Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Bestu óskir um farsæl komandi ár
Af vettvangi Bændasamtakana 6. febrúar 2025

Bestu óskir um farsæl komandi ár

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

Bændasamtökin eiga sér enga ósk heitari en að ný ríkisstjórn eigi mörg farsæl ár fram undan. Og ekki síður að sama gildi um mögulegan arftaka hennar hvenær sem hann tekur við keflinu. Þjóðin öll þarf nefnilega á stöðugleika og styrkri stjórn að halda. Hún þarf ríkisstjórn sem setur sig af kostgæfni inn í málin og tekur vel ígrundaðar ákvarðanir sem vonandi verður svo hrundið í framkvæmd í góðri sátt bæði við þjóðina og einstaka haghafa.

Trausti Hjálmarsson.

Og það verður ekki annað sagten að ríkisstjórninni fylgi góðar óskir frá fleirum en okkur. Um 70% þjóðarinnar styðja hana – reyndar mun fleiri en þeir sem styðja flokkana sem standa henni að baki. Það verður væntanlega ekki skilið öðruvísi en að fólk treysti liðsheildinni og ábyggilega ekki hvað síst samstarfi valkyrjanna þriggja sem fyrir flokkunum fara. En það blikka viðvörunarljós sem segja okkur að hvað ríkisstjórnina varðar ættum við að minnsta kosti að fylgja heilræðum Hávamála um að lofa dag að kveldi.

Það getur ekki verið að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að taka núgildandi búvörulög úr sambandi áður en Hæstiréttur úrskurðar um lögmæti þeirra uppfylli væntingar okkar um vel ígrundaðar ákvarðanir eftir undirbúning sem unninn er af kostgæfni. Engin skýring hefur fengist á óðagotinu enda þótt um hana hafi verið spurt á blaðamannafundinum.

Í sjálfu sér kann það að vera virðingarvert sjónarmið nýrrar ríkisstjórnar að ný búvörulög séu einfaldlega „ólög“ eins og núverandi utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar sagði. Þess vegna vilji hún vinda ofan af hagræðingarmöguleikum nýju laganna. Um leið blasir það við að tekjur bænda munu ekki hækka með þessari aðferðinni. Annað þarf að koma til. Á meðan sami ráðherrann talar á sama blaðamannafundinum um nauðsyn þess að efla hag bænda og landbúnaðarins með ýmsum ráðum verða þau orð innantómur fagurgali nema á leiðirnar sé bent.

Þingmálaskráin sem kynnt var til leiks inniheldur líka yfirlýsingar um breytingar á tollalöggjöfinni sem til þessa hefur slegið ákveðinni skjaldborg utan um landbúnaðinn. Eitt atriði er sérstaklega tekið til og því lýst yfir að héðan í frá verði á nýjan leik heimilað að flokka mjólkurost sem jurtaost og flytja hann þannig inn til landsins án hefðbundinnar tollverndar. Pennastrikið í ráðuneytinu er kannski hvorki stórt né fyrirhafnarmikið. Það er hins vegar ekki ólíklegt að það hafi í för með sér þriggja milljóna lítra samdrátt í mjólkurframleiðslu, eða meira. Það jafngildir framleiðslu um tólf eða fleiri meðalstórra mjólkurbúa. Jafnmargir bændur ásamt fjölskyldum sínum myndu þá bregða búi.

Á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar, og enn þá síður í þingmálaskránni, er hvergi minnst á þá vágesti sem ógna um þessar mundir fæðuöryggi þjóðarinnar. Stríðsátökin sem stöðugt færa sig nær okkur og tollastríðið sem nýr forseti Bandaríkjanna hefur hleypt af stokkunum eru bein ógn við íslenska þjóð. Ekki einhvern tíma seinna heldur nákvæmlega núna. Almannavarnir vinna að gerð leiðbeininga til landsmanna brjótist út stríðsátök hér á landi eða annars konar vá. Danir, Norðmenn, Finnar og nú síðast Svíar hafa allir uppfært áætlanir sínar og sent almenningi leiðbeiningar um hvernig þeir eigi að búa sig undir stríð eða annars konar hættuástand. Almenningur hér á landi má vænta sambærilegra skilaboða á næstu mánuðum.

Á þennan nýja veruleika sem öryggi þjóðarinnar býr við, m.a. hvað varðar matvælaforða sinn og matvælaframleiðslu, er hvergi minnst þegar ný ríkisstjórn horfir til næstu hundrað daga. Nema kannski að því leytinu til að stórauka rekstrarerfiðleika landbúnaðarins með neyðarhemli á hagræðingu og yfirlýsingu sem felur í sér stórfelldan samdrátt í mjólkurframleiðslu.

Ég vil enn þá trúa á allt hið góða í fólki. Það gildir líka um nýja ríkisstjórn enda þótt hún fari fljótfærnislega af stað í okkar málum. Auðvitað vill hún vel og vonandi á hún eftir að sýna það í verki og þá ekki síst á þeim sviðum sem varða þjóðarhag miklu. Þar leikur íslenskur landbúnaður stórt hlutverk. Eftir gott samtal síðustu misserin og mikil skoðanaskipti við þingmenn og frambjóðendur allra flokka í nýafstaðinni kosningabaráttu eru bændur ekki í nokkrum vafa um að viðfangsefni þeirra, bæði í vörn og sókn, munu jafnt njóta skilnings og stuðnings innan stjórnar sem stjórnarandstöðu.

Fyrsta stóra samstarfsverkefni bænda og stjórnvalda verður gerð nýrra búvörusamninga. Þar mun virkilega reyna á hvort ríkisstjórnin hyggist standa við stóru „fögru“ orðin eða hvort hún heldur áfram að sýna okkur tennurnar með þeim hætti sem raun bar vitni á kynningu þingmálaskrárinnar. Ég hlakka til þessa langa og mikilvæga samtals. Eftir ánægjuleg fyrstu kynni mín af nýjum atvinnuvegaráðherra, sem leiða mun samningaviðræðurnar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, er ég vongóður um að okkur muni takast vel upp. Ég er sem sagt bjartsýnn eins og venjulega og hlakka til þegar ný stjórnvöld sýna okkur hina hliðina á peningnum. Þar á ég við hvernig þau hyggist bæta okkur tekjutapið sem við blasir – og kannski rúmlega það. Þar mun vonandi sjást hvernig hagur okkar muni vænkast í góðu samstarfi við nýja stjórnarherra.

Nauðsyn þín er tekjulind okkar
Lesendarýni 26. janúar 2026

Nauðsyn þín er tekjulind okkar

Einhvers konar skattheimta er óhjákvæmilegur hluti samfélags. Skattar eru ekki v...

Fornleifar og skógrækt
Lesendarýni 26. janúar 2026

Fornleifar og skógrækt

Fornleifar kunna að þykja áhugaverðar, enda oft gaman að horfa til baka um farin...

Sorpbrennsla á Íslandi – besta lausnin?
Lesendarýni 26. janúar 2026

Sorpbrennsla á Íslandi – besta lausnin?

Við Íslendingar framleiðum margvíslegan úrgang, allt frá heimilis- og iðnaðarúrg...

Tími íslenskrar náttúru er núna
Lesendarýni 16. janúar 2026

Tími íslenskrar náttúru er núna

Atvinnustefna Íslands, vaxtarplan ríkisstjórnarinnar til ársins 2035 liggur fyri...

Íslenskari en ...
Lesendarýni 6. janúar 2026

Íslenskari en ...

Algeng er sú rökvilla að nútíminn mínus öld eða tvær sé einhvers konar hápunktur...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2025

Við áramót

Árið 2025 var prýðisgott ár til lands og sjávar. Þess naut sannarlega við í blóð...

Vetrarbeit og válynd veður
Lesendarýni 22. desember 2025

Vetrarbeit og válynd veður

Er nokkuð jólalegra en maður, sauður og hundur á ferð í myrkri og kafaldsbyl á ö...

Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar
Lesendarýni 22. desember 2025

Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar

Þetta fyrsta ár mitt í embætti atvinnuvegaráðherra hefur verið allt í senn fjölb...