Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Ýviður – tré lífs og dauða, eilífðarinnar, upprisu og endurnýjunar
Á faglegum nótum 25. febrúar 2016

Ýviður – tré lífs og dauða, eilífðarinnar, upprisu og endurnýjunar

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Askurinn Yggdrasill ­stendur á Iðavöllum, sígrænn yfir Urðarbrunni þótt ausinn sé hvítum auri. Af honum bíta hindir og verður ekki meint af.

Hann er svo gamall að níu kynslóðir tröllkvenna, sem allra kvikinda verða elstar, muna hann sem nýsprottið ungviði. Og hinn bogfimi Ullur í Ýdölum gerir sér skíði, boga og örvar úr greinum hans og er fyrir vikið með mestu köppum Ásheima.

Tákn og skilningur á skáldskapnum

Margir táknfræðingar sem gert hafa sér far um að lesa úr Eddukvæðunum hallast að því að askurinn Yggdrasill hafi alls ekki verið trjátegundin sem við almennt köllum ask. Heldur sé askur hér sem kenning fyrir tré almennt. Yggdrasill, heimstréð fjörgamla en síunga og sígræna, gálginn fyrir píslarvættishengingu Óðins, möndull viðburðanna og hlífiskjöldur allra athafna.

Úr kvistum hans urðu þau til, Askur og Embla, sem æsirnir Óðinn, Hænir og Lóður blésu svo mannlífi í. Lim hans myndaði himinhvolfið og ræturnar héldu saman þeim örlagavef sem spannst á jarðarhvelinu. Og ef við heimfærum allt þetta á eina trjátegund sem hægt er að skilgreina grasafræðilega kemur aðeins ýviðurinn til greina. Enda verður askur aldrei neitt sérlega bosmamikið, langlíft eða mikilúðugt tré. Hvað þá iðagrænt árið um kring.

Heitið „barraskur“ var eitthvað notað um ývið til forna. Það hefur breyst í „barrlind“ í norsku, dönsku og nokkrum sænskum mállýskum. Þá dregið af því að hægt var að nota trefjarnar innan úr berkinum í bönd líkt og lindibast.

Tvær rúnir fornar

Þrettánda rúnin, „iwaz“ eða „eeoh“, í engilsaxnesku fúþark-rúnunum er strik með stuttu skástriki að ofan til hægri og öðru slíku upp til vinstri. Hún táknar ývið og hljóðið mun hafa verið einhvers konar blásið i-hljóð í frumgermönsku, blendingur af j-og-ð. Á norrænu varð það að „íð“ eða „ið“. Það heldur sér í sænsku. Þar heitir ýviður „id“ eða „idegran“. Og þetta forna heiti ýviðarins er einnig tengt mörgum staðar- og mannanöfnum. Fyrst og fremst „hittust æsir á Iðavöllum“ og Iðunn er fulltrúi eilífðar og endurnýjunar sem holdgervingur hans. Ívar er sá er sá sem skýtur með ýviðarboga og hefur ávallt sigur.

Bæir eins og Ystad á Skáni og Isted sem áður var í Danmörku en tilheyrir nú Slésvík í Þýskalandi og er skrifað Idstedt upp á þýsku. Staðarnöfn tengd ýviði eru um alla Vestur-Evrópu en oft erfitt að greina þau vegna þess hve frumhljóðið er reikult í framburði og stafsetningu, það er nú ýmist táknað með y, ý, i, í eða ei eftir því hvaða tungumál á í hlut.

Enska heitið er yew og þaðan mun vera komið íslenska heitið ýr, þótt eiginlega þýði orðið – og rúnin „ýr“ í yngra fúþark-rúnakerfinu - bogi úr ýviði, ekki tréð sjálft sem tegund. Ég held mig við ývið þess vegna, en sætti mig samt við ýr-heitið sem endingu á tegundaheitum þegar ýviðir eru skilgreindir með íslenskum nöfnum. Reyndar hafa birst á íslensku heiti eins og „barrlind“ og „bogviður“ þegar ýviðir eru til umfjöllunar. Hvorugt þessara heita eru viðunandi sé litið til menningarsögunnar.


Átta tegundir

Ýviður, Taxus baccata L., er ein af átta tegundum ýviða sem dreifðar eru um þau svæði Norðurhvels þar sem laufviðir og barrtré vaxa hvað um annað, sunnan hinna eiginlegu barrskóga. Fjórar tegundir eru í Norður-Ameríku og þrjár í Austur-Asíu.

Ættkvíslin er forn og tilheyrir frumættbálki barrviða. Tegundirnar æxlast auðveldlega hver með annarri og eignast fullburða og frjóa einstaklinga sín á milli. Þannig að sumir halda því fram að tegundin sé í raun og veru aðeins ein en hafi aðskilist og einangrast vegna ísalda og landreks fyrir hundruðum árþúsunda.

Í Evrópu er aðeins ein tegund, sá sem við köllum bara ývið. Hann er að finna frá Kaspíahafi, vestur um Kákasus og Evrópu alla leið til Skotlands og Írlands. Til norðurs nær hann til suðurhluta Skandinavíuskagans og yfir Kirjálabotn til syðstu byggða Finnlands síðan um Rússland, Hvítrússland og Úkraínu austur til Úralfjalla. Til Bretlandseyja barst hann  meðan England og Írland voru landföst meginlandinu sem hæstu toppar á geysivíðfeðmu en láglendu svæði sem náði yfir þar sem nú er Skánn, Danmörk,  Norðursjór og nokkuð vestur fyrir Írland.

Ýviðurinn evrópski hefur víðfeðmasta útbreiðslusvæði allra ýviðartegundanna. Aðrar tegundir eru staðbundnari og á afmörkuðum svæðum og yfirleitt í fremur fáliðuðum stóðum á hverjum stað. En þrátt fyrir að útbreiðsla evrópuýviðarins sé þetta dreifð, á hann alls staðar í vök að verjast og til eru skrár um einstaklingsfjölda ýviða í flestum Evrópulöndum. Allt sem allt stendur varla eftir nema um ein milljón uppvaxinna ýviða í Evrópu. Alls staðar er hann undir eftirliti og víða alfriðaður. Nokkuð er unnið í því að endurheimta ýviðinn með nýplöntun.

Með hægðinni hefst það

Ýviður vex hægt, rétt tosast áfram og bætir varla við sig nema sem nemur einni til tveim spönnum á ári. Og hann hefur tilhneigingu að vaxa á alla kanta en verður aldrei að háum og reisulegum trjám. Um leið og trén hafa náð tólf til fimmtán metra hæð hætta þau að bæta við öðru en því sem kalla má eðlilegt viðhald í hæðarvöxtinn en leggja þeim mun meiri áherslu á að senda upp nýja boli frá rótarhálsi og mynda þétt og þykk bolaknippi sem gera trén mjög breið. Þau sýnast einstofna til að sjá en þegar að er gáð vaxa bolirnir saman og vefjast hver um annan.

Því myndar ýviður ekki eiginlegan kjarnavið sem auðvelt er að aldursgreina. Og ýviðartré hafa því tilhneigingu í að verða hol að innan með tímanum. Því reiknuðu menn aldurinn út með því að mæla umfang bolsins eftir ákveðinni formúlu. Á norðurmörkum ýviðarins myndar hann helst lágar beðjur í skjóli stærri trjáa.

Sjaldgæft er að sjá hann sem reisulegt tré. Þó eru samt til nokkrir stórir ýviðir sem hefur verið plantað við kirkjur og herragarða í Danmörku og á Skáni. Við kirkjuna í Österslöv rétt norðan við Kristianstad standa nokkrir státlegir ýviðir – um 10 metra háir. Talið er að þeir hafi verið gróðursettir þar á árunum 1570–1600. Þá var Skánn danskt landsvæði og presturinn sem þjónustaði söfnuðinn var danskur og trén líklega af dönskum uppruna. Talið er að þetta séu elstu ýviðir Svíþjóðar, en þar vaxa ýviðir strjált í gömlum álm- og beykiskógum. En alls staðar sem lágvaxnir runnar.

Öldungur hefur kynjaskipti í ellinni

Aldursgreining á gömlum ýviðar­trjám er mikið sport og hefur verið iðkuð um margar aldir á Bretlandseyjum og meginlandi Evrópu. Meginlandstrén hafa mörg bókfærða þrettán til fimmtán alda sögu. En í byggðalögum Bretlandseyja eru nú að mælast ýviðir sem eru að minnsta kosti þrjú þúsund ára gamlir. Lengi vel var ýviður sem stendur í bænum Fortingall við Perthfjörð í Skotlandi talinn sá elsti með sínar tvö til þrjúþúsund ára gömlu rætur. Hann var upphaflega karlkynstré, ýviðir eru sérbýlistré, en á síðustu árum hefur hann haft kynskipti og ber nú frjó aldin sem hefur verið safnað og sáð af skoskum skógræktarmönnum.

Þannig að það er víst aldrei of seint að fá leiðréttingu á sínum málum, þótt kynuslinn hafi blundað í trénu í tuttugu aldir og kannski vel það. En líklega sannar þetta bara að aldnir geti ávallt tileinkað sér tækifæri og tíðaranda yngstu kynslóðanna.

Elsta tré Evrópu?

En nýlega var Fartingall-ýviðnum velt úr sessi aldursforsetans, því að í afskekktu þorpi suður í Wales, St.Cynog, er nýlega búið að mæla og skilgreina ývið sem talinn er vera að minnsta kosti 5000 ára gamall samkvæmt C14 aðferðinni. Og þá er átt við þann hluta hans sem ofan jarðar stendur. En í rótarleifum undir innsta kjarna hans mælist aldurinn vera 9000 ár. Það fæst hins vegar ekki staðfest sem aldur St.Cynog-ýviðarins vegna þess að ofanvöxt við þær leifar var ekki að finna. En reynist þetta rétt hefur St.Cynog-ýviðurinn verið búinn að skjóta rótum þarna nokkrum öldum áður en England aftengdist meginlandinu.

Ýviðirnir hér að ofan eru báðir á kirkjustöðum. Í hinum ævagömlu launhelgum Drúíða á Bretlandseyjum var – ekki síður en í ásatrú – mikil helgi á ýviðum. Blót voru haldin undir öldnum ýviðartrjám. Þegar kristinn siður komst á voru kirkjur byggðar á gömlu blótsstöðunum við ýviðartrén svo að víða á Bretlandseyjum standa ævagömul ýviðartré við kirkjur frá upphafi kristnihalds.

Lög og regla

En ekki eru samt öll hin öldnu og helgu ýviðartré kirkjum tengd lengur því að í aflögðu nunnuklaustri af benediktínareglunni sem stóð á hólmanum Ankerwycke og umlukinn er Thamesánni á flesta vegu, ekki ýkja langt frá Windsorkastala norðvestur af Lundúnum, stendur aldinn ýviður með átta metra bolumfang og er talinn vera einhversstaðar á milli 1400-2500 ára gamall. Þetta tré er eiginlega Lögberg breska heimsveldisins, því undir því var breska stjórnarskráin, Magna Carta, samin og undirrituð hinn 15. júní árið 1215. Þetta er allt vottað og skjalfest.

Sagan segir líka að undir þessum ýviði hafi Hinrik áttundi hitt Önnu Boleyn á árunum kring um 1530, en samt hefur ekkert um það verið sannreynt og skjalfest þagmælskunnar vegna.

Með aðgát skal farið

Ýviður kemur mikið við sögu garðyrkjunnar. Vegna endurnýjunarkraftsins sem í honum býr, þolir hann allra trjáa best stífa klippingu og tuktun í alls konar form og fígúrur. Víða eru stór og mikilfengleg völundarhús, skúlptúrar og skrítnar skepnur gerð úr ýviði.

Í ræktun er ýviðurinn næsta nægjusamur með jarðveg og áburðargjöf ef hann fær bara nægan raka. Hann getur vaxið á berri klöpp ef þar finnast smugur sem vatn safnast í. Rótarkerfið er fremur grunnt og fer víða. Græðlingafjölgun reynist fagmönnum auðveld.

Á Íslandi hefur verið reynt að  rækta ýviði. Best hefur þá gengið með japansýr, Taxus cuspidata, eða blendinga hans við evrópu-ýviðinn. Þeir blendingar kallast garðaýr á íslensku og  heita Taxus × media á fræðimálinu. En plönturnar þurfa gott skjól og vörn gegn þurrafrosti og umhleypingum á veturna og þá jafnframt skjól gegn síðvetrarsól. Yrki sem má heita að séu nokkuð harðger hér eru karlkynsklónninn ‘Hatfieldii’ og kvenkynsklónninn ‘Hicksii’, báðir þéttir og sívalir í vaxtarlaginu.

Allir ýviðir eru mjög eitraðir, barr, börkur og ber. Berin eru að vísu fuglum skaðlaus, en ekki þarf nema eitt fræ í mannsmaga til að af hljótist alvarlegt slys. Og nýleg dæmi eru um það erlendis frá að fólk hafi verið að drekka te af barrinu sér til heilsubótar – með skelfilegum afleiðingum. En dádýr eru einhverra hluta vegna eina skepna jarðarinnar sem ónæm er fyrir eituráhrifum ýviðarins.

Skylt efni: Garðyrkja | ræktun | ýviður

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...