Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
„Mikill erfðabreytileiki er lykilþáttur til viðhalds frjósemi og hreysti í búfjárstofnum,“ segir Kristinn m.a. í grein sinni.
„Mikill erfðabreytileiki er lykilþáttur til viðhalds frjósemi og hreysti í búfjárstofnum,“ segir Kristinn m.a. í grein sinni.
Mynd / Aðsend
Lesendarýni 4. janúar 2023

Efling eiginleikanna

Höfundur: Kristinn Hugason, samskiptastjóri Ísteka.

Íslenski hesturinn kom hingað til lands með landnámsmönnunum. Nýjustu rannsóknir hafa leitt í ljós mikil líkindi erfðaefnis íslenska hestsins og þess hjaltneska sem og mongólska hestsins.

Kristinn Hugason.

Skyldleikinn við norsku hestakynin er hins vegar minni en við hefði mátt búast. Í ljósi landfræðilegrar legu bresku eyjanna og hversu oft landnámsmennirnir fóru þangað í víking, eru tengslin við Hjaltlandshestinn auðskýrð. Hvað skyldleika við mongólska hestinn varðar er skýringuna að finna í víkingaferðum norrænna manna í austurveg.

Í ljósi þess hve þröngt var í knörrum landnámsmanna, voru ekki flutt hingað önnur hross en þau sem töldust úrval. Þessi stofn myndaði grunninn að íslenska hestinum sem varðveist hefur hér hreinræktaður, þ.e. án nokkurrar innblöndunar annarra hrossakynja. Fornmenn stunduðu hrossarækt en ekki er minnst á kynbætur annars búpenings. Höfðingjum sögualdar þótti sómi af því að eiga metfé í stóði og enginn búpeningur er jafn oft nefndur í fornritunum og hrossin. Þegar frá leið og að landsmönnum þrengdi efnalega, lognaðist ræktunarstarfið út af og náttúruúrval varð svo gott sem allsráðandi.

Hestarnir hafa á öllum öldum Íslandsbyggðar haft sérstöðu meðal búpenings þjóðarinnar og ekkert húsdýranna stóð manninum nær en hestarnir auk hundsins. Ísland hefði líka verið óbyggilegt án hestsins. Hann nýttist til ferðalaga um veglaust land sem reið- og trússhestur, burðar- og dráttardýr við bústörfin og akhestur, eftir að kerrur og vagnar komu til sögunnar.

Kynbætur

Fyrstu skrif um kynbætur hrossa á Íslandi birtust árið 1788 og voru eftir Ólaf Stephensen stiftamtmann. Var það hvatning til landsmanna að bæta hrossin með úrvali og tilraun til að marka ræktunarstefnu. Lítið mjakaðist þó lengi vel og var það raunar ekki fyrr en upp úr aldamótunum 19-hundruð sem málin fóru að komast á nokkurn skrið. Þunginn í ræktunarstarfinu hefur svo aukist eftir því sem á hefur liðið.

Í sinni einföldustu mynd má segja að tilgangur búfjárkynbóta sé að bæta erfðahópinn sem í hlut á  með úrvali en lágmarka um leið skyldleikarækt. Það er að ná fram kynbótaframför í átt að settu kynbótamarkmiði. Hversu mikil kynbótaframför næst ræðst af því hversu stíft er valið úr stofninum, hversu öruggt úrvalið er og stærð erfðabreytileikans sem metinn er í stofninum. Árleg kynbótaframför er svo í öfugu hlutfalli við lengd ættliðabilanna. Það sem við metum eða mælum er það sem kallast svipfar eiginleikans, en eiginleikar hestsins eru oftar en ekki það sem kallast metnir eiginleikar, svipfarið samanstendur af erfðum og umhverfisáhrifum.

Í ræktunarstarfi hefur lengst af verið byggt á tveimur megin nálgunum; annars vegar einföldum erfðum (mendelskar erfðir) þar sem örfáir erfðavísar ráða öllu um útkomuna, s.s. erfðir lita, og hins vegar á samleggjandi erfðum. Þá ráða samleggjandi áhrif fjölmargra erfðavísa eðlisfari eiginleikans sem um ræðir, s.s. gangtegundir. Öll vinna á sviði samleggjandi erfða byggist á feiknamikilli tölfræði og sá heimur opnaðist því ekki að fullu fyrr en við tilkomu stórvirkrar tölvutækni. Á allra síðustu árum hefur svo opnast enn ný gátt sem er erfðamengisúrval sem töluvert hefur verið fjallað um í fréttum samfara því að aðferðin hefur verið tekin upp í nautgripakynbótum hér á landi.

Íslensk hrossarækt hefur verið framarlega, á heimsvísu má segja, allt frá árinu 1986 en þá var tekin upp hér ný aðferð til að reikna út kynbótamat (mat á gæðum erfðaeðlis hrossanna), svokölluð BLUP-aðferð. Nýr heimur erfðamengisúrvals virðist fljótt á litið lokaður hrossaræktinni því mun nærtækara er að hagnýta aðferðina við ræktun mældra eiginleika en metinna, þeir mældu ráðast oftar af sætum sem greina má í erfðaefninu. Nýjustu rannsóknir gefa þó vonir um að aðferðin geti nýst í hrossakynbótunum og þegar er eitt slíkt sæti þekkt sem er hinn svokallaði gangráður sem ræður því hvort hross geti skeiðað.

Mögulegar kynbætur fyrir blóðnytjum

Í gögnum sem Ísteka greindi frá í nýútgefinni skýrslu fyrirtækisins um starfsemina á árinu 2022 sést að markviss viðleitni til að velja úr þær hryssur sem eru afurðamestar í blóðnytjunum og setja frekar á unghryssur undan þeim, hefur bersýnilega leitt til aukinnar framleiðslu í þeim stóðum þar sem þetta er gert. Þetta sýnir að eiginleikinn sem verið er að vinna með er arfbundinn en á ákveðnu skeiði meðgöngu myndast í legi fylfullra hryssna sérstakt hormón.

Umrætt hormón er sykruð próteinsameind og nefnd Pregnant Mare Serum Gonadotropin (PMSG). Frjósemishormón þetta er mikilvægt upp á að meðgangan gangi eðlilega fyrir sig en er algerlega óviðkomandi folaldinu sem undir hryssunni gengur. Rannsóknir hafa jafnframt leitt í ljós að það hefur engin áhrif á fylið hvort þetta hormón mælist mikið eða lítið, lengur eða skemur í blóði hryssunnar umfram það að myndast í nægjanlegu magni á þessu skeiði meðgöngunnar og þjóni þá lífeðlisfræðilegum tilgangi sínum. Í undantekningartilvikum hefur það jafnvel gerst að það mælist ekki þótt hryssan sé fyljuð og kasti í fyllingu tímans heilbrigðu folaldi. Það er hins vegar mikilvægur framleiðslueiginleiki í blóðnytjunum að hormónið mælist sem lengst. Þessi framleiðslueiginleiki, auk sem mestrar frjósemi, eru lykileiginleikar í búskapnum, auk góðrar hreysti. Þessir tveir síðarnefndu lykileiginleikar; frjósemin og hreystin eru að auki grundvallareiginleikar í allri hrossarækt. Ekkert gengur upp svo vel sé, t.d. í ræktun afrekshrossa, sé frjósemi og hreysti ekki til staðar. Mikill erfðabreytileiki er lykilþáttur til viðhalds frjósemi og hreysti í búfjárstofnum. Þess vegna var tekið svo skýrt fram hér framar í greininni, að tilgangur búfjárkynbóta sé að lágmarka skyldleikarækt jafnhliða því sem búfjárstofninn sem í hlut á sé kynbættur. Skyldleikarækt leiðir til einsleitni og minnkar þar með erfðabreytileika.

Í ljósi þess sem fram er komið í greininni um hrossakynbætur almennt og mögulegar kynbætur fyrir blóðnytjum sérstaklega, er ljóst að þeir eru á villigötum sem telja að kynbótastarfi með íslenska hestinn gæti staðið ógn af þeirri viðleini að nýta fræðilegar aðferðir enn betur til að auka blóðnytjarnar. Þvert á móti er um gagnlegt starf að ræða. Erfðafjölbreytileiki íslenska hrossastofnsins er aukin og unnið eindregið að því að auka frjósemina sem sannanlega hefur látið undan síga í kynbótastarfinu á umliðnum áratugum. Hér er því um starf að ræða sem er allra hagur sem íslenska hestinum unna.

Ísteka vill á þakka árið sem er að líða og óskar lesendum öllum árs og friðar. 

Skylt efni: Ísteka | blóðmerahald

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...

Kosningar
Lesendarýni 29. nóvember 2024

Kosningar

Kæru kjósendur. Það er ekkert mikilvægara en að nýta atkvæðisréttinn sem svo mik...

Tryggjum nýliðun og skattalega hvata
Lesendarýni 29. nóvember 2024

Tryggjum nýliðun og skattalega hvata

Það eru vissulega forréttindi að búa í sveit, ala upp börnin sín í faðmi náttúru...

Verum til vinstri – verndum náttúruna
Lesendarýni 28. nóvember 2024

Verum til vinstri – verndum náttúruna

Á meðan Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur staðið vörð um náttúruna og gæt...

Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir búinu þínu
Lesendarýni 28. nóvember 2024

Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir búinu þínu

Að vera bóndi getur verið félagslega einangrandi, sérstaklega ef aldrei er svigr...

Eignarhald bænda á jörðum tryggir hag þeirra best
Lesendarýni 27. nóvember 2024

Eignarhald bænda á jörðum tryggir hag þeirra best

Umræða um jarðir, jarðaviðskipti og kynslóðaskipti í landbúnaði er og á að vera ...

Landbúnaður í velsældarhagkerfi
Lesendarýni 27. nóvember 2024

Landbúnaður í velsældarhagkerfi

Landbúnaður í heiminum öllum stendur frammi fyrir umbyltingu vegna framfara í ræ...