Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Skálholtsdómkirkja.
Skálholtsdómkirkja.
Lesendarýni 19. júní 2023

Sextug er hún og líka þúsund ára

Höfundur: Sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti.

Í sumar eru liðin sextíu ár frá því Skálholtsdómkirkja var vígð og hefur verið unnið að afmælisárinu árum saman.

Sr. Kristján Björnsson

Það verður ekki sagt að vígsluafmælið beri brátt að. Núna þegar viðgerðum er óðum að ljúka með endurnýjun á öllu ytra byrði guðshússins og innandyra stendur kirkjan öllum opin til að koma og njóta. Það á sérstaklega við um helgihaldið en það má einnig leggja áherslu á að kirkjuverðir opna kirkjuna alla daga og taka á móti fólki yfir daginn, einstaklingum og hópum. Hægt er að panta fyrir hópa og einnig að fá veitingar á nýja veitingastaðnum Hvönn og gistingu á Hótel Skálholti sem er hvort tveggja í húsinu sem lengi hefur verið kallað Skálholtsskóli. Þótt sagan sé mikil og gömul er þjónustan ljúf og aðstaðan nútímaleg. Endurnýjunin er að innan sem utan og má segja að nýjasta skeiðið hafi byrjað með gjörbreyttu skipulagi og nýju rekstrarformi rétt fyrir Covid. Ekkert kom af sjálfu sér en margar hendur vinna létt verk ef þær vinna saman. Og þær hendur bjóða núna alla velkomna til að skoða, rifja upp og njóta.

Altaristafla í Skálholtsdómkirkju.

Dómkirkja okkar tíma er sextug en hún stendur á sama grunni og fyrri kirkjur. Kirkja á staðnum er meira en þúsund ára því Gissur hvíti reisti þá fyrstu árið þúsund sumarið sem allir íbúar Íslands tóku kristna trú eftir ákvörðun Alþingis og með úrskurði Þorgeirs Ljósvetningagoða. Er sonur hans, Ísleifur, varð biskup 1056 og þau Dalla Þorvaldsdóttir settust hér að varð kirkja Gissurar að dómkirkju biskupsins sem þjónaði þá bæði Íslandi og Grænlandi.

Tíminn fram að afmælinu hefur verið vel nýttur til að safna fyrir og gera upp mikla dýrgripi kirkjunnar. Listgluggar Gerðar Helgadóttur voru að skemmast og sprungur voru komnar í mósaíkmynd Nínu Tryggvadóttur. Þeim viðgerðum lauk árið 2018 og hafði Verndarsjóður Skálholtsdómkirkju þá safnað á fjórða tug milljóna í verkið. En næstu verkefni biðu því kirkjan hélt áfram að leka og klukkurnar voru að þagna hver af annarri. Danska klukkan hafði fallið niður og brotnað og mótorar annarra hættir að virka. Bókasafnið í turni kirkjunnar var í hættu og niðri gerðu kórfélagar grein fyrir ástandi kirkjunnar með því að tenórinn þyrfti að hafa með sér regnhlíf á æfingar. Hann sat næstur bununni niður vegginn. Margir lögðust hér á eitt og var ákveðið að endurnýja alveg þakið með nýjum steinskífum og nýjum þakrennum, gera við veggina og laga drenið en að lokum að mála kirkjuna. Lauk því í fyrra langt á undan áætlun. Næsta stóra ákvörðunin var að taka allt í gegn að innan og lauk því í maí. Bókhlaðan gæti farið í nýtt húsnæði Gestastofunnar á þessu ári með Prentsögusetri Íslands.

Í sumar verður hitaveitan endurnýjuð sem kemur úr Þorlákshver. Það er stöðugt eitthvað nýtt að gerast í gömlum stað. Allt er nú sem orðið nýtt og núna er lag að fylla það innihaldi og njóta vel.

Fram undan eru Sumartónleikarnir í Skálholti 28. júní til 9. júlí með tónleikum og kantötumessum. Það er áratuga löng og merkileg tónlistarhátíð með barrokki og nútímatónlist. Þá tekur við Skálholtshátíð sem stendur frá Þorláksmessu á sumar, 20. júlí, til hátíðarmessu og hátíðardagskrár sunnudaginn 23. júlí. Þar mun Sigríður Hagalín Björnsdóttir flytja hátíðarræðuna. Þá verður vígsluafmælinu fagnað veglega og boðið í kirkjukaffi. Á dagskrá Skálholtshátíðar eru tónleikar og helgihald en líka pílagrímagöngur og sögugöngur, útimessa og morguntíðir. Á hátíðinni verða tvö námskeið sem verða öllum opin. Annað er um gervigreind og trú í stafrænni byltingu. Hitt um 12. aldar siðbótina sem Þorlákur innleiddi í Skálholti. Þá verður útgáfumálþing um nýja bók um Skálholt og Tyrkjaránið. Það er af mörgu að taka í þúsund ára sögu Skálholts og líka þess sem er að breyta tilveru mannsins og umhverfi á okkar dögum. Horfir þar vonandi allt til hins betra.

Séð inn í Skálholtsdómkirkju.

Skylt efni: Skálholt

Gerum allt að garði
Lesendarýni 28. nóvember 2025

Gerum allt að garði

Garðurinn í kringum Listasafn Árnesinga í Hveragerði er bæði umgjörð um safnið o...

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum

Aukin ásókn í ræktun skóga með framandi ágengum tegundum, eins og hún hefur tíðk...

Að vera í stríði við sjálfan sig
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Að vera í stríði við sjálfan sig

Snjótittlingurinn er ein helsta hetja norðursins. Vegur um 40 grömm og stenst fr...

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði

Tækifærin til orkusparnaðar, aukinnar sjálfbærni og samdráttar í losun gróðurhús...

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi

Um allt land á Íslandi eru lítil þorp, með litlum húsum en stórum garði. Garðuri...

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?
Lesendarýni 26. nóvember 2025

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?

Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár gengur í fáum orðum út á það til hvaða aðgerð...

Beitarstýring er best
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Beitarstýring er best

Í 16. tölublaði Bændablaðsins frá 11. september er forsíðugrein sem heldur því f...

Ávaxtaðu jarðveginn þinn
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Ávaxtaðu jarðveginn þinn

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir tveimur áskorunum, loftslagsbreytingum og hnig...