Jarmað, hneggjað, baulað ...
Mælaborð landbúnaðarins er þróunarverkefni á vef Stjórnarráðsins. Um frábært verkefni er að ræða þar sem nálgast má ýmsar tölur um til dæmis framleiðslu á kjöti og grænmeti, birgðastöðu, innflutning og sölu allt þar til í apríl síðastliðnum. Einnig er þar að finna yfirlit yfir stuðningsgreiðslur við bændur samkvæmt búvörusamningum. Markmiðið er að nota megi þetta verkfæri til þess að fylgjast með framkvæmd á búvörusamningum, þróun markmiða sem sett eru í samningunum og landbúnaðarstefnu auk þess að það stuðli að fæðuöryggi. Um leið nýtist það auðvitað öllum sem fylgjast með gangi mála í landbúnaði og matvælaframleiðslu.
Framtakið er gott en það er ástæða til þess að brýna Stjórnarráðsfólk til þess að klára verkefnið og koma því í fulla starfsemi. Nokkuð vantar upp á rekstur mælaborðsins og viðhald. Nýjustu tölur eru ekki alveg nýjar. Spyrja má hvers vegna framleiðslutölur undanfarinn mánuð eru ekki tiltækar í mælaborðinu. Og væri í raun nokkuð því til fyrirstöðu að hafa tölur síðustu viku aðgengilegar? Hversu margir mjólkurlítrar skiluðu sér og hversu mörg voru eggin? svo dæmi séu nefnd. Nokkurs ósamræmis gætir sömuleiðis á milli búgreina. Sumar þeirra fá betri þjónustu á mælaborðinu en aðrar. Þessu þarf að breyta og vafalítið stendur það til, enda um þróunarverkefni að ræða. Það er hins vegar varla hægt að bíða mikið lengur með það að hafa áreiðanlegan og uppfærðan talnagrunn fyrir landbúnaðinn í landinu. Hvernig er annars ætlunin að fylgjast með framkvæmd búvörusamninga? Hvernig er annars ætlunin að framfylgja markmiðum landbúnaðarstefnu og stuðla að fæðuöryggi? Hvernig vita yfirvöld hvort það er skortur á til dæmis eggjum í landinu ef þau hafa ekki nýjar og uppfærðar tölur um framleiðslu eggja í landinu á síðustu dögum, vikum og mánuðum?
En aftur skal tekið fram að viðleitni Stjórnarráðsins er góð. Tölur úr rekstrar- og efnahagsyfirliti landbúnaðarins á vef Hagstofunnar hjálpar líka þó að þar vanti líka nýrri tölur. Um er að ræða sögulegan vanda. Utanumhald um hagtölur landbúnaðarins hafa verið í skötulíki allt frá því að Hagstofa landbúnaðarins var lögð niður upp úr aldamótunum. Einhverra hluta vegna þótti fólki ekki ástæða til að halda utan um þessar upplýsingar lengur í miðju góðærinu en sem betur fer hefur vitundin um mikilvægi þeirra nú vaknað á ný. En betur má ef duga skal.