Auka, ekki draga úr
Leiðari 13. júní 2025

Auka, ekki draga úr

Höfundur: Þröstur Helgason, ritstjóri

Íslendingar eru sjálfum sér nógir um margar landbúnaðarafurðir. Gera má ráð fyrir að eggja- og mjólkurbændur sjái okkur fyrir um það bil 90% af eggjum og mjólkurvörum en innflutningur á nautakjöti og svínakjöti hefur aukist nokkuð á allra síðustu árum. Í apríl síðastliðnum var 48,4% þess nautakjöts sem selt var í landinu innflutt, ef marka má mælaborð landbúnaðarins á vef Stjórnarráðsins, og 26,3% þess svínakjöts sem seldist var flutt inn. Mælaborðið sýnir hins vegar lítið hlutfall innflutts alifuglakjöts á markaði síðustu mánuði. Lítið sem ekkert er hins vegar flutt inn af lambakjöti. Íslenskt grænmeti hefur svo um helmings markaðshlutdeild hér á landi en einungis um 1% af því korni sem við notum til manneldis er framleitt innanlands.

Ein af spurningunum sem mun koma upp í væntanlegum búvörusamningum er sú hvort framleiða eigi meira af landbúnaðarvörum hér innanlands. Hinn kosturinn er augljóslega meiri innflutningur. Þegar Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra er spurð í fyrsta þætti Útvarps Bændablaðsins, sem má finna á vef blaðsins (bbl.is), hvort stjórnvöld vilji auka landbúnaðarframleiðsluna innanlands, þá bendir hún á að svarið hljóti að taka mið af því hvað neytendur vilji og hvernig neyslan þróast.

„Og ég er ekki sammála því að neytendur vilji sem ódýrastan mat og þeim sé alveg sama um annað. Það er ekki okkar reynsla,“ segir hún og enn fremur: „En ég er almennt ekki á því að ríkið eigi að segja til um það hvernig mat eigi að framleiða hér eða selja, hvort það séu innlend matvæli eða innflutt, heldur að leikreglurnar hér séu þannig að frumframleiðendur hafi tækifæri til þess að framleiða mat sem íslenskir neytendur vilja kaupa og neyta.“

Almennt má taka undir það sjónarmið að ríkið hafi ekki of mikil afskipti af því hvað bændur séu að rækta, en fram hjá því verður þó varla horft að ríkisstuðningur við landbúnað, hverrar gerðar sem hann nú er, hefur áhrif á það hvað bændur framleiða. Það er reynslan af opinberum stuðningi við landbúnað um allan heim. Stuðningurinn miðar víðast að því að tryggja íbúum hvers lands nógan mat en líka sem heilnæmastan mat og sjálfbæra og umhverfisvæna framleiðsluhætti. Þetta eru nefnilega þær kröfur sem neytendur víðast hvar ætlast til að landbúnaðarframleiðslan í grófum dráttum standi undir.

Um Ísland gildir það sama, en þó skapar einangrun landsins úti í miðju Norður-Atlantshafi okkur nokkra sérstöðu þegar kemur að stuðningi við frumframleiðendur matvæla. Áherslan hlýtur að verða meiri á fæðuöryggi og sjálfbærni framleiðslunnar, að bændur nái að framleiða nóg af mat handa fólkinu sem hér býr og þeir geri það án þess að ganga um of á náttúruleg gæði landsins. Það verður varla gert nema með því að stýra framleiðslunni upp að vissu marki eins og gert hefur verið. Og þegar haft er í huga að íslenskar landbúnaðarvörur eru meðal þeirra heilnæmustu og hreinustu sem framleiddar eru, þá hljóta það að vera hagsmunir neytenda að hér verði haldið áfram að framleiða þessar vörur af þeim krafti sem hingað til hefur verið gert og helst meiri.

Svo það sé sagt hreint út, þá má ekki takast svo slysalega til með nýtt stuðningskerfi landbúnaðarins, sem ráðherra hefur boðað, að það beinlínis dragi úr framleiðslu íslenskra landbúnaðarvara. zÞað myndi raunar ekki bara vinna gegn hagsmunum neytenda heldur einnig umhverfisins, loftslagsins og byggðanna vítt um landið. 

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 30. júní 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins mælist til þess að stöðvuð verði aukin samvinna...

Almenningur í forgang
Leiðari 27. júní 2025

Almenningur í forgang

Tvö frumvörp eru í pípunum sem munu breyta starfsumhverfi bænda og kannski sérst...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 18. júní 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Mælaborð landbúnaðarins er þróunarverkefni á vef Stjórnarráðsins. Um frábært ver...

Auka, ekki draga úr
Leiðari 13. júní 2025

Auka, ekki draga úr

Íslendingar eru sjálfum sér nógir um margar landbúnaðarafurðir. Gera má ráð fyri...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 3. júní 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Efist einhver um miklar breytingar á landbúnaði undanfarna áratugi má rýna í töl...

Í gegnum moldviðrið
Leiðari 30. maí 2025

Í gegnum moldviðrið

Gríðarlegar breytingar hafa orðið á íslenskum landbúnaði á þessari öld og væri h...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 19. maí 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Það vakti athygli margra að í nýjustu ráðleggingum embættis landlæknis um mataræ...

Landeldi vex fiskur um hrygg
Leiðari 15. maí 2025

Landeldi vex fiskur um hrygg

Gríðarleg uppbygging á sér nú stað hjá íslenskum landeldisfyrirtækjum. Fram kemu...