Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Mest meðalnyt eftir árskú á nýliðnu ári, 2018, var á búi þeirra Karls Inga og Erlu Hrannar á Hóli í Svarfaðardal.
Mest meðalnyt eftir árskú á nýliðnu ári, 2018, var á búi þeirra Karls Inga og Erlu Hrannar á Hóli í Svarfaðardal.
Mynd / HKr
Á faglegum nótum 11. febrúar 2019

Niðurstöður skýrsluhaldsársins 2018 hjá mjólkurframleiðendum

Höfundur: Sigurður Kristjánsson og Guðmundur Jóhannesson
Niðurstöður skýrsluhaldsársins í mjólkurframleiðslunni 2018 hafa verið reiknaðar og birtar á vef Ráðgjafarmiðstöðvar land­búnaðarins, www.rml.is. Hér verður farið yfir helstu tölur úr uppgjörinu. 
 
Á árinu 2017 tók gildi sú breyting að afurðaskýrsluhald er nú skilyrði fyrir greiðslum samkvæmt samningi um starfsskilyrði í nautgriparækt. Þetta þýðir að skýrsluhald er í raun og veru skylda fyrir alla framleiðendur mjólkur og nautakjöts, í það minnsta ætli menn að halda gripa- og beingreiðslum. Vegna þessa er þátttaka í skýrsluhaldi hérlendis um 100% sem mun vera einsdæmi eftir því sem næst verður komist.
 
Þeir framleiðendur sem skiluðu einhverjum, en þó mismiklum upplýsingum um afurðir kúa sinna á nýliðnu ári voru 569 en á árinu 2017 voru þeir 581. Niðurstöðurnar eru þær helstar að 26.207,7 árskýr skiluðu 6.275 kg nyt að meðaltali. Það er afurðaaukning um 116 kg frá árinu 2017 en þá skilaði 26.352,1 árskýr meðalnyt upp á 6.159 kg. Jafnframt eru þetta mestu meðalafurðir frá upphafi vega og þriðja árið í röð sem þær ná yfir 6.000 kg eftir árskú. Umreiknaðar í orkuleiðrétta mjólk (OLM) eru meðalafurðir síðasta árs 6.516 kg/árskú.
 
Meðalbústærð reiknaðist 47,1 árskýr á árinu 2018 en sambærileg tala var 45,4 árið á undan. Meðalbústærð reiknuð í skýrslufærðum kúm var nú 63,0 kýr en 2017 reiknuðust þær 60,9. Samtals voru skýrslufærðar kýr ársins 35.823 talsins.
 
 Breytingar á framsetningu niðurstaðna
 
Á árinu 2018 var framsetningu á mánaðarlegum niðurstöðum skýrsluhaldsins breytt. Uppgjörs­svæði voru stækkuð og látin fylgja kjördæmunum að mestu í stað birtingar á sýslugrunni áður. Þetta var meðal annars gert til þess að gera meðaltöl marktækari en vegna fækkunar stóðu sums staðar orðið æði fá bú bak við meðaltöl í hverri sýslu. Þá var farið að birta mun fleiri lykiltölur en áður sem lúta þá að fleiri þáttum en einungis fjölda gripa og afurðum. Má þar nefna tölur er taka til frjósemi, heilsufars og endingar.
 
Mestar meðalafurðir á Austurlandi
 
Svæðaskipting er nú gjörbreytt eins og áður hefur komið fram. Á árinu voru mestar meðalafurðir á Austurlandi, 6.649 kg, og síðan kemur Norðurland eystra með 6.481 kg.
Stærst eru búin að meðaltali á Austurlandi, 49,7 árskýr, en næststærst eru þau á Suðurlandi, 49,0 árskýr.
 
 
Meðalbúið aldrei stærra
 
Meðalbúið stækkaði milli ára enda jókst innlegg mjólkur milli ára og innleggjendum fækkaði heldur. Meðalinnlegg á bú með innlegg allt árið nam 274.340 lítrum samanborið við 262.961 lítra á árinu 2017. Þetta er aukning upp á rúm 4%. Á sama tíma fækkaði innleggjendum mjólkur um þrettán og voru kúabú í framleiðslu 556 talsins nú um áramótin 2018/19.
 
Mestar meðalafurðir á Hóli í Svarfaðardal 2018 – en metið á Brúsastöðum stendur
 
Mest meðalnyt eftir árskú á nýliðnu ári, 2018, var á búi þeirra Karls Inga og Erlu Hrannar á Hóli í Svarfaðardal en búið stóð annað í röð afurðahæstu búa árið áður. Afurðir kúnna á Hóli voru að meðaltali 8.902 kg/árskú og fóru nærri tveggja ára gömlu Íslandsmeti kúnna á Brúsastöðum í Vatnsdal sem er 8.990 kg. Brúsastaðir í Vatnsdal er einmitt það bú sem skipar annað sæti listans að þessu sinni með 8.461 kg/árskú en hafði vermt efsta sætið árið áður auk áranna 2013, 2014 og 2016.
 
Þriðja í röðinni við uppgjörið nú var bú Guðlaugar og Jóhannesar Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit á norðanverðu Snæfellsnesi en þar var meðalnyt árskúnna 8.452 kg. Í fjórða sæti var Hvanneyrarbúið ehf. á Hvanneyri í Andakíl í Borgarfirði þar sem meðalafurðir árskúnna voru 8.289 kg og fimmta búið var Félagsbúið á Syðri-Grund í Grýtubakkahreppi með 8.237 kg eftir árskú. Sjötta í röðinni var bú Gunnbjarnar ehf. í Gnúpverjahreppi hinum forna eða Eystrihreppi eins og hann var áður nefndur og er jafnvel enn meðal staðkunnugra og þeirra er á svæðinu búa. Meðalnytin þar var 8.223 kg eftir árskú. Þessum búum til viðbótar náðu átta bú yfir 8.000 kg meðalafurðum eftir árskú eins og sjá má í meðfylgjandi töflu og hefur fjöldi svo afurðahárra búa aðeins einu sinni verið meiri, árið 2017 þegar þau voru 15.
 
Nythæsta kýrin 2018, Randafluga 1035 í Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi. Hér er Randafluga með kvígukálfi sem hún var að bera og hefur fengið nafnið Húsfluga. Þetta er fimmti kálfurinn hennar. Mynd / Sigurður Ágústsson í Birtingaholti 
 
Randafluga 1035 í Birtingaholti 4 mjólkaði mest 
 
Nythæsta kýrin á landinu árið 2018 var Randafluga 1035 í Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi, undan Bola 620 Kastalasyni 07003, en hún mjólkaði 13.497 kg með 4,17% fitu og 3,13% próteini. Burðartími Randaflugu féll mjög vel að almanaksárinu en hún bar sínum fjórða kálfi 3. janúar 2018. Randafluga fór hæst í 55,1 kg dagsnyt á nýliðnu ári en var komin í geldstöðu í desember s.l. Hún sýndi strax á sínu fyrsta mjólkurskeiði mikla afurðagetu er hún fór í 30 kg dagsnyt og náði mjaltaskeiðsafurðum upp á 9.344 kg. Skráðar æviafurðir hennar á fjórum mjaltaskeiðum voru 44.998 kg um síðustu áramót. Randafluga stendur þegar þetta er skrifað með 113 í kynbótamat, þar af 132 fyrir afurðir og á nautastöðinni á Hesti sinnir nú rétt um ársgamall sonur hennar og Úranusar 10081, Humall 18001, því hlutverki sínu að gefa sæði til kynbóta á íslenska kúastofninum.
 
Önnur í röðinni árið 2018 var kýr nr. 1038 í Hólmi í Austur-Landeyjum, undan Vindli 05028, en hún mjólkaði 13.736 kg með 4,53% fitu og 3,24% próteini. Þessi kýr bar öðrum kálfi sínum 17. desember 2017 og fór hæst í 48,1 kg dagsnyt á árinu 2018. Skráðar æviafurðir hennar eru 22.112 kg. Þriðja nythæsta kýrin var kýr nr. 848 í Flatey í Hornafirði, undan Otri 11021, en nyt hennar á árinu var 13.678 kg með 3,69% fitu og 3,16% próteini. Hún bar sínum þriðja kálfi 23. nóvember 2017, fór hæst í 48,1 kg dagsnyt og skráðar æviafurðir hennar eru 23.559 kg. Fjórða nythæsta kýrin var kýr nr. 482 á Syðri-Grund í Grýtubakkahreppi, dóttir Kambs 06022, en hún mjólkaði 13.521 kg með 3,94% fitu og 3,41% próteini. Hún bar þriðja sinni og þá tvíkelfingum á Þorláksmessudag 2017, fór hæst í 43,5 kg dagsnyt á árinu 2018 og skráðar æviafurðir eru 29.221 kg. Fimmta í röðinni var Drottning 1945 í Birtingaholti 1 í Hrunamannahreppi, dóttir 1780, sonar Kola 06003. Drottning bar öðrum kálfi sínum 16. desember 2017 og fór hæst í 50,5 kg dagsnyt á mjólkurskeiðinu en hún skilaði 13.481 kg á árinu með 4,13% fitu og 3,46% prótein. Skráðar æviafurðir Drottningar eru 23.737 kg.
 
Alls skilaði 91 kýr afurðum yfir 11.000 kg og þar af 16 yfir 12.000 kg. Árið 2017 náðu 77 kýr nyt yfir 11.000 kg.
 
Braut 112 á Tjörn á Skaga við 100 tonna múrinn
 
Af þeim kúm sem eru á lífi í dag státar nú Braut 112 á Tjörn á Skaga, dóttir Stígs 97010, af mestum æviafurðum. Um áramótin hafði hún mjólkað 98.955 kg þannig að óðfluga styttist í 100 tonnin en við sjáum gjarnan í erlendum nautgriparæktartímaritum kýr sem ná 100 tonna æviafurðum heiðraðar. Rétt er að hafa í huga að þar er oftar en ekki um að ræða Holstein-kýr sem mjólka mun meira að meðaltali en íslenskar kýr. Það er því mikið afrek hjá kúm af kyni þar sem meðalafurðir eru ríflega 6.000 kg á ári að ná 100 tonna æviafurðum. Braut 112 er fædd 12. september 2005 og átti sinn fyrsta kálf 23. október 2007 en alls hefur hún borið 10 sinnum að meðtöldum tveimur fósturlátum. Þrátt fyrir þau áföll er Braut nú búin að mjólka 98.955 kg mjólkur eins og áður sagði. Mestum afurðum á einu almanaksári náði hún 2011, 10.961 kg, en á árinu 2017 hjó hún nærri því er hún mjólkaði 10.699 kg. Mestum afurðum á einu mjólkurskeiði, í það minnsta hingað til, hefur hún náð á yfirstandandi mjólkurskeiði, 18.354 kg um síðustu áramót. Þetta mjólkurskeið er orðið langt en hún bar síðast 7. febrúar 2017. Endist henni aldur og heilsa verður það enn lengra. Hún var hins vegar enn að og við mælingu í desember var Braut í 23 kg dagsnyt. Hún á því góða möguleika á að rjúfa 100 tonna múrinn á allra næstu misserum.
 
Næst Braut 112 stendur Jana 432 á Ölkeldu 2 í Staðarsveit á Snæfellsnesi en hún hafði um síðustu áramót mjólkað 95.069 kg. Þessi kýr er fædd 8. mars 2005, bar fyrsta kálfi 18. september 2007 og hefur borið níu sinnum til viðbótar, nú síðast 28. desember 2017. Hún er með fangi og væntanlegur burðardagur er þann 2. Júlí í sumar. Jana hefur verið farsæl kýr en mestum afurðum á einu ári, allavega hingað til, náði hún 2103 er hún mjólkaði 10.372 kg. Mestum mjaltaskeiðsafurðum náði hún á sínu sjötta mjaltaskeiði eða 11.614 kg. Á yfirstandandi mjaltaskeiði hefur hún mjólkað 10.314 kg þannig að líklega verður það hennar afurðamesta en hún var í 18 kg dagsnyt við mælingu í desember s.l. Rétt er að taka fram að Jana hefur skilað reyndu nauti til notkunar en Öllari 11066 var sonur hennar og Ófeigs 02016.
 
Núverandi Íslandsmet í æviafurðum á Mókolla 230, dóttir Snarfara 93018, á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð, 117.635 kg.
 
Á síðastliðnu ári var ein þeirra kúa sem telja má til afrekskúa í íslenska kúastofninum felld eftir langa og farsæla ævi. Vorkoma 534 í Garði í Eyjafirði var fædd á Torfufelli í Eyjafirði 7. maí 2004, dóttir Prakkara 96007, en flutti aðsetur sitt að Garði strax að lokinni mjólkurfóðrun eða við þriggja mánaða aldur. Hún var felld í ágúst s.l. Fyrsta kálfi bar hún 24. september 2006 og hún bar 11. og síðasta sinni 30. apríl 2018.  Vorkoma náði að mjólka 96.215 kg á æviskeiði sínu en mestum afurðum á einu almanaksári náði hún 2014 þegar hún mjólkaði 9.523 kg. Afurðamesta mjólkurskeið hennar var það þriðja þegar hún mjólkaði 11.332 kg.
 
Mjólkurframleiðendum öllum, en ekki síst ábúendum á Hóli í Svarfaðardal og Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi, óskum við til hamingju með glæsilegan árangur og þökkum samstarfið á nýliðnu ári. 

10 myndir:

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...