Skýrsla um raunveruleikann
Lesendarýni 18. september 2024

Skýrsla um raunveruleikann

Höfundur: Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra

Ástandið í íslenskum landbúnaði er víðs vegar þungt og mannskapurinn er þreyttur eftir kalt og blautt sumar sem kom mjög seint, og segja sum að það hafi alls ekkert sumar komið.

Síðustu vikur hef ég hitt bændur frá Vestfjörðum og langleiðina að Glettingi. Í þeim samtölum sem ég hef átt kom ítrekað fram að hækkandi kostnaður og dýrt fjármagn, ótryggar tekjur, öfgar í veðurfari og ásókn erlendra fjárfesta í íslenskt land ýti undir að bændur íhugi að hætta búskap. Það er ljóst að við þurfum að gera betur ef okkur er alvara með því að íslenskir bændur framleiði hér matvæli fyrir komandi kynslóðir.

Heimsóknir síðustu vikna hafa reynst vera skýrsla um raunveruleikann og ég hef fengið að heyra margar sögur um stöðu bænda, sem margar hverjar enduróma landshorna á milli. Það sitja í mér áhyggjur fólks af því hver taki við búinu. Það sitja í mér sögurnar af yfirboði í bújarðir af hálfu erlendra auðmanna og af markaðsstöðu innlendra landbúnaðarafurða, sér í lagi í rauðu kjöti. Það situr í mér að bændur neyðist til að lóga nautkálfum sínum þar sem of dýrt sé að ala þá –ellegar ali þá og borgi með afurðunum. Þetta er að gerast þrátt fyrir aukinn stuðning og sértækar aðgerðir síðustu ár sem ætlað var að mæta hækkandi kostnaði á aðföngum og slæmri skuldastöðu bænda.

Það stuðningskerfi landbúnaðar sem tekur við þegar gildistími búvörusamninga rennur sitt skeið mun gegna lykilhlutverki í að móta framtíð íslensks landbúnaðar og þar verðum við að gera breytingar sem styðja sjálfbæra innlenda matvælaframleiðslu og matvælaöryggi. Ef Ísland ætlar sér halda í sjálfstæði sitt í matvælaframleiðslu þarf stuðningskerfið að endurspegla raunveruleika bænda og tryggja þeim raunverulegan farboða og stöðugleika til frambúðar með öflugu stuðningskerfi. Fyrir því mun ég berjast hér eftir sem hingað til.

Á sama tíma þarf að sækja fram í því augnamiði að búskapur framtíðarinnar sé í stakk búinn til að takast á við fjölbreyttar áskoranir. Sjálfbær og umhverfisvænn landbúnaður sem fylgir skýrum markmiðum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, með aukinni áherslu á jarðvegsvernd og bættan vatnsbúskap eru lykilþættir í því samhengi. Styrkir og hvatar fyrir bændur að innleiða nýja tækni og þróa ræktunaraðferðir sem auka framleiðslugetu munu skipta sköpum. Skýr stefna um landnýtingu og verndun landbúnaðarlands munu gegna veigamiklu hlutverki, enda er ásókn í land að aukast svo um munar. Stuðningskerfi og umgjörð landbúnaðar þarf að setja skýrar leikreglur um nýtingu lands og tryggja að landbúnaðarland sé varið gegn ágangi, hvort sem er frá innlendum eða erlendum aðilum. Hlutverk bænda í þessu samhengi er fjölþætt, allt frá því að vera umsjónarmenn lands til þess að vera að yrkja það og nýta.

Það er mikilvægt fyrir sjálfsmynd lands og þjóðar að við framleiðum okkar eigin mat. Það er sjálfsmyndarmál að við verndum landið sjálft og byggð í dreifbýli. Við þurfum að taka höndum saman til að tryggja að íslenskur landbúnaður blómstri áfram og að bændur geti með stolti framleitt mat fyrir íslenskt samfélag til framtíðar.

Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Lesendarýni 9. október 2024

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Á meðan trén vaxa ræða skógarbændur framtíðina. „Það er víst lítið annað að gera...

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi
Lesendarýni 4. október 2024

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi

Öldungaráð Selfoss boðaði komu sína í MS-stöðina á Selfossi með fyrirspurnina á ...

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu
Lesendarýni 3. október 2024

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu

Haustið 2007 setti stjórn félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu saman nefnd ti...

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið
Lesendarýni 2. október 2024

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið

Íslenskur landbúnaður hefur gegnt lykilhlutverki í þróun samfélagsins frá landná...

Áhyggjur af samdrætti innan ESB
Lesendarýni 26. september 2024

Áhyggjur af samdrætti innan ESB

Þann 9. september 2024 kynnti Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu,...

Þá og nú
Lesendarýni 23. september 2024

Þá og nú

Hin hugljúfa ástarsaga Bergsveins Birgissonar um ástir þeirra Bjarna og Helgu he...

Áhrif beitar á uppskeru og kolefnisspor kindakjöts
Lesendarýni 19. september 2024

Áhrif beitar á uppskeru og kolefnisspor kindakjöts

Í Bændablaðinu 2.11. 2023 var fjallað um bindingu CO2 vegna framleiðslu kindakjö...

Skýrsla um raunveruleikann
Lesendarýni 18. september 2024

Skýrsla um raunveruleikann

Ástandið í íslenskum landbúnaði er víðs vegar þungt og mannskapurinn er þreyttur...