Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Frá opnu húsi Garðyrkjuskólans að Reykjum. Starfsfólk og nemendur skólans seldu íslenskt grænmeti á markaðstorginu.
Frá opnu húsi Garðyrkjuskólans að Reykjum. Starfsfólk og nemendur skólans seldu íslenskt grænmeti á markaðstorginu.
Mynd / GHP
Skoðun 28. apríl 2022

Hækkanir matvælaverðs í heiminum eiga sér vart fordæmi

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands - gunnar@bondi.is

Gleðilegt sumar, ágæti lesandi, og takk fyrir veturinn sem hefur verið á margan hátt ögrandi og ekki síður gefandi. Það hefur verið venja í gegnum árin að Garðyrkjuskólinn bjóði heim á sumardaginn fyrsta og var svo í ár. En nú er staðan sú að öllum starfsmönnum skólans hefur verið sagt upp og framtíð námsins og starfseminnar óljós.

Ráðherra menntamála hefur sagt að starfsemin fari undir Fjölbrautaskóla Suðurlands, en enn er óleyst aðstaða skólans hvort það verði á forræði  Landbúnaðarháskólans eða FSU. Ég vil hvetja ráðamenn þjóðarinnar til að höggva á þennan vandræðalega hnút sem er uppi og bera hag starfsmenntanámsins fyrir brjósti svo starfsemi að Reykjum megi vera vagga umhverfis- og garðyrkjunáms til framtíðar.

Gögn sýna að innflutt matvæli eru líka að hækka í verði

Á dögunum birtist frétt á miðlum ljósvakans þar sem rætt var við hagfræðing ASÍ þar sem talsvert var rætt um verðhækkanir á matvælum og talað um ofurhækkun á íslenskum landbúnaðarvörum. Það er athyglisvert að í fréttinni er fullyrt að „verð á mjólkurvörum og kjöti hefur hækkað mun meira en verð á innfluttri matvöru síðastliðið hálft ár“.  Þetta er ekki í fullu samræmi við það sem kemur fram ef skoðuð eru gögn yfir verðlagsþróun hjá Hagstofu Íslands.  Matvörur eru að hækka um 4% síðustu 6 mánuði (október 2021–mars 2022).  Þar af er kjöt að hækka um 7,6% og mjólkurvörur um 3,8%. Hins vegar eru vöruflokkar þar sem við finnum einkum innfluttar matvörur að hækka líka. Hér má nefna kaffi, te og kakó, sem hækkar um 5,3% yfir tímabilið, og brauð og kornvörur, sem hækka um 5% yfir tímabilið. Fullyrðingar í fréttinni um að verð á mjólkurvörum og kjöti hafi hækkað mun meira en verð á innfluttri matvöru síðastliðið hálft ár stenst því ekki skoðun.  Það er hins vegar full þörf á því að fylgjast vel með þróun þessara mála á næstunni, því miðað við þær fréttir sem nú berast erlendis frá eru líkur á að matvælaverð muni fara hækkandi.

Matvælaverð erlendis er líka að hækka

Árið 2021 hækkaði matvælaverð í heiminum um 28,1% samkvæmt vísitölu matvælaverðs  sem Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hefur gefið út frá árinu 1990. Vísitala matvælaverðs hefur síðan hækkað um 19% það sem af er þessu ári, að mestu eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. Þetta eru hækkanir á matvælaverði sem eiga sér vart fordæmi og er þegar farið að bitna á fátækari þjóðum heimsins. Því er spáð að matvælaverð í heiminum haldi áfram að hækka og að aukinn kostnaður dragi úr framleiðslunni. Við þessari þróun þarf að sporna og tryggja það að landbúnaðarframleiðsla dragist ekki saman.

Frá upphafi árs 2021 hefur matvælaverð í Evrópu hækkað um 7,3% samkvæmt gögnum frá Eurostat. Á sama tíma hefur verð á matvælum á Íslandi hækkað um 5,1% samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands.  Hækkun matvælaverðs hér á landi er í samræmi við þróun sem á sér stað erlendis.

Hver á að framleiða matinn?

Skilaboð ASÍ til bænda voru skýr. Opna þarf fyrir aukinn innflutning á matvælum og þar með flytja út störf sem unnin eru hér á landi. Er hægt annan daginn að berjast fyrir hækkun launa, sem sannarlega er þörf á, hinn daginn kalla eftir því að fluttar verði inn matvörur frá löndum sem greiða lægri laun? Er það sú samfélagslega ábyrgð sem ASÍ er að boða?

Það er taktlaust að ráðast á innlenda matvælaframleiðslu sem einhvern blóraböggul vegna hækkana á matvælaverði í heiminum.  Reyndar má segja að á síðustu árum hafi bændur tekið á sig gífurlega kjaraskerðingu í formi lækkaðs afurðaverðs sem m.a. annars hefur haldið á móti hækkun matvæla og verðbólgu. Aðföng í landbúnaði eru að jafnaði að hækka um 20–30% milli ára. Ef bændum er ekki tryggð afkoma af sinni frumframleiðslu þá mun þeirra framleiðsluvilji hverfa. Í heimi með hækkandi matvælaverði og minnkuðu framboði þurfum við sem þjóð að ákveða hver á að framleiða okkar mat og hafa atvinnu af því.

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...