Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Karl Bretaprins við formlega opnun dýralæknaskólans í Aberystwyh.
Karl Bretaprins við formlega opnun dýralæknaskólans í Aberystwyh.
Mynd / Aberystwyth University
Fréttir 5. janúar 2022

Byggir á sögu háskóla sem þekktur er fyrir gæði í kennslu og ánægju nemenda

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Nýi dýralæknaskólinn við Aberystwyth-háskóla í Wales (Aberystwyth University), var formlega opnaður þann 10. desember síðastliðinn af Karli prins af Wales. Reyndar hófst kennsla í skólanum nú í september.

Skólabyggingin þar sem nýi dýralæknaskólinn er til húsa er Íslendingum ekki að öllu ókunnug. Þar stundaði dr. Ólafur R. Dýrmundsson m.a. nám og var um tíma skólabróðir Karls Bretaprins. Ólafur sagði í samtali við Bændablaðið að svo skemmtilega vilji til að þegar Karl opnaði formlega dýralæknaskólann hafi hann ritað nafn sitt í sömu gestabók og hann skrifaði í á vormisserinu 1969 þegar hann nam velsku og velska sögu í Aberystwyth. Það var rétt áður en hann var krýndur af Elísabetu II Bretlandsdrottningu sem 21. prinsinn af Wales við athöfn í Caernarfon-kastala í Norður-Wales í byrjun júlí það ár.

Gamla skólabygging Aberystwyth-háskóla í Wales.

Karl prins gamall skólabróðir dr. Ólafs R. Dýrmundssonar

„Þarna, vorið 1969, var hann skólabróðir minn um skeið og bæði ég og Svana töluðum við hann í boði hjá British Council rétt eftir að hann kom í skólann. Skemmtilegt spjall. Síðar kom hann nokkrum sinnum í laxveiði í Vopnafjörð eins og segir í bókinni Guðni á ferð og flugi.

Karl er, og hefur lengi verið, með lífrænan búskap á einni af jörðum bresku krúnunnar í Englandi og hefur gott vit á landbúnaði. Sá hann t.d. og heyrði flytja prýðilegt erindi um framtíð landbúnaðar á Terra Madre hjá Slow Food í Tórínó á Ítalíu rétt upp úr aldamótunum,“ segir Ólafur.

Þá bendir Ólafur á að hluti sjónvarpsþáttanna Crown um bresku konungsfjölskylduna, þ.e. í þættinum um dvöl Karls í Aberystwyth, hafi var tekinn í gömlu háskólabyggingunni. Hann segir að þau hjón hafi þó ekki verið ánægð með aulaháttinn sem þekktur breskur leikari var látinn sýna í hlutverki Karls þarna í háskólanum. Þau hafi haft allt aðra mynd af Karli.

„Hann var öruggur í framkomu og átti auðvelt með að ræða við okkur, spurði m.a. um laxveiði á Íslandi sem hann átti síðar eftir að kynnast sjálfur,“ segir Ólafur.

Svanfríður S. Óskarsdóttir og Ólafur Dýrmundsson í Wales 1969. Í baksýn er Háskólinn í Aberystwyth. Bætt hefur verið við nýjum byggingum vegna nýja dýralæknaskólans en hann er allur á Penglais Hill þar sem Ólafur nam og stundaði sauðfjárrannsóknir forðum daga. Mynd / Úr einkasafni

Tvö ár í Aberystwyth og þrjú í Hertfordshire

Ólafur hefur lengi verið tengiliður (Alumni Representative) Háskól­ans í Aberystwyth við Ísland. Hann segir að dýralækna­náminu sé þannig háttað að dýralækna­nemarnir taka tvö fyrstu árin í nýja skólanum í Aberystwyth og síðan þrjú ár í dýralæknaskólanum í Hawkshead í Hertfordshire í Englandi.

Þar sem hér á landi sé skortur á dýralæknum, þá veltir Ólafur fyrir sér hvort ekki sé kjörið fyrir íslenska stúdenta sem hyggja á dýralækningar að skoða þessa nýju námsbraut við dýralæknaskólann í Wales. Hann segist þó ekki vita til að íslenskir dýralæknar hafi stundað nám í Wales. Hins vegar hafi nokkrir lokið sínu námi í Skotlandi og Englandi en flestir á Norðurlöndunum og í Þýskalandi.

Ólafur ritaði grein í Bændablaðið í apríl á síðasta ári um þá ákvörðun Aberystwyth-háskóla í Wales þann 28. febrúar 2020 að opna nýjan dýralæknaskóla. Þá var gert ráð fyrir að skólinn tæki við fyrstu nemendunum í september 2021 og gekk það eftir.

Segir Ólafur að í Aberystwyth hafi verið búvísindanám á háskóla­stigi síðan árið 1878 en háskóli var stofnaður þar árið 1872. Því eigi kennsla og rannsóknir í þágu landbúnaðar sér langa sögu í Aberystwyth, bæði á sviðum búfjárræktar og jarðræktar, enda Wales þekkt innan Bretlandseyja fyrir blómlegar sveitir og mikla matvælaframleiðslu af ýmsu tagi. Síðan segir í grein Ólafs:

Mikil reynsla að baki

„Reyndar er liðin rúmlega öld síðan rannsóknir á búfjársjúkdómum og kennsla um þá hófst í tengslum við búvísindanámið í Aberystwyth og dýralæknar hafa lengi verið á meðal kennaraliðsins. Naut höfundur góðs af á námsárunum í Aberystwyth 1966-1972. Ákveðið skref var stigið í september 2015 þegar stofnað var til sérstakrar þriggja ára B.Sc. námsbrautar í lífvísindum með áherslu á dýrasjúkdóma. Próf af henni hefur gefið góða starfsmöguleika og er sagt prýðilegur undir­búningur undir námið í nýja dýralæknaskólanum. Nú hefur skrefið verið stigið til fulls með stofnun fyrsta dýralæknaskólans í Wales en til þessa hafa þeir næstu verið í Liverpool og Bristol í Englandi.“

„Þú getur kallað okkur Aber“

Að sögn Ólafs nýtur Aberystwyth mikil álits á Bretlandseyjum. Bæði árin 2018 og 2019 fékk hann sérstaka viðurkenningu vegna gæða kennslunnar og 2020 hlaut hann viðurkenningu sem besti háskólinn í Wales (The Sunday Times Good University Guide). Þá fékk hann árið 2019 næsthæstu einkunn allra breskra háskóla fyrir ánægju nemenda með námið og aðstöðu til þess (National Student Survey). Þar hefur skólinn reyndar verið í efstu sætum árin 2018, 2019 og 2020. Stjórnendur háskólans eru samt ekkert að láta hlutina stíga sér til höfuðs eða taka upphefðina of formlega, því á heimasíðu skólans segir:
„Við erum Aberystwyth-háskóli, en þú getur kallað okkur Aber.“

Skylt efni: Wales | dýralækningar

Stjórnvaldssekt staðfest
Fréttir 20. maí 2024

Stjórnvaldssekt staðfest

Bændur á Vesturlandi telja jafnræðis ekki hafa verið gætt þegar Matvælastofnun (...

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...