegna kólnandi veðurfars og þá fannst hún ekki lengur í innlendu útsæði. Árið 1990 kom aftur upp mygla hér á landi en í kjölfar kaldra ára 1992 og 1993 hverfur hún aftur í sjö ár. Þá var hún greinilega aftur horfin úr innlendu útsæði og barst eftir það í garða með innfluttu útsæði.“

Sigurgeir Ólafsson plöntusjúkdómafræðingur.

Fór að mynda dvalargró

„Dvalargró myglusveppsins fundust lengi vel ekki í jarðvegi, hvorki hér á landi né annars staðar í Evrópu. Smitefnið, gróin, eru viðkvæm og þola til dæmis ekki vindborinn flutning til landsins. Þannig að við vorum ekki að fá smit með vindi eins og vill vera með viss skordýr.

Síðan breyttist myglan og fór að mynda kynjuð dvalargró í jarðvegi sums staðar í Evrópu.

Gerðist þetta á níunda áratug síðustu aldar, sennilega með nýjum stofni myglunnar frá Mexíkó. Hér á landi göngum við út frá því, enn sem komið er, að myglan lifi ekki í jarðvegi milli ára. Hún getur aftur á móti lifað í útsæði sem kemur úr myglugarði frá árinu áður og í villigrösum sem spretta upp úr slíkum görðum eða ruslahaugum.“

Kartöflumygla

Kartöflumygla stafar af svepp, Phytophthora infestans, sem leggst á kartöflur og veldur rotnun á grösum og hnýðum.

Myglan smitast frá sýktum útsæðishnýðum og getur hún einnig borist með vindi frá sýktum grösum. Þegar hiti er yfir 10°C og rakastig yfir 75% breiðir myglan mjög hratt úr sér.

Fyrstu einkenni kartöflumyglu eru svartir blettir á blaðendum og stönglum.

Kartöflumygla kemur upp með reglulegu millibili. Sveppavarnarefni er notað fyrirbyggjandi til að koma í veg fyrir smit þegar smithætta er.

Smitefni í innlendu útsæði

Vegna mikillar myglu í kartöflum á Suðurlandi á síðasta ári eru bændur á því svæði margir hverjir áhyggjufullir vegna komandi sumars og uppskerunnar næsta haust.

Sigurgeir segir að hann hafi, sem starfsmaður Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, á sínum tíma staðið fyrir svokallaðri mygluspá og átt þátt í því að reisa sjálfvirka veðurathugunarstöð í Þykkvabæ henni tengdri.

„Það er hægt að spá fyrir um mygluna út frá veðurfari og þar sem mygla grasseraði á ákveðnum svæðum síðastliðið sumar er ljóst að þar er að finna smitefni í innlendu útsæði. Það er aftur á móti veðurfarið sem ræður því hvort hún fer af stað aftur í sumar af krafti eða ekki.“

Tíðarfarið hefur úrslitaáhrif

Sigurgeir segir að mygla sé algengust í hlýjum og vætusömum sumrum og því tíðin næsta sumar sem ræður hvort um verði að ræða myglusumar eða ekki.

Fyrstu einkenni kartöflumyglu eru svartir blettir á blaðendum og stönglum en eins og sjá má á mynd til vinstri getur kartöflumygla lifað í útsæði sem kemur úr myglugarði frá árinu áður.

„Verði komandi sumar rakt og hlýtt á þeim svæðum þar sem mygla grasseraði í fyrra og útsæðið upprunnið úr myglugarði er nánast öruggt að það kemur upp mygla aftur. Sé sumarið aftur á mót þurrt og kalt eru líkur á myglu minni.

Það er því hitastig og úrkoma sem hafa úrslitaáhrif.“

Hornafjörður myglufrír

Við Hornafjörð, þar sem veður­skilyrði hafa oft verið myglunni í hag, er enn sem komið er laust við myglu og hún ekki komið upp þar í minnst 60 ár. Sigurgeir segir tvær meginástæður fyrir því. „Í fyrsta lagi hafa Hornfirðingar passað sig mjög vel á að setja ekki niður innflutt útsæði og ekki útsæði annars staðar af Suðurlandi og haft með sér samtök um það. Í öðru lagi er það vindáttin sem er þeim hagstæð því mygla hefur frekar borist í vestur en austur frá þekktum myglusvæðum.“

Innflutt útsæði

Að sögn Sigurgeirs er árlega flutt inn mikið af útsæði af ýmsum kartöfluafbrigðum. „Það sem ræður því hvort mygla berist til landsins með innfluttu útsæði er hvernig tekist hefur að ráða við mygluna á ræktunarstað útsæðisins erlendis og það tengist alltaf úrkomu á ræktunartíma útsæðisins.

Þegar mygla kom hér upp árið 1990 eru líkur á að smit hafi borist með Gullauga frá Noregi sem flutt var inn vorið 1990 og 1991. Það kom frá Troms fylki í Norður-Noregi og var það staðfest að mygla hefði herjað þar bæði 1989 og 1990. Þegar mygla kom upp á ný árið 1999 eftir nokkur myglufrí ár eru líkur á að smit hafi komið með hollenskum Premiere sem fluttur var inn vorið 1999. Árið áður hafði mygla sést í maíbyrjun í Hollandi og samfelldar rigningar í júní og júlí torvelduðu mygluvarnir og þar af leiðandi hefur verið óvenjulega mikið smit í útsæði.“

Aðspurður segir Sigurgeir að ekki séu neinar hömlur á innflutningi á kartöflum vegna myglu og hann segir erfitt að hefta innflutning á kartöflum vegna sýkingarhættu. „Í raun er með því að setja slíkar reglur verið að banna innflutning á öllu útsæði og þar sem mygla er svo almennt útbreidd erlendis er ekki hægt að setja slíkar reglur nema banna allan innflutning á útsæði.“

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Sigurgeir segir að kartöflumygla geti komið upp í einstaka grösum eða blettum í görðum í köldum eða þurrum sumrum en að hún nái sér ekki upp og verði ekki að faraldri.

„Hlutfallslega eru yfirleitt fáar útsæðiskartöflur í hverjum garði sem eru smitaðar en samt færar um að spíra og mynda gras og það eru ekki gró sem lifa veturinn heldur mygla í kartöflunum. Þessar fáu plöntur geta síðan smitað næstu plöntur við sig og þær síðan þar næstu og svo framvegis. Þannig myndast mygluhreiður sem geta síðan sent frá sér gró lengri vegalengdir. Áður en grös ná saman og loka röðum loftar vel um þau og gró ná síður að spíra nema loft sé rakamettað. Þegar grös loka röðum verður kyrrt og rakamettað loft niður við jörð og mygluskilyrði verða góð.

Í boði eru tvenns konar efni sem draga úr myglusmiti, annars vegar fyrirbyggjandi efni sem koma í veg fyrir smit í heilbrigðum grösum og hins vegar efni sem hafa læknandi verkun og geta jafnvel stöðvað mygluna eftir að hún er komin af stað. Erlendis þar sem mygla er vandamál er víða úðað með fyrirbyggjandi efnum, jafnvel nær vikulega.

„Til að draga úr hættu á myglu geta bændur úðað með fyrirbyggjandi efnum og það ættu þeir sem rækta kartöflur í atvinnuskyni á myglusvæðum hér á landi hiklaust að gera og það á réttum tíma,“ segir Sigurgeir Ólafsson plöntusjúkdómafræðingur að lokum.

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...