Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Fjölmenni var í fundarsal Hilton Reykjavik Nordica, föstudaginn 14. október.
Fjölmenni var í fundarsal Hilton Reykjavik Nordica, föstudaginn 14. október.
Mynd / smh
Fréttir 24. október 2022

Fæðuöryggi, orkuskipti og aðfangamál

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Málþingið Græn framtíð var haldin á Hilton Reykjavik Nordica, föstudaginn 14. október frá kl. 10–12. Það voru Bændasamtök Íslands sem blésu til málþingsins, sem markaði upphafið á degi landbúnaðarins. Síðar um daginn var landbúnaðarsýningin Íslenskur landbúnaður sett í Laugardalshöll, sem stóð yfir alla helgina.

Húsfyllir var á málþinginu, sem helgað var framtíð íslensks landbúnaðar og umhverfismálum tengdum landbúnaði.

Fyrirlesarar voru Ingólfur Frið­riksson, úr utanríkisráðuneytinu, sem ræddi um ytri vídd fæðuöryggis, Rúnar Þór Þórarinsson, yfirmaður sjálfbærni og nýsköpunar Landeldi, sem talaði um fiskeldisúrgang sem öflugan áburð, Eygló Björk Ólafsdóttir, bóndi í Vallanesi, fjallaði um matvælaframleiðslu í skjóli skóga og lífræna ræktun, Karvel L. Karvelsson, framkvæmdastjóri Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, gerði grein fyrir hvernig upplýsingar koma að notum í baráttunni við loftslagsmál, og Sigurður Ingi Friðleifsson, sviðsstjóri loftslagsbreytinga, orkuskipta og nýsköpunar Orkustofnunar, sagði frá orkunni sem býr í sveitinni.

Í lokin ávarpaði Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra umhverfis­, orku­ og loftslagsmála, gesti málþingsins.

Líflegar pallborðsumræður sköpuðust, en þeim stjórnaði Guðmundur Gunnarsson, fréttastjóri Markaðarins.

Líflegar pallborðsumræður

Í pallborðsumræðum á eftir fyrirlestrunum tóku þátt þau Guðlaugur Þór, Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, Helgi E. Þorvaldsson, formaður starfshóps um kornrækt, Hlédís Sveinsdóttir, meðhöfundur skýrslunnar Ræktun Íslands, Svanhildur Hólm, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, og Erna Björnsdóttir, fagstjóri matvæla og náttúruafurða hjá Íslandsstofu. Sköpuðust þar líflegar umræður um margvísleg málefni landbúnaðarins í fortíð, nútíð og framtíð. Í umræðum um fæðuöryggi vakti Helgi E. Þorvaldsson athygli á þeirri staðreynd að engar plöntukynbætur væru stundaðar á Íslandi í dag.

Hann skýrði þá stöðu í því sögulega ljósi að þegar áföll dundu á þjóðinni, pestir, plágur og náttúruhamfarir, hafi áhersla verið lögð á kvikfjárrækt til að hámarka nýtingu á starfsfólki. Enda varð gjarnan veruleg fækkun mannfjölda á Íslandi í slíkum hamförum. Þá varð það hlutskipti til dæmis kornræktar að vera lögð til hliðar. Kerfið hafi síðan að vissu leyti verið byggt á þessari forsögu.

Helgi sagði einnig að sagan hafi líka sýnt okkur að hægt væri að rækta korn á Íslandi með góðum árangri – til þess að það geti orðið þurfi hins vegar að byggja upp innviði til kornræktar.

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, setur málþingið og þar með formlega dagskrá á degi landbúnaðarins.
Bændur fá ekki nægilega mikið greitt

Guðlaugur Þór sagði að íslenskir bændur geti borið höfuðið hátt. Það væri í raun bara eitt atriði í ólagi í íslenskum landbúnaði; bændur fengju ekki nægilega mikið greitt fyrir sínar vörur. Íslenskur landbúnaður gæti bara keppt við aðrar vörur í gæðum, ekki verðlagi. Bændur væru harðduglegt fólk sem fengi alls ekki það sem þeir ættu að bera úr býtum.

Helgi tók undir með Guðlaugi Þór og benti á að afkomuskilyrði bænda væru víða orðin mjög slæm, hann heyri það á bændum að ástandið hafi sjaldan eða aldrei verið þyngra.

Það hafi einmitt verið eitt aðalmálið í fæðuöryggisskýrslunni sem gefin var út í byrjun síðasta árs, að tryggja afkomu bænda.

Hann sagði einnig að eitt brýnasta málið við endurskoðun rammasamnings búvörusamninga á næsta ári eigi að vera að sækja meira fjármagn til verkefna eins og plöntukynbóta, þannig að ekki þurfi að vera að bítast um það fjármagn sem stjórnvöld leggja þegar til landbúnaðarins.

Góð ímynd landbúnaðarins

Erna ræddi um hina góðu ímyndarstöðu sem íslensk land­búnaðarframleiðsla byggi við. Eitt af hlutverkum Íslandsstofu væri að aðstoða erlenda fjárfesta sem vilja koma til Íslands.

Reynsla þeirra af samskiptum við fjárfesta væri sú að þeir séu mjög meðvitaðir bæði um hagstætt orkuverð á Íslandi, en einnig ímynd hinnar vistvænu orku.

Góð tækifæri séu því til staðar fyrir Íslendinga að nýta sér þessa stöðu, með því annaðhvort að sækja fjárfesta til landsins eða fleiri neytendur erlendis frá.

Upptökur frá málþinginu eru aðgengilegar í gegnum Facebook­
síðu Bændasamtaka Íslands.

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...