Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Sigríður Ævarsdóttir, Hildur Þóra Magnúsdóttir og Rúna Kristín Sigurðardóttir.
Sigríður Ævarsdóttir, Hildur Þóra Magnúsdóttir og Rúna Kristín Sigurðardóttir.
Fréttir 8. febrúar 2017

Bætiefni unnin úr innmat lamba og jurtum

Höfundur: smh
Pure Natura er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu á fæðuunnum vítamínum og bætiefnum úr lambainnmat, -kirtlum og jurtum. Unnið hefur verið að þróun bætiefnanna í rúm tvö ár og eru fjórar vörutegundir afrakstur starfsins.
 
Hildur Þóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að fyrirtækið hafi verið stofnað í september 2015, en þá höfðu eigendur þess unnið í rúmt ár að því að kanna kosti þess að nýta innmat og kirtla í fæðubótarefni fyrir fólk. 
 
Hildur segir að rekja megi hugmyndina að baki fyrirtækinu til þess að hún sótti námskeið sem Sigríður Ævarsdóttir kenndi og snerist um það hvað konur geta gert til að bæta heilsu sína og líðan. „Sigríður fór yfir það á námskeiðinu hversu viðkvæm hormónastarfsemi kvenna er fyrir ýmsum eiturefnum í umhverfinu og mikilvægi þess að velja rétt þegar kemur að fæðu, snyrtivörum og öðru sem kann að innihalda þessi efni. 
 
Við Sigríður tókum höndum saman að námskeiði loknu og fengum til liðs við okkur Rúnu Kristínu Sigurðardóttur  og Halldór Gunnlaugsson, en saman eigum við fjögur þetta félag. Frá upphafi hefur fyrirtækið verið rekið á styrkjum og með eigin framlagi eigenda,“ segir Hildur.
 
Risastór fjölvítamíntafla með öllu tilheyrandi
 
Hildur segir að hugmyndin sé fjölþætt sem liggi að baki vöruþróuninni og felur í sér nokkrar grundvallar staðreyndir. „Sú fyrsta er sú að innmatur er einhver næringarríkasta fæða sem völ er á. Hann er eins og risastór fjölvítamíntafla með öllu tilheyrandi, á formi sem líkaminn þekkir og getur nýtt sér. Almennt er hægt að segja að innmatur innihaldi á bilinu 10–100 sinnum meira magn næringarefna en vöðvar sama dýrs. 
 
Þrátt fyrir staðfesta kosti innmatar hefur neysla hans dregist saman og má næstum segja að hann sé að detta alveg út hjá yngri kynslóðum hins vestræna heims. Á sama tíma tengja fleiri og fleiri vísindamenn saman skort ákveðinna næringarefna – til dæmis D-vítamína – við fleiri og fleiri lífsstílssjúkdóma.
Önnur staðreynd er sú að sláturhús þurfa að eyða töluverðu fjármagni árlega í förgun á hráefni eins og innmat og kirtlum sem við viljum nota í vörurnar okkar. Í stað þess að farga þessu hráefni er hægt að vinna úr því hágæða fæðubót og búa þar með til pening í stað sóunar. Við viljum styðja við aukna sjálfbærni í dilkaslátrun. Minnka sóun, auka meðvitund neytenda og stuðla að fullnýtingu afurðanna í heimabyggð.
 
Þriðja staðreyndin er sú að svona starfsemi er atvinnuskapandi og það vantar jú alltaf störf út á land. Fjórða staðreyndin er, að ef framleiðsla og sala þessara afurða gengur vel þá skilar það vonandi bóndanum hærri greiðslum fyrir hvert lamb sem hann leggur inn til slátrunar. Hugmyndin er sú að ef allt gengur upp þá græði allir á þessu verkefni,“ segir Hildur.
 
Aðkeypt þjónusta rannsóknarfyrirtækja
 
Að sögn Hildar starfa tveir starfsmenn hjá fyrirtækinu, auk eigenda.  Hildur Þóra er starfandi framkvæmdastjóri eins og fyrr segir, Sigríður sér um vöruþróun og Rúna Kristín um sölu og markaðsmál. „Fyrirtækið hefur nýtt sér aðkeypta þjónustu rannsóknarfyrirtækja eins og Matís og ArcticMass hingað til en mikil rannsóknarvinna liggur einnig í því að fara yfir fyrri rannsóknir sem gerðar hafa verið af öðrum aðilum, mikið efni liggur t.a.m. fyrir um kosti þeirra jurta sem við notum í framleiðsluna. Sem betur fer eru einnig allir eigendur Pure Natura vel menntað fólk sem leggur mikinn metnað í sitt starf.“
 
Hraðþurrkað hráefni
 
„Við nýtum okkur tæknina og hraðþurrkum allt okkar hráefni við lágt hitastig til að tryggja sem best gæði þess og að þau skili sér til neytandans,“ segir Hildur um vinnsluaðferðina. „Efni eins og ensím má ekki hita yfir ákveðið hitastig til að þau skemmist ekki og þurrkunin fer öll fram undir þeim mörkum.  Allar jurtir eru handtíndar og þurrkaðar í starfsstöðvum okkar að Háeyri 6 á Sauðárkróki. Mölunin fer einnig fram þar sem og blöndun, en hylkjun og pökkun fer fram hjá fyrirtækinu Vilkó sem er staðsett á Blönduósi.“
 
Vörurnar sem Pura Natura hefur þegar skilað af sér.
 
Stefna á Bandaríkjamarkað
 
„Við stefnum með þessar vörur á erlendan markað og horfum þar sérstaklega til Bandaríkjamarkaðar. Gangi það eftir og verði viðtökur góðar má búast við að töluvert þurfi af hráefni til að anna eftirspurn en það ætti ekki að vera vandamál þar sem allur sá efniviður sem þarf í framleiðsluna er nú þegar til í nægjanlegu magni til þess að anna henni.
 
Við erum með fjórar vörutegundir sem tilbúnar eru til framleiðslu og sölu núna þó fleiri séu nú þegar á teikniborðinu. Það má gera ráð fyrir að þessar fyrstu vörur komi á markað mjög fljótlega. Þeim sem hins vegar vilja nálgast vörurnar okkar núna er bent á verkefnið okkar á Karolina fund, en þar getur fólk tryggt sér vörur úr fyrstu framleiðslulotunni okkar.“
 
Að sögn Hildar er nú farið í fjármögnunarverkefni á Karolina fund til að standa straum af stökki fram á við í markaðssetningu. „Við höfum fengið vel á annan tug milljóna í styrki til þess að þróa vörurnar okkar. Auk þess lánaði Byggðastofnun félaginu fyrir uppsetningu á vinnslulínunni, en annar kostnaður eins og laun og rekstur hefur verið greiddur af eigendum. Nú eru vörurnar hins vegar tilbúnar og tími til kominn að fá fjárfesta að borðinu með okkur, svo hægt sé að leggja út í markaðssetningu á erlenda markaði.“
 
Söfnunin stendur yfir til 10. febrúar og er hægt að kynna sér hana betur  og taka þátt á síðu verk­efnisins hjá Karolina fund, https://www.karolinafund.com/project/view/1199. 

Skylt efni: Innmatur | bætiefni | Pure Natura

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...