Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Blómlegar sveitir eru sjálfsmynd þjóðar
Mynd / HKr.
Lesendarýni 27. júní 2025

Blómlegar sveitir eru sjálfsmynd þjóðar

Höfundur: Sigmundur Ernir Rúnarsson, alþingismaður.

Það er brýnna en nokkru sinni að treysta búskap til sveita landsins og viðhalda jarðrækt á sem flestum býlum. Sérstakt átak í þeim efnum er nauðsynlegt á næstu misserum og getur varðað lánafyrirgreiðslu á hagstæðum kjörum og aðra hvata fyrir nauðsynlega nýliðun í atvinnugreininni, svo og breytta stefnu hvað varðar ríkisjarðir sem eru óþarflega margar hér á landi, líklega í námunda við þrjú hundruð. Þá eru ónefndar lagabreytingar sem koma í veg fyrir að efnamiklir útlendingar geti keypt upp heilu og hálfu dalina, án þess að fyrir liggi atvinnustarfsemi og landnýting. Loks er vel við hæfi að auðvelda bændum sölu á vörum sínum, beint frá býli.

Við erum öll úr sömu sveit

Mest um vert er að snúa vörn í sókn, enda varðar málið sjálfsmynd þjóðarinnar. Ásýnd Íslands biði mikinn hnekki ef eyðibýlum myndi fjölga að miklum mun, jafnt fram til dala og út með nesjum og töngum, að ekki sé talað um ef blómleg héruð og hreppar visni og fari í órækt. Búskapur er nefnilega ekki einasta mikilvæg atvinnugrein, heldur er slíkur menningarbragur að honum að líkja verður að öllum líkindum við heildarhugmynd Íslendinga um sjálfa sig.

Við erum nefnilega öll úr sömu sveit, eins og atorkusöm bændaforysta landsins hefur bent svo réttilega á í nýlegu kynningarátaki sínu. Og hvort sem lögheimilið er að finna í borg eða bæjum, ellegar út um dreifðustu byggðir, hringinn í kringum landið, eru svo til allir landsmenn í ríkum tengslum við landbúnað, ef ekki sakir forfeðra og ættartengsla, ellegar ákafrar og einlægrar matarástar, þá vegna þeirrar sannfæringar að landinu sé miklu betur borgið í byggð en eyði.

Fæðuöryggi er lykilatriði

Fjöldamörg önnur rök hníga í sömu átt. Og ber þar fæðuöryggi hátt. Það varðar þjóðaröryggi að Ísland halli sér sem næst sjálfbærni í matvælaframleiðslu, og sé aflögufært á sem flestum sviðum í þeim efnum. Veldur þar miklu að vaxandi blikur eru á lofti í heimsmálum, svo ekki sé meira sagt, en þá ber eins að horfa til þess að tilflutningur matvæla frá fjarlægum álfum mun sæta æ ríkari gagnrýni á komandi árum vegna umhverfissjónarmiða. Það er stórvægilegur mengunarþáttur að fylla flutningaskip og fraktvélar af allra handa aðföngum sem auðvelt væri að framleiða heima fyrir, ef aðstæður og stuðningur væru fyrir hendi.

Það er engin ástæða til annars en að óska íslenskum landbúnaði farsældar í framtíðinni. En hann þarf að taka sér tak. Hann á öðru fremur að minna á sóknarfæri sín og styrkleika á komandi tímum, fremur en að verjast eilíflega sakir veikleika sinna. Það ber að auka framleiðslu á sem flestum póstum, hvort heldur er varðar mjólk og osta, kjötafurðir og grænmeti til að mæta stóraukinni spurn eftir matvælum á næstu árum þegar saman fer fjölgun íbúa og ferðafólks, svo um munar.

Stuðningur borgar sig

Það borgar sig að styrkja íslenskan landbúnað. Það á að gera það kinnroðalaust. Allar aðrar þjóðir Evrópu gera slíkt hið sama, af ástæðum sem rekja má til margra þátta sem hér hafa verið nefnd að ofan.

Það er kappsmál að byggðir blómstri. Ásýnd landsins er ekki aðeins í húfi, heldur líka hefðir og saga og arðbær og öflug framleiðsla á úrvalsvörum sem vöntun er á.

Sá sem hér heldur á penna mun tala í þessa veru á Alþingi á komandi árum.

Nauðsyn þín er tekjulind okkar
Lesendarýni 26. janúar 2026

Nauðsyn þín er tekjulind okkar

Einhvers konar skattheimta er óhjákvæmilegur hluti samfélags. Skattar eru ekki v...

Fornleifar og skógrækt
Lesendarýni 26. janúar 2026

Fornleifar og skógrækt

Fornleifar kunna að þykja áhugaverðar, enda oft gaman að horfa til baka um farin...

Sorpbrennsla á Íslandi – besta lausnin?
Lesendarýni 26. janúar 2026

Sorpbrennsla á Íslandi – besta lausnin?

Við Íslendingar framleiðum margvíslegan úrgang, allt frá heimilis- og iðnaðarúrg...

Tími íslenskrar náttúru er núna
Lesendarýni 16. janúar 2026

Tími íslenskrar náttúru er núna

Atvinnustefna Íslands, vaxtarplan ríkisstjórnarinnar til ársins 2035 liggur fyri...

Íslenskari en ...
Lesendarýni 6. janúar 2026

Íslenskari en ...

Algeng er sú rökvilla að nútíminn mínus öld eða tvær sé einhvers konar hápunktur...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2025

Við áramót

Árið 2025 var prýðisgott ár til lands og sjávar. Þess naut sannarlega við í blóð...

Vetrarbeit og válynd veður
Lesendarýni 22. desember 2025

Vetrarbeit og válynd veður

Er nokkuð jólalegra en maður, sauður og hundur á ferð í myrkri og kafaldsbyl á ö...

Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar
Lesendarýni 22. desember 2025

Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar

Þetta fyrsta ár mitt í embætti atvinnuvegaráðherra hefur verið allt í senn fjölb...