Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Á Hofi í Öræfum er að myndast þéttbýli sveitarinnar, en þar er grunn- og leikskóli sveitarinnar. Á nýlega skipulögðu svæði norðan við grunnskólann hefur byggst upp myndarleg byggð á síðustu fimm árum, nú standa þar sjö íbúðarhús. Í Öræfum eru sex byggðarkjarnar og í þeim öllum hafa nokkur íbúðarhús verið byggð á síðustu árum.
Á Hofi í Öræfum er að myndast þéttbýli sveitarinnar, en þar er grunn- og leikskóli sveitarinnar. Á nýlega skipulögðu svæði norðan við grunnskólann hefur byggst upp myndarleg byggð á síðustu fimm árum, nú standa þar sjö íbúðarhús. Í Öræfum eru sex byggðarkjarnar og í þeim öllum hafa nokkur íbúðarhús verið byggð á síðustu árum.
Mynd / Aðsendar
Lesendarýni 27. febrúar 2025

Sveit í sókn, 150% fjölgun á 15 árum

Höfundur: Íris Ragnarsdóttir Pedersen, fjallaleiðsögumaður, búsett í Svínafelli í Öræfum.

Í Öræfum blómstrar fjölbreytt samfélag í sveit sem löngum var ein einangraðasta sveit landsins, umlukin jöklum, beljandi jökulfljótum og Atlantshafinu.

Íris Ragnarsdóttir Pedersen.

Í dag búa hér um 230 manns sem starfa t.d. við ferðaþjónustu, landbúnað, náttúruvernd og eigin rekstur. Einnig sækja hingað þúsundir ferðamanna dag hvern enda trekkja staðir eins og Skaftafell og Jökulsárlón fólk að allan ársins hring. Um Öræfin er að jafnaði meiri umferð heldur en fram hjá Bifröst í Borgarfirði, öll umferð norður í land og á Vestfirði.

Síðasta opinbera bygging í Öræfum var byggð fyrir hartnær 40 árum, árið 1986, en þá byggði þáverandi Hofshreppur Hofgarð, nýtt skólahúsnæði og félagsheimili sveitarinnar. Hofgarður var að miklu leyti byggður af íbúum hreppsins í sjálfboðavinnu og á sú kynslóð hrós skilið fyrir framtakið og seigluna. Hofshreppur sameinaðist nærliggjandi sveitarfélögum árið 1998 og tilheyrir nú Sveitarfélaginu Hornafirði. Á þessum tíma var starfrækt kaupfélag, pósthús, heilsugæslusel og sundlaug í Öræfum en þetta er allt þjónusta sem hefur verið lögð niður. Þéttbýlið á Höfn er í austasta hluta sveitarfélagsins, en þangað eru um 130 km frá Skaftafelli. Frá því að Hofshreppur sameinaðist Sveitarfélaginu Hornafirði hefur engin opinber bygging verið byggð í Öræfum af sveitarfélaginu.

Það má benda á að íbúafjöldi í Öræfum hefur margfaldast á síðasta áratug, en árið 2010 voru íbúar hér tæplega 90 en í dag telja þeir 235. Víða um landið eru byggðarlög með 200–300 íbúum með gott þjónustustig s.s. Laugarvatn, Bíldudalur, Tálknafjörður, Búðardalur og Hólmavík. Á öllum þessum stöðum er hægt að komast í sund eða heitan pott, stunda íþróttir í íþróttahúsi, fá sendan pakka í póstbox, komast til læknis á innan við 30 mín., kaupa í matinn og leigja íbúð. En íbúar Öræfa fara á mis við öll þessi almennu lífsgæði. Er það einungis vegna þess að sveitin er dreifbýli en ekki byggðarkjarni? Eða hefur sveitarfélagið gleymt að sinna íbúum Öræfa? Hefur sveitarfélagið gleymt að sinna tæplega 15% íbúa sinna?

Fjör á Kaffi Vatnajökli á Fagurhólsmýri. Kaffihúsið er opið allan ársins hring og nýtur mikilla vinsælda meðal heimamanna og ferðafólks. Þar eru haldin tónlistarkvöld þar sem vanir og óvanir listamenn troða upp og syngja og spila fyrir mannskapinn.

Í Öræfum þurfa íbúar að sækja alla heilbrigðisþjónustu til Hafnar eða Kirkjubæjarklausturs (70 km) og þaðan koma einnig sjúkrabílar ef slys verða. Íbúar og ferðamenn í Öræfum geta því „státað“ af því að þurfa að bíða lengst af öllum á landinu eftir sjúkrabíl á láglendi, þegar slys verða. Björgunarsveitin Kári í Öræfum neyðist til að sinna alvarlegum slysum vegna mikilla vegalengda í næstu heilsugæslu og lögreglu.

Í Öræfum er einn fámennasti grunnskóli landsins en nálægðin við náttúruna skapar skólanum mikla sérstöðu og mikil tækifæri eru í skólastarfinu. Ráðamenn í Sveitarfélaginu Hornafirði undra sig á því að í Öræfum fæðist ekki fleiri börn og af hverju nemendum í skólanum fjölgi ekki hraðar. En þá spyr maður sig hvort sveitarstjórnarfólk hafi ekki leitt hugann að því að með bættri þjónustu við íbúa gæti verið að fleirum gæti þótt það fýsilegur kostur að ala upp börnin sín í Öræfum? Það telst til almennra mannréttinda að geta sótt heilbrigðisþjónustu í heimabyggð og að sjúkrabíll sé til staðar ef slys verða. Eins er íþróttastarf mikilvægt fyrir lýðheilsu íbúa og til að styrkja félagsleg tengsl en þetta er meðal þess sem fólk horfir til þegar það ákveður hvar á landinu það vill ala upp börnin sín.

Samfélagið í Öræfum er einstakt og sveitin hlýtur að teljast til þeirra sveita á Íslandi þar sem mesta fjölgun hefur farið fram á síðasta áratug. Hér vill fólk búa, en það vantar upp á betri þjónustu og flest allt sem telst vera eðlilegt að bjóða íbúum upp á. Hér bráðvantar leiguhúsnæði og því verða leigufélög á borð við Bríeti að byggja hér upp íbúðir til leigu. Sveitarfélagið byggði fjögurra íbúða raðhús í byggðarkjarna á Hofi sem var nauðsynlegt til að bjóða starfsfólki sveitarfélagsins húsnæði, en þar endurspeglar leiguverð ekki þjónustustigið sem íbúum er boðið upp á. Í Öræfum sárvantar mannaðan sjúkrabíl og heilbrigðisþjónustu sem hlýtur að teljast til almennra mannréttinda allra á Íslandi. Enginn á að þurfa að bíða í klukkustund eftir sérhæfðri aðstoð. Og að lokum vantar hér aðstöðu til íþróttaiðkunar innan dyra. Í Öræfum er náttúran hinn besti leikvöllur til íþróttaiðkunar utandyra en engin aðstaða er til íþróttaiðkunar innandyra og verður það að teljast mikilvægt fyrir alla aldurshópa.

Gerum allt að garði
Lesendarýni 28. nóvember 2025

Gerum allt að garði

Garðurinn í kringum Listasafn Árnesinga í Hveragerði er bæði umgjörð um safnið o...

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum

Aukin ásókn í ræktun skóga með framandi ágengum tegundum, eins og hún hefur tíðk...

Að vera í stríði við sjálfan sig
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Að vera í stríði við sjálfan sig

Snjótittlingurinn er ein helsta hetja norðursins. Vegur um 40 grömm og stenst fr...

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði

Tækifærin til orkusparnaðar, aukinnar sjálfbærni og samdráttar í losun gróðurhús...

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi

Um allt land á Íslandi eru lítil þorp, með litlum húsum en stórum garði. Garðuri...

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?
Lesendarýni 26. nóvember 2025

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?

Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár gengur í fáum orðum út á það til hvaða aðgerð...

Beitarstýring er best
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Beitarstýring er best

Í 16. tölublaði Bændablaðsins frá 11. september er forsíðugrein sem heldur því f...

Ávaxtaðu jarðveginn þinn
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Ávaxtaðu jarðveginn þinn

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir tveimur áskorunum, loftslagsbreytingum og hnig...