Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Mikilvægt að bændur og dýralæknar snúi bökum saman
Lesendarýni 8. maí 2015

Mikilvægt að bændur og dýralæknar snúi bökum saman

Höfundur: Guðbjörg Þorvarðardóttir, Charlotta Oddsdóttir, Gísli Sv. Halldórsson og Sigríður Gísladóttir.
Að undanförnu hafa birst í fjölmiðlum ýmsar athugasemdir frá fulltrúum bænda um verkfall dýralækna. Verkföll eru neyðarúrræði í kjarabaráttu. 
 
Eðlilegt er að mönnum hitni í hamsi við síkar aðstæður en því miður hafa sumir reitt svo hátt til höggs að lítill sómi er að. Okkur dýralæknum sárnar sérstaklega þegar vegið er að starfsheiðri okkar og þeim eiðstaf sem við sverjum sem málsvarar málleysingjanna. 
 
Ástæður verkfalls
 
Miklu skiptir að bændur og dýralæknar missi aldrei sjónar af því að hagsmunir þessara stétta fara saman. Bændur eru mikilvægir viðskiptavinir dýralækna og dýralæknar eru mikilvægur hlekkur í virðiskeðju landbúnaðarframleiðslu. Það er því hagur bænda að til þessara starfa fáist hæfir dýralæknar og til þess þarf samkeppnishæf laun. Það er líka hagur dýralækna að hér sé blómlegur landbúnaður sem vel er þjónað með ráðgjöf og eftirliti.
 
Mál er að líta á ástæður verkfallsins og hvaða áhrif kaup og kjör dýralækna í opinberri þjónustu hafa haft á starfsþróun og nýliðun í stéttinni. Við erum í verkfalli meðal annars vegna þess að við viljum hafa gott og sterkt teymi opinberra dýralækna til að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem okkur eru falin af yfirvöldum og þeim sem nýta þjónustu okkar. Til þess þarf að bjóða dýralæknum kjör sem hæfa þeirra menntun og mikilvægi.
 
Stuðningur bænda æskilegur
 
Verkefni dýralækna hjá hinu opinbera felast meðal annars í því að votta uppruna, gæði og öryggi afurða bænda svo að unnt sé að flytja þær á markað. Þessir markaðir, bæði innlendir og erlendir, krefjast aðkomu dýralækna og kröfurnar eru því ekki uppfinning dýralækna í atvinnusköpun. Menntun okkar felst meðal annars í því að skoða dýr með tilliti til velferðar og aðbúnaðar þeirra, kanna merki um sjúkdóma sem gætu borist í menn eða önnur dýr með dýrunum eða þeirra afurðum og greina þessa sjúkdóma. Örugg og hröð sjúkdómsgreining byggist á því að hafa fært og vel þjálfað fólk hér á landi. Þeir vel menntuðu og reyndu dýralæknar, sem starfa á Keldum, eru ekki öfundsverðir af sínum kjörum og lítil merki eru um að efla eigi þá starfsemi, til dæmis með fjölgun starfa eða auknum rannsóknum á dýrasjúkdómum. Þar gæti samfélag bænda beitt sér af meiri hörku en hingað til hefur verið gert. 
 
Á síðastliðnum þremur árum hafa 15 af 35 dýralæknum hjá Matvælastofnun sagt upp störfum. Af þessum 35 stöðum eru nú tvær stöður lausar sem ekki hefur verið ráðið í, enda enginn sótt um, þó umsóknarfrestur sé liðinn. Af þeim 20 dýralæknum sem starfa á umdæmisskrifstofum hafa aðeins sex þeirra unnið þar lengur en þrjú ár. Störf okkar eru mjög fjölbreytt og krefjast nákvæmrar þekkingar á mjög breiðu sviði. Að þjálfa fólk til að sinna þessum verkefnum er dýrt og tímafrekt, og á meðan safnast verkefnin fyrir. Það krefst talverðrar ákveðni og samfellu í starfi að sinna þeim vel, sérstaklega málefnum er varða dýravelferð þar sem dýralæknar eru málsvarar þöguls hóps sem má sín lítils. 
 
Nýliðun lítil
 
Að sama skapi fækkar þeim dýralæknum sem snúa heim að námi loknu, nýliðunin er ekki nógu hröð. Dýralæknir sem hefur lokið námi frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2015 er með 11 milljóna námslánaskuld sem tekur skv. útreikningum frá LÍN 83 ár að greiða upp á þeim launum sem bjóðast hjá ríkinu. 
 
Matvælastofnun hefur um árabil leitað til kollega okkar utan landsteinanna þegar ekki hafa fengist íslenskir dýralæknar til eftirlitsstarfa. Það segir sig sjálft að ekki er hægt að nota erlendan starfsmann í öll verkefni ef íslenskukunnáttu skortir en þessir starfsbræður okkar og -systur hafa verið öllum bændum ómissandi með störfum sínum í sláturhúsum. 
 
Í stöður sérgreinadýralækna, sem er ætlað að vera ráðgefandi á landsvísu (sjá 14 gr. laga um dýralækna), hafa umsækjendur undanfarin ár verið á bilinu enginn til þrír. Einni stöðu þurfti að breyta þegar enginn dýralæknir sótti um svo unnt væri að ráða einstakling með aðra menntun. Margir hæfir og reyndir dýralæknar hafa neitað þeim kjörum sem þeim voru boðin hjá Matvælastofnun og er það miður.
 
Það er bændum í hag að störf dýralækna hjá hinu opinbera séu eftirsóknarverð. 
Það er bændum í hag að gera dýralæknum kleift að eflast faglega.
Það er bændum í hag að bæta kjör dýralækna.
 
Fyrir hönd Dýralæknafélags Íslands,
 
Guðbjörg Þorvarðardóttir, formaður 
Charlotta Oddsdóttir, meðstjórnandi
Gísli Sv. Halldórsson, 
gjaldkeri
Sigríður Gísladóttir, 
ritari.

Skylt efni: Verkfall dýralækna

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...