Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Matvælastofnun fylgist enn náið með tíu hrossum á bæ í Borgarfirði.
Matvælastofnun fylgist enn náið með tíu hrossum á bæ í Borgarfirði.
Mynd / Steinunn Árnadóttir
Fréttir 3. nóvember 2022

Forstjóri fagnar samtalinu við ráðuneytið um frekari valdheimildir til að tryggja velferð dýra

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Enn eru tíu hross metin í viðkvæmu ástandi hjá umráða­manni hrossahóps í Borgarfirði, sem Matvælastofnun þurfti að vörslusvipta þann 18. október, vegna ófullnægjandi fóðrunar. Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar (MAST), segir að fylgst sé náið með hrossunum. Hún fagnar frumkvæðisúttekt Ríkisendur­skoðunar á eftirliti Matvæla­ stofnunar með velferð dýra.

Eins og fram kom í tilkynningu MAST 19. október var umráða­maðurinn sviptur vörslu allra sinna hrossa og aflífa þurfti samdægurs 13 hross, eftir mat fulltrúa stofnunarinnar á ástandi hrossanna. Hluta þeirra var svo skilað aftur til umráðamanns, þar á meðal þau tíu sem eru í viðkvæmu ástandi – til sérstakrar umhirðu. Að sögn Hrannar Ólínu mun eigandinn sæta mjög stífu eftirliti til að tryggja að aðbúnaður þessara hrossa sé í lagi.

Verklagsreglur byggja á lögum um dýravelferð

Matvælastofnun hefur setið undir gagnrýni um að hafa ekki brugðist fyrr við í þessu máli með skilvirkum hætti – og raunar hefur borið á gagnrýni í svipuðum málum sem upp hafa komið á undanförnum árum. Í bókun umhverfis­ og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar frá 20. október kemur til að mynda fram að „ferlar sem MAST vinnur eftir, virðast gefa mikið svigrúm fyrir búfjáreigendur og telur nefndin að ekki sé gengið nægjanlega hart fram í að framfylgja þeim fyrirmælum sem búfjáreigendum eru gefin í málum sem þessum“.

Frumkvæðisúttekt Ríkisendurskoðunar á MAST

Ríkisendurskoðun tilkynnti um það 1. september síðastliðinn að hún hefði ákveðið að hefja frumkvæðisúttekt á eftirliti Matvælastofnunar með velferð dýra og skila niðurstöðum hennar í opinberri skýrslu til Alþingis. Hrönn Ólína segir að hjá MAST sé unnið að dýravelferðarmálum af sannfæringu um að verið sé að fylgja verklagsreglum sem byggi á gildandi lögum um dýravelferð frá 2013.

„Ég á von á því að úttekt Ríkis­endurskoðunar sýni fram á þetta. Ef það koma einhverjar athugasemdir inn á okkar borð um að eitthvað þurfi að bæta í okkar verklagi, þá gerum við það. Úttektir eru ávallt tækifæri til bóta,“ segir hún.

Þörf á nýjum tólum og tækjum

Nýverið kallaði matvælaráðu­neytið eftir upplýsingum frá Matvælastofnun um framkvæmd eftirlits og verkferla vegna velferðar dýra.

Er þar vísað til tilfella þegar grunur leikur á að umráðamenn séu ekki að uppfylla ákvæði laga, hvort sem um er að ræða almennt eftirlit eða samkvæmt ábendingum sem berast stofnuninni. „Ég upplifi ekki eins og spjótin standi á okkur frá ráðuneytinu, þeirra erindi er held ég bara mjög gagnlegt.

Ráðuneytið óskar einnig eftir upplýsingum um hvort stofnunin telji skort á heimildum í lögum til að tryggja velferð dýra og grípa til viðeigandi ráðstafana þegar aðstæður krefjast. Þetta finnst mér bara alveg frábært, því það verður að segjast alveg eins og er að lögin sem við störfum eftir voru sett árið 2013 og það hefur vitanlega margt gerst á þessum tíma. Við teljum að við höfum náð ágætum árangri á undanförnum árum varðandi þessi mál, komist fyrir ákveðinn vanda, og um það vitnar þessi fjöldi mála sem hafa komið fram í dagsljósið á síðustu árum.

Við veltum fyrir okkur hvort þessi mál sem hafa nýlega komið upp séu annars eðlis en við höfum átt að venjast og hvort við þurfum þá ef til vill ný tól og tæki til að geta brugðist almennilega við þeim,“ segir Hrönn Ólína.

Forstjórinn fagnar erindi ráðuneytisins

Í erindi matvælaráðuneytisins var jafnframt farið fram á að stofnunin upplýsi matvælaráðherra um stefnu sína hvað varðar upplýsingamiðlun til almennings meðan þær aðgerðir sem snúa að velferð dýra standa yfir og eftir að þeim lýkur.

Hrönn Ólína segist skilja reiði fólks þegar svona erfið mál koma upp. „Ekkert okkar vill horfa upp á dýr sem beitt er harðræði eða eru í aðstæðum þar sem heilsu þeirra og lífi er ógnað. Hins vegar vil ég koma því á framfæri að við teljum okkur vinna að dýravelferðarmálum innan þeirra heimilda sem við höfum, af heilindum og einlægni.

Því fögnum við erindi ráðu­ neytisins og munum taka þátt í því samtali sem fram undan er, af heilum hug.“

Skylt efni: dýravelferð | Mast

Glæsilegt Íslandsmót í hestaíþróttum
Fréttir 11. júlí 2025

Glæsilegt Íslandsmót í hestaíþróttum

Íslandsmót fullorðinna og ungmenna var haldið á Brávöllum á Selfossi dagana 25. ...

Sýklalyfjaónæmar bakteríur í íslenskum svínum
Fréttir 11. júlí 2025

Sýklalyfjaónæmar bakteríur í íslenskum svínum

Matvælastofnun (MAST) greindi frá því í byrjun mánaðar að MÓSA bakteríur hefðu g...

Ársfundi LSB frestað aftur
Fréttir 11. júlí 2025

Ársfundi LSB frestað aftur

Í sumar hefur þurft að fresta ársfundi Lífeyrissjóðs bænda tvisvar.

Þrjár varnarlínur lagðar niður og hólfum fækkað
Fréttir 11. júlí 2025

Þrjár varnarlínur lagðar niður og hólfum fækkað

Þrjár sauðfjárveikivarnarlínur hafa verið lagðar niður og fækkar varnarhólfum um...

Hvíla þarf kartöflugarða í Þykkvabænum í þrjú ár
Fréttir 11. júlí 2025

Hvíla þarf kartöflugarða í Þykkvabænum í þrjú ár

Atvinnuvegaráðuneytið hefur sent kartöflubændunum í Hrauk í Þykkvabænum fyrirmæl...

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum
Fréttir 10. júlí 2025

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum

Róttækar breytingar eru að verða á regluverki varna gegn dýrasjúkdómum.

Salmonella á Kvíabóli
Fréttir 10. júlí 2025

Salmonella á Kvíabóli

Matvælastofnun (MAST) hefur sent út tilkynningu um að salmonella hafi greinst á ...

Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi
Fréttir 10. júlí 2025

Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi

Eftir þungan rekstur síðasta vetur glímir ullarvinnslufyrirtækið Ístex við fjárh...